Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 8

Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til sín í Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon.

Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til Salómons konungs í etaním-mánuði á hátíðinni (er sá mánuður hinn sjöundi).

Þá komu allir öldungar Ísraels, og prestarnir tóku örkina.

Og þeir fluttu örk Drottins og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu prestarnir og levítarnir þau upp eftir.

En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð ásamt honum frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir.

Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna.

Kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu þeir örkina og stengur hennar ofan frá.

Stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag.

Í örkinni var ekkert nema steintöflurnar tvær, er Móse hafði lagt þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi.

10 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum, fyllti ský hús Drottins,

11 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins.

12 Þá mælti Salómon: Sólina setti hann á himininn, en Drottinn hefir sjálfur sagt, að hann vilji búa í dimmu.

13 Nú hefi ég byggt þér hús til bústaðar, aðseturstað handa þér um eilífð. Svo er ritað í ljóðabókinni.

14 Þá sneri konungur sér við og blessaði allan Ísraelssöfnuð, en allur Ísraelssöfnuður stóð.

15 Og hann mælti: "Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, er talaði með munni sínum við Davíð föður minn og efndi með hendi sinni það, er hann lofaði, þá er hann sagði:

16 ,Frá því er ég leiddi lýð minn Ísrael út af Egyptalandi, hefi ég ekki útvalið neina borg af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að byggja þar hús, þar sem nafn mitt skyldi búa. En nú hefi ég útvalið Jerúsalem, til þess að nafn mitt búi þar, og ég útvaldi Davíð, til þess að hann skyldi ríkja yfir lýð mínum Ísrael.`

17 Davíð faðir minn hafði í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Ísraels Guðs,

18 en Drottinn sagði við Davíð föður minn: ,Vel gjörðir þú, er þú ásettir þér að reisa hús nafni mínu.

19 En eigi skalt þú reisa húsið, heldur skal sonur þinn, sá er út gengur af lendum þínum, reisa hús nafni mínu.`

20 Og Drottinn hefir efnt orð sín, þau er hann talaði, því að ég kom í stað Davíðs föður míns og settist í hásæti Ísraels, svo sem Drottinn hafði heitið, og hefi nú reist hús nafni Drottins, Ísraels Guðs.

21 Og þar bjó ég örkinni stað, sem í er sáttmál Drottins, það er hann gjörði við feður vora, þá er hann leiddi þá út af Egyptalandi."

22 Og Salómon gekk fyrir altari Drottins í viðurvist alls Ísraelssafnaðar, fórnaði höndum til himins

23 og mælti: "Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú á himnum uppi eða á jörðu niðri, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þjóna þína, þá er ganga fyrir augliti þínu af öllu hjarta sínu,

24 þú sem hefir haldið það við þjón þinn, Davíð föður minn, er þú hést honum. Þú talaðir það með munni þínum og efndir það með hendi þinni, eins og nú er fram komið.

25 Efn nú, Drottinn, Ísraels Guð, við þjón þinn Davíð föður minn, það er þú hést honum, þá er þú sagðir: ,Eigi skal þig vanta eftirmann frammi fyrir mér, er sitji í hásæti Ísraels, ef synir þínir aðeins varðveita vegu mína með því að ganga fyrir augliti mínu, eins og þú hefir gengið fyrir augliti mínu.`

26 Lát nú, Ísraels Guð, rætast orð þín, þau er þú talaðir við þjón þinn, Davíð föður minn.

27 En mun Guð í sannleika búa á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist.

28 En snú þér, Drottinn Guð minn, að bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans, að þú heyrir ákall það og bæn, er þjónn þinn ber fram fyrir þig í dag:

29 að augu þín séu opin yfir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, er þú hefir um sagt: ,Þar skal nafn mitt búa` _ að þú heyrir bæn þá, er þjónn þinn biður á þessum stað.

30 Og heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir fram bera á þessum stað, já heyr þú hana þar er þú býr á himnum, og fyrirgef, er þú heyrir.

