M’Cheyne Bible Reading Plan
15 Á átjánda ríkisári Jeróbóams Nebatssonar varð Abía konungur yfir Júda.
2 Þrjú ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka, dóttir Absalons.
3 Hann drýgði allar sömu syndirnar, er faðir hans hafði fyrir honum haft, og hjarta hans var ekki óskipt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs forföður hans.
4 Því að það var eingöngu Davíðs vegna, að Drottinn, Guð hans, gaf honum lampa í Jerúsalem, að hann hóf sonu hans eftir hann og lét Jerúsalem standa,
5 af því að Davíð hafði gjört það sem rétt var í augum Drottins og aldrei á ævi sinni vikið frá neinu því, er hann hafði fyrir hann lagt, nema hvernig hann fór með Úría Hetíta.
6 Rehabeam átti í ófriði við Jeróbóam alla ævi.
7 Það, sem meira er að segja um Abía, og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. Og þeir áttu í ófriði saman, Abía og Jeróbóam.
8 Og Abía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Davíðsborg. Og Asa sonur hans tók ríki eftir hann.
9 Á tuttugasta ríkisári Jeróbóams, konungs í Ísrael, varð Asa konungur yfir Júda.
10 Fjörutíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka, dóttir Absalons.
11 Asa gjörði það sem rétt var í augum Drottins, eins og Davíð forfaðir hans.
12 Hann rak þá menn úr landi, er helgað höfðu sig saurlifnaði, og útrýmdi öllum skurðgoðum, sem forfeður hans höfðu gjöra látið.
13 Hann svipti jafnvel Maöku móður sína drottningartigninni, fyrir það að hún hafði gjöra látið hræðilegt asérulíkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar og brenndi það í Kídrondal.
14 En hæðirnar voru ekki afnumdar. Þó var hjarta Asa óskipt gagnvart Drottni alla ævi hans.
15 Hann lét og flytja í hús Drottins helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar _ silfur, gull og áhöld.
16 En þeir áttu ófrið saman alla ævi, Asa og Basa konungur í Ísrael.
17 Og Basa, konungur í Ísrael, fór herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi.
18 Þá tók Asa allt silfrið og gullið, sem enn var eftir í féhirslum húss Drottins, og fjársjóðu konungshallarinnar og seldi í hendur mönnum sínum. Síðan sendi Asa konungur þá til Benhadads Tabrimmonssonar, Hesíonssonar, konungs á Sýrlandi, er bjó í Damaskus, með þessa orðsending:
19 "Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér gjöf í silfri og gulli. Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér."
20 Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og vann Íjón og Dan og Abel-Bet-Maaka og allt Kinnerót, svo og allt Naftalí-land.
21 Þegar Basa spurði það, hætti hann að víggirða Rama og sneri heim til Tirsa.
22 En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum _ enginn var undanskilinn. Og þeir fluttu burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti Asa konungur með þeim Geba í Benjamín og Mispa.
23 Það sem meira er að segja um Asa og hreystiverk hans og allt það, er hann gjörði, og borgirnar, sem hann víggirti, það er allt ritað í Árbókum Júdakonunga. Þó má geta þess, að á efri árum gjörðist hann fótaveikur.
24 Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs, forföður síns. Og Jósafat sonur hans tók ríki eftir hann.
25 Nadab, sonur Jeróbóams, varð konungur yfir Ísrael á öðru ríkisári Asa, konungs í Júda, og ríkti hann tvö ár yfir Ísrael.
26 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor föður síns og drýgði þær syndir, er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja.
27 En Basa, sonur Ahía af ætt Íssakars, hóf samsæri gegn honum og vann sigur á honum við Gibbeton, sem Filistar áttu. En Nadab og allur Ísrael sátu þá um Gibbeton.
28 Þannig drap Basa hann á þriðja ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann.
29 En er hann var konungur orðinn, drap hann alla ætt Jeróbóams. Hann lét engan eftir verða af konungsættinni, þann er anda dró, uns hann hafði gjöreytt henni, og rættist þannig orð Drottins, sem hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía frá Síló,
30 vegna synda Jeróbóams, þeirra er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja, er hann egndi Drottin, Guð Ísraels, til reiði.
