Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 14

14 Á öðru ríkisári Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs varð Amasía Jóasson konungur í Júda.

Hann var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddan og var frá Jerúsalem.

Hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins, þó eigi eins og Davíð forfaðir hans. Hann breytti í alla staði eins og Jóas faðir hans hafði breytt.

Aðeins voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.

En er Amasía var orðinn fastur í sessi, lét hann drepa þá menn sína, er drepið höfðu konunginn föður hans.

En börn morðingjanna lét hann ekki af lífi taka, samkvæmt því, sem skrifað er í lögmálsbók Móse, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: ,Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum, heldur skal hver líflátinn verða fyrir sína eigin synd.`

Það var hann, sem vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tíu þúsundum manns, og tók Sela herskildi og nefndi hana Jokteel, og heitir hún svo enn í dag.

Þá gjörði Amasía sendimenn á fund Jóasar Jóahassonar, Jehúsonar Ísraelskonungs með svolátandi orðsending: "Nú skulum við reyna með okkur."

Þá sendi Jóas Ísraelskonungur Amasía Júdakonungi þau andsvör: "Þistillinn á Líbanon gjörði sedrustrénu á Líbanon svolátandi orðsending: ,Gef þú syni mínum dóttur þína að konu.` En villidýrin á Líbanon gengu yfir þistilinn og tróðu hann sundur.

10 Af því að þú vannst mikinn sigur á Edómítum, hefir þú fyllst ofmetnaði. Njót þú frægðarinnar og sit kyrr heima. Hví vilt þú egna ógæfuna sjálfum þér og Júda til falls?"

11 En Amasía gaf þessu engan gaum. Þá fór Jóas Ísraelskonungur af stað, og varð fundur þeirra, hans og Amasía Júdakonungs, í Bet Semes, er tilheyrir Júda.

12 Beið Júda þar ósigur fyrir Ísrael, og flýðu þeir hver til síns heima.

13 En Jóas Ísraelskonungur tók höndum Amasía Júdakonung, son Jóasar Ahasíasonar, í Bet Semes og fór með hann til Jerúsalem. Hann braut niður múra Jerúsalem frá Efraímhliði allt að hornhliðinu, fjögur hundruð álnir.

14 Því næst tók hann allt gull og silfur og öll áhöld, er fundust í musteri Drottins og í fjárhirslum konungshallarinnar, svo og gísla, og sneri síðan aftur heim til Samaríu.

15 Það sem meira er að segja um Jóas, það sem hann gjörði og hreystiverk hans og hversu hann barðist við Amasía Júdakonung, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

16 Og Jóas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum. Og Jeróbóam sonur hans tók ríki eftir hann.

17 En Amasía Jóasson Júdakonungur lifði fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs.

18 En það sem meira er að segja um Amasía, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

19 Og menn gjörðu samsæri gegn Amasía í Jerúsalem. Flýði hann þá til Lakís. En þeir sendu á eftir honum til Lakís og létu drepa hann þar.

20 Fluttu þeir hann síðan á hestum, og var hann grafinn í Jerúsalem hjá feðrum sínum í Davíðsborg.

21 Þá tók allur Júdalýður Asaría, þótt hann væri eigi nema sextán vetra gamall, og gjörði hann að konungi í stað Amasía föður hans.

22 Hann víggirti Elat og vann hana aftur undir Júda, eftir að konungurinn var lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum.

23 Á fimmtánda ríkisári Amasía Jóassonar Júdakonungs varð Jeróbóam, sonur Jóasar Ísraelskonungs, konungur í Samaríu og ríkti fjörutíu og eitt ár.

24 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins. Lét hann eigi af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

25 Hann vann aftur Ísraelsland, þaðan frá, er leið liggur til Hamat, allt að vatninu á sléttlendinu, samkvæmt orði Drottins, Ísraels Guðs, því er hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Jónasar spámanns Amíttaísonar frá Gat Hefer.

26 Drottinn hafði séð, að eymd Ísraels var mjög beisk. Þrælar og frelsingjar voru horfnir, og enginn var sá, er hjálpaði Ísrael.

27 En þó hafði Drottinn ekki sagt, að hann mundi afmá nafn Ísraels af jörðinni, enda frelsaði hann þá fyrir Jeróbóam Jóasson.

28 Það sem meira er að segja um Jeróbóam og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, hversu hann herjaði og hversu hann vann aftur Damaskus og Hamat, er fyrrum tilheyrði Júda, undir Ísrael, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

29 Og Jeróbóam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum. Og Sakaría sonur hans tók ríki eftir hann.

Síðara bréf Páls til Tímó 4

Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig:

Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu.

