M’Cheyne Bible Reading Plan
18 Löngu síðar kom orð Drottins til Elía, á þriðja ári þurrksins, svolátandi: "Far og lát Akab sjá þig. Ég ætla að gefa regn á jörð."
2 Þá fór Elía, til þess að láta Akab sjá sig. Hallærið var mikið í Samaríu.
3 Kallaði Akab þá Óbadía dróttseta fyrir sig. En Óbadía óttaðist Drottin mjög.
4 Fyrir því tók Óbadía, þá er Jesebel útrýmdi spámönnum Drottins, hundrað spámenn og fal þá, sína fimmtíu menn í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni.
5 Akab sagði við Óbadía: "Kom þú, við skulum fara um landið og leita uppi allar vatnslindir og alla læki. Vera má, að við finnum gras, svo að við getum haldið lífinu í hestum og múlum og þurfum ekki að fella nokkurn hluta af skepnunum."
6 Síðan skiptu þeir með sér landinu til yfirferðar. Akab fór einn sér í aðra áttina, og Óbadía fór einn sér í hina áttina.
7 En er Óbadía var á leiðinni, sjá, þá mætti Elía honum. Og er hann þekkti hann, féll hann fram á ásjónu sína og mælti: "Ert það þú, herra minn Elía?"
8 Hann svaraði honum: "Er ég víst. Far og seg herra þínum: Elía er hér!"
9 En Óbadía mælti: "Hvað hefi ég misgjört, er þú vilt selja þjón þinn í hendur Akab, svo að hann drepi mig?
10 Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, er engin sú þjóð til og ekkert það konungsríki, að herra minn hafi ekki sent þangað til þess að leita þín, og ef sagt var: ,Hann er hér ekki!` þá lét hann konungsríkið og þjóðina vinna eið að því, að enginn hefði hitt þig.
11 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!`
12 En færi ég nú frá þér, þá mundi andi Drottins hrífa þig, ég veit ekki hvert, og ef ég þá kæmi til þess að segja Akab frá þessu, og hann fyndi þig ekki, þá mundi hann drepa mig, og þó hefir þjónn þinn óttast Drottin í frá barnæsku.
13 Hefir ekki herra minn frétt, hvað ég gjörði, er Jesebel drap spámenn Drottins, að ég fal hundrað manns af spámönnum Drottins, sína fimmtíu manns í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni?
14 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!` til þess að hann drepi mig."
15 En Elía svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna, mun ég láta Akab sjá mig þegar í dag."
16 Þá fór Óbadía til móts við Akab og sagði honum frá þessu. Fór þá Akab til fundar við Elía.
17 En er Akab sá Elía, sagði Akab við hann: "Ert þú þar, skaðvaldur Ísraels?"
18 Elía svaraði: "Eigi hefi ég valdið Ísrael skaða, heldur þú og ætt þín, þar sem þér hafið virt boð Drottins að vettugi og þú elt Baalana.
19 En send þú nú og stefn til mín öllum Ísrael á Karmelfjalli, svo og þeim fjögur hundruð og fimmtíu Baalsspámönnum og þeim fjögur hundruð Aséruspámönnum, er eta við borð Jesebelar."
20 Þá sendi Akab út á meðal allra Ísraelsmanna og stefndi spámönnunum til Karmelfjalls.
21 Þá gekk Elía fram fyrir allan lýðinn og mælti: "Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum." En lýðurinn svaraði honum engu orði.
22 Þá mælti Elía til lýðsins: "Ég er einn eftir af spámönnum Drottins, en spámenn Baals eru fjögur hundruð og fimmtíu.
23 Fáið oss nú tvö naut. Skulu Baalsspámenn velja sér annað nautið og hluta það sundur og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að, en ég mun fórna hinu nautinu og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að.
24 Ákallið síðan nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð." Þá svaraði allur lýðurinn og sagði: "Þetta er vel mælt."
25 Þá sagði Elía við spámenn Baals: "Veljið yður nú annað nautið og fórnið fyrst, því að þér eruð svo margir, og ákallið nafn yðar guðs, en leggið eigi eld að."
26 Þá tóku þeir nautið og fórnuðu því og ákölluðu nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: "Baal, svara þú oss!" En þar var steinhljóð og ekkert svar. Og þeir höltruðu kringum altarið, sem þeir höfðu gjört.
27 En er komið var hádegi, tók Elía að gjöra gys að þeim og mælti: "Kallið hárri röddu, því að hann er guð. Hann er hugsi, eða hefir brugðið sér burt, eða er farinn í ferð. Ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna."
28 En þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi.
29 En er komið var fram yfir hádegi, komust þeir í guðmóð, þar til bera átti fram matfórnina. En þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn.
30 Þá sagði Elía við allan lýðinn: "Gangið hingað til mín!" Og allur lýðurinn gekk til hans. Þá reisti hann við altari Drottins, er niður hafði verið rifið.
