Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 20

20 Benhadad konungur á Sýrlandi dró saman allan her sinn. Voru þrjátíu og tveir konungar með honum, með hestum og vögnum, og hann fór, settist um Samaríu og gjörði áhlaup á hana.

Og hann sendi menn til Akabs Ísraelskonungs inn í borgina

og lét segja honum: "Svo segir Benhadad: Silfur þitt og gull er mitt, svo og hinar fegurstu konur þínar og synir."

Ísraelskonungur svaraði og sagði: "Eins og þú vilt vera láta, minn herra konungur. Ég er þinn og allt, sem ég á."

Og sendimennirnir komu aftur og sögðu: "Svo segir Benhadad: Ég hefi gjört þér þessa orðsending: Þú skalt gefa mér silfur þitt og gull, konur þínar og sonu.

Þegar ég á morgun í þetta mund sendi menn mína til þín, munu þeir rannsaka hús þitt og hús þinna manna, og skulu þeir taka og hafa á burt með sér sérhvað það, sem þeir ágirnast."

Þá kallaði Ísraelskonungur alla öldunga landsins fyrir sig og mælti: "Hyggið að og sjáið, að hann býr yfir illu, því að hann sendi til mín eftir konum mínum og sonum, silfri mínu og gulli, og synjaði ég honum þess ekki."

Þá sögðu allir öldungarnir og allur lýðurinn við hann: "Gegn þú eigi þessu og samþykk þú það eigi."

Þá sagði Akab við sendimenn Benhadads: "Segið mínum herra konunginum: Allt það, sem þú gjörðir þjóni þínum orð um í fyrstu, vil ég gjöra, en þetta get ég ekki gjört." Þá fóru sendimennirnir og færðu honum svarið.

10 Þá sendi Benhadad til hans og lét segja: "Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja, nú og síðar: Rykið í Samaríu mun eigi nægja til þess að fylla lúkurnar á öllu þessu liði, sem með mér er."

11 En Ísraelskonungur svaraði og sagði: "Segið honum: Eigi skyldi sá, er hervæðist, hrósa sér sem sá, er leggur af sér vopnin."

12 Þegar Benhadad heyrði þetta svar, þar sem hann sat að drykkju með konungunum í laufskálunum, mælti hann til sinna manna: "Færið fram hervélarnar." Og þeir færðu þær fram gegnt borginni.

13 En spámaður nokkur gekk fyrir Akab Ísraelskonung og mælti: "Svo segir Drottinn: Sér þú allan þennan mikla manngrúa? Hann gef ég þér í hendur í dag, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn."

14 Þá mælti Akab: "Fyrir hvers fulltingi?" Spámaðurinn svaraði: "Svo segir Drottinn: Fyrir fulltingi sveina héraðshöfðingjanna." Þá spurði Akab: "Hver á að hefja orustuna?" Hinn svaraði: "Þú."

15 Þá kannaði Akab sveina héraðshöfðingjanna, og voru þeir tvö hundruð þrjátíu og tveir. Og að því búnu kannaði hann allt liðið, alla Ísraelsmenn, sjö þúsund manns.

16 Um hádegið réðu þeir til útgöngu, en Benhadad sat þá ölvaður að drykkju í laufskálunum, hann og þeir þrjátíu og tveir konungar, er komnir voru honum til liðs.

17 Sveinar héraðshöfðingjanna fóru fremstir. Þá sendi Benhadad menn til að njósna. Þeir sögðu honum svo frá: "Menn fara út frá Samaríu."

18 Þá sagði hann: "Hvort sem þeir fara út til þess að biðjast friðar eða til þess að berjast, þá takið þá höndum lifandi."

19 Og er sveinar héraðshöfðingjanna og liðið, sem þeim fylgdi, fóru út af borginni

20 drápu þeir hver sinn mann. Flýðu þá Sýrlendingar, en Ísraelsmenn eltu þá. Og Benhadad Sýrlandskonungur komst undan á vagnhesti með nokkra riddara.

21 En Ísraelskonungur fór út og náði hestunum og vögnunum. Og hann vann mikinn sigur á Sýrlendingum.

22 Þá gekk spámaður fyrir Ísraelskonung og mælti til hans: "Ver hugrakkur og hygg vandlega að, hvað þú skulir gjöra, því að næsta ár mun Sýrlandskonungur fara með her á hendur þér."

