Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 15

15 Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Jeróbóams Ísraelskonungs tók ríki Asaría sonur Amasía Júdakonungs.

Hann var sextán vetra gamall, er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem.

Hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans.

Þó voru fórnarhæðirnar eigi afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.

Og Drottinn sló konung, svo að hann varð líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni, einn sér, en Jótam konungsson veitti forstöðu höllinni og dæmdi mál landsmanna.

Það sem meira er að segja um Asaría og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

Og Asaría lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jótam sonur hans tók ríki eftir hann.

Á þrítugasta og áttunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Sakaría Jeróbóamsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sex mánuði.

Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört höfðu forfeður hans. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

10 Sallúm Jabesson hóf samsæri gegn honum og drap hann í Jibleam og tók ríki eftir hann.

11 Það sem meira er að segja um Sakaría, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

12 Rættist þannig orð Drottins, það er hann hafði talað til Jehú: ,Niðjar þínir í fjórða lið skulu sitja í hásæti Ísraels.` Og það varð svo.

13 Sallúm Jabesson varð konungur á þrítugasta og níunda ríkisári Ússía Júdakonungs og ríkti mánaðartíma í Samaríu.

14 Þá fór Menahem Gadíson frá Tirsa, kom til Samaríu og drap Sallúm Jabesson í Samaríu og tók ríki eftir hann.

15 Það sem meira er að segja um Sallúm og samsærið, sem hann hóf, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

16 Þá eyddi Menahem Tappúa og öllu, sem í henni var, og allt landið umhverfis hana frá Tirsa, af því að menn höfðu eigi lokið borgarhliðum upp fyrir honum, og allar þungaðar konur í borginni lét hann rista á kvið.

17 Á þrítugasta og níunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Menahem Gadíson konungur yfir Ísrael og ríkti tíu ár í Samaríu.

18 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

19 Á hans dögum réðst Púl Assýríukonungur inn í landið, og Menahem gaf Púl þúsund talentur silfurs til liðsinnis við sig og til þess að tryggja konungdóm sinn.

20 Bauð Menahem öllum Ísrael, öllum auðmönnum, að greiða Assýríukonungi féð: fimmtíu sikla silfurs hverjum. Sneri þá Assýríukonungur heim aftur og hafði eigi lengri dvöl þar í landi.

21 Það sem meira er að segja um Menahem og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

22 Og Menahem lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Pekaja sonur hans tók ríki eftir hann.

23 Á fimmtugasta ríkisári Asaría Júdakonungs varð Pekaja Menahemsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tvö ár.

24 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

25 Peka Remaljason riddari hans hóf samsæri gegn honum og drap hann í Samaríu, í vígi konungshallarinnar, ásamt Argób og Arje, og voru fimmtíu manns af Gíleaðítum með honum. Og er hann hafði stytt honum aldur, tók hann ríki eftir hann.

26 Það sem meira er að segja um Pekaja og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

27 Á fimmtugasta og öðru ríkisári Asaría Júdakonungs varð Peka Remaljason konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tuttugu ár.

28 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

29 Á dögum Peka Ísraelskonungs kom Tíglat Píleser Assýríukonungur og tók Íjón, Abel Bet Maaka, Janóa, Kedes, Hasór, Gíleað og Galíleu, allt Naftalíland, og herleiddi íbúana til Assýríu.

30 Þá hóf Hósea Elason samsæri gegn Peka Remaljasyni, drap hann og tók ríki eftir hann, á tuttugasta ríkisári Jótams Ússíasonar.

31 Það sem meira er að segja um Peka og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

32 Á öðru ríkisári Peka Remaljasonar Ísraelskonungs tók ríki Jótam, sonur Ússía Júdakonungs.

33 Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa Sadóksdóttir.

34 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Ússía faðir hans.

35 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. Hann reisti efra hliðið á musteri Drottins.

36 Það sem meira er að segja um Jótam og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

37 Um þær mundir tók Drottinn að hleypa þeim Resín Sýrlandskonungi og Peka Remaljasyni á Júda.

38 Og Jótam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Akas sonur hans tók ríki eftir hann.

Bréf Páls til Títusar 1

Frá Páli, þjóni Guðs, en postula Jesú Krists til að efla trú Guðs útvöldu og þekkingu á sannleikanum, sem leiðir til guðhræðslu

í von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum,

en opinberað á settum tíma. Þetta orð hans var mér trúað fyrir að prédika eftir skipun Guðs, frelsara vors.

Til Títusar, skilgetins sonar míns í sameiginlegri trú. Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.

Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.

Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.

Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða.

Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér.

Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.

10 Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helst eru það þeir sem halda fram umskurn,

11 og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir.

12 Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefur svo að orði komist: "Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar."

13 Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni,

14 og gefi sig ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.

15 Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.

16 Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.

Hósea 8

Set lúðurinn á munn þér! Eins og örn kemur hann yfir hús Drottins. Því að þeir hafa rofið sáttmála minn og vikið frá lögmáli mínu.

Þeir hrópa til mín: "Guð minn! Vér Ísraelsmenn þekkjum þig!"

Ísrael hefir hafnað blessuninni, fyrir því skulu óvinirnir elta hann.

Þeir hafa tekið sér konunga að mér fornspurðum, hafa valið sér höfðingja án minnar vitundar. Af silfri sínu og gulli hafa þeir gjört sér goðalíkneski, aðeins til þess að þeir tortímdust.

Andstyggilegur er kálfur þinn, Samaría. Reiði mín er upptendruð gegn þeim. _ Hversu langt mun þangað til þeir verða hreinir? _

Því að úr Ísrael er hann, hagleiksmaður hefir smíðað hann, en guð er hann ekki. Nei, kálfur Samaríu skal klofinn í spón.

Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera, útsæði sem ekkert strá sprettur upp af og ekkert korn fæst úr, og ef nokkuð fengist úr því, mundu útlendingar gleypa það.

Ísrael mun gleyptur verða, hann er nú þegar meðal þjóðanna eins og ker, sem enginn skeytir um.

Því að þeir hafa farið á fund Assýringa eins og villiasni, sem tekur sig út úr. Efraím falar ástir.

10 En þótt þeir fali ástir meðal þjóðanna, þá mun ég nú saman safna þeim, til þess að þeir hætti bráðlega að smyrja konunga og höfðingja.

11 Já, Efraím hefir reist mörg ölturu, ölturun urðu honum til syndar.

12 Þótt ég riti honum lögmálssetningar þúsundum saman, þá eru þær álitnar sem orð útlendings.

13 Þeir fórna sláturfórnum, kjöti og eta það, Drottinn hefir enga velþóknun á þeim. Nú mun hann minnast misgjörðar þeirra og vitja synda þeirra. Þeir skulu hverfa aftur til Egyptalands.

14 Ísrael gleymdi skapara sínum og reisti sér hallir, og Júda byggði margar víggirtar borgir, en ég vil skjóta eldi í borgir hans, og eldurinn skal eyða skrauthýsum hans.

Sálmarnir 123-125

123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.

Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.

Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.

Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.

124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _

hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,

þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.

Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,

þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.

Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.

Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.

Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.

125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.

Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.

Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.

Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.

En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society