Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 22

22 Nú héldu þeir kyrru fyrir í þrjú ár, og var enginn ófriður milli Sýrlands og Ísraels.

En á þriðja ári fór Jósafat konungur í Júda á fund Ísraelskonungs.

Og Ísraelskonungur sagði við þjóna sína: "Vita munuð þér, að vér eigum Ramót í Gíleað, en vér höfumst eigi að og tökum hana ekki frá Sýrlandskonungi."

Þá mælti hann við Jósafat: "Hvort munt þú fara með mér í hernað til Ramót í Gíleað?" Jósafat sagði við Ísraelskonung: "Eitt skal yfir báða ganga, mig og þig, mína þjóð og þína þjóð, mína hesta og þína hesta."

Og Jósafat sagði við Ísraelskonung: "Gakk þú fyrst til frétta og vit hvað Drottinn segir."

Þá stefndi Ísraelskonungur saman spámönnunum, um fjögur hundruð manns, og sagði við þá: "Á ég að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða á ég að hætta við það?" Spámennirnir svöruðu: "Far þú, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi."

En Jósafat mælti: "Er hér ekki enn einhver spámaður Drottins, að vér mættum leita frétta hjá honum?"

Ísraelskonungur mælti til Jósafats: "Enn er einn eftir, er vér gætum látið ganga til frétta við Drottin, en mér er lítið um hann gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur illu einu. Hann heitir Míka Jimlason." Jósafat sagði: "Eigi skyldi konungur svo mæla."

Þá kallaði Ísraelskonungur einn af hirðmönnunum og mælti: "Sæk sem skjótast Míka Jimlason."

10 En Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu hvor í sínu hásæti skrýddir purpuraklæðum úti fyrir borgarhliði Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim.

11 Þá gjörði Sedekía Kenaanason sér horn úr járni og mælti: "Svo segir Drottinn: Með þessum munt þú reka Sýrlendinga undir, uns þú hefir gjöreytt þeim."

12 Og allir spámennirnir spáðu á sömu leið og sögðu: "Far þú til Ramót í Gíleað. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur þér."

13 Sendimaðurinn, sem farinn var að sækja Míka, mælti til hans á þessa leið: "Sjá, spámennirnir hafa einum munni boðað konungi hamingju. Mæl þú sem þeir og boða þú hamingju."

14 En Míka svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, það sem Drottinn til mín talar, það mun ég mæla."

15 Þegar hann kom til konungs, mælti konungur til hans: "Míka, eigum vér að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða eigum vér að hætta við það?" Þá sagði Míka við hann: "Far þú. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi!"

16 Þá sagði konungur við hann: "Hversu oft á ég að særa þig um, að þú segir mér eigi annað en sannleikann í nafni Drottins?"

17 Þá mælti Míka: "Ég sá allan Ísrael tvístrast um fjöllin, eins og hirðislausa sauði, og Drottinn sagði: ,Þessir hafa engan herra. Fari þeir í friði hver heim til sín."`

18 Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: "Fer nú eigi sem ég sagði þér: Hann spáir mér aldrei góðu, heldur illu einu?"

19 Þá mælti Míka: "Eigi er svo! Heyr orð Drottins! Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan himins her standa á tvær hendur honum.

20 Og Drottinn sagði: ,Hver vill ginna Akab til þess að fara til Ramót í Gíleað og falla þar?` Og einn sagði þetta og annar hitt.

21 Þá gekk fram andi, staðnæmdist frammi fyrir Drottni og mælti: ,Ég skal ginna hann.` Og Drottinn sagði við hann: ,Með hverju?`

22 Hann mælti: ,Ég ætla að fara og verða lygiandi í munni allra spámanna hans.` Þá mælti Drottinn: ,Þú skalt ginna hann og þér mun takast það. Far og gjör svo!`

23 Þannig hefir þá Drottinn lagt lygianda í munn öllum þessum spámönnum þínum, þar sem Drottinn hefir þó ákveðið að leiða yfir þig ógæfu."

24 Þá gekk að Sedekía Kenaanason, laust Míka kinnhest og mælti: "Hvaða leið hefir andi Drottins farið frá mér til þess að tala við þig?"

25 Þá mælti Míka: "Það munt þú sjá á þeim degi, er þú fer í felur úr einu herberginu í annað."