31 Ef einhver gjörir á hluta náunga síns, og hann verður eiðs krafinn og látinn sverja, og hann kemur og vinnur eiðinn fyrir altari þínu í húsi þessu, þá heyr þú það á himnum.

32 Lát til þín taka og dæm þjóna þína með því að sakfella hinn seka og láta honum gjörðir hans í koll koma, en sýkna hinn saklausa og umbuna honum eftir réttlæti hans.

33 Ef lýður þinn Ísrael bíður ósigur fyrir óvinum sínum, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir snúa sér til þín og játa þitt nafn og biðja og grátbæna þig í þessu húsi,

34 þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd lýðs þíns Ísraels og leið þá aftur heim til þess lands, sem þú gafst feðrum þeirra.

35 Ef himinninn er byrgður, svo að eigi nær að rigna, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir biðja á þessum stað og játa nafn þitt og snúa sér frá syndum sínum, af því að þú auðmýkir þá,

36 þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd þjóna þinna og lýðs þíns Ísraels, því að þú kennir þeim þann góða veg, sem þeir eiga að ganga, og gef regn yfir land þitt, það er þú hefir gefið þínum lýð til eignar.

37 Ef hallæri verður í landinu, ef drepsótt kemur, eða korndrep eða gulnan, engisprettur eða jarðvargar, ef óvinir hans þrengja að honum í einhverri af borgum hans, eða plágu eða sótt ber að höndum, þá heyr þú,

38 ef einhver maður af lýð þínum Ísrael ber fram bæn eða grátbeiðni, af því að hann kennir angurs í hjarta sínu, og fórnar höndum til þessa húss _

39 þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og fyrirgef og lát til þín taka og gef sérhverjum eins og hann hefir til unnið og svo sem þú þekkir hjarta hans _ því að þú einn þekkir hjörtu allra manna _

40 til þess að þeir óttist þig alla þá stund, er þeir lifa í landinu, er þú gafst feðrum vorum.

41 Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns _

42 því að þeir munu heyra getið um þitt mikla nafn, þína sterku hönd og útréttan armlegg þinn _ ef hann kemur hingað og biður frammi fyrir þessu húsi,

43 þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig, eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig.

44 Ef lýður þinn fer í ófrið í móti óvinum sínum, þangað sem þú sendir þá, og þeir biðja til Drottins og snúa sér í áttina til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og hússins, sem ég hefi reist þínu nafni,

45 þá heyr þú á himnum bæn þeirra og grátbeiðni og rétt þú hlut þeirra.

46 Ef þeir syndga í gegn þér _ því að enginn er sá, er eigi syndgi _ og þú reiðist þeim og gefur þá á vald óvinum þeirra, og sigurvegarar þeirra flytja þá hernumda til fjandmannalandsins, hvort sem þangað er langt eða skammt,

47 og þeir taka sinnaskipti í landinu, þar sem þeir eru hernumdir, og þeir snúa sér og grátbæna þig í landi sigurvegara sinna og segja: ,Vér höfum syndgað og vér höfum misgjört, vér höfum breytt óguðlega,`

48 og þeir snúa sér til þín af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni í landi óvina sinna, er hafa flutt þá burt hernumda, og þeir biðja til þín og snúa sér í áttina til lands síns, þess er þú gafst feðrum þeirra, til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og til hússins, sem ég hefi reist þínu nafni,

49 þá heyr þú á himnum, aðseturstað þínum, bæn þeirra og grátbeiðni, og rétt þú hlut þeirra

50 og fyrirgef lýð þínum það, sem þeir misgjörðu í móti þér, og öll afbrotin, sem þeir drýgðu gegn þér, og lát þá hljóta miskunn af hendi þeirra, er þá hafa hernumið, svo að þeir miskunni þeim.

51 Því að þeir eru þinn lýður og þín eign, sem þú leiddir út af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum.

52 Lát opin vera augu þín fyrir grátbeiðni þjóns þíns og grátbeiðni lýðs þíns Ísraels, að þú bænheyrir þá, hvenær sem þeir biðja þig.