23 Menn Sýrlandskonungs sögðu við hann: "Guð Ísraelsmanna er fjallaguð, þess vegna urðu þeir oss yfirsterkari, en ef vér mættum berjast við þá á jafnsléttu, mundum vér vissulega vinna sigur á þeim.

24 En gjör þú þetta: Vík öllum konungunum frá völdum og set jarla í þeirra stað.

25 Safna síðan að þér jafnfjölmennu liði sem það lið var, er þú misstir, og jafnmörgum hestum og jafnmörgum vögnum sem þú misstir, og skulum vér berjast við þá á jafnsléttu, og munum vér vissulega sigrast á þeim." Fór hann að ráðum þeirra og gjörði svo.

26 Árið eftir kannaði Benhadad Sýrlendinga og hélt til Afek til þess að berjast við Ísraelsmenn.

27 En Ísraelsmenn voru og kannaðir og birgðir að vistum, og fóru þeir í móti þeim, og settu Ísraelsmenn herbúðir gegnt þeim. Voru þeir sem tveir geitfjárhópar, en Sýrlendingar fylltu landið.

28 Þá gekk guðsmaður nokkur fram, talaði til Ísraelskonungs og mælti: "Svo segir Drottinn: Sakir þess að Sýrlendingar hafa sagt: ,Drottinn er fjallaguð, en enginn dalaguð` _ þá vil ég gefa þennan mikla manngrúa í þínar hendur, svo að þér kannist við, að ég er Drottinn."

29 Þannig lágu þeir í herbúðunum, hverir gegnt öðrum, í sjö daga, en á sjöunda degi tókst orusta, og felldu Ísraelsmenn hundrað þúsundir fótgönguliðs af Sýrlendingum á einum degi.

30 En þeir, sem eftir urðu, flýðu til Afek, inn í borgina, en þá féll borgarmúrinn á þau tuttugu og sjö þúsund manns, sem eftir voru. Benhadad var og flúinn og komst inn í borgina, úr einu herberginu í annað.

31 Þá sögðu menn hans við hann: "Vér höfum heyrt, að konungar Ísraelshúss séu miskunnsamir konungar. Skulum vér nú gyrðast hærusekk um lendar vorar og vefja bandi um höfuð vor og ganga síðan fyrir Ísraelskonung. Má vera að hann gefi þér líf."

32 Síðan gyrtust þeir hærusekk um lendar sér, vöfðu bandi um höfuð sér og gengu síðan á fund Ísraelskonungs og sögðu: "Þjónn þinn Benhadad segir: Gef þú mér líf." Akab svaraði: "Er hann enn á lífi? Hann er bróðir minn."

33 Þetta þótti mönnunum góðs viti, og flýttu þeir sér að taka hann á orðinu og sögðu: "Benhadad er bróðir þinn!" En Akab mælti: "Farið og sækið hann." Þá gekk Benhadad út til hans, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín.

34 Og Benhadad sagði við hann: "Borgunum, sem faðir minn tók frá föður þínum, skal ég skila aftur, og þú mátt gjöra þér torg í Damaskus, eins og faðir minn gjörði í Samaríu." "Hvað mig snertir," mælti Akab, "þá vil ég láta þig lausan með þessum skilmálum." Og hann gjörði við hann sáttmála og lét hann í brott fara.

35 Maður nokkur af spámannasveinunum sagði við félaga sinn eftir orði Drottins: "Slá þú mig!" En maðurinn færðist undan að slá hann.

36 Þá sagði spámaðurinn við hann: "Sökum þess að þú hlýddir ekki raust Drottins, þá mun ljón ljósta þig jafnskjótt og þú gengur burt frá mér." Og er hann gekk í burt frá honum, mætti ljón honum og drap hann.

