M’Cheyne Bible Reading Plan
2 Þegar Drottinn ætlaði að láta Elía fara til himins í stormviðri, voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal.
2 Þá sagði Elía við Elísa: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Betel." En Elísa svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá ofan til Betel.
3 Spámannasveinar þeir, er voru í Betel, gengu út á móti Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"
4 Þá sagði Elía við hann: "Elísa, vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jeríkó." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá til Jeríkó.
5 Þá gengu spámannasveinar þeir, er voru í Jeríkó, til Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"
6 Þá sagði Elía við hann: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jórdanar." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá báðir saman.
7 En fimmtíu manns af spámannasveinunum fóru og námu staðar til hliðar í nokkurri fjarlægð, en hinir báðir gengu að Jórdan.
8 Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló á vatnið. Skipti það sér þá til beggja hliða, en þeir gengu báðir yfir um á þurru.
9 En er þeir voru komnir yfir um, sagði Elía við Elísa: "Bið þú mig einhvers, er ég megi veita þér, áður en ég verð numinn burt frá þér." Elísa svaraði: "Mættu mér þá hlotnast tveir hlutar af andagift þinni."
10 Þá mælti Elía: "Til mikils hefir þú mælst. En ef þú sér mig, er ég verð numinn burt frá þér, þá mun þér veitast það, ella eigi."
11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri.
12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar. Þá þreif hann í klæði sín og reif þau sundur í tvo hluti.
13 Síðan tók hann upp skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sneri við og gekk niður á Jórdanbakka,
14 tók skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sló á vatnið og sagði: "Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?" En er hann sló á vatnið, skipti það sér til beggja hliða, en Elísa gekk yfir um.
15 Þegar spámannasveinarnir í Jeríkó sáu það hinumegin, sögðu þeir: "Andi Elía hvílir yfir Elísa." Gengu þeir í móti honum, lutu til jarðar fyrir honum
16 og sögðu við hann: "Sjá, hér eru fimmtíu röskir menn með þjónum þínum. Lát þá fara og leita að herra þínum, ef andi Drottins kynni að hafa hrifið hann og varpað honum á eitthvert fjallið eða ofan í einhvern dalinn." En Elísa mælti: "Eigi skuluð þér senda þá."
17 En er þeir lögðu mjög að honum, mælti hann: "Sendið þér þá." Sendu þeir þá fimmtíu manns, og leituðu þeir hans í þrjá daga, en fundu hann ekki.
18 Sneru þeir þá aftur til Elísa, og var hann þá enn í Jeríkó. Þá sagði hann við þá: "Sagði ég yður ekki, að þér skylduð ekki fara?"
19 Borgarmenn Jeríkó sögðu við Elísa: "Borg þessi liggur að vísu vel, eins og þú sjálfur sérð, herra, en vatnið er vont, og landið veldur því, að konur fæða fyrir tímann."
20 Hann sagði við þá: "Færið mér nýja skál og látið í hana salt." Þeir gjörðu svo.
21 Og hann gekk út að uppsprettu vatnsins, kastaði saltinu í hana og mælti: "Svo segir Drottinn: Ég gjöri vatn þetta heilnæmt. Upp frá þessu skal það eigi valda dauða né ótímaburði."
22 Þá varð vatnið heilnæmt samkvæmt orði Elísa, því er hann hafði talað, og er svo enn í dag.
23 Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: "Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!"
24 Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum.
25 Þaðan fór hann til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.
2 En að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður,
2 að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur Drottins væri þegar fyrir höndum.
3 Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar,
4 sem setur sig á móti Guði og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði.
5 Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður?
6 Og þér vitið, hvað aftrar honum nú, til þess að hann opinberist á sínum tíma.
7 Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af.
8 Þá mun lögleysinginn opinberast, _ og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína.
9 Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum
10 og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir.
11 Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni.
12 Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu.
13 En alltaf hljótum vér að þakka Guði fyrir yður, bræður, sem Drottinn elskar. Guð hefur frá upphafi útvalið yður til frelsunar í helgun andans og trú á sannleikann.
14 Til þess kallaði hann yður fyrir fagnaðarboðskap vorn, að þér skylduð öðlast dýrð Drottins vors Jesú Krists.
15 Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi.
16 En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von,
17 huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.
6 Daríus frá Medalandi tók við ríkinu og hafði þá tvo vetur um sextugt.
2 Daríusi þóknaðist að setja yfir ríkið hundrað og tuttugu jarla, er skipað skyldi niður um allt ríkið,
3 og yfir þá þrjá yfirhöfðingja, og var Daníel einn af þeim. Skyldu jarlarnir gjöra þeim skilagrein, svo að konungur biði engan skaða.
4 Þá bar Daníel þessi af yfirhöfðingjunum og jörlunum, sökum þess að hann hafði frábæran anda, og hugði konungur að setja hann yfir allt ríkið.
