M’Cheyne Bible Reading Plan
3 Jóram, sonur Akabs, varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á átjánda ríkisári Jósafats Júdakonungs og ríkti tólf ár.
2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og faðir hans og móðir hans, því að hann tók burt Baalsmerkissteinana, sem faðir hans hafði gjöra látið.
3 En við syndir Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, hélt hann fast og lét ekki af þeim.
4 Mesa, konungur í Móab, átti miklar hjarðir. Greiddi hann Ísraelskonungi í skatt hundrað þúsund lömb og ull af hundrað þúsund hrútum.
5 En er Akab var dáinn, braust Móabskonungur undan Ísraelskonungi.
6 Lagði Jóram konungur þá af stað frá Samaríu og kannaði allan Ísrael.
7 Hann sendi og þegar til Jósafats Júdakonungs og lét segja honum: "Móabskonungur hefir brotist undan mér. Vilt þú fara með mér í hernað á móti Móabítum?" "Fara mun ég," svaraði hann, "ég sem þú, mín þjóð sem þín þjóð, mínir hestar sem þínir hestar."
8 Og hann sagði: "Hvaða leið eigum við að fara?" Jóram svaraði: "Leiðina um Edómheiðar."
9 Fóru þeir nú af stað, Ísraelskonungur, Júdakonungur og konungurinn í Edóm. Og er þeir höfðu farið sjö dagleiðir, hafði herinn ekkert vatn og ekki heldur skepnurnar, sem þeir höfðu með sér.
10 Þá sagði Ísraelskonungur: "Æ, Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum."
11 En Jósafat mælti: "Er hér enginn spámaður Drottins, að vér getum látið hann ganga til frétta við Drottin?" Þá svaraði einn af þjónum Ísraelskonungs og sagði: "Hér er Elísa Safatsson, sem hellt hefir vatni á hendur Elía."
12 Jósafat sagði: "Hjá honum er orð Drottins!" Síðan gengu þeir Ísraelskonungur, Jósafat og konungurinn í Edóm ofan til hans.
13 En Elísa sagði við Ísraelskonung: "Hvað á ég saman við þig að sælda? Gakk þú til spámanna föður þíns og til spámanna móður þinnar." Ísraelskonungur svaraði honum: "Nei, því að Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum."
14 Þá mælti Elísa: "Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna: Væri það ekki vegna Jósafats Júdakonungs, þá skyldi ég ekki renna til þín auga né virða þig viðlits.
15 En sækið þér nú hörpuleikara." Í hvert sinn sem hörpuleikarinn sló hörpuna, hreif hönd Drottins Elísa.
16 Og hann mælti: "Svo segir Drottinn: Gjörið gryfju við gryfju í dal þessum,
17 því að svo segir Drottinn: Þér munuð hvorki sjá vind né regn, og þó mun þessi dalur fyllast vatni, svo að þér megið drekka, svo og her yðar og skepnur.
18 En Drottni þykir þetta of lítið, hann mun og gefa Móabíta í hendur yðar.
19 Og þér munuð vinna allar víggirtar borgir og allar úrvalsborgir, fella öll aldintré og stemma allar vatnslindir, og öllum góðum ökrum munuð þér spilla með grjóti."
20 Morguninn eftir, í það mund er matfórnin er fram borin, kom allt í einu vatn úr áttinni frá Edóm, svo að landið fylltist vatni.
21 En er allir Móabítar heyrðu, að konungarnir væru komnir til þess að herja á þá, var öllum boðið út, er vopnum máttu valda, og námu þeir staðar á landamærunum.
22 En er þeir risu um morguninn og sólin skein á vatnið, sýndist Móabítum álengdar vatnið vera rautt sem blóð.
23 Þá sögðu þeir: "Þetta er blóð! Konungunum hlýtur að hafa lent saman og þeir hafa unnið hvor á öðrum, og nú er að hirða herfangið, Móabítar!"
24 En er þeir komu að herbúðum Ísraels, þustu Ísraelsmenn út og börðu á Móabítum, svo að þeir flýðu fyrir þeim. Síðan brutust þeir inn í landið og unnu nýjan sigur á Móabítum.
