M’Cheyne Bible Reading Plan
1 Davíð konungur var nú orðinn gamall og hniginn að aldri, og þótt hann væri þakinn sængurfötum, gat honum ekki hitnað.
2 Fyrir því sögðu þjónar hans við hann: "Það ætti að leita að yngismey handa mínum herra konunginum til þess að þjóna konunginum og hjúkra honum. Skal hún liggja við brjóst þitt, til þess að mínum herra konunginum megi hitna."
3 Síðan var leitað að fríðri stúlku í öllu Ísraelslandi, og fundu menn Abísag frá Súnem og fóru með hana til konungs.
4 En stúlkan var forkunnar fríð og hjúkraði konungi og þjónaði honum, en konungur kenndi hennar ekki.
5 Adónía sonur Haggítar hreykti sér upp og hugsaði með sér: "Ég vil verða konungur." Og hann fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.
6 En faðir hans hafði aldrei angrað hann á ævinni með því að segja við hann: "Hví hefir þú gjört þetta?" Auk þess var hann mjög fríður sýnum og næstur Absalon að aldri.
7 Hann átti og ráðstefnur við Jóab Serújuson og Abjatar prest, og fylgdu þeir Adónía að málum.
8 En Sadók prestur, Benaja Jójadason, Natan spámaður, Símeí, Reí og kappar Davíðs fylgdu eigi Adónía.
9 Adónía slátraði sauðum og nautum og alikálfum hjá Höggormssteini, sem er hjá Rógel-lind, og bauð til öllum bræðrum sínum, konungssonunum, og öllum Júdamönnum, þegnum konungs.
10 En Natan spámanni, Benaja og köppunum og Salómon bróður sínum bauð hann ekki.
11 Þá mælti Natan við Batsebu, móður Salómons, á þessa leið: "Hefir þú ekki heyrt, að Adónía sonur Haggítar er orðinn konungur, og Davíð, herra vor, veit það ekki?
12 Kom þú nú, og vil ég leggja þér ráð, hversu þú megir forða lífi þínu og lífi Salómons sonar þíns.
13 Far þú og gakk fyrir Davíð konung og seg við hann: ,Hefir þú ekki, minn herra konungur, unnið ambátt þinni eið og sagt: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu? Hví er þá Adónía orðinn konungur?`
14 Sjá, meðan þú enn ert að tala þar við konung, skal ég koma á eftir þér og staðfesta orð þín."
15 Þá gekk Batseba fyrir konung inn í svefnhúsið, en konungur var þá gamall mjög, og Abísag frá Súnem þjónaði honum.
16 Batseba hneigði sig og laut konungi. Konungur mælti: "Hvað er þér á höndum?"
17 Hún sagði við hann: "Herra minn, þú hefir unnið ambátt þinni svolátandi eið við Drottin, Guð þinn: ,Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu.`
18 En sjá, nú er Adónía orðinn konungur, og þú veist það ekki, minn herra konungur!
19 Hann hefir slátrað fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og boðið til öllum konungssonum og Abjatar presti og Jóab hershöfðingja, en Salómon þjóni þínum hefir hann ekki boðið.
20 Og nú standa augu allra Ísraelsmanna á þér, minn herra konungur, að þú gjörir kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag.
21 Ella mun svo fara, þegar minn herra konungurinn hvílir hjá feðrum sínum, að ég og Salómon sonur minn munum talin óbótamenn."
22 En meðan hún var að tala við konung, kom Natan spámaður.
23 Og konungi var sagt: "Natan spámaður er hér kominn." Gekk hann þá inn fyrir konung og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi
24 og mælti: "Minn herra konungur, hefir þú sagt: ,Adónía skal vera konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu?`
25 Því að hann fór niður eftir í dag og slátraði fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og bauð til öllum konungssonunum, hershöfðingjunum og Abjatar presti. Þeir eru nú að eta og drekka hjá honum og hrópa: ,Adónía konungur lifi!`
26 En mér, þjóni þínum, Sadók presti, Benaja Jójadasyni og Salómon þjóni þínum bauð hann ekki.
27 Er þetta orðið að tilhlutun míns herra konungsins, þar sem þú hefir ekki gjört þjónum þínum kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag?"
