M’Cheyne Bible Reading Plan
10 Þegar drottningin í Saba spurði orðstír Salómons og orðróminn af húsinu, sem Salómon hafði reisa látið nafni Drottins, kom hún til þess að reyna hann með gátum.
2 Hún kom til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti, með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti.
3 En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn konungi, er hann eigi gæti úr leyst fyrir hana.
4 Og er drottningin frá Saba sá alla speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið,
5 matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin
6 og sagði við konung: "Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína.
7 En ég trúði ekki orðrómnum, fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn. Þú ert miklu vitrari og auðugri en ég hafði frétt.
8 Sælir eru menn þínir, sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína.
9 Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti Ísraels. Af því að Drottinn elskar Ísrael eilíflega, gjörði hann þig að konungi til að iðka rétt og réttlæti."
10 Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan hingað komið eins mikið af kryddjurtum eins og það, er drottningin frá Saba gaf Salómon konungi.
11 Sömuleiðis komu skip Hírams, er sóttu gull til Ófír, með afar mikið af rauðum sandelviði og gimsteinum frá Ófír.
12 Konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hefir aldrei slíkur sandelviður hingað komið eða sést hér fram á þennan dag.
13 Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess er hann gaf henni af sinni konunglegu rausn. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu.
14 Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd
15 auk þess, sem kom inn í tollum frá varningsmönnum og við verslun kaupmanna og frá öllum konungum Araba og jörlum landsins.
16 Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli _ fóru sex hundruð siklar gulls í hvern skjöld _,
17 og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjár mínur gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið.
18 Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli.
19 Gengu sex þrep upp að hásætinu, og efst var hásætið kringlótt að aftan. Bríkur voru báðumegin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar.
20 Og tólf ljón stóðu á þrepunum, sex hvorumegin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki.
21 Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons.
22 Konungur hafði Tarsis-skip í förum með skipum Hírams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum.
23 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku.
24 Og allan heiminn fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst.
25 Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði og vopn, kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár.
26 Og Salómon safnaði vögnum og riddurum, og hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem.
27 Og konungur gjörði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.
28 Hesta sína fékk Salómon frá Egyptalandi, og sóttu kaupmenn konungs þá í hópum og guldu fé fyrir,
29 svo að hver vagn, sem fenginn var sunnan af Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs, en hver hestur hundrað og fimmtíu. Og á þennan hátt voru og hestar fluttir út fyrir milligöngu þeirra til allra konunga Hetíta og konunga Sýrlendinga.
1 Páll og Tímóteus, þjónar Krists Jesú, heilsa öllum heilögum í Filippí, sem eru í Kristi Jesú, ásamt biskupum þeirra og djáknum.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
3 Ég þakka Guði mínum í hvert skipti, sem ég hugsa til yðar,
4 og gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum,
5 vegna samfélags yðar um fagnaðarerindið frá hinum fyrsta degi til þessa.
6 Og ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.
7 Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til yðar allra. Ég hef yður í hjarta mínu, og þér eigið allir hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og þegar ég er að verja fagnaðarerindið og staðfesta það.
8 Guð er mér þess vitni, hvernig ég þrái yður alla með ástúð Krists Jesú.
9 Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind,
10 svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists,
11 auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði.
12 En ég vil, bræður, að þér vitið, að það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar.
13 Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists,
14 og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.
15 Sumir prédika að sönnu Krist af öfund og þrætugirni, en sumir gjöra það líka af góðum hug.
16 Þeir gjöra það af kærleika, vegna þess að þeir vita, að ég er settur fagnaðarerindinu til varnar.
17 Hinir prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug, heldur í þeim tilgangi að bæta þrengingu ofan á fjötra mína.
18 En hvað um það! Kristur er allt að einu boðaður, hvort sem það heldur er af uppgerð eða heilum hug. Og þetta gleður mig. Já, það mun áfram gleðja mig.
19 Því að ég veit, að þetta verður mér til frelsunar fyrir bænir yðar og hjálpina, sem andi Jesú Krists veitir mér.
20 Og það er einlæg löngun mín og von, að ég í engu megi til skammar verða, heldur að Kristur megi í allra augum, nú eins og ávallt, vegsamlegur verða í mér, hvort sem það verður með lífi mínu eða dauða.
21 Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.
22 En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Veit ég eigi hvort ég á heldur að kjósa.
23 Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra.
