M’Cheyne Bible Reading Plan
7 Höll sína var Salómon að byggja í þrettán ár og fullgjörði þannig allt sitt hús.
2 Hann byggði Líbanonsskógarhúsið, er var hundrað álnir á lengd, fimmtíu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð á þrem sedrussúlnaröðum, og á súlunum hvíldu bjálkar af sedrusviði.
3 Og það var þakið sedrusviði uppi yfir hliðarherbergjunum, er hvíldu á fjörutíu og fimm súlum, fimmtán í hverri röð.
4 Gluggaraðirnar voru þrjár, og ljóri gegnt ljóra þrem sinnum.
5 Og allar dyr og allir ljórar voru ferhyrndir, og ljóri var gegnt ljóra þrem sinnum.
6 Hann gjörði súlnasal, fimmtíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd, og forsal þar fyrir framan og súlur og pall þar fyrir framan.
7 Hann byggði hásætissal, þar sem hann kvað upp dóma _ dómhöllina _, og hún var þiljuð sedrusviði frá gólfi til lofts.
8 Og hús hans sjálfs, þar er hann bjó, í öðrum garðinum, inn af forsalnum, var gjört á sama hátt. Salómon gjörði og hús, eins og forsalinn, handa dóttur Faraós, er hann hafði gengið að eiga.
9 Allt þetta var byggt af úthöggnum steinum, er voru höggnir til eftir máli, sagaðir með sög innan og utan, frá undirstöðum og upp á veggbrúnir, og að utan allt að forgarðinum mikla.
10 Og undirstaðan var úr úthöggnum steinum, stórum steinum, tíu álna steinum og átta álna steinum.
11 Og þar á ofan voru úthöggnir steinar, höggnir eftir máli, og sedrusviður.
12 Og forgarðurinn mikli var gjörður allt um kring af þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum, svo og innri forgarður musteris Drottins og forgarðurinn að súlnasal hallarinnar.
13 Salómon konungur sendi menn og lét sækja Híram frá Týrus.
14 Hann var sonur ekkju nokkurrar af ættkvísl Naftalí, en faðir hans var ættaður frá Týrus og var koparsmiður. Var hann fullur hagleiks, skilnings og kunnáttu til að gjöra alls konar smíðar af eiri. Hann kom til Salómons konungs og smíðaði allar smíðar fyrir hann.
15 Híram steypti báðar súlurnar af eiri. Önnur súlan var átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til þess að ná utan um hana. Súlan var fjögurra fingra þykk, hol að innan. Á sama hátt gjörði hann hina súluna.
16 Og hann gjörði tvö höfuð steypt af eiri til þess að setja ofan á súlurnar. Var hvort höfuð fimm álnir á hæð.
17 Á höfðunum, sem voru á súlunum, var sem riðið net og fléttur, gjörðar af festum, sjö fyrir hvort höfuð.
18 Og hann gjörði granatepli, tvær raðir allt í kring, utan á öðru netinu, til þess að hylja höfuðin, sem voru ofan á súlunum, eins gjörði hann á hinu höfðinu.
19 Höfuðin, sem voru ofan á súlunum í forsalnum, voru liljumynduð, fjórar álnir.
20 Á báðum súlunum voru höfuð, einnig að ofan, hjá bungunni undir riðna netinu. Granateplin voru tvö hundruð að tölu, í röðum hringinn í kringum hitt höfuðið.
21 Hann reisti súlurnar við forsal aðalhússins. Hann reisti hægri súluna og kallaði hana Jakín, og hann reisti vinstri súluna og kallaði hana Bóas.
22 Og efst voru súlurnar liljumyndaðar. Þannig var súlnasmíðinu lokið.
23 Og Híram gjörði hafið, og var það steypt af eiri. Það var tíu álnir af barmi og á, kringlótt og fimm álnir á dýpt, og þrjátíu álna snúra lá um það.
24 En neðan á barminum allt í kring voru hnappar, tíu á hverri alin, er mynduðu hring utan um hafið, tvær raðir af hnöppum, og voru þeir samsteyptir hafinu.
25 Það stóð á tólf nautum. Sneru þrjú í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður, þrjú í austur. Hvíldi hafið á þeim, og sneru allir bakhlutir þeirra inn.
26 Það var þverhandarþykkt og barmur þess í laginu sem barmur á bikar, líkt og liljublóm. Það tók tvö þúsund bat.
27 Híram gjörði og vagnana, tíu að tölu, af eiri. Var hver vagn fjórar álnir á lengd, fjórar álnir á breidd og þrjár álnir á hæð.
