M’Cheyne Bible Reading Plan
6 Á fjögur hundruð og áttugasta ári frá því, er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi, fjórða árið, sem Salómon ríkti yfir Ísrael, í sívmánuði _ það er öðrum mánuðinum _ reisti hann Drottni musterið.
2 Musterið, sem Salómon konungur reisti Drottni, var sextíu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð.
3 Forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tuttugu álnir á breidd fram með musterisendanum og tíu álnir á dýpt fram af musterinu.
4 Hann gjörði glugga á musterið með föstum grindum fyrir.
5 Og upp að musterisveggnum hringinn í kring reisti hann þriggja hæða hliðarhús _ upp að musterisveggjunum, hringinn í kringum aðalhúsið og innhúsið og gjörði stúkur allt í kring.
6 Fyrsta hæð þessa hliðarhúss var fimm álnir á breidd, miðhæðin sex álnir á breidd, og efsta hæðin sjö álnir á breidd, því að hann hafði sett stalla utan á musterið hringinn í kring, til þess að bitarnir skyldu ekki ganga inn í musterisveggina.
7 Þegar musterið var reist var byggt úr steinum, sem höfðu verið höggnir til, er grjótið var tekið, svo að hvorki heyrðist hamarshljóð né axar, né nokkurs annars járntóls, meðan á byggingu musterisins stóð.
8 Dyrnar á fyrstu hæð hliðarhússins voru á suðurhlið musterisins, og var gengið upp um hringstiga upp á miðhæðina og þaðan upp á efstu hæð.
9 Þannig reisti hann musterið og lauk við það og þakti musterið með bjálkum og þiljum úr sedrusviði.
10 Hann reisti hliðarhús utan um allt musterið, fimm álnir á hæð hver hæð, og tengdi þau við musterið með sedrusviði.
11 Þá kom orð Drottins til Salómons svolátandi:
12 "Þú hefir byggt þetta hús. Ef þú gengur eftir boðorðum mínum og breytir eftir lögum mínum og varðveitir allar skipanir mínar með því að ganga eftir þeim, þá mun ég efna heit mitt við þig, er ég gaf Davíð föður þínum,
13 og ég mun búa meðal Ísraelsmanna og eigi yfirgefa lýð minn Ísrael."
14 Þannig byggði Salómon musterið og lauk við það.
15 Salómon þiljaði musterisveggina að innan með sedrusviði. Frá gólfi hússins upp að loftbjálkum þiljaði hann það að innan með viði og lagði gólf í húsið úr kýpresviðarborðum.
16 Og hann þiljaði tuttugu álnir aftan af húsinu neðan frá gólfi og upp undir bjálka með sedrusviði. Gjörði hann þannig úr því að innan innhús, það er Hið allrahelgasta.
17 Húsið var fjörutíu álnir, það er aðalhúsið fyrir framan innhúsið.
18 Innan á musterinu var sedrusviður, útskorinn með hnöppum og blómstrum. Var það allt af sedrusviði, og sá hvergi í stein.
19 Hann bjó út innhús, Hið allrahelgasta, inni í musterinu, til þess að þangað mætti flytja sáttmálsörk Drottins.
20 Og fyrir framan innhúsið _ en það var tuttugu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði það skíru gulli _ gjörði hann altari af sedrusviði.
21 Salómon lagði musterið með skíru gulli að innan, og dró gullfestar fyrir kórinn og lagði hann gulli.
22 Og allt húsið lagði hann gulli _ algjörlega allt húsið. Einnig lagði hann gulli allt altarið, sem tilheyrði innhúsinu.
23 Hann gjörði í innhúsinu tvo kerúba af olíuviði, tíu álna háa.
24 Hvor vængur annars kerúbsins var fimm álnir, og hvor vængur hins kerúbsins fimm álnir, svo að tíu álnir voru frá enda annars vængsins til enda hins vængsins.
25 Báðir kerúbarnir voru tíu álnir, báðir voru þeir jafnstórir og eins að gerð.
26 Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð, svo og hinn kerúbinn.
27 Og hann setti kerúbana upp inni í Hinu allrahelgasta, og breiddu þeir út vængina, svo að annar vængur annars nam við vegginn og hinn vængur hins kerúbsins nam við hinn vegginn, en í miðju húsinu námu vængir þeirra hvor við annan.
