Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 4-5

Salómon konungur var konungur yfir öllum Ísrael, og

þessir voru æðstu embættismenn hans: Asarja Sadóksson var prestur,

Elíhóref og Ahía Sísasynir voru kanslarar, Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,

Benaja Jójadason var yfir hernum, Sadók og Abjatar voru prestar,

Asarja Natansson var yfir fógetunum, Sabúð Natansson var prestur og vinur konungs.

Ahísar var stallari, Adóníram Abdason var yfir kvaðarmönnum.

Salómon hafði tólf fógeta yfir öllum Ísrael. Skyldu þeir birgja konung og hirð hans að vistum sinn mánuðinn hver á ári hverju.

Og þetta eru nöfn þeirra: Ben Húr á Efraímfjöllum,

Ben Deker í Makas og í Saalbím og Bet Semes og Elon, allt að Bet Hanan.

10 Ben Heseð í Arúbbót, honum tilheyrði Sókó og allt Heferland,

11 Ben Abínadab hafði allt Dórhálendi, átti hann Tafat, dóttur Salómons fyrir konu.

12 Baana Ahílúðsson: Taanak og Megiddó og allt Bet Sean, sem liggur hjá Saretan fyrir neðan Jesreel, frá Bet Sean til Abel Mehóla, allt vestur fyrir Jokmeam,

13 Ben Geber í Ramót í Gíleað, honum tilheyrðu þorp Jaírs Manassesonar í Gíleað og landsspildan Argób í Basan, sextíu stórar borgir, með múrveggjum og slagbröndum af eiri,

14 Ahínadab Íddóson í Mahanaím,

15 Akímaas í Naftalí, hann hafði og gengið að eiga Basmat, dóttur Salómons.

16 Baana Húsaíson í Asser og Bealót,

17 Jósafat Parúason í Íssakar,

18 Símeí Elason í Benjamín,

19 Geber Úríson í Gíleaðlandi, landi Síhons Amorítakonungs og Ógs, konungs í Basan. Og einn fógeti var í Júda.

20 Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir.

21 Salómon drottnaði yfir öllum konungaríkjum frá Efrat til Filistalands og til landamæra Egyptalands. Færðu þeir Salómon skatt og voru þegnskyldir honum alla ævi hans.

22 Og Salómon þurfti daglega til matar þrjátíu kór af hveiti og sextíu kór af mjöli,

23 tíu alda uxa og tuttugu uxa haggenga og hundrað sauði, auk hjarta, skógargeita, dáhjarta og alifugla.

24 Því að hann réð yfir öllu landi fyrir vestan Efrat, frá Tífsa til Gasa, yfir öllum konungum fyrir vestan Efrat, og hafði frið á allar hliðar hringinn í kring,

25 svo að Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.

26 Og Salómon hafði fjörutíu þúsund vagnhesta og tólf þúsund ríðandi menn.

27 Og fógetar þessir birgðu Salómon konung að vistum og alla þá, er komu að borði Salómons konungs, sinn mánuðinn hver. Létu þeir ekkert skorta.

28 Og bygg og hey handa akhestunum og gæðingunum fluttu þeir þangað, er hann var, hver eftir því sem honum bar.

29 Og Guð veitti Salómon afar mikla speki og visku og djúpsæi andans, sem sandur er margur á sjávarströnd,

30 og speki Salómons var meiri en speki allra austurbyggja og öll speki Egyptalands.

31 Og hann var allra manna vitrastur, vitrari en Etan Esrahíti og Heman og Kalkól og Darda Mahólssynir, og hann var nafnfrægur með öllum þjóðum umhverfis.

32 Hann mælti þrjú þúsund orðskviðu, og ljóð hans voru eitt þúsund og fimm að tölu.

33 Og hann talaði um trén, allt frá sedrustrjánum á Líbanon til ísópsins, sem sprettur á múrveggnum. Og hann talaði um fénað og fugla, orma og fiska,

34 og menn komu af öllum þjóðum til þess að heyra speki Salómons, frá öllum konungum jarðarinnar, er heyrðu speki hans getið.

Híram konungur í Týrus sendi þjóna sína til Salómons, því hann hafði heyrt að hann hefði verið smurður til konungs í stað föður síns, en Híram hafði ætíð verið góðvinur Davíðs.

Og Salómon sendi boð til Hírams og lét segja honum:

"Þú veist sjálfur, að Davíð faðir minn mátti eigi reisa hús nafni Drottins, Guðs síns, vegna ófriðar þess, er hann varð að eiga í á allar hliðar, uns Drottinn lagði óvini hans undir iljar honum.

En nú hefir Drottinn, Guð minn, veitt mér frið allt umhverfis. Á ég engan mótstöðumann og ekkert er framar að meini.

Fyrir því hefi ég í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Guðs míns, eins og Drottinn sagði við Davíð, föður minn, er hann mælti: ,Sonur þinn, er ég set í hásæti þitt í þinn stað, hann skal reisa hús mínu nafni.`

Bjóð því nú að höggva sedrustré á Líbanon handa mér, og þjónar mínir skulu vera með þínum þjónum. Skal ég greiða þér kaup fyrir þjóna þína, slíkt er þú sjálfur tiltekur. Því að þú veist sjálfur, að með oss er enginn maður, er kunni að skógarhöggi sem Sídoningar."