31 Og Elía tók tólf steina, eftir ættkvíslatölu sona Jakobs _ þess manns er orð Drottins hafði komið til, svolátandi: ,Ísrael skalt þú heita!` _
32 og reisti af steinunum altari í nafni Drottins og gjörði skurð umhverfis altarið, á stærð við reit, er í fara tvær seur útsæðis.
33 Síðan lagði hann viðinn á altarið, hlutaði sundur nautið og lagði það ofan á viðinn.
34 Því næst mælti hann: "Fyllið fjórar skjólur með vatni og hellið yfir brennifórnina og viðinn." Þeir gjörðu svo. Þá mælti hann: "Gjörið það aftur." Og þeir gjörðu það aftur. Og enn mælti hann: "Gjörið það í þriðja sinn." Og þeir gjörðu það í þriðja sinn.
35 Og vatnið rann allt í kringum altarið. Jafnvel skurðinn fyllti hann vatni.
36 En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: "Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði.
37 Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra."
38 Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp.
39 Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: "Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!"
40 En Elía sagði við þá: "Takið höndum spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan!" Og þeir handtóku þá, og Elía fór með þá niður að Kísonlæk og banaði þeim þar.
41 Síðan mælti Elía við Akab: "Far þú upp eftir, et og drekk, því að ég heyri þyt af regni."
42 Þá fór Akab upp eftir til þess að eta og drekka. En Elía fór efst upp á Karmel, beygði sig til jarðar og setti andlitið milli hnjánna.
43 Því næst sagði hann við svein sinn: "Gakk þú upp og lít út til hafs." Hann gekk upp, litaðist um og mælti: "Það er ekkert að sjá." Elía mælti: "Far þú aftur." Og sveinninn fór aftur og aftur, sjö sinnum.
44 En í sjöunda sinnið sagði hann: "Nú stígur lítið ský, sem mannshönd, upp úr hafinu." Þá sagði Elía: "Far og seg Akab: ,Beit fyrir vagninn og far ofan, svo að regnið teppi þig ekki."`
45 Eftir örskamma stund varð himinninn dimmur af skýjum og vindi, og það kom hellirigning. En Akab steig á vagn sinn og ók til Jesreel.
46 En hönd Drottins hreif Elía, og hann gyrti lendar sínar og hljóp á undan Akab alla leið til Jesreel.
1 Páll, Silvanus og Tímóteus heilsa söfnuði Þessaloníkumanna, sem er í Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Náð sé með yður og friður.
2 Vér þökkum ávallt Guði fyrir yður alla, er vér minnumst yðar í bænum vorum.
3 Fyrir augsýn Guðs og föður vors erum vér sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á Drottin vorn Jesú Krist.
4 Guð elskar yður, bræður, og vér vitum, að hann hefur útvalið yður.
5 Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda og með fullkominni sannfæringu. Þér vitið, hvernig vér komum fram hjá yður, yðar vegna.
6 Og þér hafið gjörst eftirbreytendur vorir og Drottins, er þér tókuð á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu.
7 Þannig eruð þér orðnir fyrirmynd öllum trúuðum í Makedóníu og í Akkeu.
8 Frá yður hefur orð Drottins hljómað, ekki einungis í Makedóníu og Akkeu, heldur er trú yðar á Guð kunn orðin alls staðar. Vér þurfum ekkert um það að tala,
9 því að þeir segja sjálfir, á hvern hátt vér komum til yðar og hvernig þér sneruð yður til Guðs frá skurðgoðunum, til þess að þjóna lifandi og sönnum Guði,
10 og væntið nú sonar hans frá himnum, sem hann vakti upp frá dauðum, Jesú, er frelsar oss frá hinni komandi reiði.
48 Og þetta eru nöfn ættkvíslanna: Yst í norðri, frá hafinu í áttina til Hetlón þangað að, er leið liggur til Hamat, og þaðan til Hasar Enón, _ er þá Damaskusland fyrir norðan, fram með Hamat _, og fær hver land frá austri til vesturs: Dan, einn landshluti.
2 Og meðfram Dans landi, frá austri til vesturs: Asser, einn landshluti.
3 Og meðfram Assers landi, frá austri til vesturs: Naftalí, einn landshluti.
4 Og meðfram Naftalí landi, frá austri til vesturs: Manasse, einn landshluti.
5 Og meðfram Manasse landi, frá austri til vesturs: Efraím, einn landshluti.
6 Og meðfram Efraíms landi, frá austri til vesturs: Rúben, einn landshluti.
7 Og meðfram Rúbens landi, frá austri til vesturs: Júda, einn landshluti.
8 Meðfram Júda landi, frá austri til vesturs, skal landið, er þér færið að fórnargjöf, sem þér skuluð láta af hendi, liggja, 25.000 álnir á breidd og jafnt að lengd hlutum ættkvíslanna, frá austri til vesturs, og helgidómurinn skal vera í því miðju.
