Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 11

11 Salómon konungur unni mörgum útlendum konum auk dóttur Faraós, móabítískum, ammónítískum, edómítískum, sídonskum og hetítskum _

konum af þeim þjóðum, er Drottinn hafði sagt um við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki eiga mök við þær, og þær skulu ekki eiga mök við yður. Þær munu vissulega snúa hjörtum yðar til guða sinna` _ til þeirra felldi Salómon ástarhug.

Hann átti sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans afleiðis.

Og er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið.

Og Salómon elti Astarte, goð Sídoninga, og Milkóm, viðurstyggð Ammóníta.

Salómon gjörði það sem illt var í augum Guðs og sýndi ekki Drottni fullkomna hlýðni, eins og gjört hafði Davíð faðir hans.

Þá reisti Salómon fórnarhæð fyrir Kamos, viðurstyggð Móabíta, á fjallinu sem liggur fyrir austan Jerúsalem, og fyrir Mólok, viðurstyggð Ammóníta.

Og svo gjörði hann fyrir allar hinar útlendu konur sínar, sem færðu goðum sínum reykelsisfórnir og sláturfórnir.

En Drottinn reiddist Salómon fyrir það, að hann sneri hjarta sínu frá Drottni, Ísraels Guði, sem þó hafði vitrast honum tvisvar

10 og bannað honum að elta aðra guði, en hann hafði ekki haldið það, sem Drottinn bauð honum.

11 Fyrir því sagði Drottinn við Salómon: "Sökum þess, að þú hefir farið svo að ráði þínu og eigi haldið sáttmálann við mig, né skipanir þær, er ég fyrir þig lagði, þá mun ég rífa frá þér konungdóminn og fá hann í hendur þjóni þínum.

12 Þó mun ég ekki gjöra það meðan þú ert á lífi, vegna Davíðs föður þíns, en frá syni þínum mun ég rífa hann.

13 Samt mun ég eigi rífa frá honum allt konungsríkið. Eina ættkvísl mun ég fá syni þínum í hendur, vegna Davíðs þjóns míns og vegna Jerúsalem, sem ég hefi útvalið."

14 Drottinn vakti Salómon upp mótstöðumann, Hadad Edómíta. Hann var af konungsættinni í Edóm.

15 Þá er Davíð var að eyða Edómítum og Jóab hershöfðingi fór til þess að grafa hina föllnu og drap alla karlmenn í Edóm (

16 Jóab og allur Ísrael var þar sex mánuði, uns hann hafði gjöreytt öllum karlmönnum í Edóm),

17 þá flýði Hadad með nokkra Edómíta, er verið höfðu þjónar föður hans, og hélt til Egyptalands, en Hadad var þá unglingur.

18 Þeir tóku sig upp frá Midían og komu til Paran. Og þeir tóku menn með sér frá Paran og komu til Egyptalands, til Faraós Egyptalandskonungs. Hann gaf Hadad hús og fékk honum uppeldi og gaf honum land.

19 Hadad varð mjög þokkaður af Faraó, og gifti hann honum eldri systur Takpenes konu sinnar.

20 Og systir Takpenes fæddi honum Genúbat, son hans. En Takpenes ól hann upp í höll Faraós, og þannig varð Genúbat kyrr í höll Faraós meðal barna Faraós.

21 En er Hadad frétti til Egyptalands, að Davíð væri lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum og að Jóab hershöfðingi væri dáinn, þá sagði Hadad við Faraó: "Veit mér orlof, að ég megi fara til ættlands míns."

22 Faraó svaraði honum: "Hvers er þér vant hjá mér, fyrst þú vilt fara til ættlands þíns?" Hadad svaraði: "Einskis, en veit mér þó fararleyfi."

23 Og Guð vakti Salómon upp annan mótstöðumann, Resón Eljadason, er hlaupist hafði á brott frá Hadadeser, konungi í Sóba, húsbónda sínum.

24 Hann safnaði að sér mönnum og gjörðist foringi fyrir ránsflokki, þá er Davíð eyddi Sýrlendingum. Hann vann Damaskus, settist þar að og varð konungur í Damaskus.

25 Hann var mótstöðumaður Ísraels meðan Salómon var á lífi, auk þess óskunda, er Hadad gjörði. Hann hafði óbeit á Ísrael og var konungur yfir Sýrlandi.

26 Jeróbóam Nebatsson, Efraímíti frá Sereda, þjónn Salómons, gjörði og uppreisn gegn konungi. Móðir hans hét Serúa og var ekkja.

27 Þannig atvikaðist uppreisnin: Salómon var að byggja Milló og byggði fyrir skarðið, sem var á borg Davíðs föður hans.

