M’Cheyne Bible Reading Plan
8 Elísa talaði við konuna, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, á þessa leið: "Tak þig upp og far burt með fólk þitt og sest þú að einhvers staðar erlendis, því að Drottinn kallar sjö ára hallæri yfir landið, og er það þegar komið."
2 Þá tók konan sig upp og gjörði eins og guðsmaðurinn sagði, fór burt með fólk sitt og dvaldist sjö ár í Filistalandi.
3 Að sjö árunum liðnum kom konan aftur heim frá Filistalandi og lagði af stað til þess að biðja konung ásjár um hús sitt og akra.
4 Konungur var þá að tala við Gehasí, þjón guðsmannsins, og sagði: "Seg mér af öllum stórmerkjunum, sem Elísa hefir gjört."
5 Og er hann var að segja konungi, hvernig hann hefði lífgað hinn dána, þá kom konan, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, og bað konung ásjár um hús sitt og akra. Þá sagði Gehasí: "Minn herra konungur! Þetta er konan, og þetta er sonur hennar, sá er Elísa lífgaði."
6 Konungur spurði konuna, og sagði hún honum frá. Fékk konungur henni einn af hirðmönnunum og sagði við hann: "Sjá þú um, að hún fái aftur allt, sem hún á, svo og allan afrakstur akranna frá þeim degi, er hún fór úr landi, allt til þessa dags."
7 Elísa kom til Damaskus. Þá lá Benhadad Sýrlandskonungur sjúkur. Og er honum var sagt: "Guðsmaðurinn er kominn hingað,"
8 þá sagði konungur við Hasael: "Tak með þér gjöf nokkra og far til fundar við guðsmanninn og lát hann ganga til frétta við Drottin, hvort ég muni aftur heill verða af sjúkleik þessum."
9 Hasael fór þá til fundar við hann og tók með sér gjöf nokkra, alls konar gersemar úr Damaskus, klyfjar á fjörutíu úlfalda. Og er hann kom, gekk hann fyrir hann og mælti: "Sonur þinn, Benhadad Sýrlandskonungur, sendir mig til þín og lætur spyrja: ,Mun ég aftur heill verða af sjúkleik þessum?"`
10 Elísa svaraði honum: "Far og seg honum: ,Víst munt þú heill verða,` þótt Drottinn hafi birt mér, að hann muni deyja."
11 Og guðsmaðurinn starði fram fyrir sig og skelfdist harla mjög og grét.
12 Þá sagði Hasael: "Hví grætur þú, herra minn?" Hann svaraði: "Af því að ég veit, hvílíkt böl þú munir búa Ísraelsmönnum. Þú munt leggja eld í víggirtar borgir þeirra, drepa æskumenn þeirra með sverði, slá ungbörnum þeirra niður við og rista á kvið þungaðar konur þeirra."
13 Hasael svaraði: "Hvað er þjónn þinn, hundurinn sá, að hann megi vinna slík stórvirki?" Þá mælti Elísa: "Drottinn hefir sýnt mér þig svo sem konung yfir Sýrlandi."
14 Síðan fór Hasael burt frá Elísa, og er hann kom til herra síns, sagði konungur við hann: "Hvað sagði Elísa við þig?" Hann svaraði: "Hann sagði mér að þú mundir áreiðanlega heill verða."
15 En daginn eftir tók Hasael ábreiðu, dýfði henni í vatn og breiddi hana yfir andlit honum, svo að hann kafnaði. Og Hasael tók ríki eftir hann.
16 Á fimmta ríkisári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs varð Jóram Jósafatsson konungur í Júda.
17 Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem.
18 Hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabs ætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins.
19 En Drottinn vildi ekki afmá Júda, vegna Davíðs þjóns síns, samkvæmt því, er hann hafði heitið honum, að gefa honum ávallt lampa fyrir augliti hans.
20 Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig.
21 Þá fór Jóram með öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins, og flýði liðið til heimkynna sinna.
22 Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda, og er svo enn í dag. Þá braust og Líbna undan um sama leyti.
23 Það sem meira er að segja um Jóram og allt sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
24 Og Jóram lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs. Og Ahasía sonur hans tók ríki eftir hann.
25 Á tólfta ríkisári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs tók ríki Ahasía, Jóramsson Júdakonungs.
