Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 12

12 Rehabeam fór til Síkem, því að allur Ísrael var kominn þangað til þess að taka hann til konungs.

En er Jeróbóam Nebatsson frétti (hann var enn í Egyptalandi, þangað sem hann hafði flúið undan Salómon konungi), að Salómon væri dáinn, sneri hann heim frá Egyptalandi.

Þeir sendu boð og létu kalla hann. Þá kom Jeróbóam og allur söfnuður Ísraels og mæltu til Rehabeams á þessa leið:

"Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör þú nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér."

Hann svaraði þeim: "Farið nú burt og komið aftur til mín að þrem dögum liðnum." Og lýðurinn fór burt.

Þá ráðgaðist Rehabeam konungur við öldungana, sem þjónað höfðu Salómon föður hans meðan hann lifði, og mælti: "Hver andsvör ráðið þér mér að gefa þessum mönnum?"

Þeir svöruðu honum og mæltu: "Ef þú í dag verður lýð þessum eftirlátur, lætur að orðum þeirra, gjörir að vilja þeirra og tekur vel máli þeirra, munu þeir verða þér eftirlátir alla daga."

En Rehabeam hafnaði ráði því, er öldungarnir réðu honum, en ráðgaðist við unga menn, er vaxið höfðu upp með honum og nú þjónuðu honum,

og sagði við þá: "Hver ráð gefið þér til, hversu vér skulum svara lýð þessum, er talað hefir til mín á þessa leið: ,Gjör léttara ok það, er faðir þinn á oss lagði`?"

10 Þá svöruðu honum hinir ungu menn, er vaxið höfðu upp með honum: "Svo skalt þú svara lýð þessum, er sagði við þig: ,Faðir þinn gjörði ok vort þungt, en gjör þú oss það léttara` _ svo skalt þú mæla til þeirra: ,Litlifingur minn er digrari en lendar föður míns.

11 Hafi faðir minn lagt á yður þungt ok, mun ég gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum."`

12 Og Jeróbóam og allur lýðurinn kom til Rehabeams á þriðja degi, eins og konungur hafði sagt, þá er hann mælti: "Komið til mín aftur á þriðja degi."

13 Þá veitti konungur lýðnum hörð andsvör og fór eigi að ráðum þeim, er öldungarnir höfðu ráðið honum,

14 en talaði til þeirra á þessa leið, að ráði hinna ungu manna: "Faðir minn gjörði ok yðar þungt, en ég mun gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum."

15 Þannig veitti konungur lýðnum enga áheyrn, því að svo var til stillt af Drottni, til þess að hann gæti látið rætast orð sín, þau er hann hafði talað til Jeróbóams Nebatssonar fyrir munn Ahía frá Síló.

16 Er allur Ísrael sá, að konungur veitti þeim enga áheyrn, þá lét lýðurinn þessi svör í móti koma: "Hverja hlutdeild eigum vér í Davíð? Engan erfðahlut eigum vér í Ísaísyni. Far heim til þín, Ísrael! Gæt þú þíns eigin húss, Davíð!" Síðan fór Ísrael heim til sín.

17 En yfir þeim Ísraelsmönnum, er bjuggu í Júdaborgum, var Rehabeam konungur.

18 Rehabeam konungur sendi til þeirra Adóníram, sem var yfir kvaðarmönnum, en allur Ísrael lamdi hann grjóti til bana, og Rehabeam konungur hljóp í skyndi á vagn sinn og flýði til Jerúsalem.

19 Þannig gekk Ísrael undan ætt Davíðs, og stendur svo enn í dag.

20 Þegar Ísraelslýður heyrði, að Jeróbóam væri aftur kominn, sendu þeir og kölluðu hann á þingið og tóku hann til konungs yfir allan Ísrael. En enginn fylgdi Davíðsætt, nema Júda-ættkvísl ein.