Þegar Híram heyrði orðsending Salómons, varð hann harla glaður og sagði: "Lofaður sé Drottinn í dag, er gefið hefir Davíð vitran son til að ríkja yfir þessari fjölmennu þjóð."

Og Híram sendi menn til Salómons og lét segja honum: "Ég hefi heyrt þá orðsending, er þú gjörðir mér. Skal ég gjöra að ósk þinni um sedrusviðinn og kýpresviðinn.

Mínir menn skulu flytja viðinn ofan frá Líbanon til sjávar, og ég skal láta leggja hann í flota í sjónum og flytja þangað sem þú segir til um. Þar læt ég taka sundur flotana, en þú lætur sækja. En þú skalt gjöra að ósk minni og láta mig fá vistir handa hirð minni."

10 Og Híram lét Salómon fá eins mikið af sedrusviði og kýpresviði og hann vildi.

11 En Salómon lét Híram fá tuttugu þúsund kór af hveiti til matar fyrir hirð hans og tuttugu þúsund bat af olíu úr steyttum olífuberjum. Þetta lét Salómon Híram fá á ári hverju.

12 Og Drottinn hafði veitt Salómon speki, eins og hann hafði heitið honum. Og það fór vel á með þeim Híram og Salómon, og þeir gjörðu sáttmála sín á milli.

13 Salómon konungur bauð út kvaðarmönnum úr öllum Ísrael, og urðu kvaðarmennirnir þrjátíu þúsundir að tölu.

14 Og hann sendi þá til skiptis til Líbanon, tíu þúsundir á mánuði hverjum. Skyldu þeir vera einn mánuð á Líbanon, en tvo mánuði heima hjá sér. Adóníram var yfir kvaðarmönnum.

15 Og Salómon hafði sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara í fjöllunum,

16 auk yfirfógeta Salómons, er fyrir verkinu stóðu, þrjú þúsund og þrjú hundruð að tölu. Skyldu þeir hafa umsjón með þeim mönnum, er verkið unnu.

17 Og að boði konungs hjuggu þeir stóra steina, úthöggna steina, til þess að byggja musterisgrunninn úr höggnu grjóti.

18 Og smiðir Salómons og Hírams og Gíblítar hjuggu þá til, undirbjuggu viðinn og steinana til þess að reisa musterið.

Bréf Páls til Efesusmanna 2

Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda,

sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.

Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.

En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss,

hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir.

Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum.

Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú.

Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf.

Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.

10 Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.

11 Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna.

12 Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum.

13 Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.

14 Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum

15 afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum.

16 Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð á krossinum, þar sem hann deyddi fjandskapinn.

17 Og hann kom og boðaði frið yður, sem fjarlægir voruð, og frið hinum, sem nálægir voru.

18 Því að fyrir hann eigum vér hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda.

19 Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.

20 Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.

21 Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni.

22 Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.

Esekíel 35

35 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, snú þér gegn Seír-fjalllendi og spá gegn því

og seg við það: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Seír-fjalllendi, og ég skal rétta hönd mína út í móti þér og gjöra þig að auðn og öræfum.

Borgir þínar gjöri ég að rústum, og þú skalt sjálft verða að auðn, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.

Af því að þú bjóst yfir eilífum fjandskap og seldir Ísraelsmenn undir sverðseggjar á ógæfutíma þeirra, þá er tími endasektarinnar rann upp,

fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ blóðskuld hefir þú bakað þér, og blóð skal ofsækja þig.

Og ég gjöri Seír-fjalllendi að auðn og öræfum og læt þar alla umferð af leggjast.

Og ég fylli fjöll þess vegnum mönnum. Á hæðum þínum, í dölum þínum og í öllum hvömmum þínum munu vopnbitnir menn falla.

Og ég vil gjöra þig að ævinlegri auðn, og borgir þínar skulu vera óbyggðar, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

10 Af því að þú sagðir: ,Báðar þjóðirnar og bæði löndin skulu vera mín, og vér skulum taka þau til eignar,` enda þótt Drottinn væri þar,

11 fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ mun ég fara með þig samkvæmt þeirri ástríðufullu reiði, er þú hefir á þeim sýnt vegna haturs þíns, og ég mun láta þig kenna á mér, þá er ég dæmi þig,

12 til þess að þú viðurkennir, að ég er Drottinn. Ég hefi heyrt öll lastmæli þín, þau er þú hefir talað gegn Ísraels fjöllum, er þú sagðir: ,Þau eru í eyði lögð! Oss eru þau gefin til afneyslu!`

13 Og þér töluðuð stóryrði í gegn mér og höfðuð orðmælgi við mig, ég hefi heyrt það.

14 Svo segir Drottinn Guð: Eins og þú fagnaðir yfir landi mínu, að það lá í eyði, svo mun ég láta hið sama fram við þig koma.

15 Eins og þú fagnaðir yfir arfleifð Ísraels húss, að hún var í eyði lögð, svo mun ég við þig gjöra. Að auðn skalt þú verða, Seír-fjalllendi, og allt Edómland, eins og það er sig til, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.

Sálmarnir 85

85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.

Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,

þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]

Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.

Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.

Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?

Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?

Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!

Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.

10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.

11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.

12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.

13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.

14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society