Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 13

13 Á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar Ahasíasonar Júdakonungs varð Jóahas Jehúson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti seytján ár.

Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, þær er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Hann lét ekki af þeim.

Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá í hendur Hasael Sýrlandskonungi og Benhadad syni Hasaels allan þann tíma.

En Jóahas blíðkaði Drottin, og Drottinn bænheyrði hann, því að hann sá ánauð Ísraels, hversu Sýrlandskonungur kúgaði þá.

Og Drottinn sendi Ísrael hjálparmann, svo að þeir losnuðu undan valdi Sýrlendinga, og Ísraelsmenn bjuggu í tjöldum sínum sem áður.

Þó létu þeir eigi af syndum Jeróbóams ættar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Þeir héldu áfram að drýgja þær. Aséran stóð og kyrr í Samaríu.

Jóahas átti ekkert lið eftir nema fimmtíu riddara, tíu vagna og tíu þúsund fótgönguliða, því að Sýrlandskonungur hafði gjöreytt þeim og gjört þá sem ryk við þreskingu.

Það sem meira er að segja um Jóahas og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

Og Jóahas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og hann var grafinn í Samaríu. Og Jóas sonur hans tók ríki eftir hann.

10 Á þrítugasta og sjöunda ríkisári Jóasar Júdakonungs varð Jóas Jóahasson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sextán ár.

11 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Hann hélt áfram að drýgja þær.

12 Það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, hversu hann háði ófrið við Amasía Júdakonung, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

13 Og Jóas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jeróbóam settist í hásæti hans. Og Jóas var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum.

14 Elísa tók sótt, er leiddi hann til bana. Fór þá Jóas konungur í Ísrael ofan til hans, grét yfir honum og sagði: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!"

15 En Elísa sagði við hann: "Tak boga og örvar." Og hann færði honum boga og örvar.

16 Þá sagði hann við Ísraelskonunginn: "Legg hönd þína á bogann." Hann gjörði svo. Þá lagði Elísa hendur sínar ofan á hendur konungs.

17 Síðan mælti hann: "Opna þú gluggann gegnt austri." Og hann gjörði svo. Þá sagði Elísa: "Skjót!" Og hann skaut. Og Elísa mælti: "Sigurör frá Drottni! Já, sigurör yfir Sýrlendingum! Þú munt vinna sigur á Sýrlendingum í Afek, uns þeir eru gjöreyddir."

18 Síðan sagði hann: "Tak örvarnar." Og hann tók þær. Þá sagði hann við Ísraelskonunginn: "Slá þú á jörðina." Og hann sló þrisvar sinnum, en hætti síðan.

19 Þá gramdist guðsmanninum við hann og sagði: "Þú hefðir átt að slá fimm eða sex sinnum, þá mundir þú hafa unnið sigur á Sýrlendingum, uns þeir hefðu verið gjöreyddir, en nú munt þú aðeins vinna þrisvar sinnum sigur á Sýrlendingum."

20 Elísa dó og var grafinn. En ræningjaflokkar frá Móab brutust þá inn í landið á ári hverju.

21 Og svo bar við, er verið var að grafa mann nokkurn, að menn komu allt í einu auga á ræningjaflokk. Fleygðu þeir þá manninum í gröf Elísa og höfðu sig á brott. En er maðurinn snart bein Elísa, þá lifnaði hann og reis á fætur.

22 Hasael Sýrlandskonungur kreppti að Ísrael alla ævi Jóahasar.

23 En Drottinn miskunnaði þeim og sá aumur á þeim og sneri sér til þeirra sakir sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. Vildi hann eigi, að þeir skyldu tortímast, hafði og eigi útskúfað þeim frá augliti sínu til þessa.

24 Og er Hasael Sýrlandskonungur var dáinn og Benhadad sonur hans hafði tekið ríki eftir hann,

25 þá tók Jóas Jóahasson borgirnar aftur frá Benhadad Hasaelssyni, þær er Hasael hafði tekið frá Jóahas föður hans í ófriði. Vann Jóas þrisvar sinnum sigur á honum og náði aftur borgum Ísraels.

Síðara bréf Páls til Tímó 3

Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.

Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir,

kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er,

sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.

Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!

Úr hópi þeirra eru mennirnir, sem smeygja sér inn á heimilin og ná á band sitt kvensniftum, sem syndum eru hlaðnar og leiðast af margvíslegum fýsnum.

Þær eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.

Eins og þeir Jannes og Jambres stóðu í gegn Móse, þannig standa og þessir menn í gegn sannleikanum. Þeir eru menn hugspilltir og óhæfir í trúnni.

En þeim mun ekki verða ágengt, því að heimska þeirra mun verða hverjum manni augljós, eins og líka heimska hinna varð.

