Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 6

Spámannasveinarnir sögðu við Elísa: "Húsrýmið, þar sem vér búum hjá þér, er of lítið fyrir oss.

Leyf oss að fara ofan að Jórdan og taka þar sinn bjálkann hver, til þess að vér getum gjört oss bústað." Hann mælti: "Farið þér!"

En einn af þeim mælti: "Gjör oss þann greiða að fara með þjónum þínum." Hann mælti: "Ég skal fara."

Síðan fór hann með þeim. Þegar þeir komu að Jórdan, tóku þeir að höggva tré.

En er einn þeirra var að fella bjálka, hraut öxin af skafti út á ána. Hljóðaði hann þá upp yfir sig og mælti: "Æ, herra minn _ og það var lánsöxi!"

Þá sagði guðsmaðurinn: "Hvar datt hún?" Og er hann sýndi honum staðinn, sneið hann af viðargrein, skaut henni þar ofan í ána og lét járnið fljóta.

Síðan sagði hann: "Náðu henni nú upp!" Þá rétti hann út höndina og náði henni.

Þegar Sýrlandskonungur átti í ófriði við Ísrael, ráðgaðist hann um við menn sína og mælti: "Á þeim og þeim stað skuluð þér leggjast í launsátur."

En guðsmaðurinn sendi til Ísraelskonungs og lét segja honum: "Varast þú að fara fram hjá þessum stað, því að Sýrlendingar liggja þar í launsátri."

10 Þá sendi Ísraelskonungur á þann stað, sem guðsmaðurinn hafði nefnt við hann. Varaði hann konung þannig við í hvert sinn, og gætti hann sín þar, og það oftar en einu sinni eða tvisvar.

11 Út af þessu varð Sýrlandskonungur órór í skapi, kallaði á menn sína og sagði við þá: "Getið þér ekki sagt mér, hver af vorum mönnum ljóstrar upp fyrirætlunum vorum við Ísraelskonung?"

12 Þá sagði einn af þjónum hans: "Því er eigi svo farið, minn herra konungur, heldur flytur Elísa spámaður, sem er í Ísrael, Ísraelskonungi þau orð, sem þú talar í svefnherbergi þínu."

13 Þá sagði hann: "Farið og vitið, hvar hann er, svo að ég geti sent menn og látið sækja hann." Var honum þá sagt, að hann væri í Dótan.

14 Þá sendi hann þangað hesta og vagna og mikinn her. Komu þeir þangað um nótt og slógu hring um borgina.

15 Þegar Elísa kom út árla næsta morgun, umkringdi her með hestum og vögnum borgina. Þá sagði sveinn hans við hann: "Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?"

16 Hann svaraði: "Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru."

17 Og Elísa gjörði bæn sína og mælti: "Drottinn, opna þú augu hans, svo að hann sjái." Þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kringum Elísa.

18 Fóru Sýrlendingar nú niður í móti honum, en Elísa gjörði bæn sína til Drottins og mælti: "Slá fólk þetta með blindu." Þá sló hann það með blindu eftir beiðni Elísa.

19 Síðan sagði Elísa við þá: "Þetta er ekki vegurinn og þetta er ekki borgin. Komið með mér, ég skal fylgja yður til mannsins, sem þér leitið að." Og hann fór með þá til Samaríu.

20 En er þeir komu til Samaríu, mælti Elísa: "Drottinn, opna þú nú augu þeirra, svo að þeir sjái." Þá opnaði Drottinn augu þeirra, og þeir sáu, að þeir voru komnir inn í miðja Samaríu.

21 En er Ísraelskonungur sá þá, sagði hann við Elísa: "Faðir minn, á ég að höggva þá niður?"

22 En hann svaraði: "Eigi skalt þú höggva þá niður. Ert þú vanur að höggva þá niður, er þú hertekur með sverði þínu og boga? Set fyrir þá brauð og vatn, svo að þeir megi eta og drekka. Síðan geta þeir farið heim til herra síns."

23 Þá bjó hann þeim mikla máltíð, og þeir átu og drukku. Síðan lét hann þá í burt fara, og fóru þeir heim til herra síns. Upp frá þessu komu ránsflokkar Sýrlendinga eigi framar inn í land Ísraels.

24 Eftir þetta bar svo til, að Benhadad Sýrlandskonungur dró saman allan her sinn og fór og settist um Samaríu.

25 Þá varð hungur svo mikið í Samaríu, er þeir sátu um hana, að asnahöfuð kostaði áttatíu sikla silfurs og fjórðungur úr kab af dúfnadrit fimm sikla silfurs.

26 Þegar Ísraelskonungur var á gangi uppi á borgarveggnum, kallaði kona nokkur til hans og mælti: "Hjálpa þú, herra konungur!"

27 Hann mælti: "Ef Drottinn hjálpar þér ekki, hvaðan á ég þá að taka hjálp handa þér? Úr láfanum eða úr vínþrönginni?"

28 Og konungur sagði við hana: "Hvað viltu þá?" Hún svaraði: "Konan þarna sagði við mig: ,Sel fram son þinn og skulum við eta hann í dag, en á morgun skulum við eta minn son.`

29 Suðum við síðan minn son og átum hann. En er ég sagði við hana daginn eftir: ,Sel þú fram son þinn og skulum við eta hann,` þá fal hún son sinn."

30 Er konungur heyrði þessi ummæli konunnar, reif hann klæði sín þar sem hann stóð á múrnum. Sá þá lýðurinn, að hann hafði hærusekk á líkama sínum innstan klæða.

31 Þá sagði hann: "Guð gjöri mér hvað sem hann vill nú og síðar, ef höfuðið situr á Elísa Safatssyni til kvölds."

