M’Cheyne Bible Reading Plan
16 En orð Drottins kom til Jehú Hananísonar gegn Basa, svolátandi:
2 "Sakir þess að ég hefi hafið þig úr duftinu og gjört þig höfðingja yfir lýð mínum Ísrael, en þú fetar í fótspor Jeróbóams og kemur lýð mínum Ísrael til að syndga, svo að þeir egna mig til reiði með syndum sínum,
3 þá mun ég sópa burt Basa og ætt hans, og fara með ætt þína eins og ætt Jeróbóams Nebatssonar.
4 Hvern þann, er deyr af ætt Basa innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, er deyr af henni úti á víðavangi, munu fuglar himins eta."
5 Það sem meira er að segja um Basa og það er hann gjörði og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
6 Og Basa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Tirsa, og Ela sonur hans tók ríki eftir hann.
7 En fyrir munn Jehú spámanns Hananísonar kom dómsorð Drottins yfir Basa og ætt hans, bæði vegna alls þess illa, er hann hafði aðhafst í augsýn Drottins með því að egna hann til reiði með handaverkum sínum, svo að fyrir honum færi sem fyrir ætt Jeróbóams, og líka vegna þess, að hann hafði eytt henni.
8 Á tuttugasta og sjötta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Ela, sonur Basa, konungur yfir Ísrael og ríkti hann tvö ár í Tirsa.
9 En Simrí, þjónn hans, foringi fyrir helmingi vagnliðsins, hóf samsæri gegn honum. Og er Ela drakk sig drukkinn í Tirsa, í húsi Arsa, dróttseta í Tirsa,
10 þá kom þar Simrí og vann á honum og drap hann, á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann.
11 En er hann var konungur orðinn og setstur í hásæti, drap hann alla ættmenn Basa _ lét hann engan karlmann eftir verða af konungsættinni _ svo og vandamenn hans og vini.
12 Þannig gjöreyddi Simrí allri ætt Basa, og rættist svo orð Drottins, sem hann hafði talað gegn Basa fyrir munn Jehú spámanns,
13 sakir allra synda hans og synda Ela sonar hans, þeirra er þeir höfðu drýgt og komið Ísrael til að drýgja, að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.
14 Það sem meira er að segja um Ela og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
15 Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Simrí konungur og ríkti sjö daga í Tirsa. En liðið sat þá um Gibbeton, sem Filistar áttu.
16 Og er liðið, sem lá í herbúðunum, frétti að Simrí hefði hafið samsæri og drepið konung, þá tók allur Ísrael Omrí, hershöfðingja í Ísrael, til konungs þann dag þar í herbúðunum.
17 Þá hélt Omrí og allur Ísrael með honum frá Gibbeton og settist um Tirsa.
18 En er Simrí sá að borgin var unnin, gekk hann inn í vígi konungshallarinnar og lagði eld í konungshöllina yfir höfði sér og beið svo bana
19 sakir synda þeirra, er hann hafði drýgt með því að gjöra það sem illt var í augum Drottins, með því að feta í fótspor Jeróbóams og drýgja sömu syndirnar, sem hann hafði drýgt, með því að koma Ísrael til að syndga.
20 Það sem meira er að segja um Simrí og samsærið, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
21 Þá skiptist Ísraelslýður. Fylgdi annar hluti lýðsins Tibní Gínatssyni og vildi gjöra hann að konungi, en hinn hlutinn fylgdi Omrí.
22 En þeir, sem Omrí fylgdu, urðu hinum yfirsterkari, er fylgdu Tibní Gínatssyni. En er Tibní var dauður, varð Omrí konungur.
23 Á þrítugasta og fyrsta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Omrí konungur yfir Ísrael og ríkti tólf ár. Sex ár ríkti hann í Tirsa.
24 Hann keypti Samaríufjall af Semer fyrir tvær talentur silfurs, og reisti byggð á fjallinu og kenndi borgina, sem hann byggði, við Semer, er átt hafði fjallið, og nefndi Samaríu.
