Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 16

16 Á seytjánda ríkisári Peka Remaljasonar tók ríki Akas, sonur Jótams Júdakonungs.

Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, Guðs hans, svo sem Davíð forfaðir hans,

heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga. Hann lét jafnvel son sinn ganga gegnum eldinn og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á fórnarhæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.

Í þann tíma fóru þeir Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason Ísraelskonungur upp til Jerúsalem til þess að herja á hana. Settust þeir um Akas, en fengu eigi unnið hann.

Um þær mundir vann Resín Sýrlandskonungur Elat aftur undir Edóm og rak Júdamenn burt frá Elat, en Edómítar komu til Elat og hafa búið þar fram á þennan dag.

Akas gjörði sendimenn á fund Tíglat Pílesers Assýríukonungs og lét segja honum: "Ég er þjónn þinn og sonur! Kom og frelsa mig undan valdi Sýrlandskonungs og undan valdi Ísraelskonungs, er ráðist hafa á mig."

Og Akas tók silfrið og gullið, sem var í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar, og sendi Assýríukonungi að gjöf.

Assýríukonungur tók vel máli hans. Síðan fór Assýríukonungur herför til Damaskus, tók borgina herskildi og herleiddi íbúana til Kír, en Resín lét hann af lífi taka.

10 Akas konungur fór nú til Damaskus til fundar við Tíglat Píleser Assýríukonung og sá þá altarið, er var í Damaskus. Sendi þá Akas konungur Úría presti uppdrátt og fyrirmynd af altarinu, er var alveg eins og það.

11 Og Úría prestur reisti altarið. Gjörði Úría prestur með öllu svo sem Akas konungur hafði sent boð um frá Damaskus, áður en hann kom frá Damaskus.

12 Þá er konungur kom frá Damaskus og leit altarið, þá gekk hann að altarinu og

13 fórnaði á því brennifórn sinni og matfórn, dreypti dreypifórn sinni og stökkti blóði heillafórna sinna á altarið.

14 En eiraltarið, er stóð frammi fyrir Drottni, færði hann þaðan sem það var fyrir framan musterið, milli nýja altarisins og musteris Drottins, og setti það að norðanverðu við altarið.

15 Og Akas konungur lagði svo fyrir Úría prest: "Á stóra altarinu skalt þú fórna morgunbrennifórninni og kvöldmatfórninni, brennifórn konungs og matfórn hans, brennifórnum allrar alþýðu í landinu og matfórnum hennar og dreypifórnum. Og öllu blóði brennifórnanna og öllu blóði sláturfórnanna skalt þú stökkva á það. En um eiraltarið ætla ég að skoða huga minn."

16 Og Úría prestur gjörði allt svo sem Akas konungur hafði boðið.

17 Akas konungur lét og brjóta speldin af vögnum kerlauganna og tók kerin ofan af þeim. Þá lét hann og taka hafið ofan af eirnautunum, er undir því stóðu, og setja á steingólfið.

18 Og hvíldardagsganginn, er tjaldaður var, og þeir höfðu gjört í musterinu, og ytri konungsganginn tók hann burt úr musteri Drottins til þess að þóknast Assýríukonungi.

19 Það sem meira er að segja um Akas og það, er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

20 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.

Bréf Páls til Títusar 2

En tala þú það, sem sæmir hinni heilnæmu kenningu.

Aldraðir menn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu.

Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur kenni þær gott frá sér,

til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn,

vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt.

Svo skalt þú og áminna hina yngri menn að vera hóglátir.

Sýn þig sjálfan í öllum greinum sem fyrirmynd í góðum verkum. Vertu grandvar í fræðslu þinni og heilhuga, svo hún verði

heilnæm og óaðfinnanleg og andstæðingurinn fyrirverði sig, þegar hann hefur ekkert illt um oss að segja.

Áminn þræla, að þeir séu undirgefnir húsbændum sínum og í öllu geðþekkir, ekki svörulir,

10 ekki hnuplsamir, heldur skulu þeir auðsýna hvers konar góða trúmennsku, til þess að þeir prýði kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum.