37 Og spámaðurinn hitti annan mann og mælti: "Slá þú mig!" Og maðurinn sló hann, svo að hann varð sár.

38 Síðan fór spámaðurinn burt og gekk í veg fyrir konung og gjörði sig ókennilegan með því að binda fyrir augun.

39 En er konungur fór fram hjá, kallaði hann til konungs og mælti: "Þjónn þinn fór í bardagann. Þá gekk maður fram úr fylkingunni, færði mér mann og sagði: ,Geymdu þennan mann. Komist hann í burt, þá skal líf þitt við liggja, eða þú skalt greiða talentu silfurs.`

40 En svo fór, að þar sem þjónn þinn hafði í hinu og þessu að snúast, þá varð maðurinn allur á burtu." Ísraelskonungur sagði við hann: "Það er þinn dómur. Þú hefir sjálfur kveðið hann upp."

41 Þá tók hann í skyndi bandið frá augunum, og Ísraelskonungur þekkti hann, að hann var einn af spámönnunum.

42 Spámaðurinn mælti þá til hans: "Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú slepptir þeim manni úr hendi þér, sem ég hafði banni helgað, þá skal líf þitt koma fyrir hans líf og þín þjóð fyrir hans þjóð."

43 Og Ísraelskonungur hélt heim til sín, hryggur og reiður, og kom til Samaríu.

Fyrra bréf Páls til Þessa 3

Þar kom, að vér þoldum ekki lengur við og réðum þá af að verða einir eftir í Aþenu,

en sendum Tímóteus, bróður vorn og aðstoðarmann Guðs við fagnaðarerindið um Krist, til að styrkja yður og áminna í trú yðar,

svo að enginn láti bifast í þrengingum þessum. Þér vitið sjálfir, að þetta er oss ætlað.

Þegar vér vorum hjá yður, þá sögðum vér yður fyrir, að vér mundum verða að þola þrengingar. Það kom líka fram, eins og þér vitið.

Því þoldi ég ekki lengur við og sendi Tímóteus til að fá að vita um trú yðar, hvort freistarinn kynni að hafa freistað yðar og erfiði vort orðið til einskis.

En nú er hann aftur kominn til vor frá yður og hefur borið oss gleðifregn um trú yðar og kærleika, að þér ávallt munið eftir oss með hlýjum hug og yður langi til að sjá oss, eins og oss líka til að sjá yður.

Sökum þessa höfum vér, bræður, huggun hlotið vegna trúar yðar þrátt fyrir alla neyð og þrengingu.

Nú lifum vér, ef þér standið stöðugir í Drottni.

Hvernig getum vér nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði, er vér höfum af yður frammi fyrir Guði vorum?

10 Og vér biðjum nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá yður og bæta úr því, sem trú yðar er áfátt.

11 Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg vorn til yðar.

12 En Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars og til allra, eins og vér berum kærleika til yðar.

13 Þannig styrkir hann hjörtu yðar, svo að þér verðið óaðfinnanlegir og heilagir frammi fyrir Guði, föður vorum, við komu Drottins vors Jesú ásamt öllum hans heilögu.

Daníel 2

Á öðru ríkisári Nebúkadnesars dreymdi Nebúkadnesar draum, og varð honum órótt í skapi og mátti eigi sofa.

Þá bauð konungur að kalla til sín spásagnamenn og særingamenn og galdramenn og Kaldea, að þeir segðu konungi, hvað hann hefði dreymt, og þeir komu og gengu fyrir konung.

Þá sagði konungur við þá: "Mig hefir dreymt draum og mér er órótt í skapi, uns ég fæ að vita drauminn."

Þá sögðu Kaldearnir við konunginn á arameísku: "Konungurinn lifi eilíflega! Seg þjónum þínum drauminn, og munum vér þá segja þýðing hans."

Konungur svaraði og sagði við Kaldea: "Ásetningur minn er óhagganlegur: Ef þér segið mér ekki drauminn og þýðing hans, skuluð þér verða höggnir sundur og hús yðar gjörð að sorphaug.

En ef þér segið mér drauminn og þýðing hans, munuð þér af mér þiggja margs konar gjafir og mikla sæmd. Segið mér því drauminn og þýðing hans!"

Þá svöruðu þeir aftur og sögðu: "Konungurinn segi þjónum sínum drauminn, og þá skulum vér segja, hvað hann þýðir."

