M’Cheyne Bible Reading Plan
1 Eftir dauða Akabs braust Móab undan Ísrael.
2 Ahasía féll ofan um grindurnar á loftsal sínum í Samaríu og varð sjúkur. Þá gjörði hann út sendimenn og sagði við þá: "Farið og gangið til frétta við Baal Sebúb, guðinn í Ekron, hvort ég muni heill verða af þessum sjúkdómi."
3 En engill Drottins sagði við Elía Tisbíta: "Tak þig upp og far á móti sendimönnum konungsins í Samaríu og seg við þá: ,Það er víst enginn guð til í Ísrael, úr því þér farið til þess að ganga til frétta við Baal Sebúb, guðinn í Ekron?
4 Fyrir því segir Drottinn svo: Úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, skalt þú ekki rísa, heldur skalt þú deyja."` Síðan fór Elía burt.
5 Þá er sendimennirnir komu aftur til konungs, sagði hann við þá: "Hví eruð þér komnir aftur?"
6 Þeir svöruðu honum: "Maður kom á móti oss og sagði við oss: ,Farið og snúið aftur heim til konungsins, er yður sendi, og segið við hann: Svo segir Drottinn: Það er víst enginn guð til í Ísrael, úr því þú sendir til þess að leita frétta hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron. Fyrir því skalt þú eigi rísa úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, heldur skalt þú deyja."`
7 Þá mælti konungur við þá: "Hvernig var sá maður í hátt, sem kom á móti yður og talaði þessi orð við yður?"
8 Þeir svöruðu honum: "Hann var í skinnfeldi og gyrður leðurbelti um lendar sér." Þá mælti hann: "Það hefir verið Elía frá Tisbe."
9 Þá sendi konungur fimmtíumannaforingja og fimmtíu menn hans með honum til Elía. Fór hann þá upp til hans _ en hann sat efst uppi á fjalli _ og sagði við hann: "Þú guðsmaður! Konungur segir: Kom þú ofan!"
10 Elía svaraði og sagði við fimmtíumannaforingjann: "Sé ég guðsmaður, þá falli eldur af himni og eyði þér og þínum fimmtíu mönnum." Féll þá eldur af himni og eyddi honum og mönnum hans fimmtíu.
11 Og konungur sendi aftur til hans annan fimmtíumannaforingja og fimmtíu menn hans með honum. Fór hann upp og sagði við hann: "Þú guðsmaður, svo segir konungur: Kom sem skjótast ofan!"
12 En Elía svaraði og sagði við þá: "Sé ég guðsmaður, þá falli eldur af himni og eyði þér og þínum fimmtíu mönnum." Féll þá eldur Guðs af himni og eyddi honum og mönnum hans fimmtíu.
13 Þá sendi konungur enn þriðja fimmtíumannaforingjann og fimmtíu menn hans með honum. Og fimmtíumannaforinginn þriðji fór upp, og er hann kom þangað, féll hann á kné fyrir Elía, grátbændi hann og mælti til hans: "Þú guðsmaður, þyrm nú lífi mínu og lífi þessara fimmtíu þjóna þinna.
14 Sjá, eldur er fallinn af himni og hefir eytt báðum fyrri fimmtíumannaforingjunum og fimmtíu mönnum þeirra. En þyrm þú lífi mínu."
15 Þá sagði engill Drottins við Elía: "Far þú ofan með honum og ver óhræddur við hann." Stóð hann þá upp og fór ofan með honum til konungs
16 og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Af því að þú gjörðir út sendimenn til þess að leita frétta hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, _ það er víst enginn guð til í Ísrael, er leita megi frétta hjá _ þá skalt þú eigi rísa úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, heldur skalt þú deyja."
17 Og hann dó eftir orði Drottins, því er Elía hafði talað. Og Jóram bróðir hans tók ríki eftir hann á öðru ríkisári Jórams Jósafatssonar, konungs í Júda, því að hann átti engan son.
18 En það sem meira er að segja um Ahasía, hvað hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
1 Páll, Silvanus og Tímóteus heilsa söfnuði Þessaloníkumanna, sem lifa í Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
3 Skylt er oss, bræður, og maklegt að þakka Guði ætíð fyrir yður, því að trú yðar eykst stórum og kærleiki yðar allra hvers til annars fer vaxandi.
4 Því getum vér hrósað oss af yður í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði yðar og trú í öllum ofsóknum yðar og þrengingum þeim, er þér þolið.
5 Þær eru augljóst merki þess, að Guð dæmir rétt og mun álíta yður maklega Guðs ríkis, sem þér nú líðið illt fyrir.
6 Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja.
7 En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns.
8 Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.
9 Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti,
10 á þeim degi, er hann kemur til að vegsamast meðal sinna heilögu og hljóta lof meðal allra, sem trú hafa tekið. Og þér hafið trúað þeim vitnisburði, sem vér fluttum yður.
