M’Cheyne Bible Reading Plan
5 Naaman, hershöfðingi Sýrlandskonungs, var í miklum metum hjá herra sínum og í hávegum hafður, því að undir forustu hans hafði Drottinn veitt Sýrlendingum sigur. Var maðurinn hinn mesti kappi, en líkþrár.
2 Sýrlendingar höfðu farið herför í smáflokkum og haft burt af Ísraelslandi unga stúlku. Þjónaði hún konu Naamans.
3 Hún sagði við húsmóður sína: "Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána."
4 Þá fór Naaman og sagði herra sínum frá á þessa leið: "Svo og svo hefir stúlkan frá Ísraelslandi talað."
5 Þá mælti Sýrlandskonungur: "Far þú, ég skal senda Ísraelskonungi bréf." Lagði Naaman þá af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund sikla gulls og tíu alklæðnaði.
6 Hann færði Ísraelskonungi bréfið, er var á þessa leið: "Þegar bréf þetta kemur þér í hendur, þá skalt þú vita, að ég hefi sent til þín Naaman þjón minn, og skalt þú losa hann við líkþrá hans."
7 En er Ísraelskonungur hafði lesið bréfið, reif hann klæði sín og mælti: "Er ég þá Guð, er deytt geti og lífgað, fyrst hann gjörir mér orð um að losa mann við líkþrá hans? Megið þér þar sjá og skynja, að hann leitar saka við mig."
8 En er Elísa, guðsmaðurinn, frétti, að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín, sendi hann til konungs og lét segja honum: "Hví rífur þú klæði þín? Komi hann til mín, þá skal hann komast að raun um, að til er spámaður í Ísrael."
9 Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar úti fyrir húsdyrum Elísa.
10 Þá sendi Elísa mann til hans og lét segja honum: "Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!"
11 Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti: "Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt.
12 Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?" Sneri hann sér þá við og hélt burt í reiði.
13 Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu: "Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ,Lauga þig og munt þú hreinn verða`?"
14 Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn.
15 Þá hvarf hann aftur til guðsmannsins og allt hans föruneyti, og er hann kom þangað, gekk hann fyrir hann og mælti: "Nú veit ég, að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael, og þigg nú gjöf af þjóni þínum."
16 En Elísa mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er ég þjóna: Ég tek ekki við neinu!" Og þótt hann legði að honum að taka við því, þá færðist hann undan.
17 Þá mælti Naaman: "Ef ekki, þá lát þó gefa þjóni þínum mold á tvo múla, því að þjónn þinn mun eigi framar færa brennifórnir og sláturfórnir neinum guðum öðrum en Drottni.
18 Það eitt verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum: Þegar herra minn gengur í musteri Rimmons til þess að biðjast þar fyrir, og hann þá styðst við hönd mína, svo að ég fell fram í musteri Rimmons, þegar hann fellur fram í musteri Rimmons, _ það verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum."
19 En Elísa mælti til hans: "Far þú í friði." En er Naaman var kominn spölkorn frá honum,
20 þá sagði Gehasí, sveinn Elísa, guðsmannsins, við sjálfan sig: "Sjá, herra minn hefir hlíft Naaman þessum sýrlenska og ekki þegið af honum það, sem hann kom með. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal ég hlaupa á eftir honum og þiggja eitthvað af honum."
21 Hélt Gehasí nú á eftir Naaman. En er Naaman sá mann koma hlaupandi á eftir sér, stökk hann af vagninum, gekk í móti honum og mælti: "Er nokkuð að?"
22 Gehasí svaraði: "Nei, en herra minn sendir mig og lætur segja þér: ,Rétt í þessu komu til mín frá Efraímfjöllum tveir sveinar af spámannasveinunum. Gef mér handa þeim talentu silfurs og tvo alklæðnaði."`
23 Naaman svaraði: "Gjör þú mér þann greiða að taka við tveimur talentum!" Og hann lagði að honum og batt tvær talentur silfurs í tvo sjóðu, svo og tvo alklæðnaði og fékk tveimur sveinum sínum, og báru þeir það fyrir honum.
