Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 17

17 Elía Tisbíti, frá Tisbe í Gíleað, sagði við Akab: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð Ísraels, lifir, sá er ég þjóna, skal þessi árin hvorki drjúpa dögg né regn, nema ég segi."

Og orð Drottins kom til hans, svolátandi:

"Far þú héðan og hald austur á bóginn, og fel þig við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan.

Og þú skalt drekka úr læknum, og hröfnunum hefi ég boðið að fæða þig þar."

Hann gjörði sem Drottinn bauð honum, fór og settist að við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan.

Og hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á morgnana og brauð og kjöt á kveldin, og úr læknum drakk hann.

En eftir nokkurn tíma þornaði lækurinn upp, því að eigi hafði komið skúr á jörð.

Þá kom orð Drottins til hans, svolátandi:

"Tak þig upp og far til Sarefta, sem tilheyrir Sídon, og sest þar að. Sjá, ég hefi boðið ekkju nokkurri þar að fæða þig."

10 Þá tók hann sig upp og fór til Sarefta. Og er hann kom að borgarhliðinu, var ekkja þar að tína saman viðarkvisti. Hann kallaði til hennar og mælti: "Sæk þú mér dálítið af vatni í ílátinu, að ég megi drekka."

11 Og hún fór að sækja það, en hann kallaði á eftir henni og mælti: "Færðu mér líka brauðbita."

12 Hún svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, á ég enga köku til, heldur aðeins hnefa mjöls í skjólu og lítið eitt af viðsmjöri í krús. Og sjá, ég er að tína saman fáeina viðarkvisti. Síðan ætla ég heim og matbúa þetta handa mér og syni mínum, að við megum eta það og deyja síðan."

13 En Elía sagði við hana: "Óttast ekki! Far þú heim og gjör sem þú sagðir. Gjör þú mér samt fyrst litla köku af því og fær mér út hingað, en matreið síðan handa þér og syni þínum.

14 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð."

15 Þá fór hún og gjörði eins og Elía hafði sagt, og hún hafði nóg að eta, bæði hún og hann og sonur hennar, um langa hríð.

16 Mjölskjólan varð ekki tóm og viðsmjörið í krúsinni þraut ekki, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Elía.

17 Eftir þetta bar svo við, að sonur húsfreyju sýktist, og elnaði honum svo mjög sóttin, að hann dró eigi lengur andann.

18 Þá mælti hún við Elía: "Hvað á ég saman við þig að sælda, guðsmaður? Þú ert til mín kominn til að minna á misgjörð mína og til að láta son minn deyja."

19 En Elía sagði við hana: "Fá þú mér son þinn." Og hann tók hann úr kjöltu hennar og bar hann upp á loft, þar sem hann hafðist við, og lagði hann í rekkju sína.

20 Og hann kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, ætlar þú líka að fara svo illa með ekkjuna, sem ég gisti hjá, að láta son hennar deyja?"

21 Og hann teygði sig þrisvar yfir sveininn og kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, lát sál þessa sveins aftur til hans hverfa!"

22 Og Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við.

23 En Elía tók sveininn og bar hann ofan af loftinu niður í húsið og fékk hann móður hans. Og Elía mælti: "Sjá þú, sonur þinn er lifandi."

24 Þá sagði konan við Elía: "Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur."

Bréf Páls til Kólossumann 4

Þér sem eigið þræla, veitið þeim það sem rétt er og sanngjarnt og vitið, að einnig þér eigið Drottin á himni.

Verið staðfastir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð.

Biðjið jafnframt fyrir oss, að Guð opni oss dyr fyrir orðið og vér getum boðað leyndardóm Krists. Hans vegna er ég nú bundinn.

Biðjið, að ég megi birta hann eins og mér ber að tala.

Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina.

Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.

Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður og samverkamaður í þjónustu Drottins, mun láta yður vita allt um mína hagi.

Ég sendi hann til yðar gagngjört til þess að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.

Með honum fer Onesímus, minn trúi og elskaði bróðir, sem er einn úr yðar hópi. Þeir munu láta yður vita allt, sem hér gjörist.

10 Aristarkus, sambandingi minn, biður að heilsa yður. Svo og Markús, frændi Barnabasar, sem þér hafið fengið orð um. Ef hann kemur til yðar, þá takið vel á móti honum.

11 Ennfremur biður Jesús, að viðurnefni Jústus, að heilsa yður. Þeir eru nú sem stendur einu umskornu samverkamenn mínir fyrir Guðs ríki, og hafa þeir verið mér til huggunar.

12 Einnig biður Epafras að heilsa yður, sem er einn úr yðar hópi. Hann er þjónn Krists Jesú og berst jafnan fyrir yður í bænum sínum, til þess að þér megið standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.

13 Þann vitnisburð gef ég honum, að hann leggur mikið á sig fyrir yður og þá sem eru í Laódíkeu og í Híerapólis.

14 Þá biður hann Lúkas að heilsa yður, læknirinn elskaði, og Demas.

15 Berið kveðju bræðrunum í Laódíkeu. Einnig Nýmfu og söfnuðinum sem kemur saman í húsi hennar.

16 Og þegar búið er að lesa þetta bréf upp hjá yður, þá látið líka lesa það í söfnuði Laódíkeumanna. Lesið þér og bréfið frá Laódíkeu.