28 Jeróbóam þessi var mesti dugnaðarmaður, og er Salómon sá, að þessi ungi maður var iðjumaður, setti hann hann yfir alla kvaðarmenn Jósefs ættar.

29 En svo bar til um þetta leyti, að Jeróbóam fór burt úr Jerúsalem, og Ahía spámaður frá Síló mætti honum á leiðinni. Ahía var klæddur nýrri yfirhöfn, og voru þeir tveir einir úti á víðavangi.

30 Þá þreif Ahía nýju yfirhöfnina, sem hann var í, reif hana sundur í tólf hluti

31 og sagði við Jeróbóam: "Tak þú þér tíu hluti. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sjá, ég ríf konungdóminn frá Salómon og gef þér tíu ættkvíslirnar,

32 en einni ættkvíslinni skal hann halda, sakir þjóns míns Davíðs og sakir Jerúsalem, borgarinnar, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels,

33 sökum þess að þeir hafa yfirgefið mig og fallið fram fyrir Astarte, goði Sídoninga, Kamos, goði Móabíta, og Milkóm, goði Ammóníta, og eigi gengið á mínum vegum með því að gjöra það, sem rétt er í mínum augum, og halda lög mín og ákvæði, eins og gjörði Davíð faðir hans.

34 En eigi vil ég taka af honum allt ríkið, heldur vil ég láta hann vera þjóðhöfðingja alla ævi, sakir Davíðs þjóns míns, er ég útvaldi, en hann hélt ákvæði mín og lög.

35 En ég vil taka konungdóminn frá syni hans og gefa þér hann, tíu ættkvíslirnar.

36 En syni hans mun ég gefa eina ættkvísl, svo að þjónn minn Davíð hafi ávallt lampa fyrir augliti mínu í Jerúsalem, borginni, sem ég hefi útvalið til þess að láta nafn mitt búa þar.

37 En þig vil ég taka til þess að ríkja yfir öllu, sem þú girnist, og til að vera konungur yfir Ísrael.

38 Og ef þú hlýðir öllu, sem ég býð þér, og gengur á mínum vegum, gjörir það sem rétt er í mínum augum og heldur lög mín og boðorð, eins og Davíð þjónn minn gjörði, þá vil ég vera með þér og reisa þér stöðugt hús, eins og ég reisti Davíð, og fá þér Ísrael.

39 En niðja Davíðs mun ég auðmýkja sakir þessa, þó eigi um aldur og ævi."

40 En Salómon leitaðist við að ráða Jeróbóam af dögum, en Jeróbóam tók sig upp og flýði til Egyptalands, til Sísaks konungs í Egyptalandi, og var hann í Egyptalandi, þar til er Salómon andaðist.

41 Það, sem meira er að segja um Salómon og allt það, er hann gjörði, og um speki hans, það er ritað í Annálum Salómons.

42 Og sá tími, er Salómon var konungur í Jerúsalem yfir öllum Ísrael, var fjörutíu ár.

43 Og Salómon lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.

Bréf Páls til Filippímann 2

Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs,

þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál.

Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.

Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.

Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.

Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.

Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.

Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.

Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra,

10 til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu

11 og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.

12 Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri.

13 Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.

14 Gjörið allt án þess að mögla og hika,

15 til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum.

16 Haldið fast við orð lífsins, mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis.

17 Og enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína, þegar ég ber trú yðar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst yður öllum.

18 Af hinu sama skuluð þér einnig gleðjast og samgleðjast mér.

19 En ég hef þá von til Drottins Jesú, að ég muni bráðum geta sent Tímóteus til yðar, til þess að mér verði einnig hughægra, þá er ég fæ að vita um hagi yðar.

20 Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. _

21 Allir leita þess, sem sjálfra þeirra er, en ekki þess, sem Krists Jesú er. _

22 En þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.

23 Hann vona ég þá að geta sent, jafnskjótt og ég sé, hvað um mig verður.

24 En ég ber það traust til Drottins, að ég muni og bráðum koma sjálfur.

25 Ég taldi það og nauðsynlegt að senda til yðar Epafrodítus, bróður minn, samverkamann og samherja, en sendimann yðar og erindreka í því að bæta úr þörf minni.

26 Hann hefur þráð yður alla og liðið illa út af því, að þér höfðuð heyrt, að hann hefði orðið sjúkur.

27 Því sjúkur varð hann, að dauða kominn, en Guð miskunnaði honum og ekki einungis honum, heldur og mér, til þess að ég skyldi eigi hafa hryggð á hryggð ofan.

28 Fyrir því læt ég mér enn annara um að senda hann heim, til þess að þér verðið aftur glaðir, er þér sjáið hann, og mér verði hughægra.