Því að þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun.

Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.

En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.

Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp.

Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.

Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.

Reyndu að koma sem fyrst til mín,

10 því að Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim. Hann er farinn til Þessaloníku. Kreskes er farinn til Galatíu og Títus til Dalmatíu.

11 Lúkas er einn hjá mér. Tak þú Markús og lát hann koma með þér, því að hann er mér þarfur til þjónustu.

12 Týkíkus hef ég sent til Efesus.

13 Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar.

14 Alexander koparsmiður gjörði mér margt illt. Drottinn mun gjalda honum eftir verkum hans.

15 Gæt þín líka fyrir honum, því að mjög stóð hann í gegn orðum vorum.

16 Í fyrstu málsvörn minni kom enginn mér til aðstoðar, heldur yfirgáfu mig allir. Verði þeim það ekki tilreiknað!

17 En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins.

18 Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu og mig hólpinn leiða inn í sitt himneska ríki. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.

19 Heilsa þú Prisku og Akvílasi og heimili Ónesífórusar.

20 Erastus varð eftir í Korintu, en Trófímus skildi ég eftir sjúkan í Míletus.

21 Flýt þér að koma fyrir vetur. Evbúlus sendir þér kveðju og Púdes og Línus og Kládía og allir bræðurnir.

Hósea 7

jafnskjótt og ég ætla að lækna Ísrael, koma misgjörðir Efraíms í ljós og illverk Samaríu, því að þeir fremja svik og þjófar brjótast inn í húsin og ræningjasveitir ræna úti fyrir.

Og þeir hugsa ekki um það, að ég man eftir allri illsku þeirra. Nú umkringja gjörðir þeirra þá, eru komnar fyrir auglit mitt.

Þeir gamna konunginum með illsku sinni og höfðingjunum með lygum sínum.

Þeir eru allir hórkarlar, þeir eru eins og glóandi ofn, sem bakarinn aðeins hættir að kynda frá því hann hefir hnoðað deigið, uns það er gagnsýrt.

Á hátíðardegi konungs vors drekka höfðingjarnir sig sjúka í víni, menn leggja lag sitt við gárunga.

Því að innan eru þeir eins og ofn, hjarta þeirra brennur í þeim. Alla nóttina sefur reiði þeirra, á morgnana brennur hún eins og logandi eldur.

Allir eru þeir glóandi eins og ofn, svo að þeir fyrirkoma yfirmönnum sínum. Allir konungar þeirra eru fallnir, enginn ákallar mig á meðal þeirra.

Efraím hefir blandað sér saman við þjóðirnar, Efraím er orðinn eins og kaka, sem ekki hefir verið snúið.

Útlendir menn hafa eytt krafti hans, án þess að hann viti af því, já, hærur eru sprottnar í höfði honum, án þess að hann hafi veitt því eftirtekt.

10 Þrátt fyrir það, þótt vegsemd Ísraels hafi vitnað í gegn þeim, þá hafa þeir ekki snúið sér til Drottins, Guðs síns, og hafa ekki leitað hans, þrátt fyrir allt þetta.

11 En Efraím er orðinn eins og einföld, óskynsöm dúfa: Þeir kalla á Egypta, fara á fund Assýringa.

12 Þegar þeir fara þangað, breiði ég net mitt yfir þá, steypi þeim niður eins og fugli í loftinu, tyfta þá, eins og söfnuði þeirra hefir boðað verið.

13 Vei þeim, að þeir reika langt í burt frá mér! Eyðing yfir þá, að þeir hafa brugðið trúnaði við mig! Ég hefi leyst þá, og þeir hafa talað lygar gegn mér,

14 og hrópuðu ekki til mín af hjarta, heldur kveinuðu í rekkjum sínum. Vegna korns og vínberjalagar ristu þeir á sig skinnsprettur, mér fráhverfir.

15 Og þó er það ég, sem hefi frætt þá, sem hefi gjört armleggi þeirra styrka. En gagnvart mér hafa þeir illt í hyggju.

16 Þeir snúa sér, en ekki í hæðirnar. Þeir eru eins og svikull bogi. Höfðingjar þeirra munu falla fyrir sverði vegna ósvífni tungu sinnar. Fyrir það munu menn hæða þá á Egyptalandi.

Sálmarnir 120-122

120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.

Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.

Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?

Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.

Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.

Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.

Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.

121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."

Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.

Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,

þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,

því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.

Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.

Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.

Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.

Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society