25 Omrí gjörði það sem illt var í augum Drottins og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum,
26 og fetaði að öllu leyti í fótspor Jeróbóams Nebatssonar og drýgði sömu syndirnar, sem hann hafði komið Ísrael til að drýgja, svo að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.
27 Það sem meira er að segja um Omrí og allt sem hann gjörði og hreystiverk hans, þau er hann vann, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
28 Og Omrí lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu. Og Akab sonur hans tók ríki eftir hann.
29 Akab, sonur Omrí, varð konungur yfir Ísrael á þrítugasta og áttunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael í Samaríu tuttugu og tvö ár.
30 Akab, sonur Omrí, gjörði það sem illt var í augum Drottins, og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum.
31 Og hann lét sér ekki nægja að drýgja sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, heldur gekk hann að eiga Jesebel, dóttur Etbaals Sídoningakonungs. Fór hann þá og þjónaði Baal og tilbað hann.
32 Og hann reisti Baal altari í musteri Baals, er hann hafði gjöra látið í Samaríu.
33 Akab lét og gjöra aséru. Og hann gjörði enn fleira til að egna Drottin, Guð Ísraels, til reiði, framar öllum Ísraelskonungum, sem á undan honum höfðu verið.
34 Á hans dögum reisti Híel frá Betel Jeríkó að nýju. Missti hann frumgetning sinn, Abíram, er hann lagði undirstöður hennar, og yngsta son sinn, Segúb, er hann reisti hlið hennar. Var það samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Jósúa Núnssonar.
3 Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs.
2 Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er.
3 Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði.
4 Þegar Kristur, sem er líf yðar, opinberast, þá munuð þér og ásamt honum opinberast í dýrð.
5 Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.
6 Af þessu kemur reiði Guðs [yfir þá, sem hlýða honum ekki].
7 Meðal þeirra voruð og þér áður, þegar þér lifðuð í þessum syndum.
8 En nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.
9 Ljúgið ekki hver að öðrum, því þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans
10 og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.
11 Þar er ekki grískur maður eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll eða frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.
12 Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.
13 Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.
14 En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.
15 Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir.
16 Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar.
17 Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann.
18 Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til.
19 Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær.
20 Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.
21 Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.
22 Þér þrælar, verið hlýðnir í öllu jarðneskum drottnum yðar, ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur í einlægni hjartans og í ótta Drottins.
23 Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn.
24 Þér vitið og sjálfir, að Drottinn mun veita yður arfleifðina að launum. Þér þjónið Drottni Kristi.
25 Sá, sem rangt gjörir, skal fá það endurgoldið, sem hann gjörði rangt, og þar er ekki manngreinarálit.
46 Svo segir Drottinn Guð: Hlið innri forgarðsins, það er snýr í austur, skal lokað vera sex virku dagana, en hvíldardaginn skal opna það og tunglkomudaginn skal opna það.
2 Og landshöfðinginn skal koma að utan og ganga inn um forsal hliðsins og nema staðar við dyrastafi hliðsins. Þá skulu prestarnir bera fram brennifórn hans og heillafórn, en hann skal falla fram á þröskuldi hliðsins og ganga síðan út aftur, og hliðinu skal ekki loka til kvelds.
3 Og landslýðurinn skal falla fram fyrir auglit Drottins við dyr þessa hliðs á hvíldardögum og tunglkomudögum.
4 Brennifórnin, sem landshöfðinginn á að færa Drottni, skal vera: Á hvíldardegi sex sauðkindur gallalausar og einn hrútur gallalaus,
5 og auk þess í matfórn ein efa með hverjum hrút, og með sauðkindunum slík matfórn, er hann vill sjálfur gefa, og ein hín af olíu með hverri efu.
6 Á tunglkomudögum skal hún vera ungneyti gallalaust og sex sauðkindur og einn hrútur, allt gallalaust.
7 Og hann skal láta fram bera efu með uxanum og efu með hrútnum í matfórn og með sauðkindunum svo sem hann má af hendi láta, og hín af olíu með hverri efu.
