Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 11-12

11 Þá er Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsættina.

Þá tók Jóseba, dóttir Jórams konungs, systir Ahasía, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig leyndi hún honum fyrir Atalíu, svo að hann var ekki drepinn.

Og hann var hjá henni á laun sex ár í musteri Drottins, meðan Atalía ríkti yfir landinu.

En á sjöunda ári sendi Jójada prestur menn og lét sækja hundraðshöfðingja lífvarðarins og varðliðsins og lét þá koma til sín í musteri Drottins. Og hann gjörði við þá sáttmála og lét þá vinna eið í musteri Drottins. Síðan sýndi hann þeim konungsson

og lagði svo fyrir þá: "Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð halda vörð í konungshöllinni.

Skal einn þriðjungurinn vera í Súrhliði, annar í hliðinu bak við varðliðsmennina, svo að þér haldið vörð í konungshöllinni.

Og báðir hinir þriðjungsflokkar yðar, allir þeir, er fara út hvíldardaginn til þess að halda vörð í musteri Drottins hjá konunginum,

þér skuluð fylkja yður um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast gegnum raðirnar, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann fer út og þegar hann kemur heim."

Hundraðshöfðingjarnir fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn og komu til Jójada prests.

10 Og presturinn fékk hundraðshöfðingjunum spjótin og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Drottins.

11 Og varðliðsmennirnir námu staðar, allir með vopn í hendi, allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið þess, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu.

12 Þá leiddi hann konungsson fram og setti á hann kórónuna og hringana. Tóku þeir hann til konungs og smurðu hann, klöppuðu lófum saman og hrópuðu: "Konungurinn lifi!"

13 En er Atalía heyrði ópið í varðliðsmönnunum og lýðnum, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins.

14 Sá hún þá, að konungur stóð við súluna, svo sem siður var til, og hún sá höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana. Þá reif Atalía klæði sín og kallaði: "Samsæri, samsæri!"

15 En Jójada prestur bauð hundraðshöfðingjunum, fyrirliðum hersins, og mælti til þeirra: "Leiðið hana út milli raðanna og drepið með sverði hvern, sem fer á eftir henni." Því að prestur hafði sagt: ,Eigi skal hana drepa í musteri Drottins.`

16 Síðan lögðu þeir hendur á hana, og er hún var komin inn í konungshöllina um hrossahliðið, var hún drepin þar.

17 Jójada gjörði sáttmála milli Drottins og konungs og lýðsins, að þeir skyldu vera lýður Drottins, svo og milli konungs og lýðsins.

18 Síðan fór allur landslýður inn í musteri Baals og reif það. Ölturu hans og líkneskjur molbrutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum. Síðan setti prestur varðflokka við musteri Drottins,

19 og hann tók hundraðshöfðingjana, lífvörðinn og varðliðsmennina og allan landslýðinn, og fóru þeir með konung ofan frá musteri Drottins og gengu um varðliðshliðið inn í konungshöllina, og hann settist í konungshásætið.

20 Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði í konungshöllinni.

21 Jóas var sjö vetra gamall, þá er hann varð konungur.

12 Á sjöunda ríkisári Jehú varð Jóas konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba.

Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins alla ævi sína, af því að Jójada prestur hafði kennt honum.

Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.

Og Jóas sagði við prestana: "Allt fé, sem borið er í musteri Drottins sem helgigjafir, fé, sem lagt er á einhvern eftir mati _ fé, sem menn eru metnir eftir _ svo og allt það fé, sem einhver af eigin hvötum ber í musteri Drottins,

skulu prestarnir taka til sín, hver af sínum ráðunaut. En þeir skulu og með því gjöra við skemmdir á musterinu, allar skemmdir, sem á því finnast."

En á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar konungs höfðu prestarnir enn ekki gjört við skemmdir á musterinu.

Þá lét Jóas konungur kalla Jójada yfirprest og hina prestana og mælti til þeirra: "Hvers vegna gjörið þér ekki við skemmdir á musterinu? Nú skuluð þér eigi framar taka við neinu fé af ráðunautum yðar, heldur skuluð þér láta það af hendi fyrir skemmdum á musterinu."

Og prestarnir gengu að þeim kostum að taka ekki við fé af lýðnum, en vera og eigi skyldir að gjöra við skemmdir á musterinu.