26 Þá mælti Ísraelskonungur: "Takið Míka og færið hann Amón borgarstjóra og Jóas konungssyni

27 og segið: ,Svo segir konungur: Kastið manni þessum í dýflissu og gefið honum brauð og vatn af skornum skammti, þar til er ég kem aftur heill á húfi."`

28 Þá mælti Míka: "Komir þú aftur heill á húfi, þá hefir Drottinn eigi talað fyrir minn munn," og hann mælti: "Heyri það allir lýðir!"

29 Síðan fóru þeir Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur til Ramót í Gíleað.

30 Og Ísraelskonungur sagði við Jósafat: "Ég mun klæðast dularbúningi og ganga í orustuna, en þú skalt vera klæddur búningi þínum." Klæddist þá Ísraelskonungur dularbúningi og gekk í orustuna.

31 En Sýrlandskonungur hafði boðið foringjunum fyrir vagnliði sínu, sem voru þrjátíu og tveir, á þessa leið: "Þér skuluð eigi berjast við neinn, hvorki smáan né stóran, nema Ísraelskonung einan."

32 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu Jósafat, sögðu þeir: "Þetta er vissulega Ísraelskonungurinn," og sneru í móti honum til þess að berjast við hann. Þá kallaði Jósafat hátt.

33 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu, að það var ekki Ísraelskonungur, þá hættu þeir að elta hann.

34 En maður nokkur lagði ör á streng og skaut af handahófi og kom á Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Þá mælti hann við kerrusvein sinn: "Snú þú við og kom mér burt úr bardaganum, því að ég er sár."

35 Var bardaginn hinn harðasti um daginn, og konungur stóð í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds, og blóðið úr sárinu rann ofan í vagninn, og dó hann um kvöldið.

36 En um sólsetur kvað svolátandi óp við um allan herinn: "Hver fari heim til sinnar borgar og síns lands,

37 því að konungur er dauður." Og þeir komu til Samaríu og jörðuðu konung í Samaríu.

38 En er vagninn var þveginn við Samaríutjörn, þá sleiktu hundar blóðið og portkonur lauguðu sig þar eftir orði Drottins, því er hann hafði talað.

39 Það sem meira er að segja um Akab og allt, sem hann gjörði, og um fílabeinshúsið, sem hann reisti, og allar borgirnar, sem hann byggði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

40 Og Akab lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Ahasía sonur hans tók ríki eftir hann.

41 Jósafat, sonur Asa, varð konungur yfir Júda á fjórða ríkisári Akabs, konungs í Ísrael.

42 Jósafat var þrjátíu og fimm ára að aldri, er hann tók ríki, og tuttugu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Sílhídóttir.

43 Hann fetaði að öllu í fótspor Asa föður síns og veik ekki frá þeim, með því að hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins.

44 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.

45 Og Jósafat hafði frið við Ísraelskonung.

46 Það sem meira er að segja um Jósafat og hreystiverk hans, þau er hann vann, og hvernig hann herjaði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

47 Hann eyddi og úr landinu leifum þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði og eftir höfðu orðið á dögum Asa föður hans.

48 Þá var enginn konungur í Edóm. Jarl nokkur var þar konungur.

49 Jósafat hafði gjöra látið Tarsisskip, er fara skyldu til Ófír að sækja gull, en eigi varð af ferðinni, því að skipin brotnuðu við Esjón Geber.

50 Þá sagði Ahasía Akabsson við Jósafat: "Lát mína menn fara með þínum mönnum á skipunum." En Jósafat vildi ekki.

51 Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann.

52 Ahasía sonur Akabs varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á seytjánda ríkisári Jósafats, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael tvö ár.

53 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor föður síns og móður og í fótspor Jeróbóams Nebatssonar, er komið hafði Ísrael til að syndga.

Fyrra bréf Páls til Þessa 5

En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað.

Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu.

Þegar menn segja: "Friður og engin hætta", þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.

En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur.

Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu.

Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.

Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni.

En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.

Guð hefur ekki ætlað oss til að verða reiðinni að bráð, heldur til að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist,

10 sem dó fyrir oss, til þess að vér mættum lifa með honum, hvort sem vér vökum eða sofum.