9 En landið, er þér skuluð helga Drottni, er 25.000 álnir á lengd og 20.000 álnir á breidd.
10 Og þeim, sem nú skal greina, skal hin heilaga fórnargjöf tilheyra: prestunum landspilda 25.000 álna að norðanverðu, 10.000 álna að vestanverðu, 10.000 álna að austanverðu og 25.000 álna að sunnanverðu. Og helgidómur Drottins skal vera á henni miðri.
11 Vígðu prestunum, niðjum Sadóks, þeim er gætt hafa þjónustu minnar, sem eigi gengu afleiðis, þá er aðrir Ísraelsmenn gengu afleiðis, svo sem og levítarnir hafa gengið afleiðis,
12 þeim skal það tilheyra sem hluti af fórnargjöf landsins, sem háheilagt land, við hliðina á landi levítanna,
13 en levítunum skal tilheyra jafnstórt land og prestanna: 25.000 álnir á lengd og 10.000 álnir á breidd, alls 25.000 álnir á lengd og 20.000 álnir á breidd.
14 Af því mega þeir ekkert selja og ekki farga neinu af því í skiptum, né heldur má þessi ágætasti hluti landsins ganga yfir í annarra eigu, því að hann er helgaður Drottni.
15 En þær 5.000 álnir, sem eftir eru af breiddinni meðfram 25.000 álnunum, eru óheilagt land handa borginni til ábúðar og beitilands, en borgin skal standa í þeim reit miðjum.
16 Og þetta er mál hennar: Norðurhliðin 4.500 álnir og suðurhliðin 4.500 álnir og austurhliðin 4.500 álnir og vesturhliðin 4.500 álnir.
17 Og útjörð borgarinnar skal vera 250 álnir til norðurs, 250 til suðurs, 250 til austurs og 250 til vesturs.
18 Og það sem eftir er af lengdinni meðfram hinni helgu fórnargjöf, 10.000 álnir til austurs og 10.000 álnir til vesturs, afurðir þess skulu vera íbúum borgarinnar til fæðslu.
19 Og hvað íbúa borgarinnar snertir, þá skulu byggja hana menn af öllum ættkvíslum Ísraels.
20 Alls skuluð þér láta af hendi sem fórnargjöf 25.000 álnir í ferhyrning: hina heilögu fórnargjöf ásamt landeign borgarinnar.
21 Það, sem eftir er, skal tilheyra landshöfðingjanum, beggja vegna við hina heilögu fórnargjöf og landeign borgarinnar, austur á bóginn meðfram 25.000 álnunum að austurtakmörkunum og vestur á bóginn meðfram 25.000 álnunum að vesturtakmörkunum, samsvarandi hlutum ættkvíslanna. Það tilheyrir landshöfðingjanum, og hin heilaga fórnargjöf og helgidómur musterisins skal vera í því miðju.
22 Og eignarland levítanna og eignarland borgarinnar skal liggja mitt inni í því, sem landshöfðingjanum tilheyrir. Milli Júda lands og Benjamíns lands skal það land liggja, er landshöfðingjanum tilheyrir.
23 En hinar ættkvíslirnar eru, frá austri til vesturs: Benjamín, einn landshluti.
24 Og meðfram Benjamínslandi, frá austri til vesturs: Símeon, einn landshluti.
25 Og meðfram Símeons landi, frá austri til vesturs: Íssakar, einn landshluti.
26 Og meðfram Íssakars landi, frá austri til vesturs: Sebúlon, einn landshluti.
27 Og meðfram Sebúlons landi, frá austri til vesturs: Gað, einn landshluti.
28 En meðfram Gaðs landi, að sunnanverðu, gegnt hádegisstað, skulu takmörkin liggja frá Tamar yfir Meríba-vötn við Kades til Egyptalandsár og þaðan til hafsins mikla.
29 Þetta er landið, sem þér skuluð úthluta ættkvíslum Ísraels til arfleifðar, og þetta eru hlutir þeirra _ segir Drottinn Guð.
30 Og þessi eru útgönguhlið borgarinnar, og eru hlið borgarinnar nefnd eftir ættkvíslum Ísraels: Á norðurhliðinni, sem er 4.500 álnir að máli,
31 eru þrjú hlið: Rúbenshlið eitt, Júdahlið eitt, Levíhlið eitt.
32 Á austurhliðinni, sem er 4.500 álnir, eru þrjú hlið: Jósefshlið eitt, Benjamínshlið eitt, Danshlið eitt.
33 Á suðurhliðinni, sem er 4.500 álnir að máli, eru þrjú hlið: Símeonshlið eitt, Íssakarshlið eitt, Sebúlonshlið eitt.
34 Og á vesturhliðinni, sem er 4.500 álnir, eru þrjú hlið: Gaðshlið eitt, Assershlið eitt, Naftalíhlið eitt.
104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.
10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.
19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.
33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
by Icelandic Bible Society