8 Þegar landshöfðinginn gengur inn, skal hann ganga inn um forsal hliðsins og fara sömu leið út aftur.
9 Og þegar landslýðurinn gengur fram fyrir Drottin á löghátíðunum, þá skal sá, er inn hefir gengið um norðurhliðið til þess að falla fram, aftur út fara um suðurhliðið, og sá, er inn hefir gengið um suðurhliðið, skal aftur út fara um norðurhliðið. Enginn skal aftur út fara um það hlið, sem hann hefir inn gengið, heldur skal hann út fara um það hlið, sem gegnt honum er.
10 Og landshöfðinginn skal ganga inn mitt á meðal þeirra, þegar þeir ganga inn, og fara út, þegar þeir fara út.
11 Á hátíðum og löghelgum skal matfórnin vera efa með uxanum og efa með hrútnum, og með sauðkindunum slíkt, er hann vill sjálfur gefa, og hín af olíu með hverri efu.
12 Og þegar landshöfðinginn ber fram sjálfviljafórn, brennifórn eða heillafórn sem sjálfviljafórn Drottni til handa, þá skal upp ljúka fyrir honum því hliðinu, sem í austur snýr. Síðan skal hann bera fram brennifórn sína og heillafórn, eins og hann er vanur að gjöra á hvíldardögum, og ganga síðan út, og þegar hann er farinn út, skal loka hliðinu á eftir honum.
13 Á degi hverjum skal hann láta fram bera ársgamla sauðkind gallalausa í brennifórn Drottni til handa, á hverjum morgni skal hann fram bera hana.
14 Og sem matfórn skal hann fram bera með henni á hverjum morgni 1/6 efu og 1/3 hínar af olíu til þess að væta með mjölið, sem matfórn Drottni til handa. Skal það vera stöðug skyldugreiðsla.
15 Og þannig skulu þeir fram bera sauðkindina og matfórnina og olíuna á hverjum morgni sem stöðuga brennifórn.
16 Svo segir Drottinn Guð: Ef landshöfðinginn gefur einhverjum sona sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal það tilheyra sonum hans. Það er erfðaeign þeirra.
17 En gefi hann einhverjum þjónustumanna sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal hann halda því til lausnarársins. Þá skal það hverfa aftur til landshöfðingjans. En óðal sona hans skal haldast í eign þeirra.
18 Og ekki má landshöfðinginn taka neitt af óðali lýðsins og veita honum með því yfirgang. Af sinni eigin eign verður hann að veita sonum sínum arfleifð, til þess að enginn af lýð mínum verði flæmdur burt frá eign sinni."
19 Því næst leiddi hann mig gegnum ganginn, sem liggur fast við hliðið, til hinna heilögu herbergja, sem ætluð eru prestunum og vita í norður. En þar var rúm í ysta horni mót vestri.
20 Og hann sagði við mig: "Þetta er staðurinn, þar sem prestarnir skulu sjóða sektarfórnina og syndafórnina, og þar sem þeir skulu baka matfórnina, til þess að þeir þurfi ekki að bera það út í ytri forgarðinn og þann veg helga lýðinn."
21 Og hann leiddi mig út í ytri forgarðinn og lét mig ganga í gegn, út í fjögur horn forgarðsins, og sjá, lítill forgarður var í hverju horni forgarðsins.
22 Í fjórum hornum forgarðsins voru aftur minni forgarðar, fjörutíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd. Voru þeir allir fjórir jafnir að máli.
23 Og í þeim var múrveggur allt í kring, allt í kring í þeim fjórum, og eldstór voru gjörðar neðan til við múrveggina allt í kring.
24 Og hann sagði við mig: "Þetta eru eldhúsin, þar sem þjónustumenn musterisins skulu sjóða sláturfórnir lýðsins."
102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.
2 Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.
3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.
4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.
5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.
6 Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.
7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.
8 Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.
9 Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.
10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum
11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.
13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.
16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.
19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.
24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.
29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.
by Icelandic Bible Society