21 Er Rehabeam kom til Jerúsalem, safnaði hann saman öllum Júdamönnum og Benjamíns-ættkvísl, hundrað og áttatíu þúsundum einvalaliðs, til þess að berjast við Ísraelsríki og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam, son Salómons.

22 En orð Guðs kom til Semaja guðsmanns, svolátandi:

23 "Tala þú svo til Rehabeams, sonar Salómons, konungs í Júda, og til Júdamanna og Benjamíns-ættkvíslar og til alls hins lýðsins:

24 Svo segir Drottinn: Farið eigi og berjist eigi við bræður yðar Ísraelsmenn. Fari hver heim til sín, því að að minni tilhlutun er þetta orðið." Og er þeir heyrðu orð Drottins, hurfu þeir aftur, eins og Drottinn bauð.

25 Jeróbóam víggirti Síkem á Efraímfjöllum og settist þar að. Þaðan fór hann og víggirti Penúel.

26 Og Jeróbóam hugsaði með sér: "Nú mun konungdómurinn aftur hverfa undir Davíðsætt.

27 Ef lýður þessi fer upp til Jerúsalem til þess að færa sláturfórnir í musteri Drottins, þá mun hjarta lýðs þessa aftur hverfa til Rehabeams Júdakonungs, herra hans, en mig munu þeir myrða og ganga svo aftur á hönd Rehabeam Júdakonungi."

28 Þá hugsaði konungur ráð sitt, lét gjöra tvo gullkálfa og mælti til lýðsins: "Nógu lengi hafið þér farið upp til Jerúsalem. Sjá, hér er guð þinn, Ísrael, sá er leiddi þig út af Egyptalandi."

29 Setti hann annan í Betel, en hinn setti hann í Dan.

30 En þetta varð til syndar, og lýðurinn gekk fram fyrir annan þeirra alla leið til Dan.

31 Hann gjörði og hof á hæðunum og gjörði að prestum óvalda menn, er ekki voru niðjar Leví.

32 Og Jeróbóam setti hátíð fimmtánda dag hins áttunda mánaðar, eins og hátíðina, sem haldin var í Júda, og hann gekk upp að altarinu. Þannig gjörði hann í Betel til þess að færa fórnir kálfunum, er hann hafði gjöra látið, og hann setti hæðaprestana, er hann hafði skipað, til þjónustu í Betel.

33 Jeróbóam gekk upp að altarinu, er hann hafði gjöra látið í Betel á fimmtánda degi hins áttunda mánaðar, í þeim mánuði er hann hafði ákveðið að eigin geðþótta til hátíðahalds fyrir Ísraelsmenn. Hann gekk upp að altarinu til þess að færa reykelsisfórn.

Bréf Páls til Filippímann 3

Að endingu, bræður mínir, verið glaðir í Drottni. Ég tel ekki eftir mér að endurtaka það, sem ég hef skrifað, en yður er það til öryggis.

Gefið gætur að hundunum, gefið gætur að hinum vondu verkamönnum, gefið gætur að hinum sundurskornu.

Vér erum hinir umskornu, vér sem dýrkum Guð í anda hans og miklumst af Kristi Jesú og treystum ekki ytri yfirburðum,

jafnvel þótt ég hafi einnig þá ytri yfirburði, sem ég gæti treyst. Ef einhver annar þykist geta treyst ytri yfirburðum, þá get ég það fremur.

Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins,

svo ákafur, að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.

En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists.

Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist

og reynst vera í honum. Nú á ég ekki eigið réttlæti, það er fæst af lögmáli, heldur það er fæst fyrir trú á Krist, réttlætið frá Guði með trúnni. _

10 Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans með því að mótast eftir honum í dauða hans.

11 Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum.

12 Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú.

13 Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það.

14 En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.

15 Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir erum. Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta.

16 Fyrir alla muni skulum vér ganga þá götu, sem vér höfum komist á.

17 Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið.

18 Margir breyta, _ ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi _, eins og óvinir kross Krists.

19 Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum.