28 En hver vagnanna var svo gjörður: Á þeim voru speld milli brúnalistanna.
29 En á speldunum, sem voru milli brúnalistanna, voru ljón, naut og kerúbar, og eins á brúnalistunum. Og bæði fyrir ofan og fyrir neðan ljónin og nautin voru hangandi blómfestar.
30 Á hverjum vagni voru fjögur hjól af eiri og öxlar af eiri. Á fjórum hornum hvers vagns voru þverslár. Voru þverslárnar steyptar undir kerið. Gegnt hverri þeirra voru blómfestar.
31 Opin á kerunum voru fyrir innan þverslárnar, alin á hæð, og voru þau kringlótt, hálf önnur alin. Og einnig á börmum opsins voru grafnar myndir. Speldin voru ferskeytt, ekki kringlótt.
32 Hjólin fjögur voru undir speldunum og hjólhaldararnir festir við vagninn. En hvert hjól var hálf önnur alin á hæð.
33 Og hjólin voru gjörð eins og vagnhjól. Haldarar þeirra, hringir, spelir og nafir, _ allt var það steypt.
34 Á fjórum hornum hvers vagns voru fjórar þverslár. Gengu þverslárnar upp af vögnunum.
35 Uppi á hverjum vagni var eins konar standur, hálf alin á hæð, alls staðar sívalur. Og ofan á vagninum voru haldarar hans og speld og gengu upp úr honum.
36 Á fleti haldara hans og á speld hans gróf hann kerúba, ljón og pálma, eftir því sem rúm var til á hverju, og blómfestar í kring.
37 Á þennan hátt gjörði hann vagnana tíu. Þeir voru allir eins steyptir, jafnstórir og af sömu gerð.
38 Þá gjörði hann tíu ker af eiri. Tók hvert ker fjörutíu bat, og var hvert þeirra fjórar álnir að þvermáli. Eitt ker var á hverjum pallanna tíu.
39 Og hann setti fimm vagnanna hægra megin í húsið og fimm vinstra megin. En hafið setti hann hægra megin við húsið, í austur, gegnt suðri.
40 Og Híram gjörði kerin, eldspaðana og fórnarskálarnar, og þannig lauk hann við allar þær smíðar, er hann hafði gjört fyrir Salómon konung í hús Drottins:
41 tvær súlur og tvær kúlur á súlnahöfðunum og bæði riðnu netin, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum,
42 og fjögur hundruð granateplin á bæði netin, tvær raðir af granateplum á hvort net, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum.
43 Enn fremur vagnana tíu og kerin tíu á vögnunum,
44 og hafið og tólf nautin undir hafinu,
45 og katlana, eldspaðana og fórnarskálarnar. Öll þessi áhöld, er Híram hafði gjört fyrir Salómon konung í hús Drottins, voru úr skyggðum eiri.
46 Lét konungur steypa þau á Jórdansléttlendinu í leirmótum, milli Súkkót og Saretan.
47 Salómon lét áhöldin vera óvegin, af því að þau voru afar mörg. Þyngd eirsins var eigi rannsökuð.
48 Og Salómon gjörði öll þau áhöld, sem voru í húsi Drottins: gullaltarið og borðið, sem skoðunarbrauðin lágu á, af gulli,
49 og ljósastikurnar, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, fyrir framan innhúsið af skíru gulli, og blómin, lampana og ljósasöxin af gulli,
50 og katlana, skarbítana, fórnarskálarnar, bollana, eldpönnurnar af skíru gulli. Hjarirnar á vængjahurðum innsta hússins, Hins allrahelgasta, og á vængjahurðum musterisins, aðalhússins, voru og af gulli.
51 Og er öllu því verki var lokið, er Salómon konungur lét gjöra í húsi Drottins, þá flutti hann helgigjafir Davíðs föður síns inn í það, silfrið og gullið, en áhöldin lét hann í féhirslur Drottins húss.
4 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið.
2 Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.
3 Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.
4 Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar.
5 Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn,
6 einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
7 Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum.
8 Því segir ritningin: "Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir." (
9 En "steig upp", hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar?
10 Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.)
11 Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.
12 Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,
13 þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.
14 Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.
15 Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, _ Kristur.
16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.
17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus,
18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.
19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.
20 En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist.
21 Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú:
22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum,
23 en endurnýjast í anda og hugsun og
24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.
25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.
26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.
27 Gefið djöflinum ekkert færi.
28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.
29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.
30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.
31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.
32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.
37 Hönd Drottins kom yfir mig, og hann flutti mig burt fyrir anda sinn og lét mig nema staðar í dalnum miðjum, en hann var fullur af beinum.
2 Og hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu, og sjá, það lá aragrúi af þeim þar í dalnum, og sjá, þau voru mjög skinin.
