M’Cheyne Bible Reading Plan
3 Þegar Salómon konungur var orðinn fastur í sessi, mægðist hann við Faraó Egyptalandskonung og fékk dóttur Faraós og flutti hana til Davíðsborgar, uns hann hafði lokið við að reisa höll sína, musteri Drottins og múra umhverfis Jerúsalem.
2 En lýðurinn fórnaði enn á fórnarhæðunum, því að allt til þess tíma var ekkert hús reist nafni Drottins.
3 En Salómon elskaði Drottin, svo að hann hélt lög Davíðs föður síns, en þó færði hann sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðunum.
4 Konungur fór til Gíbeon til þess að fórna þar, því að það var aðalfórnarhæðin. Fórnaði Salómon þúsund brennifórnum á því altari.
5 Í Gíbeon vitraðist Drottinn Salómon í draumi um nótt, og Guð sagði: "Bið mig þess, er þú vilt að ég veiti þér."
6 Þá sagði Salómon: "Þú auðsýndir þjóni þínum, Davíð föður mínum, mikla miskunn, þar eð hann gekk fyrir augliti þínu í trúmennsku, réttlæti og hjartans einlægni við þig. Og þú lést haldast við hann þessa miklu miskunn og gafst honum son, sem situr í hásæti hans, eins og nú er fram komið.
7 Nú hefir þú þá, Drottinn Guð minn, gjört þjón þinn að konungi í stað Davíðs föður míns. En ég er unglingur og kann ekki fótum mínum forráð.
8 Og þjónn þinn er mitt á meðal þjóðar þinnar, er þú hefir útvalið, mikillar þjóðar, er eigi má telja eða tölu á koma fyrir fjölda sakir.
9 Gef því þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu. Því að hver gæti annars stjórnað þessari fjölmennu þjóð þinni?"
10 Drottni líkaði vel, að Salómon bað um þetta.
11 Þá sagði Guð við hann: "Af því að þú baðst um þetta, en baðst ekki um langlífi þér til handa eða auðlegð eða líf óvina þinna, heldur baðst um vitsmuni til að skynja, hvað rétt er í málum manna,
12 þá vil ég veita þér bæn þína. Ég gef þér hyggið og skynugt hjarta, svo að þinn líki hefir ekki verið á undan þér og mun ekki koma eftir þig.
13 Og líka gef ég þér það, sem þú baðst ekki um, bæði auðlegð og heiður, svo að þinn líki skal eigi verða meðal konunganna alla þína daga.
14 Og ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín og skipanir, eins og Davíð faðir þinn gjörði, þá mun ég gefa þér langa lífdaga."
15 Síðan vaknaði Salómon, og sjá: Það var draumur. Og er hann var kominn til Jerúsalem, gekk hann fyrir sáttmálsörk Drottins og bar fram brennifórnir og fórnaði heillafórnum og gjörði veislu öllum þjónum sínum.
16 Tvær portkonur komu til konungs og gengu fyrir hann.
17 Og önnur konan sagði: "Með leyfi, herra minn! Ég og kona þessi búum í sama húsinu, og ól ég barn í húsinu hjá henni.
18 En á þriðja degi eftir að ég hafði alið barnið, ól og kona þessi barn. Og við vorum saman og enginn annar hjá okkur í húsinu. Við vorum tvær einar í húsinu.
19 Þá dó sonur þessarar konu um nótt, af því að hún hafði lagst ofan á hann.
20 En hún reis á fætur um miðja nótt og tók son minn frá mér, meðan ambátt þín svaf, og lagði hann að brjósti sér, en dauða soninn sinn lagði hún að brjósti mér.
21 En er ég reis um morguninn og ætlaði að gefa syni mínum að sjúga, sjá, þá var hann dauður! Og er ég virti hann fyrir mér um morguninn, sjá, þá var það ekki sonur minn, sá er ég hafði fætt."
22 En hin konan sagði: "Nei, það er minn sonur, sem er lifandi, en þinn sonur er dauður." En sú fyrri sagði: "Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi." Þannig þráttuðu þær frammi fyrir konungi.
23 Þá mælti konungur: "Önnur segir: ,Það er minn sonur, sem er lifandi, og þinn sonur, sem er dauður.` En hin segir: ,Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi."`
24 Og konungur sagði: "Færið mér sverð." Og þeir færðu konungi sverðið.
25 Þá mælti konungur: "Höggvið sundur barnið, sem lifir, í tvo hluti og fáið sinn helminginn hvorri."
26 Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konung, _ því að ástin til barnsins brann í brjósti hennar _, hún mælti: "Æ, herra minn, gefið henni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki." En hin sagði: "Njóti þá hvorug okkar þess. Höggvið það sundur!"
27 Þá svaraði konungur og sagði: "Fáið hinni konunni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki. Hún er móðir þess."
28 Og allur Ísrael heyrði dóminn, sem konungur hafði dæmt. Og þeir óttuðust konung, því að þeir sáu, að hann var gæddur guðlegri speki til þess að kveða upp dóma.
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, heilsar hinum heilögu, sem eru í Efesus, þeim sem trúa á Krist Jesú.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum.
4 Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum
5 ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun
6 til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni.
7 Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra.
8 Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi.
9 Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun,
10 sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.
11 Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns,
12 til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, skyldum vera dýrð hans til vegsemdar.
13 Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið.
14 Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar.
15 Eftir að hafa heyrt um trú yðar á Drottin Jesú og um kærleika yðar til allra heilagra,
16 hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir yður, er ég minnist yðar í bænum mínum.
17 Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann.
18 Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu,
19 og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn,
20 sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum,
21 ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi.
22 Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu.