24 En yðar vegna er það nauðsynlegra, að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu.
25 Og í trausti þess veit ég, að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá yður öllum, yður til framfara og gleði í trúnni.
26 Þegar ég kem aftur til yðar, getið þér vegna mín enn framar hrósað yður í Kristi Jesú.
27 En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki yður eða ég er fjarverandi, skal ég fá að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið
28 og látið í engu skelfast af mótstöðumönnunum. Fyrir þá er það merki frá Guði um glötun þeirra, en um hjálpræði yðar.
29 Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna.
30 Nú eigið þér í sömu baráttu sem þér sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.
40 Á tuttugasta og fimmta ári eftir að vér vorum herleiddir, í byrjun ársins, tíunda dag mánaðarins, fjórtán árum eftir að borgin var tekin, einmitt þann dag kom hönd Drottins yfir mig og flutti mig þangað.
2 Í guðlegri sýn flutti hann mig til Ísraelslands og setti mig niður á mjög hátt fjall, og á því var gagnvart mér sem endurreist borg.
3 Er hann hafði flutt mig þangað, birtist maður nokkur, og var hann ásýndum sem af eiri væri. Hann hélt á línstreng og mælistöng og stóð við hliðið.
4 Og maðurinn sagði við mig: "Mannsson, lít á með augum þínum, hlýð á með eyrum þínum og hugfest þér allt, er ég sýni þér, því að þú ert til þess hingað fluttur, að þér verði sýnt þetta. Kunngjör þú Ísraelslýð allt það, sem þú sér."
5 Sjá, múrveggur lá utan um musterið hringinn í kring, og maðurinn hélt á mælistöng í hendinni. Hún var sex álna löng, alinin talin þverhönd lengri en almenn alin. Og hann mældi þykkt múrsins, og var hún ein mælistöng, og hæðin var ein mælistöng.
6 Því næst gekk hann inn í hliðið, er vissi til austurs. Gekk hann upp tröppurnar, sem lágu upp að því, og mældi þröskuld hliðsins, og var hann ein mælistöng á breidd.
7 Hvert varðherbergi ein mælistöng á lengd og ein mælistöng á breidd og súlan milli varðherbergjanna fimm álnir, og þröskuldur hliðsins innan við forsal hliðsins ein mælistöng.
8 Og hann mældi forsal hliðsins,
9 og var hann átta álnir og súlur tvær álnir, en forsalur hliðsins vissi að musterinu.
10 Varðherbergin í hliðinu voru hvert gegnt öðru, sín þrjú hvorumegin, öll þrjú voru þau jöfn að máli. Súlurnar beggja vegna voru og jafnar að máli.
11 Þá mældi maðurinn dyravídd hliðsins, og var hún tíu álnir, en lengd hliðsins þrettán álnir.
12 Fyrir framan varðherbergin voru grindur, ein alin hvorumegin, en hvert varðherbergi var sex álnir á hvorn veg.
13 Og hann mældi hliðið frá þaki eins varðherbergis yfir á þak annars, og var breiddin tuttugu og fimm álnir. Dyrnar stóðust á beggja vegna.
14 . . .
15 Og frá framhlið ytra hliðsins inn að framhliðinni á forsal innra hliðsins voru fimmtíu álnir.
16 Hringinn í kring á hliðhúsinu voru gluggar, sem lágu inn í varðherbergin í gegnum súlurnar og smávíkkuðu inn á við, og sömuleiðis voru gluggar á forsalnum allt um kring inn á við, og á súlunum voru höggnir pálmar.
17 Nú leiddi hann mig inn í ytri forgarðinn. Þar voru herbergi, og steinlagt gólf var í forgarðinum allt um kring. Þrjátíu herbergi lágu við steingólfið.
18 Steingólfið var fram með hliðarvegg hliðanna, jafnlangt lengd hliðanna. Það var lægra steingólfið.
19 Og hann mældi breidd forgarðsins frá innri framhlið neðra hliðsins að úthlið innri forgarðsins, og voru það hundrað álnir.
20 Hliðið á ytri forgarðinum, er vissi í norðurátt, lengd og breidd þess mældi hann einnig.
21 Og í því voru þrjú varðherbergi hvorumegin, og súlur þess og forsalur voru jöfn að máli við fyrsta hliðið, lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir.
22 Og gluggar þess, forsalur og pálmar voru jafnir að máli við það, sem var í hliðinu, er vissi í austurátt. Var gengið upp að því um sjö þrep, og forsalur þess lá innan til.
