Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 9

Elísa spámaður kallaði einn af spámannasveinunum og sagði við hann: "Gyrð þú lendar þínar, tak þessa flösku af olífuolíu með þér og far til Ramót í Gíleað.

Og er þú ert þangað kominn, skalt þú svipast þar um eftir Jehú Jósafatssyni, Nimsísonar. Gakk síðan til hans og bið hann standa upp frá félögum sínum og far með hann inn í innsta herbergið.

Því næst skalt þú hella olífuolíunni yfir höfuð honum og segja: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.` Opna þú síðan dyrnar og flýt þér burt og dvel eigi."

Fór þá sveinninn, sveinn spámannsins, til Ramót í Gíleað.

En er hann kom þangað, sátu herforingjarnir þar saman. Og hann mælti: "Ég á erindi við þig, herforingi!" Jehú svaraði: "Við hvern af oss?" Hann svaraði: "Við þig, herforingi!"

Þá stóð hann upp og gekk inn í húsið. Og hann hellti olíu yfir höfuð honum og sagði við hann: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég smyr þig til konungs yfir lýð Drottins, yfir Ísrael.

Þú skalt útrýma ætt Akabs, herra þíns, svo að ég fái þann veg komið fram hefndum á Jesebel fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og fyrir blóð allra þjóna Drottins.

Já, öll ætt Akabs skal fyrirfarast, og ég mun uppræta fyrir Akabsætt hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael.

Og ég mun fara með ætt Akabs eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar.

10 En Jesebel skulu hundar eta í landareign Jesreelborgar, og enginn skal jarða hana." Síðan lauk hann upp hurðinni og flýtti sér burt.

11 En er Jehú kom út til þjóna herra síns, sögðu þeir við hann: "Er nokkuð að? Hvers vegna er þessi vitfirringur til þín kominn?" Hann svaraði þeim: "Þér þekkið manninn og tal hans."

12 Þá sögðu þeir: "Það er ósatt mál! Seg oss það." Þá sagði hann: "Svo og svo hefir hann við mig talað og sagt: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael."`

13 Þá tóku þeir í skyndi hver sína yfirhöfn og lögðu fyrir fætur honum á sjálfar tröppurnar, þeyttu lúðurinn og hrópuðu: "Jehú er konungur orðinn!"

14 Þannig hóf Jehú Jósafatsson, Nimsísonar, samsæri gegn Jóram, en Jóram og allur Ísrael hafði varið Ramót í Gíleað fyrir Hasael Sýrlandskonungi.

15 En síðan hafði Jóram konungur snúið aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. Jehú mælti: "Ef þér viljið fylgja mér, þá látið engan undan komast út úr borginni til þess að segja tíðindin í Jesreel."

16 Síðan steig Jehú á vagn sinn og hélt til Jesreel, því að þar lá Jóram, og Ahasía Júdakonungur var kominn þangað til að vitja um Jóram.

17 Varðmaður stóð uppi á turninum í Jesreel, og er hann sá flokk Jehú koma, sagði hann: "Ég sé flokk manna." Þá mælti Jóram: "Tak riddara og send móti þeim til þess að spyrja þá, hvort þeir fari með friði."

18 Riddarinn fór í móti honum og sagði: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði." Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér." Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Sendimaðurinn er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur."

19 Þá sendi hann annan riddara, og er hann kom til þeirra, sagði hann: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði." Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér."

20 Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Hann er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur. Er þar ekið, sem aki þar Jehú Nimsíson, því að hann ekur eins og vitlaus maður."

21 Þá bauð Jóram að beita fyrir vagn sinn. Og er beitt hafði verið fyrir vagn hans, fóru þeir Jóram Ísraelskonungur og Ahasía Júdakonungur af stað, hvor á sínum vagni. Fóru þeir í móti Jehú og hittu hann á landspildu Nabóts Jesreelíta.

22 En er Jóram sá Jehú, sagði hann: "Fer þú með friði, Jehú?" Hann svaraði: "Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?"

23 Þá sneri Jóram við og lagði á flótta og kallaði til Ahasía: "Svik, Ahasía!"

24 En Jehú þreif boga sinn og skaut Jóram milli herða, svo að örin gekk í gegnum hjartað, og hné hann niður í vagni sínum.

25 Þá sagði hann við Bídkar, riddara sinn: "Tak hann og kasta honum á landspildu Nabóts Jesreelíta, því að þú manst víst, að ég og þú riðum báðir á eftir Akab föður hans, þá er Drottinn kvað upp þessi dómsorð gegn honum:

26 ,Sannarlega sá ég í gær blóð Nabóts og blóð barna hans, segir Drottinn, og mun ég launa þér á landspildu þessari, segir Drottinn.` Tak hann því og kasta honum á landspilduna eftir orði Drottins."

27 Þegar Ahasía Júdakonungur sá þetta, flýði hann í áttina til garðhússins. En Jehú elti hann og sagði: "Hann líka! Skjótið hann í vagninum!" Og þeir skutu hann á Gúr-stígnum, sem er hjá Jibleam. Og hann flýði til Megiddó og dó þar.

28 Síðan settu menn hans hann á vagn og fluttu hann til Jerúsalem og jörðuðu hann í gröf hans hjá feðrum hans í borg Davíðs.

