M’Cheyne Bible Reading Plan
10 Í Samaríu voru sjötíu synir Akabs. Og Jehú skrifaði bréf og sendi þau til Samaríu til höfðingja borgarinnar og til öldunganna og þeirra, sem fóstruðu sonu Akabs. Þau voru á þessa leið:
2 "Þá er þér fáið þetta bréf, þér sem hafið hjá yður sonu herra yðar og hafið yfir að ráða vögnum og hestum, víggirtum borgum og hervopnum,
3 þá veljið hinn besta og hæfasta af sonum herra yðar og setjið hann í hásæti föður síns og berjist fyrir ætt herra yðar."
4 Þeir urðu mjög hræddir og sögðu: "Sjá, tveir konungar fengu eigi reist rönd við honum, hvernig skyldum vér þá fá staðist?"
5 Þá sendu þeir dróttseti, borgarstjóri, öldungarnir og fóstrarnir til Jehú og létu segja honum: "Vér erum þínir þjónar, og vér viljum gjöra allt, sem þú býður oss. Vér munum engan til konungs taka. Gjör sem þér vel líkar."
6 Þá skrifaði hann þeim annað bréf á þessa leið: "Ef þér viljið fylgja mér og hlýða skipun minni, þá takið höfuðin af sonum herra yðar og komið til mín í þetta mund á morgun til Jesreel." En synir konungsins, sjötíu manns, voru hjá stórmennum borgarinnar, er ólu þá upp.
7 En er bréfið kom til þeirra, tóku þeir konungssonu og slátruðu þeim, sjötíu manns, og lögðu höfuð þeirra í körfur og sendu honum til Jesreel.
8 Og er sendimaður kom og sagði Jehú, að þeir væru komnir með höfuð konungssona, þá sagði hann: "Leggið þau í tvær hrúgur úti fyrir borgarhliðinu til morguns."
9 En um morguninn fór hann út þangað, gekk fram og mælti til alls lýðsins: "Þér eruð saklausir. Sjá, ég hefi hafið samsæri í gegn herra mínum og drepið hann, en hver hefir unnið á öllum þessum?
10 Kannist þá við, að ekkert af orðum Drottins hefir fallið til jarðar, þau er hann talaði gegn ætt Akabs. Drottinn hefir framkvæmt það, er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía."
11 Og Jehú drap alla þá, er eftir voru af ætt Akabs í Jesreel, svo og alla höfðingja hans, vildarmenn og presta, svo að enginn varð eftir, sá er undan kæmist.
12 Síðan tók Jehú sig upp og fór til Samaríu. Og er hann kom til Bet Eked Haróím við veginn,
13 þá mætti hann bræðrum Ahasía Júdakonungs og sagði: "Hverjir eruð þér?" Þeir svöruðu: "Vér erum bræður Ahasía og ætlum að heimsækja konungssonu og sonu konungsmóður."
14 Þá sagði hann: "Takið þá höndum lifandi." Og þeir tóku þá höndum lifandi og slátruðu þeim og fleygðu þeim í gryfjuna hjá Bet Eked, fjörutíu og tveimur mönnum, og var enginn af þeim eftir skilinn.
15 Og er hann fór þaðan, hitti hann Jónadab Rekabsson, er kom í móti honum. Hann heilsaði honum og sagði við hann: "Ert þú einlægur við mig, eins og ég er við þig?" Jónadab svaraði: "Svo er víst." Þá mælti Jehú: "Ef svo er, þá rétt mér hönd þína." Þá rétti hann honum hönd sína, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín
16 og mælti: "Kom með mér, þá skalt þú fá að sjá, hversu ég vandlæti vegna Drottins." Síðan lét hann hann fara með sér á vagni sínum.
17 Og er hann var kominn til Samaríu, drap hann alla, er eftir voru af Akabsætt í Samaríu, uns hann hafði gjöreytt þeim, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað til Elía.