24 En er þeir komu á hæðina, þá tók Gehasí við því af þeim, geymdi það í húsinu og lét mennina fara burt, og fóru þeir leiðar sinnar.
25 Síðan fór hann inn og gekk fyrir herra sinn. En Elísa sagði við hann: "Hvaðan kemur þú, Gehasí?" Hann svaraði: "Þjónn þinn hefir alls ekkert farið."
26 Og Elísa sagði við hann: "Ég fylgdi þér í anda, þegar maðurinn sneri frá vagni sínum í móti þér. Nú hefir þú fengið silfur og munt fá klæði, olíutré, víngarða, sauði og naut, þræla og ambáttir.
27 En líkþrá Naamans mun ávallt loða við þig og niðja þína." Gekk hann þá burt frá honum hvítur sem snjór af líkþrá.
2 Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum,
2 fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.
3 Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði,
4 sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.
5 Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús,
6 sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma.
7 Til að boða hann er ég skipaður prédikari og postuli, _ ég tala sannleika, lýg ekki _, kennari heiðingja í trú og sannleika.
8 Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu.
9 Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum,
10 heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka.
11 Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni.
12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát.
13 Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva.
14 Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg.
15 En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.
9 Á fyrsta ríkisári Daríusar Ahasverussonar, sem var medískur að ætt og orðinn konungur yfir ríki Kaldea,
2 á fyrsta ári ríkisstjórnar hans, hugði ég, Daníel, í ritningunum að áratölu þeirri, er Jerúsalem átti að liggja í rústum, samkvæmt orði Drottins, því er til Jeremía spámanns hafði komið, sem sé sjötíu ár.
3 Ég sneri þá ásjónu minni til Drottins Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku.
4 Ég bað til Drottins, Guðs míns, gjörði játningu mína og sagði: "Æ, Drottinn, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.
5 Vér höfum syndgað og illa gjört, vér höfum breytt óguðlega og verið þér mótsnúnir og vikið frá boðum þínum og setningum.
6 Vér höfum ekki hlýtt þjónum þínum, spámönnunum, sem töluðu í þínu nafni til konunga vorra, höfðingja og feðra og til alls landslýðsins.
7 Þú, Drottinn, ert réttlátur, en vér megum blygðast vor, sem vér og gjörum í dag, vér Júdamenn og Jerúsalembúar og allur Ísrael, bæði þeir sem nálægir eru og þeir sem fjarlægir eru í öllum þeim löndum, þangað sem þú hefir rekið þá fyrir tryggðrof þeirra, er þeir hafa í frammi við þig haft.
8 Drottinn, vér megum blygðast vor, konungar vorir, höfðingjar vorir og feður vorir, því að vér höfum syndgað móti þér.
9 En hjá Drottni, Guði vorum, er miskunnsemi og fyrirgefning, því að vér höfum verið honum mótsnúnir
10 og ekki hlýtt raustu Drottins Guðs vors, að breyta eftir boðorðum hans, þeim er hann fyrir oss lagði fyrir munn þjóna sinna, spámannanna.
11 Já, allur Ísrael hefir brotið lögmál þitt, hefir vikið frá þér, svo að hann hlýðir eigi framar raustu þinni. Þá var þeirri eiðfestu bölvan úthellt yfir oss, sem skrifuð er í lögmáli Móse, þjóns Guðs, því að vér höfum syndgað móti honum.
12 Og hann efndi orð sín, þau er hann hafði talað gegn oss og dómurum vorum, þeim er yfirráð höfðu yfir oss, að hann skyldi láta mikla ógæfu yfir oss koma, svo að hvergi á jarðríki hefir slík ógæfa orðið sem í Jerúsalem.