25 En borgirnar brutu þeir niður, og á alla góða akra vörpuðu þeir sínum steininum hver og fylltu þá grjóti, og allar vatnslindir stemmdu þeir og öll aldintré felldu þeir, uns eigi var annað eftir en steinmúrarnir í Kír Hareset. Umkringdu slöngvumennirnir hana og köstuðu á hana.
26 En er Móabskonungur sá, að hann mundi fara halloka í orustunni, tók hann með sér sjö hundruð manna, er sverð báru, til þess að brjótast út þar sem Edómkonungur var fyrir, en þeir gátu það ekki.
27 Þá tók hann frumgetinn son sinn, er taka átti ríki eftir hann, og fórnaði honum í brennifórn á múrnum. Kom þá mikil hryggð yfir Ísrael, og héldu þeir burt þaðan og hurfu aftur heim í land sitt.
3 Að endingu, bræður: Biðjið fyrir oss, að orð Drottins megi hafa framgang og vegsamast eins og hjá yður,
2 og að vér mættum frelsast frá spilltum og vondum mönnum. Því að ekki er trúin allra.
3 En trúr er Drottinn og hann mun styrkja yður og vernda fyrir hinum vonda.
4 En vér höfum það traust til yðar vegna Drottins, að þér bæði gjörið og munuð gjöra það, sem vér leggjum fyrir yður.
5 En Drottinn leiði hjörtu yðar til kærleika Guðs og þolgæðis Krists.
6 En vér bjóðum yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér sneiðið hjá hverjum þeim bróður, er lifir óreglulega og ekki eftir þeirri kenningu, sem þeir hafa numið af oss.
7 Því að sjálfir vitið þér, hvernig á að breyta eftir oss. Ekki hegðuðum vér oss óreglulega hjá yður,
8 neyttum ekki heldur brauðs hjá neinum fyrir ekkert, heldur unnum vér með erfiði og striti nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla.
9 Ekki af því að vér höfum ekki rétt til þess, heldur til þess að vér gæfum yður sjálfa oss sem fyrirmynd til eftirbreytni.
10 Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.
11 Vér heyrum, að nokkrir meðal yðar lifi óreglulega, vinni ekkert, heldur gefi sig alla að því, sem þeim kemur eigi við.
12 Slíkum mönnum bjóðum vér og áminnum þá vegna Drottins Jesú Krists, að vinna kyrrlátlega og eta eigið brauð.
13 En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra.
14 En ef einhver hlýðir ekki orðum vorum í bréfi þessu, þá merkið yður þann mann. Hafið ekkert samfélag við hann, til þess að hann blygðist sín.
15 En álítið hann þó ekki óvin, heldur áminnið hann sem bróður.
16 En sjálfur Drottinn friðarins gefi yður friðinn, ætíð á allan hátt. Drottinn sé með yður öllum.
17 Kveðjan er með minni, Páls, eigin hendi, og það er merki á hverju bréfi. Þannig skrifa ég.
7 Á fyrsta ríkisári Belsasars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum, og sýnir bar fyrir hann í rekkju hans. Síðan skrásetti hann drauminn og sagði frá aðalatriðunum.
2 Daníel hóf upp og sagði: Ég sá í sýn minni á næturþeli, hversu þeir fjórir vindar himinsins rótuðu upp hinu mikla hafi.
3 Og fjögur stór dýr stigu upp af hafinu, hvert öðru ólíkt.
4 Fyrsta dýrið líktist ljóni og hafði arnarvængi. Ég horfði á það, þar til er vængir þess voru reyttir af því, og því var lyft upp frá jörðinni og reist á fæturna eins og maður, og því var fengið mannshjarta.
5 Og sjá, þá kom annað dýr, hið annað í röðinni. Það var líkt bjarndýri. Það var risið upp á aðra hliðina og hafði þrjú rif í munni sér milli tannanna. Til þess var mælt: "Statt upp og et mikið kjöt."