53 Því að þú hefir skilið þá frá öllum þjóðum jarðarinnar þér til eignar, eins og þú hést fyrir þjón þinn Móse, þá er þú, Drottinn Guð, leiddir feður vora af Egyptalandi."

54 Þegar Salómon hafði lokið þessari bæn og grátbeiðni til Drottins, þá stóð hann upp frammi fyrir altari Drottins, þar sem hann hafði kropið á kné og fórnað höndum til himins.

55 Gekk hann nú fram og blessaði allan Ísraelssöfnuð hárri röddu og mælti:

56 "Lofaður sé Drottinn, sem veitt hefir hvíld lýð sínum Ísrael, eins og hann hefir heitið. Ekkert af öllum hans dýrlegu fyrirheitum, sem hann gaf fyrir þjón sinn Móse, hefir brugðist.

57 Drottinn, Guð vor, sé með oss, eins og hann hefir verið með feðrum vorum. Hann yfirgefi oss ekki og útskúfi oss ekki,

58 heldur hneigi hjörtu vor til sín, svo að vér göngum jafnan á hans vegum og varðveitum öll hans boðorð, lög og ákvæði, þau er hann lagði fyrir feður vora.

59 Og þessi mín orð, er ég hefi fram borið fyrir Drottin með grátbeiðni, séu nálæg Drottni, Guði vorum, dag og nótt, svo að hann rétti hlut þjóns síns og lýðs síns Ísraels, eftir því sem þörf gjörist á degi hverjum,

60 til þess að allar þjóðir á jörðinni komist að raun um, að Drottinn er Guð og enginn annar.

61 Hjörtu yðar séu heil og óskipt gagnvart Drottni, Guði vorum, svo að þér breytið eftir lögum hans og haldið boðorð hans, eins og nú."

62 Þá fórnaði konungur og allur Ísrael með honum sláturfórnum frammi fyrir Drottni.

63 Salómon fórnaði tuttugu og tvö þúsund nautum og hundrað og tuttugu þúsund sauðum í heillafórn, er hann færði Drottni. Þannig vígði konungur og allir Ísraelsmenn hús Drottins.

64 Þann dag vígði konungur miðhluta forgarðsins, sem er fyrir framan hús Drottins, því að þar fórnaði hann brennifórninni og matfórninni og hinum feitu stykkjum heillafórnanna, því að eiraltarið, sem stóð frammi fyrir Drottni, var of lítið til þess að geta tekið brennifórnina, matfórnina og hin feitu stykki heillafórnanna.

65 Þannig hélt Salómon hátíðina og allur Ísrael með honum, mikill söfnuður, norðan þaðan er leið liggur til Hamat, allt suður til Egyptalandsár. Þeir héldu hátíð frammi fyrir Drottni, Guði vorum, í sjö daga, og aðra sjö daga, fjórtán daga alls.

66 En áttunda daginn lét hann fólkið frá sér fara. Og þeir kvöddu konung og fóru heim til sín, glaðir og í góðu skapi yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn hafði veitt Davíð þjóni sínum og lýð sínum Ísrael.

Bréf Páls til Efesusmanna 5

Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.

Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.

En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.

Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð.

Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, _ sem er sama og að dýrka hjáguði _, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.

Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki.

Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra.

Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. _

Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. _

10 Metið rétt, hvað Drottni þóknast.

11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim.

12 Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala.

13 En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós.

14 Því segir svo: Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.

15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.

16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.

17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.

18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,

19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,

20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

21 Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists:

22 Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn.

23 Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns.

24 En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu.

25 Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana,

26 til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði.

27 Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus.

28 Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig.

29 Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna,

30 því vér erum limir á líkama hans.

31 "Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður."

32 Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna.

33 En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.

Esekíel 38

38 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, snú þér gegn Góg í Magóglandi, höfðingja yfir Rós, Mesek og Túbal, spá gegn honum

og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ég skal finna þig, Góg höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal,

og ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út, ásamt öllu herliði þínu, hestum og riddurum, öllum með alvæpni, mikinn manngrúa, með skjöld og törgu, alla með sverð í höndum.

