Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 2

Þegar dauðadagur Davíðs nálgaðist, lagði hann svo fyrir Salómon son sinn:

"Ég geng nú veg allrar veraldar, en ver þú hugrakkur og lát sjá, að þú sért maður.

Gæt þú þess, sem Drottinn, Guð þinn, af þér heimtar, að þú gangir á vegum hans og haldir lög hans, boðorð, ákvæði og fyrirmæli, eins og skrifað er í lögmáli Móse, svo að þú verðir lánsamur í öllu, sem þú gjörir og hvert sem þú snýr þér,

svo að Drottinn efni orð sín, þau er hann hefir við mig talað, er hann sagði: ,Ef synir þínir varðveita vegu sína, með því að ganga dyggilega fyrir augliti mínu af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, þá skal þig,` _ mælti hann _ ,ekki vanta eftirmann í hásæti Ísraels.`

Þú veist og sjálfur, hvað Jóab Serújuson hefir gjört mér, hversu hann hefir farið með báða hershöfðingja Ísraels, þá Abner Nersson og Amasa Jetersson, þar sem hann myrti þá og vann þannig víg í griðum og ataði blóði beltið um lendar sér og skóna á fótum sér, eins og í ófriði væri.

Neyt þú hygginda þinna og lát eigi hærur hans fara til Heljar í friði.

En sýn þú mildi sonum Barsillaí Gíleaðíta og lát þá vera meðal þeirra, sem eta við borð þitt, því að svo gjörðu þeir til mín, þá er ég flýði fyrir Absalon, bróður þínum.

Símeí Gerasson Benjamíníti frá Bahúrím er og með þér. Hann formælti mér gífurlega, þá er ég fór til Mahanaím. En hann kom til móts við mig niður að Jórdan, og vann ég honum svolátandi eið við Drottin: ,Ég skal eigi láta drepa þig.`

En þú skalt eigi láta honum óhegnt, því að þú ert maður vitur og munt vita, hvað þú átt að gjöra við hann, til þess að þú getir sent hærur hans blóðugar til Heljar."

10 Síðan lagðist Davíð til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg.

11 En sá tími, sem Davíð hafði ríkt yfir Ísrael, var fjörutíu ár. Í Hebron ríkti hann sjö ár og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár.

12 Og Salómon settist í hásæti Davíðs föður síns, og efldist ríki hans mjög.

13 Þá fór Adónía, sonur Haggítar, til Batsebu, móður Salómons. Hún sagði: "Kemur þú góðu heilli?" Hann svaraði: "Svo er víst."

14 Síðan mælti hann: "Ég á erindi við þig." Hún mælti: "Tala þú!"

15 Þá mælti hann: "Þú veist sjálf, að konungdómurinn tilheyrði mér og að allur Ísrael hafði augastað á mér sem konungsefni, en nú hefir þetta farið á annan veg og konungdómurinn lent hjá bróður mínum, því að Drottinn hafði ákvarðað honum hann.

16 Nú bið ég þig einnar bónar. Vísa þú mér ekki frá." Hún sagði við hann: "Tala þú!"

17 Þá mælti hann: "Bið þú Salómon konung _ því að hann mun ekki vísa þér frá _ að gefa mér Abísag frá Súnem fyrir konu."

18 Batseba mælti: "Gott og vel, ég skal sjálf túlka mál þitt við konung."

19 Þá gekk Batseba á fund Salómons konungs til þess að tala máli Adónía við hann. Konungur stóð upp á móti henni, laut henni og settist síðan í hásæti sitt og lét setja fram stól handa konungsmóður. Settist hún til hægri handar konungi.

20 Þá mælti hún: "Ég bið þig einnar lítillar bónar. Vísa þú mér eigi frá." Konungur sagði við hana: "Bið þú, móðir mín. Eigi mun ég vísa þér frá."

21 Þá mælti hún: "Leyf þú, að Abísag frá Súnem verði gefin Adónía, bróður þínum, fyrir konu."

