Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 14

14 Í þann tíma sýktist Abía, sonur Jeróbóams.

Þá sagði Jeróbóam við konu sína: "Far nú og klæð þig dularbúningi, svo að enginn megi kenna, að þú ert kona Jeróbóams, og far til Síló. Þar er Ahía spámaður, sá er um mig sagði, að ég mundi verða konungur yfir lýð þessum.

Og tak með þér tíu brauð og kökur og krús með hunangi og gakk þú inn til hans. Hann mun segja þér, hvernig fara mun um sveininn."

Kona Jeróbóams gjörði svo, lagði af stað og fór til Síló, og gekk inn í hús Ahía. Ahía mátti ekki sjá, því að augu hans voru stirðnuð af elli.

En Drottinn hafði sagt við Ahía: "Sjá, kona Jeróbóams kemur til þess að leita frétta hjá þér um son sinn, því að hann er sjúkur. Svo og svo skalt þú til hennar mæla." Þegar hún kom og lést vera önnur en hún var,

og Ahía heyrði fótatak hennar, er hún kom að dyrunum, þá sagði hann: "Kom þú inn, kona Jeróbóams! Hvers vegna læst þú vera önnur en þú ert, þar sem ég þó er sendur til þín með hörð tíðindi?

Far þú og seg Jeróbóam: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sakir þess að ég hóf þig upp af alþýðu manna og gjörði þig að höfðingja yfir lýð mínum Ísrael,

og svipti ætt Davíðs konungdóminum og fékk þér hann í hendur, en þú hefir eigi verið sem þjónn minn Davíð, er hélt boðorð mín og var mér hlýðinn af öllu hjarta, svo að hann gjörði það eitt, er rétt var í mínum augum,

heldur hefir þú gjört meira illt en allir þeir, sem á undan þér voru, og hefir farið og gjört þér aðra guði, og það steypt líkneski, til þess að egna mig til reiði, og hefir kastað mér aftur fyrir þig _

10 sakir þessa leiði ég ógæfu yfir hús Jeróbóams og mun uppræta fyrir honum hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. Og ég mun sópa burt húsi Jeróbóams, eins og saur er sópað burt, uns úti er um hann með öllu.

11 Hvern þann er deyr af ættmennum Jeróbóams innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta, því að Drottinn hefir talað það.

12 En statt þú nú upp og far heim til þín. Þegar þú stígur fæti inn í borgina, mun sveinninn deyja.

13 Og allur Ísrael mun harma hann, og menn munu grafa hann, því að hann er sá eini af ætt Jeróbóams, er greftrun mun hljóta, af því að eitthvað hefir það verið í fari hans, er Drottni, Guði Ísraels, geðjaðist að í ætt Jeróbóams.

14 Og Drottinn mun skipa konung yfir Ísrael, er uppræta mun hús Jeróbóams. Þetta er dagurinn, og hvað er nú þegar farið að koma fram?

15 Drottinn mun slá Ísrael, eins og reyrinn riðar í vatninu, og hann mun útrýma Ísrael úr þessu góða landi, er hann gaf feðrum þeirra, og tvístra þeim fyrir austan Efrat, af því að þeir hafa gjört sér asérur og egnt Drottin til reiði.

16 Og hann mun ofurselja Ísrael vegna synda þeirra, er Jeróbóam hefir drýgt og komið Ísrael til að drýgja."

17 Þá stóð kona Jeróbóams upp, hélt af stað og kom til Tirsa, en er hún steig yfir þröskuld hússins, dó sveinninn.

18 Og þeir grófu hann og allur Ísrael harmaði hann, og rættist þannig orð Drottins, er hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía spámanns.

19 Það sem meira er að segja um Jeróbóam, hvernig hann herjaði og hvernig hann ríkti, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

20 Og sá tími, sem Jeróbóam ríkti, var tuttugu og tvö ár. Þá lagðist hann til hvíldar hjá feðrum sínum, en Nadab sonur hans tók ríki eftir hann.

21 Rehabeam sonur Salómons varð konungur í Júda. Rehabeam hafði einn um fertugt, þá er hann varð konungur, og seytján ár ríkti hann í Jerúsalem, borginni, sem Drottinn hafði útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. Móðir hans hét Naama og var ammónítísk.

22 Júda gjörði það sem illt var í augum Drottins, og þeir vöktu vandlæting hans enn meir en feður þeirra höfðu gjört með öllum þeim syndum, er þeir drýgðu.

23 Því að einnig þeir gjörðu sér fórnarhæðir, merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré.

24 Þeir menn voru og í landinu, er helguðu sig saurlifnaði. Þeir aðhöfðust alla þá sömu svívirðing, sem þær þjóðir frömdu, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

25 Á fimmta ríkisári Rehabeams fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem

26 og tók fjársjóðu Drottins húss og fjársjóðu konungshallarinnar, tók það allt saman. Hann tók og alla gullskildina, sem Salómon hafði gjöra látið.