28 Og hann lagði kerúbana gulli.
29 Hann lét skera út á veggina hringinn í kring kerúba, pálma og blómfléttur, inni og fyrir utan.
30 Gólf hússins lagði hann og gulli, inni og fyrir utan.
31 Fyrir dyr innhússins lét hann gjöra vængjahurð úr olíuviði. Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafirnir mynduðu fimmhyrning.
32 Á báðar vængjahurðirnar, sem voru úr olíuviði, lét hann skera kerúba, pálma og blómfléttur og leggja gulli, en kerúbana og pálmana lagði hann slegnu gulli.
33 Og fyrir dyr aðalhússins lét hann sömuleiðis gjöra ferstrenda dyrastafi af olíuviði
34 og tvær vængjahurðir af kýpresviði. Var hvor vængurinn um sig gjörður af tveimur hlerum, er léku á hjörum.
35 Og hann lét skera kerúba, pálma og blómfléttur á þá og lagði það gulli, sem út var skorið.
36 Hann gjörði vegginn um innri forgarðinn úr þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum.
37 Á fjórða ári var grundvöllurinn lagður að húsi Drottins, í sívmánuði.
38 Og á ellefta ári, í búlmánuði _ það er áttunda mánuðinum _ var húsið fullgjört í öllum greinum, með öllu sem því tilheyrði. Í sjö ár var hann að byggja það.
3 Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín.
2 Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður:
3 Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður.
4 Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists.
5 Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum:
6 Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.
7 Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns.
8 Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists
9 og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.
10 Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er.
11 Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum.
12 Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði.
13 Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar.
14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,
15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.
16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,
17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.
18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,
19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.
20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,
21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.
36 En þú mannsson, spá þú um Ísraels fjöll og seg: Þér Ísraels fjöll, heyrið orð Drottins!
2 Svo segir Drottinn Guð: Af því að óvinirnir hafa hrópað yfir yður: ,Hæ! Eilíf auðn! Það er orðið vor eign!`
3 fyrir því spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð: Fyrir þá sök, vegna þess að menn eyddu yður og ágirntust yður alla vega, að þér yrðuð eign hinna þjóðanna, og af því að þér komust í orðræðu manna og urðuð fyrir ámæli fólks, _
4 fyrir því heyrið orð Drottins Guðs, þér Ísraels fjöll! Svo segir Drottinn Guð við fjöllin og hæðirnar, við hvammana og dalina, við eyðirústirnar og við yfirgefnu borgirnar, sem orðnar eru að herfangi og að spotti fyrir hinar þjóðirnar, sem umhverfis yður eru, _
5 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sannlega tala ég í minni brennandi afbrýði til hinna þjóðanna og alls Edóms, sem hafa ætlað sér land mitt til eignar, með alls hugar fögnuði og innilegri fyrirlitning, til þess að þeir gætu rekið íbúana burt og rænt það.
6 Spá þú þess vegna um Ísraelsland og seg við fjöllin og hæðirnar, við hvammana og dalina: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég hefi talað í ástríðufullri heift, af því að þér hafið orðið að þola háðungar þjóðanna.
7 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Ég hef upp hönd mína og sver: Þjóðirnar, sem umhverfis yður eru, skulu vissulega verða að þola háðung sína.
8 En þér, Ísraels fjöll, skjótið greinum yðar og berið ávöxt yðar handa lýð mínum Ísrael, því að bráðum munu þeir koma heim.
9 Því að sjá, ég mun koma til yðar og snúa mér að yður, og þér munuð verða yrkt og sáin.
10 Og ég mun fjölga fólkinu á yður, gjörvöllum Ísraelslýð, og borgirnar verða byggðar og rústirnar reistar að nýju.
11 Og ég vil fjölga mönnum og skepnum á yður, og það skal margfaldast og verða frjósamt. Og ég mun láta yður verða byggð, eins og þér voruð í fyrri daga, og auðsýna yður enn meira gott en áður fyrr, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.
12 Og ég mun láta menn á yður ganga, lýð minn Ísrael. Þeir skulu taka þig til eignar, svo að þú verðir arfleifð þeirra, og þú munt ekki framar gjöra þá barnlausa.
13 Svo segir Drottinn Guð: Af því að menn sögðu við yður: ,Þú varst mannæta og varst vön að gjöra þjóð þína barnlausa`,
14 fyrir því skalt þú ekki framar mönnum farga og ekki framar gjöra þjóð þína barnlausa, _ segir Drottinn Guð.