22 Þá svaraði Salómon konungur og sagði við móður sína: "Hví biður þú um Abísag frá Súnem til handa Adónía? Bið heldur um konungsríkið honum til handa, því að hann er bróðir minn mér eldri, og Abjatar prestur og Jóab Serújuson eru stuðningsmenn hans."

23 Og Salómon konungur sór við Drottin og mælti: "Guð gjöri við mig hvað sem hann vill nú og síðar: Fyrir beiðni þessa skal Adónía lífinu týna.

24 Og nú, svo sannarlega sem Drottinn lifir, er mér hefir til valda komið og sett mig í hásæti Davíðs föður míns og reist mér hús, eins og hann hafði heitið: Adónía skal líflátinn þegar í dag!"

25 Síðan sendi Salómon konungur Benaja Jójadason með þessu erindi. Vann hann á honum, og lét Adónía þannig líf sitt.

26 En við Abjatar prest sagði konungur: "Far þú til bús þíns í Anatót, því að þú ert dauða sekur. En eigi vil ég drepa þig að sinni, því að þú hefir borið örk Drottins Guðs fyrir Davíð föður mínum og allar þær nauðir, sem faðir minn þoldi, hefir þú þolað með honum."

27 Síðan rak Salómon Abjatar burt, svo að hann væri eigi lengur prestur Drottins, til þess að orð Drottins skyldu rætast, þau er hann talaði um hús Elí í Síló.

28 Nú spyr Jóab þessi tíðindi. En Jóab hafði fylgt Adónía að málum, en Absalon hafði hann eigi fylgt að málum. Jóab flýði þá til tjalds Drottins og greip um altarishornin.

29 Salómon konungi var þá sagt: "Jóab er flúinn í tjald Drottins og stendur við altarið." Sendi þá Salómon Benaja Jójadason og sagði: "Far þú og vinn á honum."

30 Fór þá Benaja til tjalds Drottins og mælti til Jóabs: "Svo segir konungur: Gakk þú út." Jóab svaraði: "Nei, hér vil ég deyja." Færði Benaja þá konungi svar hans og sagði: "Svo mælti Jóab, og svo svaraði hann mér."

31 Konungur sagði við hann: "Gjör sem hann sagði. Vinn þú á honum og jarða hann og hreinsa þannig af mér og ætt minni blóð það, er Jóab úthellti án saka.

32 Drottinn láti blóð hans koma honum í koll, þar sem hann vó tvo menn, er réttlátari voru og betri en hann, og myrti þá með sverði, án þess að Davíð faðir minn vissi af því, þá Abner Nersson, hershöfðingja Ísraels, og Amasa Jetersson, hershöfðingja Júda.

33 Skal blóð þeirra koma Jóab í koll og niðjum hans að eilífu, en Davíð og niðjar hans, hús hans og hásæti hljóti að eilífu heill af Drottni."

34 Síðan fór Benaja Jójadason, vann á honum og drap hann, og var hann grafinn í húsi sínu í eyðimörkinni.

35 Og konungur skipaði Benaja Jójadason yfir herinn í hans stað, og Sadók prest skipaði hann í stað Abjatars.

36 Því næst sendi konungur boð og lét kalla Símeí og sagði við hann: "Reis þér hús í Jerúsalem og bú þar, en eigi mátt þú fara neitt þaðan.

37 En það skaltu vita fyrir víst, að á þeim degi, sem þú fer þaðan og gengur yfir Kídronlæk, skaltu deyja. Mun þá blóð þitt sjálfum þér í koll koma."

38 Símeí svaraði konungi: "Það læt ég mér vel líka. Eins og minn herra konungurinn hefir sagt, svo skal þjónn þinn gjöra." Og Símeí bjó í Jerúsalem langa hríð.

39 Eftir þrjú ár bar svo við, að tveir þrælar Símeí struku til Akís Maakasonar, konungs í Gat. Og Símeí var sagt svo frá: "Þrælar þínir eru í Gat."

40 Þá tók Símeí sig til, söðlaði asna sinn og hélt til Gat til Akís til þess að leita að þrælum sínum, og Símeí fór og hafði heim með sér þræla sína frá Gat.

