Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 7

En Elísa mælti: "Heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn: Á morgun í þetta mund mun ein sea af fínu mjöli kosta einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil í borgarhliði Samaríu."

Riddari sá, er konungur studdist við, svaraði þá guðsmanninum og mælti: "Þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti þetta verða?" Elísa svaraði: "Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta."

Fjórir menn líkþráir voru úti fyrir borgarhliði Samaríu. Sögðu þeir hver við annan: "Hví eigum vér að sitja hér, þangað til vér deyjum?

Ef vér segjum: ,Vér skulum fara inn í borgina,` þá er hungur í borginni og þá munum vér deyja þar, og ef vér sitjum hér kyrrir, munum vér og deyja. Skulum vér því fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. Ef þeir láta oss lífi halda, þá lifum vér, en drepi þeir oss, þá deyjum vér."

Stóðu þeir síðan upp í rökkrinu til þess að fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. En er þeir komu út að herbúðum Sýrlendinga, þá var þar enginn maður.

Drottinn hafði látið heyrast í herbúðir Sýrlendinga vagnagný og jódyn, gný af miklu herliði, svo að þeir sögðu hver við annan: "Sjá, Ísraelskonungur hefir leigt gegn oss konunga Hetíta og konunga Egyptalands til þess að ráðast á oss."

Þá hlupu þeir upp í rökkrinu og flýðu og létu eftir tjöld sín og hesta og asna _ herbúðirnar eins og þær voru _ og flýðu til þess að forða lífinu.

En er hinir líkþráu menn komu út að herbúðunum, gengu þeir inn í eitt tjaldið, átu og drukku, höfðu þaðan silfur, gull og klæði og gengu burt og fólu það. Síðan komu þeir aftur, gengu inn í annað tjald, höfðu og nokkuð þaðan, gengu burt og fólu.

Því næst sögðu þeir hver við annan: "Þetta er ekki rétt gjört af oss. Þessi dagur er dagur fagnaðartíðinda. En ef vér þegjum og bíðum þangað til í býti á morgun, þá mun það oss í koll koma. Vér skulum því fara og flytja tíðindin í konungshöllina."

10 Síðan fóru þeir, kölluðu til hliðvarða borgarinnar og sögðu þeim svo frá: "Vér komum í herbúðir Sýrlendinga. Þar var þá enginn maður, og engin mannsraust heyrðist, en hestar og asnar stóðu þar bundnir og tjöldin eins og þau voru."

11 Þá kölluðu hliðverðirnir og menn sögðu frá því inni í konungshöllinni.

12 Þá reis konungur upp um nóttina og sagði við menn sína: "Ég skal segja yður, hvað Sýrlendingar ætla nú að gjöra oss. Þeir vita, að vér sveltum. Hafa þeir því farið burt úr herbúðunum til þess að fela sig úti á mörkinni, með því að þeir hugsa: Þegar þeir fara út úr borginni, skulum vér taka þá höndum lifandi og brjótast inn í borgina."

13 Þá tók einn af mönnum hans til máls og sagði: "Taki menn fimm af hestunum, sem eftir eru. Fyrir þeim, sem hér eru eftir skildir, fer eins og fyrir öllum fjölda Ísraels, sem þegar er farinn veg allrar veraldar. Skulum vér senda þá til þess að vita, hvað um er að vera."

14 Tóku þeir þá tvo vagna með hestum fyrir. Sendi konungur þá á eftir her Sýrlendinga og sagði: "Farið og gætið að!"

15 Fóru þeir þá á eftir þeim alla leið til Jórdanar, og var allur vegurinn þakinn klæðum og vopnum, sem Sýrlendingar höfðu varpað frá sér, er þeir flýðu í ofboði. Sneru sendimennirnir þá við og fluttu konungi tíðindin.

16 Þá gekk lýðurinn út og rændi herbúðir Sýrlendinga, og fór þá svo, að ein sea af fínu mjöli kostaði einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil, eins og Drottinn hafði sagt.

17 En konungur setti riddarann, er hann hafði stuðst við, til að gæta hliðsins, og tróð lýðurinn hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana samkvæmt því orði guðsmannsins, er hann hafði talað, þá er konungur fór ofan til hans.

18 Því að þegar guðsmaðurinn sagði við konunginn: "Í þetta mund á morgun munu tvær seur af byggi kosta einn sikil og ein sea af fínu mjöli einn sikil í Samaríuhliði,"

19 þá svaraði riddarinn guðsmanninum og sagði: "Sjá, þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti slíkt verða?" En Elísa svaraði: "Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta."

20 Og svo fór fyrir honum. Lýðurinn tróð hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana.

Fyrra bréf Páls til Tímót 4

Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.

Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.

Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.

Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.

Það helgast af orði Guðs og bæn.

Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt.

En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu.

Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.

Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.

10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.

11 Bjóð þú þetta og kenn það.

12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.