13 Eins og skrifað er í lögmáli Móse um alla þessa ógæfu, svo er hún yfir oss komin. Og vér höfum ekki blíðkað Drottin Guð vorn með því að hverfa frá misgjörðum vorum og gefa gætur að trúfesti þinni.
14 Og Drottinn vakti yfir ógæfunni og lét hana yfir oss koma, því að Drottinn Guð vor er réttlátur í öllum verkum sínum, þeim er hann gjörir, en vér höfum eigi hlýtt raustu hans.
15 Og nú, Drottinn Guð vor, þú sem útleiddir lýð þinn af Egyptalandi með sterkri hendi og afrekaðir þér mikið nafn fram á þennan dag, vér höfum syndgað, vér höfum breytt óguðlega.
16 Drottinn, lát þú samkvæmt réttlæti því, er þú ávallt hefir sýnt, gremi þína og heiftarreiði þína hverfa frá borg þinni Jerúsalem, þínu heilaga fjalli, því að fyrir syndir vorar og misgjörðir feðra vorra er Jerúsalem og lýður þinn orðinn að háðung hjá öllum þeim, sem umhverfis oss búa.
17 Heyr nú, Guð vor, bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans og lát ásjónu þína lýsa, fyrir sjálfs þín sakir, Drottinn, yfir helgidóm þinn, sem nú er í eyði.
18 Hneig, Guð minn, eyra þitt og heyr, ljúk upp augum þínum og sjá eyðing vora og borgina, sem nefnd er eftir nafni þínu, því að ekki framberum vér auðmjúkar bænir fyrir þig í trausti til vors eigin réttlætis, heldur í trausti til þinnar miklu miskunnsemi.
19 Drottinn, heyr! Drottinn, fyrirgef! Drottinn, hygg að og framkvæm! Tef eigi, fyrir sjálfs þín sakir, Guð minn, því að eftir þínu nafni er borg þín nefnd og lýður þinn!"
20 Meðan ég enn var að tala, baðst fyrir og játaði syndir mínar og syndir lýðs míns, Ísraels, og frambar fyrir Drottin Guð minn auðmjúka bæn fyrir hinu heilaga fjalli Guðs míns,
21 já, meðan ég enn var að tala í bæninni, kom að mér um það bil, er kveldfórn er fram borin, maðurinn Gabríel, sem ég hafði áður séð í sýninni, þá er ég hné í ómegin.
22 Hann kom og talaði við mig og sagði: "Daníel, nú er ég út genginn til þess að veita þér glöggan skilning.
23 Þegar þú byrjaðir bæn þína, út gekk orð, og er ég hingað kominn til að kunngjöra þér það, því að þú ert ástmögur Guðs. Tak því eftir orðinu og gef gætur að vitraninni.
24 Sjötíu sjöundir eru ákveðnar lýð þínum og þinni heilögu borg til þess að drýgja glæpinn til fulls og fylla mæli syndanna og til þess að friðþægja fyrir misgjörðina og leiða fram eilíft réttlæti, til þess að innsigla vitrun og spámann og vígja hið háheilaga.
25 Vit því og hygg að: Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja, eru sjö sjöundir, og í sextíu og tvær sjöundir skulu torg hennar og stræti endurreist verða, þó að þrengingartímar séu.
26 Og eftir þær sextíu og tvær sjöundir mun hinn smurði afmáður verða, og hann mun ekkert eiga, og borgina og helgidóminn mun eyða þjóð höfðingja nokkurs, sem koma á, en hann mun farast í refsidómsflóðinu, og allt til enda mun ófriður haldast við og sú eyðing, sem fastráðin er.
27 Og hann mun gjöra fastan sáttmála við marga um eina sjöund, og um miðja sjöundina mun hann afnema sláturfórn og matfórn, og á vængjum viðurstyggðarinnar mun eyðandinn koma, en eftir það mun gjöreyðing, og hún fastráðin, steypast yfir eyðandann."
117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,
2 því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
by Icelandic Bible Society