6 Eftir þetta sá ég enn dýr, líkt pardusdýri, og hafði það fjóra fuglsvængi á síðunum. Þetta dýr hafði fjögur höfuð, og því var vald gefið.
7 Eftir þetta sá ég í nætursýnum fjórða dýrið. Það var hræðilegt, ógurlegt og yfirtaks öflugt. Það hafði stórar járntennur, át og muldi sundur, og það, sem eftir varð, tróð það sundur með fótunum. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og hafði tíu horn.
8 Ég athugaði hornin og sá þá, hvar annað lítið horn spratt upp milli þeirra, og þrjú af fyrri hornunum voru slitin upp fyrir það. Og sjá, þetta horn hafði augu, eins og mannsaugu, og munn, sem talaði gífuryrði.
9 Ég horfði og horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. Klæði hans voru hvít sem snjór og höfuðhár hans sem hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því eldur brennandi.
10 Eldstraumur gekk út frá honum, þúsundir þúsunda þjónuðu honum og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum. Dómendurnir settust niður og bókunum var flett upp.
11 Ég horfði og horfði vegna hinna háværu stóryrða, sem hornið talaði, þar til er dýrið var drepið, líkami þess eyðilagður og honum kastað í eld til að brennast.
12 Vald hinna dýranna var og frá þeim tekið og þeim afmarkað lífskeið til ákveðins tíma og stundar.
13 Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann.
14 Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.
15 Út af þessu varð ég, Daníel, sturlaður, og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig.
16 Ég gekk þá til eins af þeim, er þar stóðu, og bað hann um áreiðanlega skýring á öllu þessu. Hann talaði til mín og sagði mér svofellda þýðing alls þessa:
17 Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja það, að fjórir konungar munu hefjast á jörðinni,
18 en hinir heilögu Hins hæsta munu eignast ríkið, og þeir munu halda ríkinu ævinlega og um aldir alda.
19 Þá vildi ég fá áreiðanlega vitneskju um fjórða dýrið, sem var ólíkt öllum hinum dýrunum, ógurlegt mjög, með járntönnum og eirklóm, sem át, knosaði og sundur tróð með fótunum það, sem það leifði,
20 svo og um hornin tíu, sem voru á höfði þess, og um hitt hornið, sem þar spratt upp og þrjú hornin féllu fyrir, þetta horn, sem hafði augu og munn, er talaði gífuryrði og meira var ásýndum en hin.
21 Ég horfði á, hvernig horn þetta háði stríð við hina heilögu og hafði sigur yfir þeim,
22 þar til er hinn aldraði kom og hinir heilögu Hins hæsta fengu náð rétti sínum og sá tími kom, að hinir heilögu settust að völdum.
23 Hann sagði svo: Fjórða dýrið merkir, að fjórða konungsríkið mun rísa upp á jörðinni, sem ólíkt mun verða öllum hinum konungsríkjunum, og það mun upp svelgja öll lönd, niður troða þau og sundur merja.
24 Og hornin tíu merkja það, að af þessu ríki munu upp koma tíu konungar, og annar konungur mun upp rísa eftir þá, og hann mun verða ólíkur hinum fyrri, og þremur konungum mun hann steypa.
25 Hann mun orð mæla gegn Hinum hæsta, kúga hina heilögu Hins hæsta og hafa í hyggju að umbreyta helgitíðum og lögum, og þeir munu honum í hendur seldir verða um eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð.
26 En dómurinn mun settur verða og hann sviptur völdum til þess að afmá þau með öllu og að engu gjöra.
27 En ríki, vald og máttur allra konungsríkja, sem undir himninum eru, mun gefið verða heilögum lýð Hins hæsta. Ríki hans mun verða eilíft ríki, og öll veldi munu þjóna því og hlýða.
28 Hér er það mál á enda. En mig, Daníel, skelfdu hugsanir mínar mjög, svo að ég gjörðist litverpur, og ég geymdi þetta í hjarta mínu.
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"
3 En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
6 þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.
7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.
8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.
9 En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,
13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.
14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.
15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.
16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.
by Icelandic Bible Society