29 Takið því á móti honum í nafni Drottins með öllum fögnuði, og hafið slíka menn í heiðri.

30 Hann var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu til þess að bæta upp það, sem brast á hjálp yðar mér til handa.

Esekíel 41

41 Þessu næst leiddi hann mig inn í aðalhúsið og mældi súlurnar, og voru þær sex álnir að þykkt báðumegin.

Og dyrnar voru tíu álna breiðar og dyraveggurinn fimm álnir hvorumegin. Hann mældi lengd Hins heilaga, og var hún fjörutíu álnir og breiddin tuttugu álnir.

Síðan gekk hann inn fyrir og mældi dyrastöplana, og voru þeir tveggja álna þykkir og vídd dyranna sex álnir, og dyraveggurinn sjö álnir hvorumegin.

Og hann mældi lengd hússins, og var hún tuttugu álnir, og breiddin tuttugu álnir frammi við aðalhúsið. Og hann sagði við mig: "Þetta er Hið allrahelgasta."

Þessu næst mældi hann musterisvegginn, og var hann sex álna þykkur og breidd hliðarhússins fjórar álnir allt í kringum musterið.

Lágu herbergin hvert áfast við annað, þrjátíu herbergi á þremur hæðum. Stallar voru á veggnum, sem var á musterinu fyrir hliðarherbergin allt í kring, til þess að þau hvíldu á honum, en væru eigi fest á musterisvegginn.

Og þau urðu æ breiðari, því ofar sem þau lágu kringum musterið, því að hliðarherbergin voru alveg upp úr hringinn í kringum musterið. Fyrir því minnkaði breidd hússins upp á við, og mátti ganga af neðsta gólfi hliðarhússins yfir neðra loftið upp á efra loftið.

Þá sá ég, að á musterishúsinu var pallur hringinn í kring, og grundvöllur hliðarherbergjanna var full sex álna mælistöng.

Þykkt útveggsins á hliðarhúsinu var fimm álnir, og var autt svæði milli hliðarhússins og musterisins,

10 milli herbergjanna, tuttugu álna breitt hringinn í kringum musterið.

11 Dyr gengu frá hliðarhúsinu að auðu svæði, aðrar dyrnar til norðurs, hinar til suðurs. Og breidd auða svæðisins var fimm álnir hringinn í kring.

12 Hús lá gegnt afgirta svæðinu við vesturhliðina. Var það sjötíu álna breitt og veggur þess fimm álna þykkur hringinn í kring og lengd þess níutíu álnir.

13 Þessu næst mældi hann musterishúsið, og var það hundrað álna langt. Afgirta svæðið og húsið með veggjum þess var hundrað álnir á lengd.

14 Og framhlið musterishússins og afgirta svæðið austan megin var hundrað álnir á breidd.

15 Og hann mældi lengd hússins gegnt afgirta svæðinu vestan við það og súlnagöng þess beggja vegna, og var það hundrað álnir. Aðalhúsið, innhúsið og forsalur þess,

16 þröskuldarnir og skáhöllu gluggarnir og súlnagöngin umhverfis, þessi þrjú hús voru þiljuð frá jörðu og upp að gluggum . . .

17 Uppi yfir dyrum aðalhússins innan og utan og á öllum veggnum innan og utan hringinn í kring

18 voru gjörðir kerúbar og pálmar, og var einn pálmi milli hverra tveggja kerúba. En kerúbinn hafði tvö andlit.

19 Annars vegar sneri mannsandlit að pálmanum, en ljónsandlit hins vegar. Svo var á húsinu allt um kring.

20 Neðan frá gólfi og upp fyrir dyr voru gjörðir kerúbar og pálmar á veggnum.

21 Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafir aðalhússins mynduðu ferhyrning. Fyrir framan helgidóminn var eitthvað, sem líktist

22 altari af tré, þriggja álna hátt. Það var tvær álnir á lengd og tvær álnir á breidd, og á því voru horn, og undirstöður þess og hliðveggir voru af tré. Og hann sagði við mig: "Þetta er borðið, sem stendur frammi fyrir Drottni."

23 Og tvöfaldar hurðir voru á aðalhúsinu og helgidóminum.

24 Í hvorum dyrum voru tvær hurðir, er léku á hjörum.

25 Og á hurðunum voru kerúbar og pálmar, eins og á veggjunum, og þakskyggni af tré var fram af forsalnum.

26 Og skáhallir gluggar og pálmar voru beggja vegna á hliðarveggjum forsalsins . . .

Sálmarnir 92-93

92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,

að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur

á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.

Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.

Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.

Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.

Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,

en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.

Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.

10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.

11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.

12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.

13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.

14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.

15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society