32 En Elísa sat í húsi sínu, og öldungarnir sátu hjá honum. Sendi þá konungur mann á undan sér, en áður en sendimaðurinn kom til hans, sagði Elísa við öldungana: "Vitið þér, að þessi morðhundur hefir sent hingað til þess að höggva af mér höfuðið? Gætið þess að loka dyrunum, þegar sendimaðurinn kemur, og standið fyrir hurðinni, svo að hann komist ekki inn. Heyrist ekki þegar fótatak húsbónda hans á eftir honum?"

33 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom konungur þegar ofan til hans og mælti: "Sjá, hvílíka ógæfu Drottinn lætur yfir dynja. Hví skyldi ég lengur vona á Drottin?"

Fyrra bréf Páls til Tímót 3

Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk.

Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari.

Ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn.

Hann á að vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði.

Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?

Hann á ekki að vera nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn.

Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.

Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, ekki tvímælismenn, ekki sólgnir í vín, ekki gefnir fyrir ljótan gróða.

Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku.

10 Einnig þessir menn séu fyrst reyndir, síðan takist þeir þjónustuna á hendur, ef þeir eru óaðfinnanlegir.

11 Svo eiga og konur að vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu.

12 Djáknar séu einkvæntir, og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum.

13 Því að þeir, sem vel hafa staðið í djáknastöðu, koma sér vel í veg og öðlast mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú.

14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín,

15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.

16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.

Daníel 10

10 Á þriðja ári Kýrusar Persakonungs fékk Daníel, sem kallaður var Beltsasar, opinberun, og opinberunin er sönn og boðar miklar þrengingar. Og hann gaf gætur að opinberuninni og hugði að sýninni.

Á þeim dögum var ég, Daníel, harmandi þriggja vikna tíma.

Ég neytti engrar dýrindisfæðu, kjöt og vín kom ekki inn fyrir varir mínar, og ég smurði mig ekki fyrr en þrjár vikur voru liðnar.

En tuttugasta og fjórða dag hins fyrsta mánaðar var ég staddur á bakka hins mikla Tígrisfljóts.

Þá hóf ég upp augu mín og sá mann nokkurn, klæddan línklæðum og gyrtan skíragulli um lendar.

Líkami hans var sem krýsolít, ásjóna hans sem leiftur, augu hans sem eldblys, armleggir hans og fætur sem skyggður eir og hljómurinn af orðum hans eins og mikill gnýr.

Ég, Daníel, sá einn sýnina, og mennirnir, sem með mér voru, sáu ekki sýnina, en yfir þá kom mikil hræðsla, og flýðu þeir í felur.

Ég varð þá einn eftir og sá þessa miklu sýn. En hjá mér var enginn máttur eftir orðinn, og yfirlitur minn var til lýta umbreyttur, og ég hélt engum styrk eftir.

Og ég heyrði hljóminn af orðum hans, og er ég heyrði hljóminn af orðum hans, hné ég í ómegin á ásjónu mína, með andlitið að jörðinni.

10 Og sjá, hönd snart mig og hjálpaði mér óstyrkum upp á knén og hendurnar.

11 Og hann sagði við mig: "Daníel, þú ástmögur Guðs, tak eftir þeim orðum, er ég tala við þig, og statt á fætur, því að ég er nú einmitt til þín sendur." Og er hann mælti til mín þessum orðum, stóð ég upp skjálfandi.

12 Því næst sagði hann við mig: "Óttast þú ekki, Daníel, því að frá því er þú fyrst hneigðir hug þinn til að öðlast skilning og þú lítillættir þig fyrir Guði þínum, eru orð þín heyrð, og ég er vegna orða þinna hingað kominn.

13 En verndarengill Persaríkis stóð í móti mér tuttugu og einn dag, en sjá, Míkael, einn af fremstu verndarenglunum, kom mér til hjálpar, og hann skildi ég eftir þar hjá Persakonungum.

14 Og nú er ég kominn til að fræða þig á því, sem fram við þjóð þína mun koma á hinum síðustu tímum, því að enn á sýnin við þá daga."

15 Og er hann talaði þessum orðum til mín, leit ég til jarðar og þagði.

16 Og sjá, einhver í mannslíki snart varir mínar, og ég lauk upp munni mínum, talaði og sagði við þann, sem stóð frammi fyrir mér: "Herra minn, sökum sýnarinnar eru kvalir þessar yfir mig komnar, og kraftur minn er þrotinn.

17 Og hvernig ætti ég, þjónn þinn, herra, að geta talað við slíkan mann sem þú ert, herra? Og nú er allur kraftur minn að þrotum kominn, og enginn lífsandi er í mér eftir orðinn."

18 Sá sem í mannslíki var, snart mig þá aftur, styrkti mig

19 og sagði: "Óttast þú ekki, ástmögur, friður sé með þér! Vertu hughraustur, vertu hughraustur!" Og er hann talaði við mig, fann ég að ég styrktist og sagði: "Tala þú, herra minn, því að þú hefir gjört mig styrkan."

20 Þá sagði hann: "Veistu, hvers vegna ég er til þín kominn? En nú verð ég að snúa aftur til þess að berjast við verndarengil Persíu, og þegar ég fer af stað, sjá, þá kemur verndarengill Grikklands.

21 Þó vil ég gjöra þér kunnugt, hvað skrifað er í bók sannleikans, þótt enginn veiti mér lið móti þeim, nema Míkael, verndarengill yðar.

Sálmarnir 119:1-24

119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.

Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta

og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.

Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.

Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.

Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.

Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.

Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.

11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.

14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.

15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.

16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.

17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.

18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.

19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.

20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.

21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.

22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.

23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.

24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society