11 Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan, eins og þér og gjörið.

12 Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður.

13 Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra. Lifið í friði yðar á milli.

14 Vér áminnum yður, bræður: Vandið um við þá, sem óreglusamir eru, hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.

15 Gætið þess, að enginn gjaldi neinum illt með illu, en keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hver við annan og við alla aðra.

16 Verið ætíð glaðir.

17 Biðjið án afláts.

18 Þakkið alla hluti, því að það er vilji Guðs með yður í Kristi Jesú.

19 Slökkvið ekki andann.

20 Fyrirlítið ekki spádómsorð.

21 Prófið allt, haldið því, sem gott er.

22 En forðist allt illt, í hvaða mynd sem er.

23 En sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists.

24 Trúr er sá, er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar.

25 Bræður, biðjið fyrir oss!

26 Heilsið öllum bræðrunum með heilögum kossi.

27 Ég bið og brýni yður í Drottins nafni, að þér látið lesa bréf þetta upp fyrir öllum bræðrunum.

Daníel 4

Nebúkadnesar konungur sendir kveðju sína öllum mönnum, sem á jörðinni búa, hverrar þjóðar, hvaða lands og hverrar tungu sem eru: "Gangi yður allt til gæfu!

Mér hefir þóknast að kunngjöra þau tákn og furðuverk, sem hinn hæsti Guð hefir gjört við mig.

Hversu mikil eru tákn hans og hversu máttug eru furðuverk hans! Ríki hans er eilíft ríki og máttarveldi hans varir frá kyni til kyns.

Ég, Nebúkadnesar, lifði áhyggjulaus í húsi mínu og átti góða daga í höll minni.

Þá dreymdi mig draum, sem gjörði mig óttasleginn, og hugsanirnar í rekkju minni og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig.

Ég lét því þá skipun út ganga, að leiða skyldi fyrir mig alla vitringa í Babýlon til þess að segja mér þýðing draumsins.

Þá komu spásagnamennirnir, særingamennirnir, Kaldearnir og stjörnuspekingarnir, og sagði ég þeim drauminn, en þeir gátu ekki sagt mér þýðing hans.

En loks kom Daníel til mín, sem kallaður er Beltsasar eftir nafni guðs míns. Í honum býr andi hinna heilögu guða, og ég sagði honum drauminn:

Beltsasar, þú æðsti forstjóri spásagnamannanna! Ég veit að í þér býr andi hinna heilögu guða og að enginn leyndardómur er þér ofvaxinn. Seg mér sýnir draums míns, þær er fyrir mig bar, og hvað þær þýða.

10 Sýnir þær, er fyrir mig bar í rekkju minni, voru þessar: Ég horfði, og sjá, tré nokkurt stóð á jörðinni, og var það geysihátt.

11 Tréð var mikið og sterkt, og svo hátt að upp tók til himins, og mátti sjá það alla vega frá endimörkum jarðarinnar.

12 Limar þess voru fagrar og ávöxturinn mikill, og fæðsla handa öllum var á því. Skógardýrin lágu í forsælu undir því, fuglar himinsins bjuggu á greinum þess, og allar skepnur nærðust af því.

13 Ég horfði á í sýnum þeim, sem fyrir mig bar í rekkju minni, og sá heilagan vörð stíga niður af himni.

14 Hann kallaði hárri röddu og mælti svo: ,Höggvið upp tréð, sníðið af greinarnar, slítið af því limarnar og dreifið ávöxtunum víðs vegar, svo að dýrin flýi burt undan því og fuglarnir af greinum þess.

15 Samt skuluð þér láta stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi. Hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrunum í grösum jarðarinnar.

16 Hjarta hans skal umbreytast, svo að í honum skal ekki mannshjarta vera, heldur skal honum dýrshjarta fengið verða, og sjö tíðir skulu yfir hann líða.

17 Skipunin hvílir á ályktun varðanna, og þetta eru fyrirmæli hinna heilögu, til þess að hinir lifandi viðurkenni, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og gefur hann hverjum sem hann vill, og að hann getur upphafið hinn lítilmótlegasta meðal mannanna til konungdóms.`

18 Þetta er draumurinn, sem mig, Nebúkadnesar konung, dreymdi, en þú, Beltsasar, seg þýðingu hans, fyrst enginn af vitringunum í ríki mínu getur sagt mér, hvað hann þýðir. En þú getur það, því að í þér býr andi hinna heilögu guða."