5 Þá leituðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að finna Daníel eitthvað til saka viðvíkjandi ríkisstjórninni, en gátu enga sök eða ávirðing fundið, því að hann var trúr, svo að ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum.
6 Þá sögðu þessir menn: "Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans."
7 Þá þustu þessir yfirhöfðingjar og jarlar til konungs og sögðu svo við hann: "Daríus konungur lifi eilíflega!
8 Öllum yfirhöfðingjum ríkisins, landstjórum, jörlum, ráðgjöfum og landshöfðingjum hefir komið ásamt um að gefa út þá konungsskipun og staðfesta það forboð, að hver sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju.
9 Nú skalt þú, konungur, gefa út forboð þetta og láta það skriflegt út ganga, svo að því verði ekki breytt, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa."
10 Samkvæmt þessu lét konungur gefa skriflega út skipunina og bannið.
11 En er Daníel varð þess vísari, að þessi skipun var út gefin, gekk hann inn í hús sitt. Þar hafði hann uppi í loftstofu sinni opna glugga, er sneru móti Jerúsalem, og þrem sinnum á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann, eins og hann hafði áður verið vanur að gjöra.
12 Þá þustu þessir menn að og fundu Daníel, þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.
13 Síðan gengu þeir inn fyrir konung og spurðu hann viðvíkjandi konungsforboðinu: "Hefir þú eigi gefið út það forboð, að hver sá maður, sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju?" Konungur svaraði og sagði: "Það stendur fast, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa."
14 Þá svöruðu þeir og sögðu við konung: "Daníel, einn af hinum herleiddu Gyðingum, skeytir hvorki um þig, konungur, né um það forboð, sem þú hefir út gefið, heldur gjörir bæn sína þrem sinnum á dag."
15 Þegar konungur heyrði þetta, féll honum það næsta þungt, og lagði hann allan hug á að frelsa Daníel, og allt til sólarlags leitaði hann alls við, að hann fengi borgið honum.
16 Þá þustu þessir sömu menn til konungs og sögðu við hann: "Þú veist, konungur, að það eru lög hjá Medum og Persum, að ekki má raska því banni eða boði, sem konungur hefir út gefið."
17 Þá bauð konungur að leiða Daníel fram og kasta honum í ljónagryfjuna. Og konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Guð þinn, sem þú dýrkar án afláts, frelsi þig!"
18 Síðan var sóttur steinn og lagður yfir gryfjumunnann, og innsiglaði konungur hann með innsiglishring sínum og með innsiglishringum stórhöfðingja sinna, til þess að sú ráðstöfun, sem gjörð hafði verið við Daníel, skyldi eigi raskast.
19 Eftir það gekk konungur heim til hallar sinnar og var þar um nóttina fastandi. Frillur lét hann eigi leiða inn til sín, og eigi kom honum dúr á auga.
20 Síðan reis konungur á fætur í dögun, þá er lýsa tók, og skundaði til ljónagryfjunnar.
21 Og er hann kom að gryfjunni, kallaði hann á Daníel með sorgfullri raust. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Daníel, þú þjónn hins lifanda Guðs, hefir Guð þinn, sá er þú dýrkar án afláts, megnað að frelsa þig frá ljónunum?"
22 Þá sagði Daníel við konung: "Konungurinn lifi eilíflega!
23 Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna, svo að þau gjörðu mér ekkert mein, af því að ég er saklaus fundinn frammi fyrir honum, og hefi ekki heldur framið neitt brot gagnvart þér, konungur!"
24 Þá varð konungur næsta glaður og bauð að draga Daníel upp úr gryfjunni. Var Daníel þá dreginn upp úr gryfjunni, og fannst ekki að honum hefði neitt að skaða orðið, því að hann hafði treyst Guði sínum.
25 En konungur bauð að leiða fram menn þá, er rægt höfðu Daníel, og kasta þeim, börnum þeirra og konum í ljónagryfjuna. Og áður en þeir komust til botns í gryfjunni, hremmdu ljónin þá og muldu sundur öll bein þeirra.
26 Síðan ritaði Daríus konungur öllum lýðum, þjóðum og tungum, sem búa á allri jörðinni: "Gangi yður allt til gæfu!
27 Ég læt þá skipun út ganga, að í öllu veldi ríkis míns skulu menn hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans gengur ekki á grunn og veldi hans varir allt til enda.
28 Hann frelsar og bjargar, hann gjörir tákn og furðuverk á himni og jörðu, hann sem frelsaði Daníel undan ljónunum."
29 Og Daníel þessi var í miklu gengi á ríkisstjórnarárum Daríusar og á ríkisstjórnarárum Kýrusar hins persneska.
112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.
5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt
6 og horfir djúpt á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
by Icelandic Bible Society