28 Þá svaraði Davíð konungur og mælti: "Kallið á Batsebu!" Gekk hún þá inn fyrir konung. Og er hún stóð frammi fyrir konungi,
29 sór konungur og sagði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum:
30 Eins og ég sór þér við Drottin, Ísraels Guð, og sagði: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu í minn stað _ svo vil ég staðfesta það í dag."
31 Þá hneigði Batseba ásjónu sína til jarðar, laut konungi og mælti: "Minn herra Davíð konungur lifi eilíflega!"
32 Þá sagði Davíð konungur: "Kallið á Sadók prest, Natan spámann og Benaja Jójadason." Þeir gengu síðan fyrir konung.
33 Og konungur sagði við þá: "Takið með yður þjóna herra yðar, setjið Salómon son minn á múl minn og farið með hann til Gíhonlindar.
34 Skal Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann þar til konungs yfir Ísrael. Þeytið síðan lúðurinn og hrópið: ,Salómon konungur lifi!`
35 Komið síðan með honum hingað, og skal hann þá koma og setjast í hásæti mitt og vera konungur í minn stað, því að hann hefi ég skipað til að vera höfðingja yfir Ísrael og Júda."
36 Þá svaraði Benaja Jójadason konungi og mælti: "Veri það svo; Drottinn, Guð míns herra konungsins, gefi það.
37 Eins og Drottinn hefir verið með mínum herra konunginum, svo sé hann og með Salómon og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti míns herra, Davíðs konungs."
38 Þá fóru þeir Sadók prestur, Natan spámaður, Benaja Jójadason og Kretar og Pletar og settu Salómon á múl Davíðs konungs og fóru með hann til Gíhonlindar.
39 Þá tók Sadók prestur olíuhornið úr tjaldinu og smurði Salómon. Þá þeyttu þeir lúðurinn, og allur lýðurinn hrópaði: "Lifi Salómon konungur!"
40 Síðan fór allur lýðurinn heim aftur með honum, og menn blésu á hljóðpípur og létu feginslátum, svo að við sjálft lá, að jörðin rifnaði af ópi þeirra.
41 Adónía og allir þeir, sem hann hafði í boði sínu, heyrðu þetta, er þeir höfðu lokið máltíðinni. Þegar Jóab heyrði lúðurhljóminn, mælti hann: "Hví er öll borgin í uppnámi?"
42 En er hann var þetta að mæla, kom Jónatan, sonur Abjatars prests. Þá sagði Adónía: "Kom þú hingað, því að þú ert sæmdarmaður og munt flytja góð tíðindi."
43 Þá svaraði Jónatan og sagði við Adónía: "Það er nú svo! Herra vor, Davíð konungur, hefir gjört Salómon að konungi.
44 Konungur hefir sent með honum Sadók prest, Natan spámann, Benaja Jójadason og Kreta og Pleta, og þeir hafa sett hann á múl konungs.
45 Og þeir Sadók prestur og Natan spámaður hafa smurt hann til konungs við Gíhonlind. Þaðan fóru þeir heim fagnandi, svo að öll borgin er komin í uppnám. Þetta er hávaðinn, sem þér hafið heyrt.
46 Salómon hefir meira að segja setst í konungshásætið.
47 Sömuleiðis komu þjónar konungs til þess að árna herra vorum, Davíð konungi, heilla, og sögðu: ,Guð þinn gjöri nafn Salómons enn víðfrægara en nafn þitt, og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti þitt!` og hneigði konungur sig í hvílu sinni.
48 Konungur hefir og mælt svo: ,Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, sem í dag hefir skipað eftirmann í hásæti mitt og látið mér auðnast að líta það."`
49 Þá skelfdust allir boðsgestir Adónía, héldu af stað, og fór hver leiðar sinnar.