27 En Rehabeam konungur lét í þeirra stað gjöra eirskildi og fékk þá höfuðsmönnum lífvarðarins til geymslu, þeim er geyma dyra á höll konungs.

28 Og í hvert sinn er konungur gekk í hús Drottins, báru varðliðsmennirnir skildina, og fóru síðan með þá aftur í herbergi varðliðsmannanna.

29 Það sem meira er að segja um Rehabeam, og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

30 Þeir áttu ávallt í ófriði saman, Rehabeam og Jeróbóam.

31 Og Rehabeam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður hjá feðrum sínum í Davíðsborg. En móðir hans hét Naama og var ammónítísk. Og Abía sonur hans tók ríki eftir hann.

Bréf Páls til Kólossumann 1

Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú og Tímóteus, bróðir vor, heilsa

hinum heilögu og trúuðu bræðrum í Kólossu, sem eru í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum.

Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður.

Því að vér höfum heyrt um trú yðar á Krist Jesú og um kærleikann, sem þér berið til allra heilagra,

vegna vonar þeirrar, sem yður er geymd í himnunum. Um þá von hafið þér áður heyrt í orði sannleikans, fagnaðarerindinu,

sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum. Það hefur það líka gjört hjá yður frá þeim degi, er þér heyrðuð það og lærðuð að þekkja náð Guðs í sannleika.

Hið sama hafið þér og numið af Epafrasi, vorum elskaða samþjóni, sem er trúr þjónn Krists í vorn stað.

Hann hefur og sagt oss frá kærleika yðar, sem andinn hefur vakið með yður.

Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans,

10 svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.

11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði

12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.

13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.

14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.

15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar.

16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.

17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum.

18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.

19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa

20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.

21 Og yður, sem áður fyrri voruð fráhverfir Guði og óvinveittir honum í huga yðar og vondum verkum,

22 yður hefur hann nú sátta gjört við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann vildi láta yður koma fram fyrir sig heilaga og lýtalausa og óaðfinnanlega.

23 Standið aðeins stöðugir í trúnni, grundvallaðir og fastir fyrir og hvikið ekki frá von fagnaðarerindisins, sem þér hafið heyrt og prédikað hefur verið fyrir öllu, sem skapað er undir himninum, og er ég, Páll, orðinn þjónn þess.

24 Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan.

25 En hans þjónn er ég orðinn samkvæmt því hlutverki, sem Guð hefur mér á hendur falið yðar vegna: Að flytja Guðs orð óskorað,

26 leyndardóminn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu.

27 Guð vildi kunngjöra þeim, hvílíkan dýrðar ríkdóm heiðnu þjóðirnar eiga í þessum leyndardómi, sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar.

28 Hann boðum vér, er vér áminnum sérhvern mann og fræðum með allri speki, til þess að vér getum leitt hvern mann fram fullkominn í Kristi.

29 Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti, sem kröftuglega verkar í mér.

Esekíel 44

44 Hann leiddi mig nú aftur út að ytra hliði helgidómsins, því er til austurs vissi. Það var lokað.

Og Drottinn sagði við mig: "Þetta hlið skal vera lokað og ekki opnað verða. Enginn maður skal inn um það ganga, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir inn um það gengið. Fyrir því skal það lokað vera.

Þó má landshöfðinginn setjast þar niður til þess að eta fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni. Skal hann fara inn um forsal hliðsins og fara út aftur sama veg."

Því næst leiddi hann mig að norðurhliðinu fyrir framan framhlið musterisins. Sá ég þá, hversu dýrð Drottins fyllti musteri Drottins, og ég féll fram á ásjónu mína.

En Drottinn sagði við mig: "Mannsson, legg þér á hjarta, sjá með augum þínum og hlýð með eyrum þínum á allt það, sem ég segi þér um öll ákvæði viðvíkjandi musteri Drottins og um allar þær tilskipanir, er það snerta, og gæt vandlega að inngöngunni í musterið og öllum útgöngum úr helgidóminum.

Seg við hina þverúðarfullu, við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Nú hafið þér, Ísraelsmenn, nógu lengi framið allar yðar svívirðingar,

þar sem þér leidduð inn útlenda menn, óumskorna bæði á hjarta og á holdi, að þeir væru í helgidómi mínum, til þess að vanhelga musteri mitt, þegar þér færðuð mér mat minn, mör og blóð, og rufuð þannig sáttmála minn ofan á allar svívirðingar yðar.

Þér hafið eigi annast þjónustu helgidóma minna, heldur settuð þér þá til þess að annast þjónustuna í helgidómi mínum.

Svo segir Drottinn Guð: Enginn útlendur maður, óumskorinn bæði á hjarta og holdi, má inn í helgidóm minn koma _ enginn af þeim útlendingum, sem búa meðal Ísraelsmanna.