31 Það sem meira er að segja um Nadab og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
32 En þeir áttu ófrið saman alla ævi, Asa og Basa, konungur í Ísrael.
33 Á þriðja ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Basa, sonur Ahía, konungur yfir öllum Ísrael, og ríkti hann tuttugu og fjögur ár í Tirsa.
34 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor Jeróbóams og drýgði þær syndir, er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja.
2 Ég vil að þér vitið, hversu hörð er barátta mín vegna yðar og þeirra í Laódíkeu og allra þeirra, sem ekki hafa séð mig sjálfan.
2 Mig langar, að þeir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist gjörvalla auðlegð þeirrar sannfæringar og skilnings, sem veitir þekkinguna á leyndardómi Guðs, Kristi.
3 En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.
4 Þetta segi ég til þess að enginn tæli yður með áróðurstali,
5 því að ég er hjá yður í andanum, þótt ég sé líkamlega fjarlægur, og ég horfi með fögnuði á góða skipan hjá yður og festu yðar í trúnni á Krist.
6 Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum.
7 Verið rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni, eins og yður hefur verið kennt, og auðugir að þakklátsemi.
8 Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.
9 Því að í honum býr öll fylling guðdómsins líkamlega.
10 Og í honum, sem er höfuð hvers konar tignar og valds, hafið þér öðlast hlutdeild í þessari fyllingu.
11 Í honum eruð þér einnig umskornir þeirri umskurn, sem ekki er með höndum gjörð, heldur með umskurn Krists, við að afklæðast hinum synduga líkama,
12 þegar þér voruð greftraðir með Kristi í skírninni. Í skírninni voruð þér einnig með honum uppvaktir fyrir trúna á mátt Guðs, er vakti hann upp frá dauðum.
13 Þér voruð dauðir sökum afbrota yðar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði yður ásamt honum, þegar hann fyrirgaf oss öll afbrotin.
14 Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn.
15 Hann fletti vopnum tignirnar og völdin, leiddi þau opinberlega fram til háðungar og hrósaði sigri yfir þeim í Kristi.
16 Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga.
17 Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn er Krists.
18 Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í hyggju holds síns
19 og halda sér ekki við hann, sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og samantengir taugum og böndum, svo að hann þróast guðlegum þroska.
20 Ef þér eruð dánir með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þér yður þá eins og þér lifðuð í heiminum og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi:
21 "Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á"? _
22 Allt þetta er þó ætlað til að eyðast við notkunina! _ mannaboðorð og mannalærdómar!
23 Þetta hefur að sönnu orð á sér um speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann, en hefur ekkert gildi, heldur er til þess eins að fullnægja holdinu.
45 Þegar þér skiptið landinu með hlutkesti til arfleifðar, skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf af því, heilaga landspildu, 25.000 álna á lengd og 20.000 álna á breidd. Skal hún heilög vera innan takmarka sinna í allar áttir.
2 (Þar af skal falla undir helgidóminn ferhyrndur flötur, fimm hundruð álna á hvern veg, og fimmtíu álna teigur skal vera kringum hann.)
3 Af þessum mælda reit skalt þú mæla spildu 25.000 álna langa og 10.000 álna breiða. Á henni skal helgidómurinn, hinn háheilagi, standa.
4 Það er helgigjöf í jarðeign. Skal hún tilheyra prestunum, þeim er gegna þjónustu við helgidóminn og nálgast mega Drottin til að þjóna honum. Skal það vera húsastæði handa þeim og tilheyra helgidóminum sem heilagt svæði.
5 Og 25.000 álna löng landspilda og 10.000 álna breið skal falla undir levítana, þá er þjónustu gegna við musterið, sem þeirra land fyrir borgir til þess að búa í.
6 Og sem fasteign borgarinnar skuluð þér tiltaka 5.000 álna breiða spildu og 25.000 álna langa, jafnlanga hinni heilögu fórnargjöf. Skal hún vera eign allra Ísraelsmanna.