19 Þá stóð Daníel, sem kallaður var Beltsasar, agndofa um stund, og hugsanir hans skelfdu hann. En konungur tók til máls og sagði: "Beltsasar! Lát eigi drauminn né þýðing hans skelfa þig." Beltsasar svaraði og sagði: "Ég vildi óska, herra, að draumurinn rættist á óvinum þínum og þýðing hans á mótstöðumönnum þínum.

20 Tréð, sem þú sást og bæði var mikið og sterkt og svo hátt að upp tók til himins og séð varð um alla jörðina,

21 limar þess fagrar og ávöxturinn mikill og fæðsla á því handa öllum, skógardýrin bjuggu undir því og fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum þess,

22 það ert þú, konungur, sem ert orðinn mikill og voldugur og mikilleiki þinn vaxinn svo mjög, að hann nær til himins og veldi þitt til endimarka jarðar.

23 En þar er konungurinn sá heilagan vörð stíga niður af himni og segja: ,Höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið samt stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi, hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrum merkurinnar, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar,` _

24 þá er þýðingin þessi, konungur, og ráðstöfun Hins hæsta er það, sem komið er fram við minn herra, konunginn:

25 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og þú munt vökna af dögg himinsins, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.

26 En þar er sagt var, að stofn trésins með rótum sínum skyldi eftir verða, það merkir, að þú skalt halda ríki þínu, er þú kannast við, að allt valdið er á himnum.

27 Lát þér því, konungur, geðjast ráð mitt: Losa þig af syndum þínum með réttlætisverkum og af misgjörðum þínum með líknsemi við aumingja, ef vera mætti, að hamingja þín yrði við það langærri."

28 Allt þetta kom fram við Nebúkadnesar konung.

29 Þegar konungur tólf mánuðum síðar einu sinni var á gangi í konungshöllinni í Babýlon,

30 tók hann til máls og sagði: "Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?"

31 Áður en þessi orð voru liðin af vörum konungs, kom raust af himni: "Þér gjörist hér með vitanlegt, Nebúkadnesar konungur, að konungdómurinn er vikinn frá þér.

32 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill."

33 Þessi ummæli rættust samstundis á Nebúkadnesar. Hann var út rekinn úr mannafélagi og át gras eins og uxar, og líkami hans vöknaði af dögg himinsins, og um síðir óx hár hans sem arnarfjaðrir og neglur hans sem fuglaklær.

34 "Ég, Nebúkadnesar, hóf að liðnum þessum tíma augu mín til himins, og fékk ég þá vit mitt aftur. Og ég lofaði Hinn hæsta og vegsamaði og tignaði þann, sem lifir eilíflega, því að veldi hans er eilíft veldi, og ríki hans varir frá kyni til kyns.

35 Allir þeir, sem á jörðinni búa, eru sem ekkert hjá honum, og hann fer með himnanna her og byggjendur jarðarinnar eins og hann sjálfur vill, og enginn er sá, er fái honum tálmun gjört og við hann sagt: ,Hvað gjörir þú?`

36 Samstundis fékk ég vit mitt aftur, og til heiðurs fyrir ríki mitt komst ég aftur til tignar og vegsemdar. Ráðgjafar mínir og stórmenni leituðu mín, og ég var aftur skipaður yfir ríki mitt, og mér var gefið enn meira veldi en áður.

37 Nú vegsama ég, Nebúkadnesar, göfga og tigna konung himnanna, því að allar gjörðir hans eru sannleikur, vegir hans réttlæti og hann megnar að lægja þá, sem fram ganga í dramblæti."

Sálmarnir 108-109

108 Ljóð. Davíðssálmur.

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!

Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,

til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,

því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.

Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.

Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.

Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.

Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.

Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.

Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.

Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.

10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.

11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.

12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.

13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.

14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,

15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni

16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.

17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.

18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,

19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.

20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.

21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,

22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.

23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.

24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.

25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.

26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,

27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.

28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.

29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.

30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,

31 því að hann stendur hinum snauða til hægri handar til þess að hjálpa honum gegn þeim er sakfella hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society