Konungur svaraði og sagði: "Ég veit með vissu, að þér ætlið að leita yður frests, þar eð þér sjáið að ásetningur minn er óhagganlegur.

En ef þér segið mér ekki drauminn, þá bíður yðar dómur, sem ekki verður nema á einn veg. Þér hafið komið yður saman um að fara með lygatal og skaðsemdar frammi fyrir mér, þar til er tímarnir breytast. Segið mér því drauminn, svo að ég fái skilið, að þér megið einnig segja mér þýðing hans."

10 Kaldearnir svöruðu konungi og sögðu: "Enginn er sá maður í heimi, er sagt geti það, er konungurinn mælist til, né heldur hefir nokkur mikill og voldugur konungur krafist slíks af nokkrum spásagnamanni, særingamanni eða Kaldea.

11 Því að það er torvelt, sem konungurinn heimtar, og enginn getur kunngjört konunginum það nema guðirnir einir, en bústaður þeirra er ekki hjá dauðlegum mönnum."

12 Af þessu varð konungur gramur og mjög reiður og bauð að taka af lífi alla vitringa í Babýlon.

13 Gekk þá sú skipun út, að lífláta skyldi vitringana, og var leitað að þeim Daníel og félögum hans til að lífláta þá.

14 Þá sneri Daníel sér með viturleik og skynsemd til Arjóks, lífvarðarforingja konungs, sem út var genginn til þess að lífláta vitringana í Babýlon.

15 Hann tók til máls og sagði við Arjók valdsmann konungs: "Hví er skipun konungs svo hörð?" Arjók skýrði þá Daníel frá málavöxtum.

16 Og Daníel gekk upp til konungs og bað hann gefa sér frest, að hann mætti kunngjöra konungi þýðinguna.

17 Þá gekk Daníel heim til húss síns til þess að segja þeim Hananja, Mísael og Asarja, félögum sínum, frá þessu,

18 og til þess að biðja Guð himinsins líknar um leyndardóm þennan, svo að Daníel og félagar hans yrðu ekki líflátnir með hinum vitringunum í Babýlon.

19 Þá var leyndardómurinn opinberaður Daníel í nætursýn. Þá lofaði Daníel Guð himnanna.

20 Daníel tók til máls og sagði: "Lofað veri nafn Guðs frá eilífð til eilífðar, því að hans er viskan og mátturinn.

21 Hann breytir tímum og tíðum, hann rekur konunga frá völdum og hann setur konunga til valda, hann gefur spekingunum speki og hinum hyggnu hyggindi.

22 Hann opinberar hina dýpstu og huldustu leyndardóma, hann veit, hvað í myrkrinu gjörist, og ljósið býr hjá honum.

23 Ég þakka þér, Guð feðra minna, og vegsama þig fyrir það, að þú hefir gefið mér visku og mátt og nú látið mig vita það, er vér báðum þig um, því að þú hefir opinberað oss það, er konungur vildi vita."

24 Daníel fór nú til Arjóks, sem konungur hafði falið að lífláta vitringana í Babýlon. Hann fór og mælti til hans á þessa leið: "Ekki skalt þú lífláta vitringana í Babýlon. Leið mig inn fyrir konung, og mun ég segja konungi þýðinguna."

25 Síðan leiddi Arjók Daníel í skyndi inn fyrir konung og mælti svo til hans: "Ég hefi fundið mann meðal hinna herleiddu frá Júda, sem ætlar að segja konunginum þýðing draumsins."

26 Konungur svaraði og sagði við Daníel, sem kallaður var Beltsasar: "Getur þú sagt mér drauminn, sem mig dreymdi, og þýðing hans?"

27 Daníel svaraði konungi og sagði: "Leyndardóm þann, sem konungurinn spyr um, geta hvorki vitringar, særingamenn, spásagnamenn né stjörnuspekingar sagt konunginum.

28 En sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum. Draumur þinn og vitranir þær, er fyrir þig bar í rekkju þinni, voru þessar:

29 Þá er þú hvíldir í rekkju þinni, konungur, stigu upp hugsanir hjá þér um, hvað verða mundi eftir þetta, og hann, sem opinberar leynda hluti, hefir kunngjört þér, hvað verða muni.