29 En Ahasía hafði orðið konungur í Júda á ellefta ríkisári Jórams Akabssonar.

30 Nú kom Jehú til Jesreel. En er Jesebel frétti það, smurði hún sig í kringum augun skrýddi höfuð sitt og horfði út um gluggann.

31 Og er Jehú kom í hliðið, kallaði hún: "Hvernig líður Simrí, sem myrti herra sinn?"

32 En hann leit upp í gluggann og mælti: "Hver er með mér, hver?" Og er tveir eða þrír hirðmenn litu út til hans,

33 sagði hann: "Kastið henni ofan!" Og þeir köstuðu henni ofan, og slettist þá blóð hennar á vegginn og hestana, og tróðu þeir hana undir fótunum.

34 En hann gekk inn og át og drakk. Síðan sagði hann: "Lítið eftir þessari bölvuðu konu og jarðið hana, því að konungsdóttir er hún."

35 Þá fóru þeir til þess að jarða hana, en fundu ekkert af henni, nema hauskúpuna og fætur og hendur.

36 Og er þeir komu aftur og sögðu honum frá, mælti hann: "Rætast nú orð Drottins, þau er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía frá Tisbe: ,Á landareign Jesreelborgar skulu hundar eta hold Jesebelar,

37 og hræ Jesebelar skal liggja á landareign Jesreelborgar sem tað á túni, svo að menn skulu ekki geta sagt: Það er Jesebel."`

Fyrra bréf Páls til Tímót 6

Allir þeir, sem eru ánauðugir þrælar, skulu sýna húsbændum sínum allan skyldugan heiður, til þess að ekki verði lastmælt nafni Guðs og kenningunni.

En þeir, sem trúaða húsbændur eiga, skulu ekki lítilsvirða þá, vegna þess að þeir eru bræður, heldur þjóni þeim því betur sem þeir eru trúaðir og elskaðir og kappkosta að gjöra góðverk. Kenn þú þetta og áminn um það.

Ef einhver fer með annarlegar kenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum Drottins vors Jesú Krists og því, sem guðrækni vor kennir, þá hefur hann ofmetnast og veit ekki neitt.

Hann er sótttekinn af þrætum og orðastælum. Af þessu fæðist öfund, deilur, lastmæli, vondar hugsanir,

þjark og þras hugspilltra manna, sem eru sneyddir sannleikanum, en skoða guðhræðsluna sem gróðaveg.

Já, guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.

Því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan.

Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.

En þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.

10 Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.

11 En þú, Guðs maður, forðast þú þetta, en stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.

12 Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.

13 Ég býð þér fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og fyrir augliti Krists Jesú, er gjörði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi:

14 Gæt þú boðorðsins lýtalaust, óaðfinnanlega allt til endurkomu Drottins vors Jesú Krists,

15 sem hinn blessaði og eini alvaldur mun á sínum tíma birtast láta, konungur konunganna og Drottinn drottnanna.

16 Hann einn hefur ódauðleika, hann býr í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit né litið getur. Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen.

17 Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.

18 Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum,

19 með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.

20 Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar,

Hósea 1

Orð Drottins, sem kom til Hósea Beerísonar á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga, og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs.

Þá er Drottinn hóf að tala við Hósea, sagði hann við Hósea: "Far og tak þér hórkonu og eignast hórbörn, því að landið drýgir hór og hefir snúist frá Drottni."

Þá fór hann og gekk að eiga Gómer Diblaímsdóttur. Hún varð þunguð og fæddi honum son.

Og Drottinn sagði við hann: "Lát hann heita Jesreel, því að innan skamms vitja ég blóðskuldar Jesreels á ætt Jehú og gjöri enda á konungdómi Ísraels húss.

Á þeim degi sundurbrýt ég boga Ísraels á Jesreel-völlum."

Og hún varð aftur þunguð og ól dóttur. Þá sagði Drottinn við Hósea: "Lát þú hana heita Náðvana, því að ég mun eigi framar auðsýna náð Ísraels húsi, svo að ég fyrirgefi þeim.

En ég mun auðsýna náð Júda húsi og hjálpa þeim fyrir Drottin, Guð þeirra, en ég mun eigi hjálpa þeim með boga, sverði, bardögum, stríðshestum né riddurum."

Og er hún hafði vanið Náðvana af brjósti, varð hún enn þunguð og ól son.

Þá sagði Drottinn: "Lát hann heita Ekki-minn-lýður, því að þér eruð ekki minn lýður, og ég er ekki yðar Guð."

10 Tala Ísraelsmanna skal verða sem sandur á sjávarströnd, sem ekki verður mældur og ekki talinn. Og í stað þess, að sagt var við þá: "Þér eruð ekki minn lýður!" skal við þá sagt verða: "Synir hins lifanda Guðs!"

11 Júdamenn og Ísraelsmenn skulu safnast saman og velja sér einn yfirmann og hefja ferð sína heim úr landinu, því að mikill mun Jesreeldagur verða.

Sálmarnir 119:73-96

73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.

74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.

75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.

76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.

77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.

78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.

79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.

80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.

81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.

82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?

83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.

84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?

85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.

86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.

87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.

88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.

89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.

90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.

91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.

92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.

93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.

94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.

95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.

96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society