50 En Adónía var hræddur við Salómon, hélt af stað og fór burt og greip um altarishornin.
51 Var Salómon sagt frá því með svofelldum orðum: "Sjá, Adónía er hræddur við Salómon konung, heldur um altarishornin og segir: ,Salómon konungur sverji mér í dag, að hann skuli ekki láta taka þjón sinn af lífi."`
52 Þá sagði Salómon: "Komi hann fram sem góður drengur skal ekki eitt af hárum hans falla til jarðar, en reynist hann ódrengur skal hann lífi týna."
53 Þá sendi Salómon konungur og lét taka hann frá altarinu, og er hann kom og laut Salómon konungi, sagði Salómon við hann: "Far þú heim til þín."
5 Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.
2 Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert.
3 Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið.
4 Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.
5 En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor.
6 Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.
7 Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum?
8 Þær fortölur voru ekki frá honum, sem kallaði yður.
9 Lítið súrdeig sýrir allt deigið.
10 Ég hef það traust til yðar í Drottni, að þér verðið sama sinnis og ég. Sá sem truflar yður mun bera sinn dóm, hver sem hann svo er.
11 En hvað mig snertir, bræður, ef ég er enn þá að prédika umskurn, hví er þá enn verið að ofsækja mig? Þá væri hneyksli krossins tekið burt.
12 Vel mættu þeir, sem koma yður í uppnám, aflima sig.
13 Þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum í kærleika.
14 Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."
15 En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.
16 En ég segi: Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.
17 Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.
18 En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli.
19 Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi,
20 skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur,
21 öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.
22 En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska,
23 hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.
24 En þeir, sem tilheyra Kristi Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.
25 Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum!
26 Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.
32 Á tólfta árinu, fyrsta dag hins tólfta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, hef upp harmljóð yfir Faraó, Egyptalandskonungi, og seg við hann: Þú ungljón meðal þjóðanna, það er úti um þig! Og þó varst þú eins og krókódíll í sjónum, gusaðir með nösum þínum, gruggaðir upp vatnið með fótum þínum og rótaðir upp bylgjum þess.
3 Svo segir Drottinn Guð: Ég vil breiða net mitt yfir þig í söfnuði margra þjóða, til þess að þeir dragi þig upp í neti mínu.
4 Og ég skal varpa þér upp á land, fleygja þér út á bersvæði, og ég skal láta alla fugla himinsins sitja á þér og seðja dýr allrar jarðarinnar á þér.
5 Og ég skal færa hold þitt út á fjöllin og fylla dalina hræi þínu.
6 Og ég skal vökva landið með útrennsli þínu, af blóði þínu á fjöllunum, og árfarvegirnir skulu verða fullir af þér.
7 Þegar þú slokknar út, skal ég byrgja himininn og myrkva stjörnur hans. Sólina skal ég hylja í skýjum, og tunglið skal ekki láta ljós sitt skína.
8 Öll ljós á himninum skal ég láta verða myrk þín vegna og færa dimmu yfir land þitt, _ segir Drottinn Guð.
9 Og ég mun hrella hjörtu margra þjóða, er ég leiði hertekna menn þína út á meðal þjóðanna, til landa, sem þú þekkir ekki.
10 Og ég mun gjöra margar þjóðir felmtsfullar út af þér, og hryllingur mun fara um konunga þeirra þín vegna, þegar ég sveifla sverði mínu frammi fyrir þeim, og þeir skulu skjálfa án afláts af hræðslu um líf sitt, daginn sem þú fellur.
11 Svo segir Drottinn Guð: Sverð Babelkonungs skal koma yfir þig.
12 Ég skal láta glæsilið þitt falla fyrir kappa sverðum. Það eru allt saman hinar grimmustu þjóðir. Þeir skulu eyða skrauti Egyptalands, og allt viðhafnarprjál þess skal að engu gjört.