Síðan tók Jójada prestur kistu nokkra, boraði gat á lokið og setti hana hjá altarinu, hægra megin, þegar gengið er inn í musteri Drottins, og létu prestarnir, þeir er geymdu inngöngudyra, í hana allt það fé, er borið var í musteri Drottins.

10 Og er þeir sáu, að mikið fé var komið í kistuna, kom kanslari konungs þangað og æðsti presturinn, og bundu þeir saman allt fé, sem fannst í musteri Drottins, og töldu það.

11 Fengu þeir síðan féð, er vegið hafði verið, verkstjórunum í hendur, þeim er höfðu umsjón með musteri Drottins, en þeir greiddu það trésmiðunum og byggingamönnunum, er störfuðu við musteri Drottins,

12 svo og múrurunum og steinsmiðunum og til þess að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við skemmdir á musteri Drottins, og til alls sem borga þurfti fyrir viðgjörð á musterinu.

13 Þó voru eigi gjörðir neinir silfurkatlar, skarbítar, fórnarskálar, lúðrar né nokkurs konar áhöld úr gulli eða silfri í musteri Drottins, af fé því, sem borið var í musteri Drottins,

14 heldur fengu menn það verkamönnunum, til þess að þeir fyrir það gjörðu við musteri Drottins.

15 En ekki héldu menn reikning við menn þá, er þeir fengu féð í hendur, til þess að þeir greiddu það verkamönnunum, heldur gjörðu þeir það upp á æru og trú.

16 En sektarfórnarféð og syndafórnarféð var eigi borið í musteri Drottins. Það áttu prestarnir.

17 Um þær mundir kom Hasael Sýrlandskonungur, herjaði á Gat og vann hana. En er Hasael ætlaði að fara til Jerúsalem,

18 þá tók Jóas Júdakonungur allar helgigjafir þær, er þeir Jósafat, Jóram og Ahasía forfeður hans, Júdakonungar, höfðu helgað, svo og helgigjafir sínar og allt gullið, er til var í fjárhirslum musteris Drottins og konungshallarinnar, og sendi það Hasael Sýrlandskonungi. Hætti hann þá við að fara til Jerúsalem.

19 En það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

20 Þjónar Jóasar hófust handa, gjörðu samsæri og drápu Jóas í Milló-húsi, þar sem gatan liggur niður til Silla.

21 Þeir Jósakar Símeatsson og Jósabad Sómersson, þjónar hans, unnu á honum, og hann var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.

Síðara bréf Páls til Tímó 2

Styrkst þú þá, sonur minn, í náðinni, sem fæst fyrir Krist Jesú.

Og það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.

Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú.

Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála.

Og sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn, nema hann keppi löglega.

Bóndinn, sem erfiðar, á fyrstur að fá sinn hlut af ávöxtunum.

Tak eftir því, sem ég segi. Drottinn mun gefa þér skilning á öllu.

Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu.

Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað.

10 Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð.

11 Það orð er satt: Ef vér höfum dáið með honum, þá munum vér og lifa með honum.

12 Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss.

13 Þótt vér séum ótrúir, þá verður hann samt trúr, því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér.

14 Minn á þetta og heit á þá fyrir augliti Guðs að eiga ekki í orðastælum til einskis gagns, áheyrendum til falls.

15 Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.

16 Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi,

17 og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus.

18 Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna.

19 En Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: "Drottinn þekkir sína" og "hver sá, sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti."

20 Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota.

21 Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.

22 Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.

23 En hafna þú heimskulegum og óskynsamlegum þrætum. Þú veist, að þær leiða af sér ófrið.

24 Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum,

25 hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum,

26 þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja.

Hósea 3-4

Drottinn sagði við mig: "Far enn og elska konu, sem elskar annan mann og haft hefir fram hjá, eins og Drottinn elskar Ísraelsmenn, þótt þeir hneigist að öðrum guðum og þyki rúsínukökur góðar."

Þá keypti ég mér hana fyrir fimmtán sikla silfurs og hálfan annan kómer byggs

og sagði við hana: "Langan tíma skalt þú sitja ein án þess að drýgja hór og án þess að heyra nokkrum manni til. Svo skal ég og vera gagnvart þér."