10 Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði,

11 í ofsóknum og þjáningum, slíkum sem fyrir mig komu í Antíokkíu, í Íkóníum og í Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég, og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.

12 Já, allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.

13 En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.

14 En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það.

15 Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.

16 Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti,

17 til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.

Hósea 5-6

Heyrið þetta, þér prestar! Takið eftir, þér Ísraelsmenn! Hlýð þú á, konungs hús! Þér áttuð að framfylgja réttlæti, en eruð orðnir snara fyrir Mispa og útþanið net á Tabor.

Þeir grófu djúpa gröf fráhvarfsins, en ég mun refsa þeim öllum.

Ég þekki Efraím, og Ísrael getur ekki dulist fyrir mér. Já, nú hefir þú drýgt hór, Efraím, Ísrael saurgað sig.

Verk þeirra leyfa þeim eigi að snúa aftur til Guðs þeirra, því að hórdómsandi býr í þeim, og Drottin þekkja þeir ekki.

En Ísraels tign mun vitna í gegn þeim, og Ísrael og Efraím munu steypast vegna misgjörðar þeirra. Júda mun og steypast með þeim.

Þegar þeir þá koma með sauði sína og naut til þess að leita Drottins, þá munu þeir ekki finna hann, hann hefir sagt sig lausan við þá.

Drottni hafa þeir verið ótrúir, því að þeir hafa getið óskilgetin börn. Nú skal tunglkoman eyða þeim og ekrum þeirra.

Þeytið lúðurinn í Gíbeu og básúnuna í Rama! Æpið heróp í Betaven! Óvinirnir á hælum þér, Benjamín!

Efraím skal verða að auðn á degi hirtingarinnar. Ísraels ættkvíslum boða ég áreiðanlega hluti.

10 Höfðingjar Júda eru líkir þeim, sem færa landamerki úr stað; yfir þá vil ég úthella reiði minni eins og vatni.

11 Í Efraím er rétturinn ofríki borinn og fótum troðinn, því að honum þóknaðist að elta fánýt goð.

12 Því varð ég sem mölur Efraím og sem nagandi ormur Júda húsi.

13 Er Efraím sá sjúkdóm sinn og Júda mein sitt, þá leitaði Efraím til Assýríu og sendi til stórkonungsins. En hann megnar ekki að lækna yður né að græða mein yðar,

14 því að ég mun verða eins og dýrið óarga fyrir Efraím og eins og ungt ljón Júda húsi. Ég, ég mun sundurrífa og fara burt, bera burt bráðina, án þess að nokkur bjargi.

15 Ég mun fara burt og hverfa aftur á minn stað, uns þeir kannast við afbrot sín og leita míns auglitis. Þegar að þeim þrengir, munu þeir snúa sér til mín.

"Komið, vér skulum hverfa aftur til Drottins, því að hann hefir sundur rifið og mun lækna oss, hann hefir lostið og mun binda um sár vor.

Hann mun lífga oss eftir tvo daga og reisa oss upp á þriðja degi, til þess að vér lifum fyrir hans augliti.

Vér viljum og þekkja, kosta kapps um að þekkja Drottin _ hann mun eins áreiðanlega koma eins og morgunroðinn rennur upp _ svo að hann komi yfir oss eins og regnskúr, eins og vorregn, sem vökvar jörðina."

Hvað skal ég við þig gjöra, Efraím, hvað skal ég við þig gjöra, Júda, þar sem elska yðar er eins hvikul og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur?

Fyrir því verð ég að vega að þeim fyrir munn spámannanna, bana þeim með orði munns míns, og fyrir því verður dómur minn að birtast eins óbrigðult og dagsljósið rennur upp.

Því að á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum.

Þeir hafa rofið sáttmálann að manna hætti, þar hafa þeir verið mér ótrúir.

Gíleað er glæpamanna borg, full af blóðferlum,

og prestaflokkurinn er eins og ræningjar, sem veita mönnum fyrirsát. Þeir myrða á veginum til Síkem, já, svívirðing hafa þeir framið.

10 Í Ísraelsríki hefi ég séð hryllilega hluti, þar hefir Efraím drýgt hór, Ísrael saurgað sig.

11 Einnig þér, Júda, hefir hann búið uppskeru. Þegar ég sný við högum þjóðar minnar,

Sálmarnir 119:145-176

145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.

146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.

147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.

148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.

149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.

150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.

151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.

152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.

153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.

154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.

155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.

156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.

157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.

158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.

159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.

160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.

161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.

162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.

163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.

164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.

165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.

166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.

167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.

168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.

169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.

170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.

171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.

172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.

173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.

174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.

175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.

176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society