M’Cheyne Bible Reading Plan
9 Þá er Salómon hafði lokið að byggja musteri Drottins og konungshöllina og allt annað, er hann fýsti að gjöra,
2 þá vitraðist Drottinn honum í annað sinn, eins og hann hafði vitrast honum í Gíbeon.
3 Og Drottinn sagði við hann: "Ég hefi heyrt bæn þína og grátbeiðni, sem þú barst fram fyrir mig. Ég hefi helgað þetta hús, sem þú hefir reist, með því að ég læt nafn mitt búa þar að eilífu, og augu mín og hjarta skulu dvelja þar alla daga.
4 Ef þú nú gengur fyrir augliti mínu, eins og Davíð faðir þinn gjörði, í hreinskilni hjartans og einlægni, svo að þú gjörir allt, sem ég hefi fyrir þig lagt, og heldur lög mín og ákvæði,
5 þá vil ég staðfesta hásæti konungdóms þíns yfir Ísrael að eilífu, eins og ég hét Davíð föður þínum, er ég sagði: ,Eigi skal þig vanta eftirmann í hásæti Ísraels.`
6 En ef þér snúið baki við mér, þér og synir yðar, og varðveitið eigi boðorð mín og lög, þau er ég hefi lagt fyrir yður, en farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim,
7 þá mun ég uppræta Ísrael úr því landi, sem ég gaf þeim, og húsinu, sem ég hefi helgað nafni mínu, mun ég burt snara frá augliti mínu, og Ísrael skal verða að orðskvið og spotti meðal allra þjóða.
8 Og þetta hús, svo háreist sem það er _ hver sem gengur fram hjá því, honum mun blöskra og hann mun blístra. Og er menn spyrja: ,Hvers vegna hefir Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús?`
9 munu menn svara: ,Af því að þeir yfirgáfu Drottin, Guð sinn, er leiddi feður þeirra af Egyptalandi, og héldu sér að öðrum guðum, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Fyrir því hefir Drottinn leitt yfir þá alla þessa ógæfu."`
10 Að tuttugu árum liðnum, þá er Salómon hafði reist bæði húsin, musteri Drottins og konungshöllina _
11 en Híram konungur í Týrus hafði hjálpað Salómon um sedrusvið, kýpresvið og gull, eins og hann vildi _, þá gaf Salómon konungur Híram tuttugu borgir í Galíleuhéraði.
12 Og Híram fór frá Týrus til þess að skoða borgirnar, er Salómon hafði gefið honum, en honum líkuðu þær ekki.
13 Þá sagði hann: "Hvaða borgir eru þetta, sem þú hefir gefið mér, bróðir?" Fyrir því hafa þær verið kallaðar Kabúlhérað fram á þennan dag.
14 En Híram sendi konungi hundrað og tuttugu talentur gulls.
15 Svo stóð á vinnuskyldu þeirri, er Salómon konungur lagði á til þess að byggja musteri Drottins og höll sína, Milló og múra Jerúsalem, Hasór, Megiddó og Geser:
16 Faraó Egyptalandskonungur hafði farið herferð og unnið Geser og lagt eld í hana, en drepið Kanaanítana, sem bjuggu í borginni, og síðan gefið hana dóttur sinni, konu Salómons, í heimanmund.
17 En Salómon reisti Geser að nýju _ og Neðri Bethóron,
18 og Baalat og Tamar í óbyggðinni í landinu,
19 og allar vistaborgirnar, sem Salómon átti, og vagnliðsborgirnar og riddaraborgirnar, og allt sem Salómon fýsti að byggja í Jerúsalem, á Líbanon og í öllu ríki sínu:
20 Allt það fólk, sem eftir var af Amorítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sem eigi heyrðu til Ísraelsmönnum,
21 niðjar þeirra, sem enn voru eftir í landinu og Ísraelsmenn eigi höfðu getað helgað banni _ á þá lagði Salómon skylduvinnu, og er svo enn í dag.
22 En af Ísraelsmönnum gjörði Salómon enga að þrælum, en þeir voru hermenn, embættismenn hans, hershöfðingjar hans, vagnkappar hans og foringjar fyrir vagnliði hans og riddaraliði.
23 Æðstu fógetarnir, er settir voru yfir verk Salómons, voru fimm hundruð og fimmtíu að tölu. Höfðu þeir eftirlit með mönnum þeim, er að verkinu unnu.
24 Óðara en dóttir Faraós var farin úr Davíðsborg í hús sitt, það er hann hafði reist handa henni, byggði hann Milló.
25 Þrisvar sinnum á ári fórnaði Salómon brennifórnum og heillafórnum á altarinu, er hann hafði reist Drottni, og færði auk þess reykelsisfórnir á því altari, sem stóð frammi fyrir Drottni. Þannig fullgjörði hann musterið.
26 Salómon konungur lét og smíða skip í Esjón Geber, sem liggur hjá Elat á strönd Rauðahafs, í Edómlandi.
27 Og Híram sendi á skipin menn sína, farmenn vana sjómennsku, ásamt mönnum Salómons.
28 Og þeir fóru til Ófír og sóttu þangað gull _ fjögur hundruð og tuttugu talentur _ og færðu það Salómon konungi.
6 Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.
2 "Heiðra föður þinn og móður," _ það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti:
3 "til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni."
4 Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.
5 Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur.
6 Ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af heilum huga.
7 Veitið þjónustu yðar af fúsu geði, eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn.
8 Þér vitið og sjálfir, að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða, sem hann gjörir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður.
9 Og þér, sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit.
10 Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.
11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.
12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.
13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.
14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins
15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.
16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.
17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.
18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.
19 Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins.
20 Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala.