18 Því næst stefndi Jehú saman öllum lýðnum og sagði við þá: "Akab dýrkaði Baal slælega, Jehú mun dýrka hann betur.
19 Kallið því til mín alla spámenn Baals, alla dýrkendur hans og alla presta hans. Engan má vanta, því að ég ætla að halda blótveislu mikla fyrir Baal. Skal enginn sá lífi halda, er lætur sig vanta." En þar beitti Jehú brögðum til þess að tortíma dýrkendum Baals.
20 Og Jehú sagði: "Boðið hátíðasamkomu fyrir Baal." Þeir gjörðu svo.
21 Og Jehú sendi um allan Ísrael. Þá komu allir dýrkendur Baals, svo að enginn var eftir, sá er eigi kæmi. Og þeir gengu í musteri Baals, og musteri Baals varð fullt enda á milli.
22 Síðan sagði hann við umsjónarmann fatabúrsins: "Tak út klæði handa öllum dýrkendum Baals." Og hann tók út klæði handa þeim.
23 Síðan gekk Jehú og Jónadab Rekabsson með honum í musteri Baals, og hann sagði við dýrkendur Baals: "Gætið að og lítið eftir, að eigi sé hér meðal yðar neinn af þjónum Drottins, heldur dýrkendur Baals einir."
24 Síðan gekk hann inn til þess að færa sláturfórnir og brennifórnir. En Jehú hafði sett áttatíu manns fyrir utan dyrnar og sagt: "Hver sá er lætur nokkurn af mönnum þeim, er ég fæ yður í hendur, sleppa undan, hann skal láta sitt líf fyrir hans líf."
25 Þegar Jehú hafði lokið við að færa brennifórnina, sagði hann við varðliðsmennina og riddarana: "Gangið inn og brytjið þá niður, enginn má út komast." Og þeir brytjuðu þá niður með sverði og köstuðu þeim út. Og varðliðsmennirnir og riddararnir ruddust alla leið inn í innhús Baalsmusterisins
26 og tóku asérurnar út úr musteri Baals og brenndu þær.
27 Og þeir rifu niður merkisstein Baals, rifu síðan musteri Baals og gjörðu úr því náðhús, og er svo enn í dag.
28 Þannig útrýmdi Jehú allri Baalsdýrkun í Ísrael.
29 En af syndum Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, af þeim lét Jehú ekki _ dýrkun gullkálfanna í Betel og í Dan.
30 Og Drottinn sagði við Jehú: "Með því að þú hefir leyst vel af hendi það, er rétt var í mínum augum, og farið alveg mér að skapi með ætt Akabs, þá skulu niðjar þínir í fjórða lið sitja í hásæti Ísraels."
31 En Jehú hirti eigi um að breyta eftir lögmáli Drottins, Ísraels Guðs, af öllu hjarta sínu. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.
32 Um þessar mundir byrjaði Drottinn að sneiða af Ísrael. Hasael vann sigur á þeim á öllum landamærum Ísraels.
33 Frá Jórdan austur á bóginn lagði hann undir sig allt Gíleaðland, Gaðíta, Rúbeníta og Manassíta, frá Aróer, sem er við Arnoná, bæði Gíleað og Basan.
34 En það sem meira er að segja um Jehú og allt, sem hann gjörði, og öll hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
35 Og Jehú lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var hann grafinn í Samaríu. Og Jóahas sonur hans tók ríki eftir hann.
36 En sá tími, er Jehú ríkti yfir Ísrael í Samaríu, voru tuttugu og átta ár.
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar
2 Tímóteusi, elskuðum syni sínum. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
3 Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum.
4 Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði
5 er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.
6 Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna.
7 Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.
8 Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.
9 Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum,
10 en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.
11 Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari.
12 Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur.
13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.
14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.
15 Þú veist þetta, að allir Asíumenn sneru við mér bakinu. Í þeirra flokki eru þeir Fýgelus og Hermogenes.
16 Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar, því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn,
17 heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig.
18 Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá Drottni Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.