13 Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.

14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna.

15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.

16 Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.

Daníel 11

11 Hann stendur mér við hlið til þess að veita mér lið og vernd."

Og nú vil ég kunngjöra þér sannleika: Sjá, enn munu þrír konungar koma fram í Persíu, en hinn fjórði mun afla meiri auðs en allir aðrir, og er hann er voldugur orðinn fyrir auð sinn, mun hann bjóða öllu út gegn Grikklands ríki.

Eftir það mun rísa hraustur konungur og drottna yfir víðlendu ríki og til leiðar koma því, er hann vill.

En þegar uppgangur hans er sem mestur, þá mun sundrast ríki hans og skiptast eftir fjórum áttum himinsins, en þó ekki til eftirkomenda hans, og ekki með slíku veldi, er hann hafði, því að ríki hans mun eytt verða og fengið öðrum en þeim.

Og konungurinn suður frá mun öflugur verða, en einn af höfðingjum hans mun verða öflugri en hann, og hann mun ríki ráða. Ríki hans mun verða stórveldi.

Og að nokkrum árum liðnum munu þeir mægjast hvor við annan. Þá mun dóttir konungsins suður frá koma til konungsins norður frá til þess að koma á sáttum. En sú hjálp mun að engu haldi koma, stuðningur hans mun og eigi standa. Og hún mun framseld verða, hún og þeir, sem hana höfðu flutt þangað, og faðir hennar og sá, er gekk að eiga hana, á sínum tíma.

Því næst mun í hans stað kvistur upp spretta af rótum hennar. Hann mun fara í móti liðsaflanum og komast inn í virki konungsins norður frá og fara með þá sem honum líkar, og verða voldugur.

Já, jafnvel guði þeirra, ásamt steyptum líkneskjum þeirra og dýrindiskerum af silfri og gulli, mun hann flytja hernumda til Egyptalands. Þá mun hann í nokkur ár láta konunginn norður frá í friði.

En hann mun gjöra árás á ríki konungsins suður frá og hverfa þó aftur heim í sitt land.

10 Og synir hans munu leggja út í ófrið og draga saman afar mikinn her. Og hann mun koma og vaða yfir og brjótast fram, en hann mun snúa aftur, og þeir munu herja allt að virki hans.

11 Þetta mun konunginum suður frá gremjast, og hann mun leggja af stað og berjast við hann, við konunginn norður frá. Hann mun kveðja upp mikinn her, en herinn mun seldur verða hinum á vald.

12 Og herinn mun rekinn verða burt. Hjarta hans mun ofmetnast, og hann mun tíþúsundir að velli leggja, og þó ekki reynast öflugur.

13 Þá mun konungurinn norður frá enn kveðja upp her, meiri en hinn fyrri, og að liðnum nokkrum árum mun hann koma með fjölmennum liðsafla og miklum útbúnaði.

14 Um þær mundir munu margir rísa gegn konunginum suður frá, og ofríkisfullir menn af þjóð þinni munu hefja uppreisn til þess að láta vitrunina rætast, en þeir munu steypast.

15 Og konungurinn norður frá mun koma og hlaða virkisvegg og vinna víggirta borg, og herir suðurríkisins munu eigi fá staðist og einvalalið hans mun eigi þrótt hafa til að veita viðnám.

16 Og sá sem fer í móti honum, mun gjöra það, er honum þóknast, með því að enginn fær honum viðnám veitt, og hann mun fá fótfestu í prýði landanna, og eyðing er í hendi hans.

17 Síðan mun hann ásetja sér að koma með öllum herafla ríkis síns, en hann mun gjöra sátt við hann og gefa honum unga stúlku, landinu til tjóns. En ráðagjörð hans mun eigi framgang fá og eigi takast.

18 Og hann mun snúa sér að eyjunum og vinna margar, en hershöfðingi nokkur mun gjöra enda á smánan hans, já, hann mun láta smánan hans koma yfir sjálfan hann.

19 Þá mun hann snúa sér að virkjum síns eigin lands, og hann mun hrasa og falla, og hans mun engan stað sjá framar.

20 Í hans stað mun annar koma, er senda mun skattheimtumann til þess landsins, sem er prýði ríkisins, en eftir nokkra daga mun hann drepinn verða, þó ekki í reiði né bardaga.

21 Í hans stað mun koma fyrirlitlegur maður, er þeir höfðu eigi ætlað konungstignina. Hann mun koma að óvörum og ná undir sig ríkinu með fláttskap.

22 Og yfirvaðandi herflokkar munu skolast burt fyrir honum og eyddir verða, svo og sáttmálshöfðinginn.

23 Og upp frá því, er menn hafa bundið félagsskap við hann, mun hann beita svikum. Hann mun leggja af stað fáliðaður og bera hærri hlut.