Þannig munu Ísraelsmenn langan tíma sitja einir án konungs og án höfðingja, án fórnar og án merkissteins, án hökuls og húsguða.

Eftir það munu Ísraelsmenn snúa sér og leita Drottins, Guðs síns, og Davíðs, konungs síns, og þeir munu á hinum síðustu dögum flýja til Drottins og til hans blessunar.

Heyrið orð Drottins, þér Ísraelsmenn! Því að Drottinn hefir mál að kæra gegn íbúum landsins, því að í landinu er engin trúfesti, né kærleikur, né þekking á Guði.

Þeir sverja og ljúga, myrða og stela og hafa fram hjá. Þeir brjótast inn í hús, og hvert mannvígið tekur við af öðru.

Fyrir því drúpir landið, og allt visnar sem í því er, jafnvel dýr merkurinnar og fuglar himinsins, og enda fiskarnir í sjónum eru hrifnir burt.

Þó ávíti enginn og álasi enginn. En á yður deili ég, þér prestar.

Þér skuluð steypast á degi, og jafnvel spámennirnir skulu steypast með yður á nóttu, og ég vil afmá móður yðar, Ísrael.

Lýður minn verður afmáður, af því að hann hefir enga þekking. Af því að þér hafið hafnað þekkingunni, þá vil ég hafna yður, svo að þér séuð ekki prestar fyrir mig, og með því að þér hafið gleymt lögmáli Guðs yðar, þá vil ég og gleyma börnum yðar.

Því voldugri sem þeir urðu, því meir syndguðu þeir gegn mér. Vegsemd sinni skipta þeir fyrir smán.

Þeir lifa af synd lýðs míns, og þá langar í misgjörð þeirra.

En fyrir lýðnum skal fara eins og fyrir prestunum: Ég skal hegna honum fyrir athæfi hans og gjalda honum fyrir verk hans.

10 Þeir skulu eta, en þó ekki saddir verða, þeir skulu hórast, en engan unað af því hafa, því að þeir hafa yfirgefið Drottin.

11 Hór, vín og vínberjalögur tekur vitið burt.

12 Lýður minn gengur til frétta við trédrumb sinn, og stafsproti hans veitir honum andsvör. Því að hórdómsandi hefir leitt þá afvega, svo að þeir drýgja hór, ótrúir Guði sínum.

13 Efst uppi á fjöllunum fórna þeir sláturfórnum, og á fórnarhæðunum færa þeir reykelsisfórnir, undir eikum, öspum og terebintum, því að skuggi þeirra er ununarfullur. Fyrir því drýgja dætur yðar hór og fyrir því hafa yðar ungu konur fram hjá.

14 Ég vil ekki hegna dætrum yðar fyrir það að þær drýgja hór, né yðar ungu konum fyrir það að þær hafa fram hjá, því að þeir ganga sjálfir afsíðis með portkonum og fórna sláturfórnum með hofskækjum, og fávitur lýðurinn steypir sér í glötun.

15 Þótt þú, Ísrael, drýgir hór, þá láti Júda sér það ekki á verða. Farið eigi til Gilgal og gangið ekki upp til Betaven og sverjið ekki: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir."

16 Ísrael er orðinn baldinn, eins og baldin kýr. Á Drottinn nú að halda þeim til haga eins og lömbum á víðu haglendi?

17 Efraím er orðinn skurðgoða félagi. Lát hann eiga sig.

18 Víndrykkja þeirra hefir lent í spilling. Þeir drýgja hór, þeir elska svívirðinguna meir en hann, sem er tign þeirra.

19 Vindbylur vefur þá innan í vængi sína, svo að þeir verði til skammar vegna altara sinna.

Sálmarnir 119:121-144

121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.

122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.

123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.

124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.

125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.

126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.

127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.

128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.

129 Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær.

130 Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.

131 Ég opna munninn af ílöngun, því ég þrái boð þín.

132 Snú þér til mín og ver mér náðugur, eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt.

133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.

134 Leys mig undan kúgun manna, að ég megi varðveita fyrirmæli þín.

135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn og kenn mér lög þín.

136 Augu mín fljóta í tárum, af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.

137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.

138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.

139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.

140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.

141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.

142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.

143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.

144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society