21 En til þess að þér fáið einnig að vita um hagi mína, hvernig mér líður, þá mun Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður í þjónustu Drottins, skýra yður frá öllu.
22 Ég sendi hann til yðar einkum í því skyni, að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.
23 Friður sé með bræðrunum og kærleikur, samfara trú frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
39 Og þú, mannsson, spá þú gegn Góg og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ég skal finna þig, Góg, höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal,
2 og snúa þér við og fara með þig og láta þig koma lengst úr norðri og leiða þig upp á Ísraels fjöll.
3 Og ég skal slá bogann úr vinstri hendi þinni og láta örvarnar detta úr hægri hendi þinni.
4 Á Ísraels fjöllum skalt þú falla, þú og allar hersveitir þínar og þær þjóðir, sem eru í för með þér. Alls konar ránfuglum og dýrum merkurinnar gef ég þig til fæðslu.
5 Úti á víðavangi skalt þú falla, því að ég hefi talað það, segir Drottinn Guð.
6 Og ég vil steypa eldi yfir Magóg og yfir þá, sem ugglausir búa í strandbyggðunum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.
7 En ég vil gjöra mitt heilaga nafn kunnugt meðal lýðs míns Ísraels og ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er Drottinn, heilagur í Ísrael.
8 Sjá, það kemur fram og verður, _ segir Drottinn Guð. Það er dagurinn, sem ég hefi talað um.
9 Þá munu íbúar Ísraels borga út ganga og eld kveikja og kynda með vopnum, törgum og skjöldum, með bogum og örvum, kylfum og lensum. Í sjö ár skulu þeir elda þessu.
10 Þeir munu ekki sækja við í mörkina né höggva neitt í skógunum, heldur munu þeir kynda eld með vopnum. Og þeir munu fletta þá, sem þá flettu, og ræna þá, sem þá rændu _ segir Drottinn Guð.
11 En á þeim degi mun ég ákveða Góg samastað, legstað í Ísrael, Abarímdal, fyrir austan Dauðahafið. Menn munu girða fyrir Abarímdal. Þar munu þeir grafa Góg og allan liðmúg hans og nefna hann Gógsmúgadal.
12 Og Ísraelsmenn munu vera að jarða þá í sjö mánuði til þess að hreinsa landið.
13 Og allur landslýðurinn skal starfa að þeim grefti, og það skal verða þeim til frægðar þann dag, er ég gjöri mig dýrlegan _ segir Drottinn Guð.
14 Og þeir munu útvelja menn til þess stöðuga starfa að fara um landið og jarða þá, sem enn liggja eftir ofan jarðar, til þess að hreinsa landið. Að liðnum sjö mánuðum skulu þeir enn kanna það.
15 Og þegar þeir fara um landið og einhver sér mannsbein, þá skal hann hlaða þar vörðu hjá, uns graftarmennirnir hafa grafið þau í Gógsmúgadal.
16 Og þannig skulu þeir grafa þar allan liðmúg sinn og hreinsa þannig landið.
17 En þú, mannsson, svo segir Drottinn Guð: Seg þú við alls konar fugla og við öll dýr merkurinnar: Safnist saman og komið, þyrpist saman úr öllum áttum til fórnarveislu minnar, sem ég held yður, til mikillar fórnarveislu á Ísraels fjöllum, þar sem þér skuluð eta kjöt og drekka blóð.
18 Þér skuluð eta kjöt af köppum og drekka blóð úr þjóðhöfðingjum jarðarinnar: hrúta, lömb og hafra, uxa, _ allt saman alifé frá Basan.
19 Og þér skuluð eta feitt kjöt, uns þér eruð saddir orðnir, og þér skuluð drekka blóð, uns þér eruð drukknir orðnir, í fórnarveislu minni, sem ég held yður.
20 Og þér skuluð seðja yður við mitt borð á reiðskjótum og vagnhestum, á köppum og alls konar stríðsmönnum _ segir Drottinn Guð.
21 Ég vil auglýsa dýrð mína meðal þjóðanna, og allar þjóðir skulu sjá refsidóm minn, þann er ég hefi framkvæmt, og hönd mína, er ég hefi á þá lagt.
22 En Ísraelsmenn skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, upp frá þeim degi og framvegis.
23 Þjóðirnar skulu viðurkenna, að Ísraelsmenn urðu að fara úr landi eingöngu vegna misgjörðar sinnar, fyrir þá sök að þeir höfðu rofið trúnað við mig, svo að ég byrgði auglit mitt fyrir þeim og seldi þá í hendur óvina þeirra, og féllu þeir þá allir fyrir sverðseggjum.
24 Ég breytti við þá eins og þeir höfðu til unnið með saurugleik sínum og fráhvarfi, og byrgði auglit mitt fyrir þeim.
25 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Nú mun ég snúa við högum Jakobs og miskunna mig yfir allan Ísraelslýð og vera sómakær um mitt heilaga nafn.
26 Og þeir skulu gleyma vanvirðu sinni og allri þeirri ótryggð, er þeir hafa í frammi haft við mig, þegar þeir búa aftur óhultir í landi sínu og enginn skelfir þá.
27 Þegar ég leiði þá heim aftur frá þjóðunum og safna þeim saman úr löndum óvina þeirra, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn margra þjóða.
28 Og þá skulu þeir viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, með því að ég herleiddi þá til þjóðanna, en safna þeim nú saman inn í þeirra eigið land og læt engan þeirra framar verða þar eftir.
29 Og ég vil ekki framar byrgja auglit mitt fyrir þeim, með því að ég hefi úthellt anda mínum yfir Ísraelslýð, segir Drottinn Guð."
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
7 Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.
8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.
9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.
10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.
11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?
12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
by Icelandic Bible Society