M’Cheyne Bible Reading Plan
19 Þegar Hiskía konungur heyrði þetta, reif hann klæði sín, huldi sig hærusekk og gekk í hús Drottins.
2 En Eljakím dróttseta og Sébna kanslara og prestaöldungana sendi hann klædda hærusekk til Jesaja spámanns Amozsonar,
3 og skyldu þeir segja við hann: "Svo segir Hiskía: Þessi dagur er neyðar-, hirtingar- og háðungardagur, því að barnið er komið í burðarliðinn, en krafturinn er enginn til að fæða.
4 Vera má, að Drottinn Guð þinn heyri öll orð marskálksins, er sendur er af Assýríukonungi herra sínum til að spotta hinn lifandi Guð, og láti hegnt verða þeirra orða, er Drottinn Guð þinn hefir heyrt. En bið þú fyrir leifunum, sem enn eru eftir."
5 Þegar þjónar Hiskía konungs komu til Jesaja,
6 sagði Jesaja við þá: "Segið svo herra yðar: Svo segir Drottinn: Óttast þú eigi smánaryrði þau, er þú hefir heyrt sveina Assýríukonungs láta sér um munn fara í gegn mér.
7 Sjá, ég læt hann verða þess hugar, að þegar hann spyr tíðindi, skal hann hverfa aftur heim í land sitt, og þá skal ég láta hann fyrir sverði falla í sínu eigin landi."
8 Síðan sneri marskálkurinn aftur og hitti Assýríukonung, þar sem hann sat um Líbna, því að hann hafði frétt, að hann væri farinn burt frá Lakís.
9 Þar kom honum svolátandi fregn af Tírhaka Blálandskonungi: "Hann er lagður af stað til þess að berjast við þig." Gjörði Assýríukonungur þá aftur sendimenn til Hiskía með þessari orðsending:
10 "Segið svo Hiskía Júdakonungi: Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ,Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.`
11 Sjá, þú hefir sjálfur heyrt, hverju Assýríukonungar hafa fram farið við öll lönd, hversu þeir hafa gjöreytt þau, og munt þú þá frelsaður verða?
12 Hvort hafa guðir þjóðanna, er feður mínir hafa að velli lagt, frelsað þær _ Gósan, Haran og Resef og Edenmenn, sem voru í Telessar?
13 Hvar er nú konungurinn í Hamat og konungurinn í Arpad og konungurinn í Sefarvaímborg, Hena og Íva?"
14 Hiskía tók við bréfinu af sendimönnunum og las það. Síðan gekk hann upp í hús Drottins og rakti það sundur frammi fyrir Drottni.
15 Og Hiskía gjörði bæn sína frammi fyrir Drottni og sagði: "Drottinn, Ísraels Guð, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungsríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð.
16 Hneig, Drottinn, eyra þitt og heyr. Opna, Drottinn, auga þitt og sjá! Heyr þú orð Sanheríbs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifandi Guð.
17 Satt er það, Drottinn, að Assýríukonungar hafa gjöreytt öllum þjóðum og löndum þeirra
18 og kastað guðum þeirra á eld, því að þeir voru ekki guðir, heldur handaverk manna, stokkar og steinar, svo að þeir gátu gjört þá að engu.
19 En Drottinn, Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, Drottinn, einn ert Guð!"
20 Þá sendi Jesaja Amozson til Hiskía og lét segja honum: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Þar sem þú hefir beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi, þá hefi ég heyrt það.
21 Þetta er orðið, er Drottinn hefir um hann sagt: Mærin, dóttirin Síon, fyrirlítur þig og gjörir gys að þér. Dóttirin Jerúsalem skekur höfuðið á eftir þér.
22 Hvern hefir þú smánað og spottað og gegn hverjum hefir þú hafið upp raustina og lyft augum þínum í hæðirnar? Gegn Hinum Heilaga í Ísrael!
23 Þú hefir látið sendimenn þína smána Drottin og sagt: ,Með fjölda hervagna minna steig ég upp á hæðir fjallanna, efst upp á Líbanonfjall. Ég hjó hin hávöxnu sedrustré þess og hin ágætu kýprestré þess. Ég braust upp í efsta herbergi þess, inn í aldinskóginn, þar sem hann var þéttastur.
24 Ég gróf til vatns og drakk útlent vatn, og með iljum fóta minna þurrkaði ég upp öll vatnsföll Egyptalands.`
25 Hefir þú þá ekki tekið eftir því, að ég hefi ráðstafað þessu svo fyrir löngu og hagað því svo frá öndverðu? Og nú hefi ég látið það koma fram, svo að þú mættir leggja víggirtar borgir í eyði og gjöra þær að eyðilegum grjóthrúgum.
26 En íbúar þeirra voru aflvana og skelfdust því og urðu sér til minnkunar. Jurtir vallarins og grængresið varð sem gras á þekjum og í hlaðvarpa.