13 Og ég skal gjöreyða öllum skepnum þess og hrífa þær burt frá hinum miklu vötnum. Enginn mannsfótur skal framar grugga þau, né heldur skulu klaufir nokkurrar skepnu grugga þau.
14 Þá skal ég láta vötn þeirra setjast og leiða ár þeirra burt eins og olíu, _ segir Drottinn Guð _
15 þegar ég gjöri Egyptaland að auðn og það er eytt orðið og svipt gnægtum sínum, er ég lýst alla þá, sem í því búa, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."
16 Þetta eru harmljóð og skulu menn syngja þau. Dætur þjóðanna skulu syngja þau, þær skulu syngja þau yfir Egyptalandi og yfir öllu glæsiliði þess, _ segir Drottinn Guð!
17 Á tólfta árinu, hinn fimmtánda dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:
18 "Mannsson, kveina þú og dætur þjóðanna yfir glæsiliði Egyptalands. Tignarmenn munu sökkva niður í undirheima til þeirra, sem niður eru stignir í gröfina.
19 Af hverjum ber þú að yndisleik? Stíg ofan og leggst til hvíldar meðal hinna óumskornu.
20 Þeir munu falla meðal vopnbitinna manna. Egyptaland er sverðinu ofurselt, menn hrífa það burt og allt þess skraut.
21 Þá munu hinar hraustu hetjur hrópa til Faraós í Helju, til hans og liðveislumanna hans: Niður stignir eru hinir vopnbitnu.
22 Þarna er Assýría og allur liðsafnaður hennar, og eru grafir þeirra umhverfis, _ allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, _
23 grafir þeirra eru innst inni í grafhellinum. Og sveit hennar er umhverfis gröf hennar, allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna.
24 Þarna er Elam, og allt glæsilið hans liggur umhverfis gröf hans. Þeir eru allir saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, er farið hafa óumskornir ofan í undirheima og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina.
25 Mitt á meðal veginna manna bjuggu þeir honum hvílurúm, ásamt öllu glæsiliði hans, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, er lagðir hafa verið sverði, _ því að eitt sinn stóð ógn af þeim á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina. Meðal veginna manna voru þeir lagðir.
26 Þarna er Mesek, Túbal og allur mannfjöldi þeirra, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, sverði lagðir, er eitt sinn létu ógn af sér standa á landi lifandi manna.
27 Þeir liggja ekki hjá hetjunum, þeim er féllu í fyrndinni, þeim er fóru til Heljar í hervopnum sínum, hverra sverð voru lögð undir höfuð þeirra og skildir þeirra lágu ofan á beinum þeirra, því að ótti stóð af hetjunum á landi lifandi manna.
28 Þú skalt og sundur molaður verða meðal óumskorinna og liggja hjá sverðbitnum mönnum.
29 Þar er Edóm, konungar hans og allir höfðingjar, sem þrátt fyrir hreysti sína voru lagðir hjá vopnbitnum mönnum. Þeir liggja hjá óumskornum mönnum og hjá þeim, sem niður eru stignir í gröfina.
30 Þar eru stórhöfðingjar norðursins allir saman og allir Sídoningar, er niður stigu helsærðir. Þrátt fyrir óttann, sem stóð af hreysti þeirra, eru þeir orðnir til skammar. Óumskornir liggja þeir hjá vopnbitnum mönnum og bera vanvirðu sína með þeim, er niður stignir eru í gröfina.
31 Faraó mun sjá þá og huggast yfir öllu glæsiliði sínu. Vopnbitinn er Faraó og allur hans her, _ segir Drottinn Guð.
32 Hann lét eitt sinn standa ógn af sér á landi lifandi manna, þess vegna skal hann lagður verða meðal óumskorinna, hjá vopnbitnum mönnum, Faraó og allt hans glæsilið, _ segir Drottinn Guð."
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!
4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
by Icelandic Bible Society