41 Var nú Salómon sagt frá því, að Símeí hefði farið frá Jerúsalem til Gat og væri kominn heim aftur.

42 Þá sendi konungur boð og lét kalla Símeí og sagði við hann: "Hefi ég ekki sært þig við Drottin og lagt ríkt á við þig og sagt: ,Það skaltu vita fyrir víst, að á þeim degi, sem þú gengur að heiman og fer eitthvað burt, skaltu deyja.` Og þú sagðir við mig: ,Ég hefi heyrt það og læt mér vel líka.`

43 Hvers vegna hefir þú ekki haldið eið þann, er Drottni var svarinn, og skipun þá er ég fyrir þig lagði?"

44 Enn fremur mælti konungur við Símeí: "Þú þekkir alla þá illsku og ert þér hennar meðvitandi, er þú hafðir í frammi við Davíð föður minn, og mun nú Drottinn láta þér illsku þína í koll koma.

45 En Salómon konungur blessist og hásæti Davíðs standi stöðugt fyrir Drottni að eilífu."

46 Og konungur bauð Benaja Jójadasyni, og hann fór og vann á honum, og lét hann þannig líf sitt.

Bréf Páls til Galatamanna 6

Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.

Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.

Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.

En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra,

því að sérhver mun verða að bera sína byrði.

En sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum.

Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.

Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.

Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.

10 Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.

11 Sjáið, með hversu stórum stöfum ég skrifa yður með eigin hendi.

12 Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, það eru þeir, sem eru að þröngva yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir verði eigi ofsóttir vegna kross Krists.

13 Því að ekki halda einu sinni sjálfir umskurnarmennirnir lögmálið, heldur vilja þeir að þér látið umskerast, til þess að þeir geti stært sig af holdi yðar.

14 En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists. Sakir hans er ég krossfestur heiminum og heimurinn mér.

15 Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun.

16 Og yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs.

17 Enginn mæði mig héðan í frá, því að ég ber merki Jesú á líkama mínum.

Esekíel 33

33 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, tala þú til samlanda þinna og seg við þá: Þegar ég læt sverð koma yfir eitthvert land, og landsmenn taka mann úr sínum hóp og gjöra hann að varðmanni sínum,

og hann sér sverðið koma yfir landið og blæs í lúðurinn og gjörir fólkið vart við, _

ef þá sá, er heyrir lúðurþytinn, vill ekki vara sig, og sverðið kemur og sviptir honum í burt, þá mun blóð hans vera á höfði honum sjálfum.

Hann heyrði lúðurþytinn, en varaði sig þó ekki; blóð hans hvíli á honum. En hinn hefir gjört viðvart og frelsað líf sitt.

En sjái varðmaðurinn sverðið koma, og blæs þó ekki í lúðurinn, svo að fólki er ekki gjört vart við, og sverðið kemur og sviptir einhverjum af þeim burt, þá verður þeim hinum sama burt svipt fyrir sjálfs hans misgjörð, en blóðs hans vil ég krefja af hendi varðmannsins.

Þig, mannsson, hefi ég skipað varðmann fyrir Ísraels hús, til þess að þú varir þá við fyrir mína hönd, er þú heyrir orð af munni mínum.

Þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú hinn óguðlegi skalt deyja!` og þú segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við breytni hans, þá skal að vísu hinn óguðlegi deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans vil ég krefja af þinni hendi.

En hafir þú varað hinn óguðlega við breytni hans, að hann skuli láta af henni, en hann lætur samt ekki af breytni sinni, þá skal hann deyja fyrir misgjörð sína, en þú hefir frelsað líf þitt.

10 Mannsson, seg þú við Ísraelsmenn: Þér hafið kveðið svo að orði: ,Afbrot vor og syndir vorar hvíla á oss, og þeirra vegna veslumst vér upp, og hvernig ættum vér þá að geta haldið lífi?`

11 Seg við þá: Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?

12 En þú, mannsson, seg við samlanda þína: Ráðvendni hins ráðvanda skal ekki frelsa hann á þeim degi, er hann misgjörir, og guðleysi hins óguðlega skal ekki fella hann á þeim degi, er hann hverfur frá guðleysi sínu, og hinn ráðvandi skal ekki heldur fá lífi haldið fyrir ráðvendni sína á þeim degi, er hann syndgar.