11 Þess vegna biðjum vér og alla tíma fyrir yður, að Guð vor álíti yður maklega köllunarinnar og fullkomni allt hið góða, sem þér viljið og vinnið í trú og með krafti Guðs,
12 svo að nafn Drottins vors Jesú verði dýrlegt í yður og þér í honum fyrir náð Guðs vors og Drottins Jesú Krists.
5 Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund.
2 En er menn tóku að gjörast vínhreifir, bauð Belsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim.
3 Þá voru fram borin gullker þau, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim.
4 Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.
5 Á sömu stundu komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði.
6 Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu.
7 Konungur kallaði hástöfum, að sækja skyldi særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana. Konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: "Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!"
8 Þá komu allir vitringar konungs þangað, en þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess.
9 Þá varð Belsasar konungur mjög felmtsfullur og gjörðist litverpur, en fát mikið kom á stórmenni hans.
10 Út af orðræðu konungs og stórmenna hans gekk drottning inn í veislusalinn. Drottning tók til máls og sagði: "Konungurinn lifi eilíflega! Lát eigi hugsanir þínar skelfa þig og gjörst eigi svo litverpur.
11 Sá maður er í ríki þínu, er andi hinna heilögu guða býr í, og á dögum föður þíns fannst með honum skýrleikur, þekking og speki, lík speki guðanna, og Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, gjörði hann að yfirhöfðingja spásagnamannanna, særingamannanna, Kaldeanna og stjörnuspekinganna. Þetta gjörði faðir þinn, konungur,
12 af því að með Daníel, er konungurinn kallaði Beltsasar, fannst frábær andi og kunnátta og þekking til að þýða drauma, ráða gátur og greiða úr vandamálum. Lát nú kalla Daníel, og mun hann segja, hvað þetta merkir."
13 Þá var Daníel leiddur inn fyrir konung. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Ert þú Daníel, einn af þeim herleiddu Gyðingum, sem konungurinn, faðir minn, flutti burt frá Júda?
14 Ég hefi um þig heyrt, að andi guðanna búi í þér og að skýrleikur, þekking og frábær speki finnist með þér.
15 Nú hefi ég látið leiða inn fyrir mig vitringana og særingamennina til þess að lesa þetta letur og segja mér þýðing þess, en þeir geta ekki sagt, hvað þessi orð þýða.
16 En ég hefi heyrt um þig, að þú kunnir þýðingar að finna og úr vandamálum að greiða. Ef þú nú getur lesið þetta letur og sagt mér þýðing þess, þá skalt þú klæddur verða purpura, bera gullfesti á hálsi þér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu."
17 Þá tók Daníel til máls og sagði við konung: "Haltu sjálfur gáfum þínum og gef einhverjum öðrum gjafir þínar, en letrið mun ég lesa fyrir konunginn og segja honum þýðing þess.
18 Þú konungur! Guð hinn hæsti veitti Nebúkadnesar föður þínum ríki, vald, vegsemd og tign.
19 Og sökum þess veldis, sem hann hafði veitt honum, hræddust hann allir lýðir, þjóðir og tungur, og stóð þeim ótti af honum. Hann tók af lífi hvern sem hann vildi og hann lét lífi halda hvern sem hann vildi, hann hóf hvern er hann vildi og hann lægði hvern er hann vildi.
20 En er hjarta hans metnaðist og hugur hans gjörðist ofdrambsfullur, þá var honum hrundið úr konungshásætinu og tignin tekin frá honum.
21 Hann var rekinn úr mannafélagi og hjarta hans varð líkt dýrshjarta. Hann átti byggð meðal skógarasna, og honum var gefið gras að eta eins og uxum, og líkami hans vöknaði af dögg himins, þar til er hann kannaðist við, að Guð hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og veitir hann hverjum sem hann vill.
22 Og þú, Belsasar, sonur hans, hefir ekki lítillætt hjarta þitt, þótt þú vissir allt þetta,
23 heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna og látið færa þér kerin úr húsi hans, og þú og stórmenni þín, konur þínar og hjákonur hafið drukkið vín af þeim. Og þú hefir vegsamað guði úr silfri, gulli, eiri, járni, tré og steini, sem ekki sjá, ekki heyra og ekkert vita, en þann Guð, sem hefir lífsanda þinn í hendi sér og ráð hefir á öllum högum þínum, hann hefir þú ekki tignað.
24 Samstundis voru fingur handarinnar frá honum sendir og þetta letur ritað.
25 En letrið, sem ritað er, er þetta: mene, mene, tekel ufarsin.
26 Þessi er þýðing orðanna: mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda;
27 tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn;
28 peres, ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum."
29 Því næst bauð Belsasar að klæða Daníel purpura og láta gullfesti um háls honum og gjöra heyrinkunnugt, að hann skyldi vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.
30 Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn.
110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."
2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.
4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."
5 Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.
7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
by Icelandic Bible Society