15 Og ég skal ekki framar láta þig heyra háðungar heiðingjanna og þú skalt ekki framar þurfa að þola smánanir þjóðanna og þú skalt ekki framar gjöra þjóð þína barnlausa, _ segir Drottinn Guð."
16 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
17 "Mannsson, þegar Ísraelsmenn bjuggu í landi sínu, þá saurguðu þeir það með breytni sinni og verkum sínum. Breytni þeirra var fyrir mér eins og óhreinleiki konu, sem hefir tíðir.
18 Og ég úthellti reiði minni yfir þá, sökum þess blóðs, er þeir höfðu úthellt í landinu, og af því að þeir höfðu saurgað það með skurðgoðum sínum.
19 Og ég tvístraði þeim meðal þjóðanna, og þeir dreifðust út um löndin. Eftir breytni þeirra og verkum þeirra dæmdi ég þá.
20 Og þeir komu til hinna heiðnu þjóða. Hvar sem þeir komu, þar vanhelguðu þeir mitt heilaga nafn, með því að mönnum fórust svo orð um þá: ,Þetta er lýður Drottins, og þó urðu þeir að fara burt úr landi sínu!`
21 Og mig tók það sárt, að Ísraelsmenn skyldu svo vanhelga heilagt nafn mitt meðal þjóðanna, hvar sem þeir komu.
22 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Eigi er það yðar vegna, Ísraelsmenn, að ég læt til mín taka, heldur vegna míns heilaga nafns, sem þér hafið vanhelgað meðal þjóðanna, hvar sem þér komuð.
23 Og ég mun helga mitt hið mikla nafn, sem vanhelgað var meðal þjóðanna, það er þér vanhelguðuð meðal þeirra, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er Drottinn, _ segir Drottinn Guð _ þá er ég auglýsi heilagleik minn á yður í augsýn þeirra.
24 Ég mun sækja yður til þjóðanna og saman safna yður úr öllum löndum og flytja yður inn í yðar land.
25 Ég mun stökkva hreinu vatni á yður, svo að þér verðið hreinir, ég mun hreinsa yður af öllum óhreinindum yðar og skurðgoðum.
26 Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi.
27 Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim.
28 Og þér skuluð búa í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, og þér skuluð vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð.
29 Ég mun frelsa yður frá öllum óhreinindum yðar, og ég mun kalla á kornið og margfalda það, og ekkert hallæri mun ég láta yfir yður koma.
30 Og ég mun margfalda ávöxtu trjánna og gróða vallarins, til þess að þér þurfið ekki að þola brigsl meðal heiðnu þjóðanna fyrir hallæri.
31 Þá munuð þér minnast yðar vondu breytni og verka yðar, sem ekki voru góð, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum misgjörða yðar og viðurstyggða.
32 Eigi er það yðar vegna, að ég læt til mín taka, segir Drottinn Guð, það skuluð þér vita! Blygðist og skammist yðar fyrir breytni yðar, þér Ísraelsmenn!
33 Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi, er ég hreinsa yður af öllum misgjörðum yðar, þá mun ég aftur láta borgirnar verða byggðar, og þá skulu fallin húsin rísa úr rústum.
34 Og hið eydda land mun yrkt verða, í stað þess að það áður var eins og auðn í augum allra umfarenda.
35 Þá mun sagt verða: ,Þetta land, sem komið var í auðn, er orðið eins og Edens garður, og borgirnar, sem orðnar voru að rústum, sem eyddar voru og umturnaðar, eru nú víggirtar og byggðar.`
36 Þá munu þær þjóðir, sem eftir eru orðnar kringum yður, viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi reist af nýju það, sem umturnað var, og gróðursett það, sem var í eyði lagt. Ég, Drottinn, hefi talað það og mun framkvæma það.
37 Svo segir Drottinn Guð: Þá bón skal ég enn veita Ísraelsmönnum: Ég skal gjöra þá svo mannmarga sem hjörð er að sauðum.
38 Eins og helgidómurinn fyllist af sauðum, eins og Jerúsalem fyllist af sauðum á hátíðunum, svo munu eyðiborgirnar fyllast af mannahjörðum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."
86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.
8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,
13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.
14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.
15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.
by Icelandic Bible Society