7 En handa landshöfðingjanum skuluð þér tiltaka landshluta beggja vegna við helguðu landspilduna og borgarreitinn, meðfram hinni helguðu landspildu og meðfram borgarreitnum, vestanmegin til vesturs og austanmegin til austurs, og skal hann vera jafnlangur einum erfðahluta ættkvíslanna og ná frá vesturtakmörkum til austurtakmarka landsins.
8 Þetta skal vera landeign hans í Ísrael, svo að höfðingjar mínir veiti eigi framar þjóð minni yfirgang, heldur fái Ísraelsmönnum landið eftir ættkvíslum þeirra.
9 Svo segir Drottinn Guð: Látið yður nægja þetta, þér Ísraels höfðingjar! Látið af ofríki og yfirgangi, en iðkið rétt og réttlæti! Látið af að reka þjóð mína af eignum hennar! _ segir Drottinn Guð.
10 Þér skuluð hafa rétta vog, rétta efu og rétta bat.
11 Efa og bat skulu vera jafnar að máli, svo að bat taki tíunda part gómers og sömuleiðis efa tíunda part gómers. Eftir gómer skal hvort tveggja mælast.
12 Sikill skal vera tuttugu gerur. Fimm siklar skulu vera réttir fimm og tíu siklar réttir tíu. Fimmtíu siklar skulu vera í mínu.
13 Þetta er fórnargjöfin, sem þér skuluð gefa: 1/6 efu af hverjum gómer hveitis og 1/6 efu af hverjum gómer byggs.
14 Og ákvæðið um olífuolíuna er þetta: 1/10 úr bat af hverju kór (því að tíu bat eru í einu kór).
15 Enn fremur einn sauð af hjörðinni, af hverjum tveim hundruðum, sem fórnargjöf frá öllum kynkvíslum Ísraels til matfórnar, brennifórnar og heillafórnar, til þess að friðþægja fyrir þá _ segir Drottinn Guð.
16 Allur landslýðurinn skal vera skyldur til að færa landshöfðingjanum í Ísrael þessa fórnargjöf.
17 En landshöfðinginn skal vera skyldur að leggja til brennifórnir, matfórn og dreypifórn á hátíðum, tunglkomum og hvíldardögum við allar hátíðasamkomur Ísraelsmanna. Hann skal láta fram bera syndafórnina og matfórnina og brennifórnina og heillafórnirnar til þess að friðþægja fyrir Ísraelsmenn.
18 Svo segir Drottinn Guð: Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú taka ungan uxa gallalausan og syndhreinsa helgidóminn.
19 Og presturinn skal taka af blóði syndafórnarinnar og ríða á dyrastafi musterisins og á fjóra hyrninga altarisstallanna og á dyrastafi hliðsins að innri forgarðinum.
20 Og eins skalt þú gjöra á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar vegna þeirra, sem af vangá eða fákænsku kynnu að hafa misgjört eitthvað, og þannig skuluð þér þiggja musterið í frið.
21 Á fjórtánda degi hins fyrsta mánaðar skuluð þér halda páskahátíðina, í sjö daga skulu etin ósýrð brauð.
22 Og á þeim degi skal landshöfðinginn láta bera fram uxa í syndafórn fyrir sig og allan landslýðinn.
23 Og sjö daga hátíðarinnar skal hann láta fram bera sem brennifórn Drottni til handa sjö uxa og sjö hrúta gallalausa, á hverjum degi þessa sjö daga, svo og daglega geithafur í syndafórn.
24 Og sem matfórn skal hann láta fram bera efu með hverjum uxa og efu með hverjum hrút, og olíu, hín með hverri efu.
25 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, á hátíðinni, skal hann í sjö daga láta fram bera jafnmikið þessu, bæði syndafórn og brennifórn og matfórn og olíu.
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.
2 Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.
3 Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.
4 Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.
5 Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.
6 Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.
7 Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.
8 Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.
by Icelandic Bible Society