26 Ahasía var tuttugu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og ríkti hann eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí Ísraelskonungs.
27 Hann fetaði í fótspor Akabs ættar og gjörði það sem illt var í augum Drottins, eins og ætt Akabs, því að hann var í mægðum við ætt Akabs.
28 Ahasía fór herför með Jóram Akabssyni í móti Hasael Sýrlandskonungi til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram.
29 Þá sneri Jóram konungur aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann var sjúkur.
5 Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega, heldur áminn hann sem föður, yngri menn sem bræður,
2 aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika.
3 Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur.
4 En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs.
5 Sú sem er í raun og veru ekkja og er orðin munaðarlaus, festir von sína á Guði og er stöðug í ákalli og bænum nótt og dag.
6 En hin bílífa er dauð, þó að hún lifi.
7 Brýn þetta fyrir þeim, til þess að þær séu óaðfinnanlegar.
8 En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.
9 Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift
10 og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk.
11 En tak ekki við ungum ekkjum. Þegar þær verða gjálífar afrækja þær Krist, vilja giftast
12 og gerast þá sekar um að brjóta sitt fyrra heit.
13 Og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala.
14 Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis.
15 Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan.
16 Ef trúuð kona á fyrir ekkjum að sjá, skal hún sjá fyrir þeim, og eigi hafi söfnuðurinn þyngsli af, til þess að hann geti veitt hjálpina þeim, sem ekkjur eru og einstæðar.
17 Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.
18 Því að ritningin segir: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir" og "verður er verkamaðurinn launa sinna."
19 Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri.
20 Ávíta brotlega í viðurvist allra, til þess að hinir megi hafa ótta.
21 Ég heiti á þig fyrir augliti Guðs og Krists Jesú og hinna útvöldu engla, að þú gætir þessa án nokkurs fordóms og gjörir ekkert af vilfylgi.
22 Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan.
23 Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.
24 Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi og eru komnar á undan, þegar dæma skal. En hjá sumum koma þær líka á eftir.
25 Á sama hátt eru góðverkin augljós, og þau, sem eru það ekki, munu ekki geta dulist.
12 En á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga. Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma. Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni.
2 Og margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar, munu upp vakna, sumir til eilífs lífs, sumir til smánar, til eilífrar andstyggðar.
3 Og hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og þeir, sem leitt hafa marga til réttlætis, eins og stjörnurnar um aldur og ævi.
4 En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa."
5 Ég, Daníel, sá og sjá, tveir aðrir englar stóðu þar, á sínum fljótsbakkanum hvor.
6 Annar þeirra sagði við manninn í línklæðunum, sem var uppi yfir fljótsvötnunum: "Hversu langt mun til endisins á þessum undursamlegu hlutum?"
7 Þá heyrði ég til mannsins í línklæðunum, sem var uppi yfir fljótsvötnunum. Hann fórnaði hægri og vinstri hendi til himins og sór við þann, sem lifir eilíflega, og sagði: "Eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð. Og þegar vald hans, sem eyðir hina helgu þjóð, er á enda, mun allt þetta fram koma."
8 Ég heyrði þetta, en skildi það ekki, og sagði því: "Herra minn, hver mun endir á þessu verða?"
9 En hann sagði: "Far þú, Daníel, því að orðunum er leyndum haldið og þau innsigluð, þar til er endirinn kemur.
10 Margir munu verða klárir, hreinir og skírir, en hinir óguðlegu munu breyta óguðlega, og engir óguðlegir munu skilja það, en hinir vitru munu skilja það.
11 Og frá þeim tíma, er hin daglega fórn verður afnumin og viðurstyggð eyðingarinnar upp reist, munu vera eitt þúsund tvö hundruð og níutíu dagar.
12 Sæll er sá, sem þolugur þreyr og nær eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dögum.
49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.
50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.
51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.
53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.
55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.
56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.
57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.
58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.
59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.
60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.
61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.
62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.
63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.
64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.
65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.
66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.
67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.
68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.
69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.
70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.
71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.
72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.
by Icelandic Bible Society