Persar, Blálendingar og Pútmenn eru í för með þeim, allir með törgu og hjálm,

Gómer og allir herflokkar hans, Tógarma-lýður, hin ysta norðurþjóð, og allir herflokkar hans _ margar þjóðir eru í för með þér.

Bú þig út og ver viðbúinn, þú og allar hersveitirnar, sem safnast hafa til þín, og ver þú yfirmaður þeirra.

Eftir langan tíma munt þú útboðsskipun hljóta. Á síðustu árunum munt þú koma inn í það land, sem aftur er unnið undan sverðinu, til þjóðar, sem safnað hefir verið saman frá mörgum þjóðum á Ísraels fjöll, sem stöðuglega hafa í eyði legið, já, frá þjóðunum var hún flutt, og nú búa allir öruggir.

Þá munt þú brjótast fram sem þrumuveður, koma sem óveðursský til þess að hylja landið, þú og allir herflokkar þínir og margar þjóðir með þér.

10 Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi munu illar hugsanir koma upp í hjarta þínu og þú munt hafa illar fyrirætlanir með höndum

11 og segja: ,Ég vil fara í móti bændabýlalandi, ráða á friðsama menn, sem búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið,`

12 til þess að fara með rán og rifs, til þess að leggja hönd þína á borgarrústir, sem aftur eru byggðar orðnar, og á þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér búfjár og fjármuna, á menn, sem búa á nafla jarðarinnar.

13 Seba og Dedan og verslunarmenn frá Tarsis og kaupmenn hennar segja við þig: ,Kemur þú til þess að ræna? Hefir þú dregið saman liðsveitir þínar til þess að rupla, til þess að hafa á burt silfur og gull, flytja burt búfé og fjármuni, til þess að afla mikils herfangs?`

14 Fyrir því spá þú, mannsson, og seg við Góg: Svo segir Drottinn Guð: Munt þú ekki á þeim degi, er lýður minn Ísrael býr óhultur, leggja af stað

15 og koma frá stöðvum þínum, lengst úr norðri, þú og margar þjóðir með þér, allir ríðandi hestum, mikill liðsafnaður, fjölmennur her,

16 og fara í móti lýð mínum Ísrael eins og óveðursský til þess að hylja landið? Á hinum síðustu dögum mun ég leiða þig móti landi mínu, til þess að þjóðirnar læri að þekkja mig, þegar ég auglýsi heilagleik minn á þér, Góg, fyrir augum þeirra.

17 Svo segir Drottinn Guð: Ert þú sá, er ég talaði um í fyrri daga fyrir munn þjóna minna, spámanna Ísraels, er spáðu í þá daga árum saman, að ég mundi leiða þig móti þeim?

18 En þann dag, daginn sem Góg fer móti Ísraelslandi, _ segir Drottinn Guð _ mun reiðin blossa í nösum mér.

19 Í ákefð minni, í minni brennandi heift, tala ég það: Vissulega, á þeim degi skal mikill jarðskjálfti verða á Ísraelslandi.

20 Þá skulu fiskar sjávarins skjálfa fyrir mér og fuglar himinsins, dýr merkurinnar og öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, og allir menn, sem eru á jörðinni, og fjöllin skulu kollvarpast og hamrarnir hrynja og hver múrveggur til jarðar falla.

21 Og á öllum fjöllum mínum vil ég kalla á sverðin í móti honum _ segir Drottinn Guð. Eins sverð skal vera í móti öðrum.

22 Og ég vil ganga í dóm við hann með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans og yfir margar þjóðir, sem með honum eru.

23 Og ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.

Sálmarnir 89

89 Etans-maskíl Esraíta.

Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,

því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.

Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:

"Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]

Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.

Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?

Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.

Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.

10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.

11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.

12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.

13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.

14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.

15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.

16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.

17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,

18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,

19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.

20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.

21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.

22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.

23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,

24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.

25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.

26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.

27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.

28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.

29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.

30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.

31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,

32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,

33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,

34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.

35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.

36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:

37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.

38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]

39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða.

40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.

41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði.

42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.

43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans.

44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum.

45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar.

46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela]

47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?

48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.

49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]

50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?

51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,

52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________

53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society