24 Að óvörum mun hann brjótast inn í frjósömustu sveitir landsins og gjöra það, sem hvorki feður hans né forfeður hafa gjört: Herfangi, rændu fé og auðæfum mun hann úthluta þeim ríkulega, og gegn virkjum mun hann hafa ráðagjörðir með höndum. Þó mun það aðeins verða um hríð.

25 Því næst mun hann beita styrk sínum og hugrekki gegn konunginum suður frá með miklum her, og konungurinn suður frá mun hefja ófrið við hann með miklum her og mjög öflugum, en þó mun hann ekki fá í móti staðið, því að menn brugga ráð í móti honum.

26 Þeir sem eta við borð hans, munu fella hann, og her hans skolast burt, og margir særðir í val falla.

27 Og báðir konungarnir munu hafa illt í hyggju og tala flærðarsamlega að hinu sama borði, en eigi mun það ná fram að ganga, því að enn er hinn tiltekni tími eigi liðinn á enda.

28 Og hann mun hverfa aftur heim í land sitt með miklum fjárhlut og snúa huga sínum í móti hinum heilaga sáttmála, og hann mun koma fram áformi sínu og hverfa síðan aftur heim í land sitt.

29 Á ákveðnum tíma mun hann aftur brjótast inn í suðurlandið, og mun síðari förin ekki takast jafnvel og hin fyrri.

30 Því að skip Rómverja munu koma í móti honum, og hann mun láta hugfallast og halda heimleiðis og snúa reiði sinni gegn hinum heilaga sáttmála og láta hann kenna á henni. Síðan mun hann hverfa heim aftur og gefa þeim gætur, sem yfirgefa hinn heilaga sáttmála.

31 Herflokkar hans munu bera hærri hlut og vanhelga helgidóminn, vígið, afnema hina daglegu fórn og reisa þar viðurstyggð eyðingarinnar.

32 Og þá sem syndga gegn sáttmálanum, mun hann með fláttskap tæla til fráhvarfs, en þeir menn, sem þekkja Guð sinn, munu stöðugir standa og drýgja dáð.

33 Hinir vitru meðal lýðsins munu kenna mörgum hyggindi, en um hríð munu þeir falla fyrir sverði og báli, fyrir herleiðingum og fjárránum.

34 Og þá er þeir falla, mun þeim veitast dálítil hjálp. Þá munu margir fylla flokk þeirra af yfirdrepskap.

35 En þar sem nokkrir af hinum vitru falla, þá er það til að skíra, reyna og hreinsa aðra meðal þeirra, allt til endalokanna, því að hinn ákveðni tími er enn ekki liðinn.

36 En konungurinn mun fram fara eftir geðþótta sínum. Hann mun hefja sig upp yfir og ofmetnast gegn sérhverjum guði og mæla afaryrði í gegn Guði guðanna. Og hann mun giftudrjúgur verða þar til reiðinni er lokið, því að það, sem ályktað hefir verið, er þá fram komið.

37 Og hann mun ekki skeyta guðum feðra sinna, né heldur uppáhaldsgoði kvennanna, já, engum guði mun hann skeyta, heldur hreykja sér yfir allt.

38 En guð virkjanna mun hann í stað þess heiðra, guð, sem feður hans þekktu ekki, mun hann heiðra, með gulli og silfri, með dýrum steinum og gersemum,

39 og í hin rammgjörðu vígin mun hann afla sér manna, er tilheyra útlendum guði. Þeim sem hann viðurkenna, mun hann veita mikla sæmd og láta þá ríkja yfir mörgum og úthluta þeim landi að verðlaunum.

40 Þegar að endalokunum líður, mun konungurinn suður frá heyja stríð við hann, og konungurinn norður frá mun þeysast í móti honum með vögnum, riddurum og mörgum skipum, og brjótast inn í lönd hans og vaða yfir þau og geysast áfram.

41 Þá mun hann og brjótast inn í það landið, sem er prýði landanna, og tíþúsundir munu að velli lagðar. En þessir munu bjarga sér undan hendi hans: Edómítar, Móabítar og kjarni Ammóníta.

42 Og hann mun rétta hönd sína út yfir löndin, og Egyptaland mun ekki komast undan.

43 Hann mun kasta eign sinni á fjársjóðu Egyptalands af gulli og silfri og á allar gersemar þess, og Líbýumenn og Blálendingar munu vera í för með honum.

44 En fregnir frá austri og norðri munu skelfa hann. Mun hann þá í mikilli bræði hefja ferð sína til þess að eyða og tortíma mörgum.

45 Hann mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði. Þá mun hann undir lok líða og enginn hjálpa honum.

Sálmarnir 119:25-48

25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.

27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.

28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.

29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.

30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.

31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.

32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.

33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.

34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.

35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.

36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.

37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.

38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.

39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.

40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.

41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,

42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.

43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.

44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,

45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,

46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,

47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,

48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society