20 En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists.

21 Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.

Esekíel 42

42 Því næst fór hann með mig út í ytri forgarðinn, í norðurátt. Og hann leiddi mig að herberginu, sem er gegnt afgirta svæðinu og gegnt húsinu, sem liggur til norðurs.

Það var hundrað álnir á lengd og fimmtíu álnir á breidd.

Og gegnt dyrunum, sem lágu inn í innri forgarðinn, og gegnt steingólfi ytri forgarðsins, voru tvenn súlnagöng, hvor fyrir framan önnur, svo að salirnir voru þrír.

Og fyrir framan herbergin var tíu álna breiður gangur inn að innri forgarðinum, hundrað álna langur, og sneru dyr hans í norður.

En efstu herbergin voru styttri, því að súlnagöngin námu meira af þeim en af neðstu herbergjunum og miðherbergjunum.

Því að þau voru þrílyft og höfðu engar slíkar súlur sem þær, er voru í forgörðunum. Fyrir því voru efstu herbergin að sér dregin í hlutfalli við neðstu herbergin og miðherbergin.

Og múrinn, sem lá með endilöngum herbergjunum út að ytri forgarðinum, fyrir framan herbergin, var fimmtíu álna langur.

Því að herbergin, sem lágu út að ytri forgarðinum, voru fimmtíu álna löng. Og sjá, meðfram musterishúsinu voru hundrað álnir.

En neðan undir herbergjum þessum var inngangur að austanverðu, þegar gengið var inn í þau frá ytri forgarðinum.

10 Austanverðu við afgirta svæðið og bakhúsið voru og herbergi.

11 Og fyrir framan þau var vegur, og þau voru eins á að líta og herbergin, sem lágu norðan til, þau voru jafnlöng og jafnbreið, og allir útgangar þeirra voru með sömu gerð og á hinum og eins og hurðir þeirra.

12 Og líkt og dyrnar á herbergjunum, sem lágu sunnan til, svo voru á þeim einar dyr, þar sem vegurinn hófst, sá er liggur til austurs inn í ytri forgarðinn, en um þær voru menn vanir að ganga inn.

13 Og hann sagði við mig: "Norðurherbergin og suðurherbergin, sem liggja fyrir framan afgirta svæðið, það eru heilögu herbergin, þar sem prestarnir, er nálgast mega Drottin, eiga að eta hið háheilaga. Þar skulu þeir láta hið háheilaga og matfórnina, syndafórnina og sektarfórnina, því að staðurinn er heilagur.

14 Þegar prestarnir ganga þangað inn, _ en þeir skulu ekki ganga rakleiðis úr helgidóminum inn í ytri forgarðinn _, skulu þeir leggja þar af sér klæði sín, þau er þeir gegna þjónustu í, því að þau eru heilög. Þeir skulu fara í önnur föt og því næst ganga þangað, sem lýðurinn má vera."

15 En er hann hafði mælt allt musterið að innanverðu, fór hann út með mig, í áttina til hliðsins, er veit til austurs, og mældi það að utan hringinn í kring.

16 Hann mældi austurhliðina: fimm hundruð álnir með mælistönginni. Og hann sneri við

17 og mældi norðurhliðina: fimm hundruð álnir með mælistönginni. Og hann sneri við

18 að suðurhliðinni og mældi fimm hundruð álnir með mælistönginni.

19 Og hann sneri sér að vesturhliðinni og mældi fimm hundruð álnir með mælistönginni.

20 Hann mældi það frá þeim fjórum hliðum: lengdin fimm hundruð álnir og breiddin fimm hundruð álnir. Allt umhverfis það var múrveggur til þess að skilja hið heilaga frá hinu óheilaga.

Sálmarnir 94

94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!

Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!

Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?

Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.

Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,

drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa

og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?

Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?

10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?

11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,

13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.

14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,

15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?

17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.

18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.

19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?

21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.

22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.

23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society