27 Ég sé þig þegar þú stendur og þegar þú situr, og ég veit af því, þegar þú fer og kemur, svo og um ofsa þinn gegn mér.
28 Sökum ofsa þíns í gegn mér og af því að ofmetnaður þinn er kominn mér til eyrna, þá vil ég setja hring minn í nasir þínar og bitil minn í munn þér og færa þig aftur sama veg og þú komst.
29 Og þetta skalt þú til marks hafa: Þetta árið munuð þér eta sjálfsáið korn, annað árið sjálfvaxið korn, en þriðja árið munuð þér sá og uppskera, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra.
30 Og leifarnar af Júda húsi, sem komist hafa undan, skulu að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxt að ofan.
31 Því að frá Jerúsalem munu leifar út ganga og þeir, er undan komust, frá Síonfjalli. Vandlæti Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.
32 Já, svo segir Drottinn um Assýríukonung: Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni.
33 Hann skal aftur snúa sömu leiðina sem hann kom, og inn í þessa borg skal hann ekki koma _ segir Drottinn.
34 Og ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."
35 En þessa sömu nótt fór engill Drottins og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík.
36 Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve.
37 En er hann eitt sinn baðst fyrir í hofi Nísroks, guðs síns, unnu synir hans, Adrammelek og Sareser, á honum með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands, en Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann.
1 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna.
2 En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.
3 Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.
4 Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
5 Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig. Eða: Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur!
6 Og aftur er hann leiðir hinn frumgetna inn í heimsbyggðina segir hann: Og allir englar Guðs skulu tilbiðja hann.
7 Og um englana segir hann: Hann sem gjörir engla sína að vindum og þjóna sína að eldslogum.
8 En um soninn: Hásæti þitt, ó Guð, er um aldir alda, og sproti réttvísinnar er sproti ríkis þíns.
9 Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.
10 Og: Þú, Drottinn, hefur í upphafi grundvallað jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
11 Þeir munu farast, en þú varir. Allir munu þeir fyrnast sem fat,
12 og þú munt þá saman vefja eins og möttul, um þá verður skipt sem klæði. En þú ert hinn sami, og þín ár taka aldrei enda.
13 En við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni?
14 Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?
12 Efraím hefir umkringt mig með lygi og Ísraels hús með svikum, og Júda er enn reikull gagnvart Guði og gagnvart Hinum heilaga, sem aldrei breytist.
2 Efraím sækist eftir vindi og eltir austangoluna. Á hverjum degi hrúga þeir upp lygum og ofbeldisverkum. Þeir gjöra sáttmála við Assýríu, og olífuolía er flutt til Egyptalands.
3 Drottinn mun ganga í dóm við Júda og hegna Jakob eftir breytni hans, endurgjalda honum eftir verkum hans.
4 Í móðurkviði lék hann á bróður sinn, og sem fulltíða maður glímdi hann við Guð.
5 Hann glímdi við engil og bar hærri hlut, hann grét og bað hann líknar. Hann fann hann í Betel og þar talaði hann við hann.
6 Drottinn, Guð allsherjar, Drottinn er nafn hans.
7 En þú skalt hverfa aftur með hjálp Guðs þíns. Ástunda miskunnsemi og réttlæti og vona stöðugt á Guð þinn.
8 Kanaan _ röng vog er í hendi hans, hann er gjarn á að hafa af öðrum með svikum.
9 Og Efraím segir: "Ég er auðugur orðinn, hefi aflað mér fjár. Við allan gróða minn geta menn ekki fundið neina misgjörð, er sé synd."
10 Ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi, enn get ég látið þig búa í tjöldum eins og á hátíðardögunum.
11 Ég hefi talað til spámannanna, og ég hefi látið þá sjá margar sýnir og talað í líkingum fyrir munn spámannanna.
12 Ef Gíleað er óguðlegt, þá skulu þeir að engu verða. Af því að þeir fórnuðu nautum í Gilgal, þá skulu og ölturu þeirra verða eins og steinhrúgur hjá plógförum á akri.
13 Þegar Jakob flýði til Aramlands, þá gjörðist Ísrael þjónn vegna konu, og vegna konu gætti hann hjarðar.
14 Fyrir spámann leiddi Drottinn Ísrael af Egyptalandi, og fyrir spámann varðveittist hann.
15 Efraím hefir valdið sárri gremju, fyrir því mun Drottinn hans láta blóðskuld hans yfir hann koma og gjalda honum svívirðing hans.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
3 þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,
5 honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,
6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,
7 honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,
8 sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,
9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,
10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,
12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,
13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,
14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,
15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,
16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,
17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,
20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,
21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,
22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,
23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,
24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,
25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.
26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.
by Icelandic Bible Society