3 Og hann sagði við mig: "Mannsson, hvort munu bein þessi lifna við aftur?" Ég svaraði: "Drottinn Guð, þú veist það!"
4 Þá sagði hann við mig: "Tala þú af guðmóði yfir beinum þessum og seg við þau: Þér skinin bein, heyrið orð Drottins!
5 Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Sjá, ég læt lífsanda í yður koma, og þér skuluð lifna við.
6 Og ég set sinar á yður og læt hold utan um yður og dreg þar hörund yfir og læt lífsanda í yður, og þér skuluð lifna við, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn."
7 Þá talaði ég af guðmóði, eins og mér var boðið. Og er ég mælti af guðmóði, kom þytur og skrjáf heyrðist, og beinin færðust saman, hvert að öðru.
8 Og ég sá, hversu sinar komu á beinin og hold óx á og hörund dróst þar yfir, en enginn lífsandi var í þeim.
9 Þá sagði hann við mig: "Mæl þú í guðmóði til lífsandans, mæl þú í guðmóði, mannsson, og seg við lífsandann: Svo segir Drottinn Guð: Kom þú, lífsandi, úr áttunum fjórum og anda á þennan val, að þeir megi lifna við."
10 Ég talaði nú í guðmóði, eins og hann hafði skipað mér. Kom þá lífsandi í þá, svo að þeir lifnuðu við og risu á fætur. Var það afar mikill fjöldi.
11 Og hann sagði við mig: "Mannsson, þessi bein eru allir Ísraelsmenn. Sjá, þeir segja: ,Bein vor eru skinin, von vor þrotin, úti er um oss!`
12 Mæl því í guðmóði og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég vil opna grafir yðar, og láta yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín, og flytja yður inn í Ísraelsland,
13 til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn, þegar ég opna grafir yðar og læt yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín.
14 Og ég vil láta anda minn í yður, til þess að þér lifnið við aftur, og ég skal koma yður inn í yðar land, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. Ég hefi talað það og mun framkvæma það, segir Drottinn."
15 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: "Þú mannsson, tak þér staf og rita á hann:
16 ,Júda og Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.` Tak því næst annan staf og rita á hann: ,Jósef, stafur Efraíms, og allir Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.`
17 Teng þá síðan hvorn við annan í einn staf, svo að þeir verði að einum í hendi þinni.
18 Og er samlandar þínir tala til þín og segja: ,Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða?`
19 þá seg þeim: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég tek staf Jósefs, sem er í hendi Efraíms og þeirra ættkvísla Ísraels, sem eru í bandalagi við hann, og gjöri þá að staf Júda, svo að þeir verði einn stafur í hendi Júda.
20 Og stafirnir, sem þú skrifar á, skulu vera í hendi þinni fyrir augum þeirra.
21 Og mæl til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna, þangað sem þeir fóru, og saman safna þeim úr öllum áttum og leiði þá aftur inn í land þeirra.
22 Og ég vil gjöra þá að einni þjóð í landinu, á Ísraels fjöllum, og einn konungur skal vera konungur yfir þeim öllum, og þeir skulu eigi framar vera tvær þjóðir og eigi framar vera skiptir í tvö konungsríki.
23 Og þeir skulu eigi framar saurga sig á skurðgoðum sínum og viðurstyggðum, eða með öllum tryggðrofssyndum sínum, og ég vil frelsa þá frá öllum fráhvarfssyndum þeirra, sem þeir hafa drýgt, og hreinsa þá, og þeir skulu verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.
24 Og þjónn minn Davíð skal vera konungur yfir þeim, og þeir skulu allir hafa einn hirði og lifa eftir setningum mínum og varðveita boðorð mín og breyta eftir þeim.
25 Og þeir skulu búa í landinu, sem ég gaf þjóni mínum Jakob og feður yðar bjuggu í. Í því skulu þeir og búa og börn þeirra og barnabörn til eilífðar, og þjónn minn Davíð skal vera höfðingi þeirra eilíflega.
26 Og ég mun gjöra við þá friðarsáttmála, það skal vera eilífur sáttmáli við þá, og ég mun láta þá búa að staðaldri í landinu og fjölga þeim og setja helgidóm minn meðal þeirra að eilífu.
27 Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.
28 Og þjóðirnar skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, sem helga Ísrael, þegar helgidómur minn verður meðal þeirra eilíflega."
87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.
2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.
3 Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]
4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.
5 En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.
6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]
7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."
88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.
2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,
4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.
5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.
6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.
8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.
11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?
14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.
15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?
16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.
17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.
18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.
19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.
by Icelandic Bible Society