10 Levítarnir fjarlægðu sig frá mér, þá er Ísrael fór villur vegar. Með því að þeir villtust burt frá mér og eltu falsguði sína, skulu þeir gjöld taka fyrir misgjörð sína.

11 Þeir skulu gegna þjónustu í helgidómi mínum sem varðflokkar við hlið musterisins og sem musterisþjónar. Þeir skulu slátra brennifórninni og sláturfórninni fyrir lýðinn og standa frammi fyrir þeim til þess að þjóna þeim.

12 Af því að þeir þjónuðu þeim frammi fyrir skurðgoðum þeirra og urðu Ísraelsmönnum fótakefli til hrösunar, fyrir því hefi ég hafið hönd mína gegn þeim, _ segir Drottinn Guð _ og þeir skulu taka gjöld fyrir misgjörð sína.

13 Þeir skulu ekki nálgast mig til þess að veita mér prestþjónustu og nálgast alla helgidóma mína, hina háheilögu, heldur skulu þeir bera vanvirðu sína og taka gjöld fyrir þær svívirðingar, sem þeir frömdu.

14 Ég vil setja þá til þess að gegna þjónustu við musterið, til þess að annast það að öllu leyti og allt, sem þar er að gjöra.

15 En levítaprestarnir, niðjar Sadóks, þeir er ræktu þjónustu helgidóms míns, þá er Ísraelsmenn villtust frá mér, þeir skulu nálgast mig til þess að þjóna mér, og þeir skulu ganga fram fyrir mig til þess að færa mér mör og blóð _ segir Drottinn Guð.

16 Þeir skulu ganga inn í helgidóm minn og þeir skulu nálgast borð mitt til að þjóna mér, og þeir skulu rækja þjónustu mína.

17 Og er þeir ganga inn í hlið innri forgarðsins, skulu þeir klæðast línklæðum. Ekkert ullarfat skulu þeir á sér bera, þá er þeir gegna þjónustu í hliðum innri forgarðsins og þar innar af.

18 Þeir skulu hafa ennidúka af líni um höfuð sér og línbrækur um lendar sér. Eigi skulu þeir gyrðast neinu, er svita veldur.

19 En þegar þeir ganga út í ytri forgarðinn til lýðsins, skulu þeir fara úr þeim klæðum, er þeir gegna þjónustu í, og leggja þau í herbergi helgidómsins og fara í önnur klæði, svo að þeir helgi ekki lýðinn með klæðum sínum.

20 Þeir skulu ekki raka höfuð sín, né láta hárið flaka, heldur hafa stýft hár.

21 Vín skal enginn prestur drekka, þegar hann gengur inn í innri forgarðinn.

22 Enga ekkju né þá konu, sem við mann er skilin, mega þeir taka sér að eiginkonu, heldur aðeins meyjar af ætt Ísraelsmanna. Þó mega þeir kvongast ekkju, sé hún ekkja eftir prest.

23 Þeir skulu kenna lýð mínum að gjöra greinarmun á heilögu og óheilögu og fræða hann um muninn á óhreinu og hreinu.

24 Og þeir skulu standa frammi til þess að dæma í deilumálum manna. Eftir mínum lögum skulu þeir dæma þá, og boðorða minna og ákvæða skulu þeir gæta á öllum löghátíðum mínum og halda helga hvíldardaga mína.

25 Eigi mega þeir koma nærri líki, svo að þeir saurgist af, nema sé lík föður eða móður, sonar eða dóttur, bróður eða systur, sem ekki hefir verið manni gefin, á því mega þeir saurga sig.

26 Og eftir að hann er hreinn orðinn, skulu honum taldir sjö dagar.

27 Og daginn sem hann gengur aftur inn í helgidóminn, inn í innri forgarðinn til þess að gegna þjónustu í helgidóminum, skal hann fram bera syndafórn sína _ segir Drottinn Guð.

28 Óðal skulu þeir ekkert fá. Ég er óðal þeirra. Og ekki skuluð þér gefa þeim fasteign í Ísrael, ég er fasteign þeirra.

29 Þeir skulu hafa uppeldi sitt af matfórnum, syndafórnum og sektarfórnum, og allt, sem er banni helgað í Ísrael, skal tilheyra þeim.

30 Og hið besta af öllum frumgróða, hvers kyns sem er, og allar fórnir, hvers kyns sem eru af öllu því, er þér færið að fórnargjöf, skal tilheyra prestunum. Þér skuluð og gefa prestunum hið besta af deigi yðar til þess að leiða blessun niður yfir hús yðar.

31 Prestarnir mega ekki eta neitt sjálfdautt né það, sem dýrrifið er, hvort heldur er fugl eða fénaður.

Sálmarnir 97-98

97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.

Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,

eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.

Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.

Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.

Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.

Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.

Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.

Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.

10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.

11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.

12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.

98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.

Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.

Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.

Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.

Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,

með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.

Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.

Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman

fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society