30 En hvað mig snertir, þá er það ekki fyrir nokkurrar visku sakir, sem ég hafi til að bera umfram alla menn aðra, þá er nú eru uppi, að þessi leyndardómur er mér opinber orðinn, heldur til þess að þýðingin yrði kunngjörð konunginum og þú fengir að vita hugsanir hjarta þíns.

31 Þú horfðir fram fyrir þig, konungur, og stóð þar líkneski mikið. Líkneski þetta var stórt og yfirtaks-ljómandi. Það stóð frammi fyrir þér og var ógurlegt ásýndum.

32 Höfuð líkneskis þessa var af skíru gulli, brjóstið og armleggirnir af silfri, kviðurinn og lendarnar af eiri,

33 leggirnir af járni, fæturnir sums kostar af járni, sums kostar af leir.

34 Þú horfðir á það, þar til er steinn nokkur losnaði, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann. Hann lenti á fótum líkneskisins, sem voru af járni og leir, og molaði þá.

35 Þá muldist sundur í sama bili járnið, leirinn, eirinn, silfrið og gullið, og varð eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því burt, svo að þess sá engan stað. En steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð að stóru fjalli og tók yfir alla jörðina.

36 Þetta er draumurinn, og nú viljum vér segja konunginum þýðing hans.

37 Þú, konungur, yfirkonungur konunganna, sem Guð himnanna hefir gefið ríkið, valdið, máttinn og tignina,

38 þú, sem hann hefir mennina á vald selt, hvar svo sem þeir búa, dýr merkurinnar og fugla himinsins, og sett þig drottnara yfir því öllu, _ þú ert gullhöfuðið.

39 En eftir þig mun hefjast annað konungsríki, minni háttar en þitt er, og því næst hið þriðja ríki af eiri, sem drottna mun yfir allri veröldu.

40 Þá mun hefjast fjórða ríkið, sterkt sem járn, _ því að járnið sundurbrýtur og mölvar allt _, og eins og járnið molar sundur, eins mun það sundurbrjóta og mola öll hin ríkin.

41 En þar er þú sást fæturna og tærnar, að sumt var af pottaraleir, sumt af járni, það merkir að ríkið mun verða skipt. Þó mun það nokkru í sér halda af hörku járnsins, þar sem þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn.

42 En þar er tærnar á fótunum voru sums kostar af járni og sums kostar af leir, þá mun það ríki að nokkru leyti verða öflugt og að nokkru leyti veikt.

43 Og þar er þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn, þá munu þeir með kvonföngum saman blandast, og þó ekki samþýðast hvorir öðrum, eins og járnið samlagar sig ekki við leirinn.

44 En á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu,

45 þar sem þú sást að steinn nokkur losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann, og mölvaði járnið, eirinn, leirinn, silfrið og gullið. Mikill Guð hefir kunngjört konunginum hvað hér eftir muni verða. Draumurinn er sannur og þýðing hans áreiðanleg."

46 Þá féll Nebúkadnesar konungur fram á ásjónu sína og laut Daníel og bauð að fórna honum matfórn og reykelsi.

47 Konungur mælti til Daníels og sagði: "Í sannleika er yðar Guð yfirguð guðanna og herra konunganna og opinberari leyndra hluta, með því að þú máttir þennan leyndardóm auglýsa."

48 Eftir það hóf konungur Daníel til mikilla mannvirðinga og gaf honum miklar og margar gjafir, setti hann höfðingja yfir allt Babel-hérað og gjörði hann að æðsta forstjóra yfir öllum vitringum í Babýlon.

49 Og fyrir tilmæli Daníels gjörði konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó að sýslumönnum yfir Babel-héraði, en sjálfur var Daníel við hirð konungs.

Sálmarnir 106

106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?

Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.

Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,

að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.

Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.

Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.

Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.

Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.

10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.

11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.

12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.

13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.

14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.

15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.

16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.

17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,

18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.

19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,

20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.

21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,

22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.

23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.

24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.

25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.

26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,

27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.

28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.

29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.

30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.

31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.

32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,

33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.

34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,

35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.

36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,

37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum

38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.

39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.

41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.

42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.

43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.

45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar

46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society