13 Þegar ég segi við hinn ráðvanda: ,Þú skalt vissulega lífi halda!` og hann reiðir sig á ráðvendni sína og fremur glæp, þá skulu ráðvendniverk hans eigi til álita koma, heldur skal hann deyja fyrir glæpinn, sem hann hefir drýgt.

14 Og þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt vissulega deyja!` og hann lætur af synd sinni og iðkar rétt og réttlæti,

15 skilar aftur veði, endurgreiðir það, er hann hefir rænt, breytir eftir þeim boðorðum, er leiða til lífsins, svo að hann fremur engan glæp, þá skal hann lífi halda og ekki deyja.

16 Allar þær syndir, er hann hefir áður drýgt, skulu honum ekki tilreiknaðar verða. Hann hefir iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda!

17 Og samt segja samlandar þínir: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` Og það er þó atferli þeirra, sem ekki er rétt.

18 Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og fremur glæp, þá skal hann deyja fyrir það.

19 Og ef óguðlegur maður hverfur frá guðleysi sínu og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann lífi halda fyrir það.

20 Og samt segið þér: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` Sérhvern yðar mun ég dæma eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn!"

21 Á tólfta árinu eftir að vér vorum herleiddir, fimmta dag hins tíunda mánaðar kom til mín flóttamaður frá Jerúsalem með þau tíðindi: "Borgin er unnin!"

22 En hönd Drottins hafði komið yfir mig kveldið áður en flóttamaðurinn kom, og Guð hafði lokið upp munni mínum áður en hinn kom til mín um morguninn. Munnur minn var upp lokinn, og ég þagði eigi lengur.

23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

24 "Mannsson, þeir sem búa í þessum borgarrústum í Ísraelslandi segja: ,Abraham var ekki nema einn og þó fékk hann landið til eignar, en vér erum margir, oss var landið gefið til eignar.`

25 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þér etið fórnarkjöt á fjöllunum og hefjið augu yðar til skurðgoðanna og úthellið blóði, og þér viljið eiga landið!

26 Þér reiðið yður á sverð yðar, þér hafið svívirðing í frammi, þér smánið hver annars konu, og þér viljið eiga landið!

27 Þú skalt mæla þannig til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Svo sannarlega sem ég lifi, þeir sem hafast við í rústunum, skulu falla fyrir sverði, þá sem eru úti á bersvæði, gef ég villidýrunum að fæðslu, og þeir sem hafast við í klettavígjum og hellum, skulu deyja af drepsótt.

28 Og ég skal gjöra landið að auðn og öræfum, og úti er um þess dýrlega skraut, og Ísraels fjöll skulu í eyði liggja, svo að enginn fer þar um.

29 Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég gjöri landið að auðn og öræfum vegna allra þeirra svívirðinga, er þeir hafa framið.

30 Mannsson, samlandar þínir tala sín á milli um þig hjá veggjunum og við húsdyrnar, og segja hver við annan: ,Komið og heyrið, hvaða orð kemur frá Drottni!`

31 Og þeir koma til þín í hópum og sitja frammi fyrir þér, en þegar þeir hafa heyrt orð þín, þá breyta þeir ekki eftir þeim. Því að lygi er í munni þeirra, en hjarta þeirra eltir fégróðann.

32 Og sjá, þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina: Þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim.

33 En þegar það kemur fram, og það kemur vissulega fram, þá munu þeir viðurkenna, að spámaður var meðal þeirra."

Sálmarnir 81-82

81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.

Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.

Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.

Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.

Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:

"Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.

Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]

Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!

10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.

11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.

12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.

13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,

15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.

16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.

17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."

82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:

"Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]

Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,

bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."

Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.

Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,

en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."

Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society