2 Segið við bræður yðar: "Minn lýður!" og við systur yðar: "Náðþegi!"
2 Deilið á móður yðar, deilið á hana, því að hún er eigi mín kona og ég er ekki maður hennar, svo að hún fjarlægi hórdóm sinn frá andliti sínu og hjúskaparbrot sín frá brjóstum sínum.
3 Ella mun ég færa hana úr öllu og láta hana standa nakta, eins og þegar hún fæddist, og gjöra hana eins og eyðimörk og láta hana verða eins og þurrt land og láta hana deyja af þorsta.
4 Og yfir börn hennar mun ég ekki miskunna mig, því að þau eru hórbörn,
5 því að móðir þeirra hefir drýgt hór, hún sem þau gat, hefir framið svívirðu. Því að hún sagði: "Ég vil elta friðla mína, sem gefa mér brauð mitt og vatn, ull mína og hör, olífuolíu mína og drykki."
6 Fyrir því vil ég girða fyrir veg hennar með þyrnum og hlaða vegg fyrir hana, til þess að hún finni ekki stigu sína.
7 Og þegar hún þá eltir friðla sína, skal hún ekki ná þeim, og er hún leitar þeirra, skal hún ekki finna þá, heldur mun hún segja: "Ég vil fara og snúa aftur til míns fyrra manns, því að þá leið mér betur en nú."
8 Hún veit þá ekki, að það er ég, sem hefi gefið henni kornið og vínberjalöginn og olífuolíuna og veitt henni gnótt silfurs og gulls, en þeir hafa varið því handa Baal.
9 Fyrir því vil ég taka aftur korn mitt á korntíðinni og vínberjalög minn, þegar hans ákveðni tími kemur, og nema burt ull mína og hör, er hún skyldi skýla með nekt sinni.
10 Og nú vil ég bera gjöra blygðan hennar í augsýn friðla hennar, _ enginn skal fá hrifið hana úr minni hendi _
11 og gjöra enda á alla kæti hennar, á hátíðir hennar, tunglkomudaga og hvíldardaga og á allar löghátíðir hennar,
12 og eyða víntré hennar og fíkjutré, er hún sagði um: "Þau eru hórgjald, sem friðlar mínir hafa gefið mér!" Og ég vil gjöra þau að kjarrskógi, til þess að villidýrin eti þau.
13 Ég vil hegna henni fyrir daga Baalanna, þá er hún færði þeim reykelsisfórnir og prýddi sig með nefhringum og hálsmenjum og fylgdi friðlum sínum, en gleymdi mér, _ segir Drottinn.
14 Ég vil lokka hana og leiða hana út í eyðimörk og hughreysta hana,
15 og ég gef henni þar víngarða sína og gjöri Mæðudal að Vonarhliði, og þá mun hún verða eftirlát eins og á æskudögum sínum og eins og þá er hún fór burt af Egyptalandi.
16 Á þeim degi, _ segir Drottinn _ munt þú ávarpa mig "Maðurinn minn," en ekki framar kalla til mín "Baal minn."
17 Og ég vil venja hana af að hafa nöfn Baalanna á vörum sér, svo að þeirra skal eigi verða framar getið með nafni.
18 Og á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar, og eyði bogum, sverðum og bardögum úr landinu og læt þá búa örugga.
19 Og ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi,
20 ég mun festa þig mér í trúfesti, og þú skalt þekkja Drottin.
21 Og á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn. Ég mun bænheyra himininn, og hann mun bænheyra jörðina,
22 og jörðin mun bænheyra kornið, vínberjalöginn og olíuna, og þau munu bænheyra Jesreel.
23 Og ég vil gróðursetja lýð minn í landinu og auðsýna Náðvana náð og segja við Ekki-minn-lýð: "Þú ert minn lýður!" og hann mun segja: "Guð minn!"
97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.
98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.
99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.
100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.
101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.
102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.
103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.
104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.
105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.
113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.
114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.
115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.
116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.
117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.
118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.
119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.
120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.
by Icelandic Bible Society