11 Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.

12 Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum,

13 í eftirvæntingu vorrar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni.

14 Hann gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

15 Tala þú þetta og áminn og vanda um með allri röggsemi. Lát engan lítilsvirða þig.

Hósea 9

Gleð þig ekki, Ísrael, svo að þú ráðir þér ekki fyrir kæti, eins og heiðnu þjóðirnar, því að þú hefir tekið fram hjá Guði þínum, þú hefir elskað hórgjald á öllum kornláfum.

En láfi og vínlagarþró munu ekki vilja við þá kannast, og vínberjalögurinn mun bregðast þeim.

Þeir munu eigi búa kyrrir í landi Drottins, heldur mun Efraím verða að fara aftur til Egyptalands, og þeir munu eta óhreina fæðu í Assýríu.

Þá munu þeir eigi færa Drottni neitt vín að dreypifórn og eigi bera fram fyrir hann sláturfórnir sínar. Brauð þeirra mun verða eins og sorgarbrauð. Allir sem eta það, munu óhreinir verða. Því að brauð þeirra mun aðeins seðja hungur þeirra, en eigi koma í hús Drottins.

Hvað viljið þér gjöra á löghelgum og á hátíðardögum Drottins?

Sjá, þegar þeir eru komnir burt frá eyðingunni, mun Egyptaland samansafna þeim, Memfis veita þeim legstað. Silfurgersemar þeirra munu þistlarnir eignast, þyrnar vaxa í tjöldum þeirra.

Hegningartíminn kemur, endurgjaldstíminn kemur. Ísrael mun sjá, að spámaðurinn verður af því fífl og andans maður óður, að misgjörð þín er svo mikil og ofsóknin svo mikil.

Efraím er á verði gegn Guði mínum. Fyrir spámanninn er lögð fuglarasnara á öllum vegum hans, hersporar í húsi Guðs hans.

Þeir hafa framið mikil óhæfuverk, eins og forðum í Gíbeu. Hann minnist misgjörðar þeirra, hann vitjar synda þeirra.

10 Ég fann Ísrael eins og vínber á eyðimörku, sá feður yðar eins og frumfíkju á fíkjutré, þá er það fyrst ber ávöxt. En er þeir komu til Baal Peór, helguðu þeir sig svívirðingunni og urðu andstyggilegir eins og goðið sem þeir elskuðu.

11 Fólksfjöldi Efraíms mun burt fljúga eins og fuglar, svo að konur skulu þar ekki framar fæða, ekki þungaðar vera og ekki getnað fá.

12 Og þótt þeir ali upp börn sín, þar til er þau verða fulltíða, þá skal ég þó gjöra þá barnlausa, svo að mannskortur verði. Já, vei og sjálfum þeim, þegar ég vík frá þeim.

13 Efraím er, eins og ég lít hann allt til Týrus, gróðursettur á engi, og Efraímítar verða að framselja morðingjum sonu sína.

14 Gef þeim, Drottinn, _ hvað skaltu gefa? gef þeim ófrjósöm móðurlíf og mjólkurlaus brjóst.

15 Öll vonska þeirra kom fram í Gilgal. Já, þar fékk ég hatur á þeim. Vegna hins vonda athæfis þeirra vil ég reka þá burt úr húsi mínu, ég vil eigi elska þá lengur. Allir höfðingjar þeirra eru þvermóðskufullir.

16 Efraím mun lostinn verða, rót þeirra skrælnar, þeir munu engan ávöxt bera. Þótt þeir eignist sonu, mun ég deyða hin elskuðu lífsafkvæmi þeirra.

17 Guð minn mun hafna þeim, því að þeir hafa ekki hlýtt honum, og þeir munu fara landflótta meðal þjóðanna.

Sálmarnir 126-128

126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.

Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."

Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.

Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.

Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.

Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.

Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!

Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.

Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.

Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society