17 Segið Arkippusi: "Gættu embættisins, sem þú hefur tekið að þér í Drottni, og ræktu það vel."

Esekíel 47

47 Nú leiddi hann mig aftur að musterisdyrunum. Þá sá ég að vatn spratt upp undan þröskuldi hússins mót austri, því að framhlið musterisins vissi til austurs. Og vatnið rann niður undan suðurhlið musterisins, sunnanvert við altarið.

Síðan leiddi hann mig út um norðurhliðið og fór með mig í kring að utanverðu að ytra hliðinu, sem snýr í austurátt. Þá sá ég að vatn vall upp undan suðurhliðinni.

Maðurinn gekk nú í austur með mælivað í hendi sér og mældi þúsund álnir. Og hann lét mig vaða yfir um vatnið, og tók það mér í ökkla.

Þessu næst mældi hann þúsund álnir og lét mig vaða yfir um vatnið, tók vatnið mér þá til knés. Þá mældi hann enn þúsund álnir og lét mig vaða yfir um, tók vatnið mér þá í mjöðm.

Þá mældi hann enn þúsund álnir. Var þá vatnið orðið að fljóti, svo að ég mátti ekki yfir það komast, því að vatnið var of djúpt, var orðið sundvatn, óvætt fljót.

Hann sagði þá við mig: "Hefir þú séð þetta, mannsson?" Og hann leiddi mig aftur upp á fljótsbakkann.

Og er ég kom þangað aftur, sá ég mjög mörg tré á fljótsbökkunum beggja vegna.

Þá sagði hann við mig: "Þetta vatn rennur út á austurhéraðið og þaðan ofan á sléttlendið, og þegar það fellur í Dauðahafið, í salt vatnið, verður vatnið í því heilnæmt.

Og allar lifandi skepnur, allt sem hrærist, fær nýtt fjör alls staðar þar sem fljótið kemur, og fiskurinn mun verða mjög mikill, því að þegar þetta vatn kemur þangað, verður vatnið í því heilnæmt, og allt lifnar við, þar sem fljótið kemur.

10 Og fiskimenn munu standa við það frá En Gedí alla leið til En Eglaím, og vötn þess munu verða veiðistöðvar, þar sem net verða lögð. Og fiskurinn í því mun verða mjög mikill, eins og í hafinu mikla.

11 En pyttirnir og síkin þar hjá munu ekki vera heilnæm, þau eru ætluð til saltfengjar.

12 En meðfram fljótinu, á bökkunum beggja vegna, munu upp renna alls konar aldintré. Laufblöð þeirra munu ekki visna og ávextir þeirra ekki dvína. Á hverjum mánuði munu þau bera nýja ávöxtu, af því að vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum. Og ávextir þeirra munu hafðir verða til matar og laufblöð þeirra til lyfja."

13 Svo segir Drottinn Guð: Þetta eru takmörkin, og innan þeirra skuluð þér skipta yður niður á landið eftir tólf ættkvíslum Ísraels, þó skal Jósef fá tvo hluti.

14 Þér skuluð fá landið til eignar, einn jafnt sem annar, með því að ég hét eitt sinn með eiði að gefa feðrum yðar það, og því skal land þetta falla yður til erfða.

15 Þetta skulu vera takmörk landsins að norðanverðu: Frá hafinu mikla í áttina til Hetlón, þangað er leið liggur til Hamat,

16 Sedad, Beróta, Sibraím, sem liggur á milli Damaskuslands og Hamatlands, til Hasar Enón, sem liggur á landamærum Havrans.

17 Takmörkin skulu þannig liggja frá hafinu til Hasar Enón, en Damaskusland liggur lengra til norðurs. Þetta er norðurhliðin.

18 Og austurhliðin: Frá Hasar Enón, sem liggur milli Havran og Damaskus, allt að eystra hafinu, er Jórdan takmarkalína milli Gíleaðs og Ísraelslands, allt til Tamar. Þetta er austurhliðin.

19 Og suðurhliðin gegnt hádegisstað: Frá Tamar alla leið til Meríbótvatna við Kades, að Egyptalandsá og þaðan til hafsins mikla. Þetta er suðurhliðin gegnt hádegisstað.

20 Og vesturhliðin: Hafið mikla ræður þar takmörkum allt þangað til komið er þar gegnt, er leið liggur til Hamat. Þetta er vesturhliðin.

21 Þér skuluð skipta þessu landi meðal yðar eftir ættkvíslum Ísraels.

22 Skuluð þér skipta því með hlutkesti til arfleifðar meðal yðar og þeirra útlendra manna, er búa meðal yðar og getið hafa sonu meðal yðar. Þá skuluð þér álíta innborna Ísraelsmenn, með yður skulu þeir varpa hlutum um arfleifð meðal ættkvísla Ísraels.

23 Þér skuluð fá hverjum útlendum manni arfleifð í þeirri ættkvísl, þar sem hann býr _ segir Drottinn Guð.

Sálmarnir 103

103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,

lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,

leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.

Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.

Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.

Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.

10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,

11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.

15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.

17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.

19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.

22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society