23 Og hlið inn að innri forgarðinum var gegnt norðurhliðinu, eins og við austurhliðið, og hann mældi hundrað álnir frá einu hliðinu til annars.
24 Því næst lét hann mig ganga í suðurátt. Þar var hlið, sem vissi í suðurátt. Og hann mældi súlur þess og forsal, og voru þau jöfn hinum að máli.
25 Á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring, eins og hinir gluggarnir voru. Lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir.
26 Var gengið upp að því um sjö þrep, og forsalur þess lá innan til, og voru pálmar á honum, hvor sínum megin, á súlum hans.
27 Og hlið var á innri forgarðinum, er vissi í suður, og hann mældi hundrað álnir frá einu hliðinu til annars í suðurátt.
28 Þessu næst leiddi hann mig um suðurhliðið inn í innri forgarðinn og mældi suðurhliðið, var það jafnt hinum fyrri að máli,
29 -
30 sömuleiðis varðherbergi þess, súlur og forsal, og voru þau jöfn hinum fyrri að máli. Á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring. Lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir.
31 Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess, og voru þar átta þrep upp að ganga.
32 Hann leiddi mig inn í innri forgarðinn að hliðinu, sem vissi í austurátt, og mældi hliðið. Var það að máli jafnt hinum.
33 Og varðherbergi þess, súlur og forsalur voru jöfn að máli hinum fyrri, og á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm álnir á breidd.
34 Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess beggja vegna. Voru þar átta þrep upp að ganga.
35 -
36 Hann leiddi mig nú að norðurhliðinu og mældi varðherbergi þess, súlur og forsal. Var það jafnt að máli hinum fyrri. Á því voru gluggar hringinn í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm álnir á breidd.
37 Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess beggja vegna. Voru þar átta þrep upp að ganga.
38 Þar var herbergi, og var gengið í það úr forsal hliðsins. Þar var brennifórnin þvegin.
39 Og í forsal hliðsins stóðu tvö borð annars vegar og önnur tvö borð hins vegar til þess að slátra á þeim brennifórninni, syndafórninni og sektarfórninni.
40 Og að utanverðu, við hliðarvegginn á forsal norðurhliðsins, voru tvö borð, og við hinn hliðarvegginn á forsal hliðsins voru önnur tvö borð;
41 fjögur borð öðrum megin og fjögur borð hinumegin við hliðarvegg hliðsins, alls átta borð, sem menn slátruðu á.
42 Voru fjögur borð til brennifórnar af höggnum steinum. Þau voru hálfrar annarrar álnar löng, hálfrar annarrar álnar breið og álnar há. Á þau skyldi leggja áhöldin, sem höfð voru, þá er brennifórnum og sláturfórnum var slátrað.
43 Umhverfis borðin var þverhandarhá rönd, og skyldi fórnarkjötið lagt á borðin, og yfir borðunum voru þök til þess að skýla þeim fyrir regni og hita.
44 Hann leiddi mig inn í innri forgarðinn, og sjá, þar voru tvö herbergi í innri forgarðinum, annað við hliðarvegg norðurhliðsins, og vissi framhlið þess í suðurátt; hitt við hliðarvegg suðurhliðsins, og vissi framhlið þess í norðurátt.
45 Og hann sagði við mig: "Þetta herbergi, sem snýr framhlið sinni í suður, er ætlað prestunum, sem gegna þjónustu í musterinu.
46 En herbergið, sem snýr framhlið sinni í norður, er ætlað prestunum, sem gegna þjónustu við altarið. Þeir eru niðjar Sadóks, þeir einir af Levísonum mega nálgast Drottin til þess að þjóna honum."
47 Hann mældi forgarðinn. Hann var hundrað álnir á lengd og hundrað álnir á breidd, réttur ferhyrningur, og altarið stóð fyrir framan sjálft musterið.
48 Því næst leiddi hann mig að forsal musterisins og mældi súlur forsalarins, fimm álnir hvorumegin, og breidd dyranna var fjórtán álnir og dyraumbúnaðurinn þrjár álnir hvorumegin.
49 Forsalurinn var tuttugu álnir á lengd og tólf álnir á breidd, og var um tíu þrep upp að ganga að honum. En við dyrastafina voru súlur, ein hvorumegin.
91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"
3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.
9 Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.
14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."
by Icelandic Bible Society