23 En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu.
34 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, spá þú um Ísraels hirða, spá þú og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Vei hirðum Ísraels, er héldu sjálfum sér til haga. Eiga ekki hirðarnir að halda sauðunum til haga?
3 Mjólkurinnar neyttuð þér, klædduð yður af ullinni, slátruðuð alifénu, en sauðunum hafið þér eigi haldið til haga.
4 Þér komuð ekki þrótti í veiku skepnurnar og læknuðuð ekki hið sjúka, bunduð ekki um hið limlesta, sóttuð ekki það, er hrakist hafði, og leituðuð ekki hins týnda, heldur drottnuðuð þér yfir þeim með hörku og grimmd.
5 Og fyrir því tvístruðust þeir, af því að enginn var hirðirinn, og urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð.
6 Sauðir mínir ráfuðu um öll fjöll og allar háar hæðir, sauðir mínir voru tvístraðir um allt landið, og enginn skeytti um þá og enginn leitaði þeirra.
7 Heyrið því orð Drottins, þér hirðar!
8 Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð: Vissulega, af því að sauðir mínir urðu að herfangi og af því að sauðir mínir urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð, með því að enginn var hirðirinn og með því að hirðar mínir skeyttu eigi um sauði mína, _ því að hirðarnir héldu sjálfum sér til haga, en sauðum mínum héldu þeir ekki til haga _
9 fyrir því heyrið orð Drottins, þér hirðar!
10 Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna hirðana og ég skal krefja sauða minna af hendi þeirra og gjöra enda á fjárgæslu þeirra. Og hirðarnir skulu ekki lengur halda sjálfum sér til haga, heldur skal ég hrífa sauði mína úr munni þeirra, svo að þeir verði þeim eigi framar að bráð.
11 Svo segir Drottinn Guð: Hér er ég sjálfur og mun leita sauða minna og annast þá.
12 Eins og hirðir annast hjörð sína þann dag, sem hann er á meðal hinna tvístruðu sauða sinna, þannig mun ég annast sauði mína og heimta þá úr öllum þeim stöðum, þangað sem þeir hröktust í þokunni og dimmviðrinu.
13 Og ég mun sækja þá til þjóðanna og saman safna þeim úr löndunum og leiða þá inn í land þeirra og halda þeim til haga á Ísraels fjöllum, í dölunum og á öllum byggðum bólum í landinu.
14 Ég mun halda þeim í góðu haglendi, og beitiland þeirra mun vera á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir liggja í góðu beitilandi og ganga í feitu haglendi á Ísraels fjöllum.
15 Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá, segir Drottinn Guð.
16 Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika, en varðveita hið feita og sterka. Ég mun halda þeim til haga, eins og vera ber.
17 En þér, sauðir mínir, _ svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég dæmi milli kindar og kindar, milli hrúta og hafra.
18 Nægir yður ekki að ganga í hinu besta haglendi, nema þér fótum troðið það, sem eftir er af haglendi yðar? Nægir yður ekki að drekka tæra vatnið, nema þér gruggið upp það, sem eftir er, með fótum yðar?
19 Og svo verða sauðir mínir að bíta það, sem þér hafið troðið með fótum yðar, og drekka það, sem þér hafið gruggað upp með fótum yðar.
20 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, hér er ég sjálfur og dæmi milli hinnar feitu og hinnar mögru kindar.
21 Af því að þér hrunduð öllum veiku skepnunum með síðum og öxlum og stönguðuð þær með hornum yðar, uns þér fenguð hrakið þær út,
22 þá vil ég nú hjálpa sauðum mínum, svo að þeir verði eigi framar að herfangi, og ég mun dæma milli kindar og kindar.
23 Og ég mun skipa yfir þá einkahirði, hann mun halda þeim til haga, þjón minn Davíð. Hann mun halda þeim til haga og hann mun vera þeim hirðir.
24 Og ég Drottinn, mun vera Guð þeirra, og þjónn minn Davíð mun vera höfðingi meðal þeirra. Ég, Drottinn, hefi talað það.
25 Og ég mun gjöra friðarsáttmála við þá og reka öll illdýri úr landinu, svo að þeir skulu óhultir búa mega í eyðimörkinni og sofa í skógunum.
26 Og ég mun gjöra þá og landið umhverfis hæð mína að blessun, og ég mun láta steypiregnið niður falla á sínum tíma, það skulu verða blessunarskúrir.
27 Og tré merkurinnar munu bera sinn ávöxt, og jörðin mun bera sinn gróða, og þeir munu búa óhultir á sinni jörð og viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég sundurbrýt oktré þeirra og frelsa þá undan valdi þeirra, er þá hafa þrælkað.
28 Og þeir skulu ekki framar verða þjóðunum að herfangi, né heldur skulu villidýrin rífa þá í sig, en þeir skulu búa óhultir og enginn skelfa þá.
29 Og ég mun láta til verða handa þeim vel ræktaðan gróðurreit og alls engir munu framar farast af hungri í landinu, og þeir skulu ekki framar liggja undir ámæli þjóðanna.
30 Og þeir skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, Guð þeirra, er með þeim, og að þeir, Ísraelsmenn, eru mín þjóð, _ segir Drottinn Guð.
31 En þér eruð mínir sauðir. Mín gæsluhjörð eruð þér. Ég er yðar Guð, _ segir Drottinn Guð."
83 Ljóð. Asafs-sálmur.
2 Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!
3 Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,
4 þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.
5 Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"
6 Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:
7 Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,
8 Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.
9 Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]
10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,
11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.
12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,
13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."
14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.
15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,
16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.
17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!
18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,
19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.
84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.
2 Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.
3 Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.
4 Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!
5 Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]
6 Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.
7 Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.
8 Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]
10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!
11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.
12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.
13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.
by Icelandic Bible Society