Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 24

24 Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: "Far þú og tel Ísrael og Júda."

Þá sagði konungur við Jóab og hershöfðingjana, sem með honum voru: "Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba og teljið fólkið, til þess að ég fái að vita, hve margt fólkið er."

Jóab svaraði konungi: "Drottinn Guð þinn margfaldi lýðinn _ hversu margir, sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum og láti minn herra konunginn lifa það. En hvers vegna vill minn herra konungurinn gjöra þetta?"

En Jóab og hershöfðingjarnir máttu eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Gekk þá Jóab og hershöfðingjarnir burt frá konungi til þess að taka manntal í Ísrael.

Þeir fóru yfir Jórdan og byrjuðu á Aróer og borginni, sem er í dalnum í áttina til Gað og Jaser.

Síðan komu þeir til Gíleað, og til lands Hetíta, í nánd við Kades. Þá komu þeir til Dan, og frá Dan beygðu þeir við í áttina til Sídon.

Því næst komu þeir til Týruskastala og til allra borga Hevíta og Kanaaníta, fóru síðan til suðurlandsins í Júda, til Beerseba.

En er þeir höfðu farið um land allt, komu þeir eftir níu mánuði og tuttugu daga til Jerúsalem.

Og Jóab sagði konungi töluna, sem komið hafði út við manntalið: Í Ísrael voru átta hundruð þúsundir vopnfærra manna vopnbúinna, en í Júda fimm hundruð þúsundir manns.

10 En samviskan sló Davíð, er hann hafði látið telja fólkið. Þá sagði Davíð við Drottin: "Mjög hefi ég syndgað með því, sem ég hefi gjört. En Drottinn, tak nú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."

11 Er Davíð reis morguninn eftir, kom orð Drottins til Gaðs spámanns, sjáanda Davíðs, svolátandi:

12 "Far þú og seg við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."

13 Þá gekk Gað til Davíðs, sagði honum frá þessu og mælti til hans: "Hvað kýst þú, að hungur komi í þrjú ár yfir land þitt, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverðið elti þig, eða drepsótt geisi þrjá daga í landi þínu? Hugsaðu þig nú um, og sjá til, hverju ég á að svara þeim, sem sendi mig."

14 Þá sagði Davíð við Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Látum oss falla í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."

15 Davíð kaus þá drepsóttina, en hveitiuppskeran stóð yfir, þegar sóttin byrjaði, og af lýðnum frá Dan til Beerseba dóu sjötíu þúsund manns.

16 En er engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða hana, þá iðraði Drottin hins illa, og hann sagði við engilinn, sem eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Aravna Jebúsíta.

17 Þegar Davíð sá, hversu engillinn drap niður fólkið, þá sagði hann við Drottin: "Sjá, ég hefi syndgað, og ég hefi misgjört. En þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína."

18 Þann dag kom Gað til Davíðs og mælti við hann: "Far þú og reis Drottni altari á þreskivelli Aravna Jebúsíta."

19 Og Davíð fór eftir boði Gaðs, eins og Drottinn hafði skipað.

20 Og er Aravna leit upp og sá konung og menn hans koma til sín, þá gekk hann í móti þeim og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi.

21 Og Aravna mælti: "Hví kemur minn herra konungurinn til þjóns síns?" Davíð svaraði: "Til þess að kaupa af þér þreskivöllinn, svo að ég geti reist Drottni altari og plágunni megi létta af lýðnum."

22 Aravna svaraði Davíð: "Taki minn herra konungurinn það, sem honum þóknast, og fórni. Sjá, hér eru nautin til brennifórnar og þreskisleðarnir og aktygin af nautunum til eldiviðar.

23 Allt þetta, konungur, gefur Aravna konunginum." Og Aravna mælti við konung: "Drottinn, Guð þinn, sé þér náðugur!"

24 En konungur sagði við Aravna: "Eigi svo, en kaupa vil ég það verði af þér, því að ekki vil ég færa Drottni, Guði mínum, það í brennifórnir, er ég hefi kauplaust þegið." Síðan keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir fimmtíu sikla silfurs.

Bréf Páls til Galatamanna 4

Með öðrum orðum: Alla þá stund, sem erfinginn er ófullveðja, er enginn munur á honum og þræli, þótt hann eigi allt.

Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma, er faðirinn hefur ákveðið.

Þannig vorum vér einnig, er vér vorum ófullveðja, þrælbundnir undir heimsvættirnar.

En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli, _

til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir lögmáli, _ og vér fengjum barnaréttinn.

En þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: "Abba, faðir!"

Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs.

Forðum, er þér þekktuð ekki Guð, þá voruð þér þrælar þeirra, sem í eðli sínu eru ekki guðir.

En nú, eftir að þér þekkið Guð, eða réttara sagt, eftir að Guð þekkir yður, hvernig getið þér snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta? Viljið þér þræla undir þeim að nýju?

10 Þér hafið gætur á dögum og mánuðum, vissum tíðum og árum.

11 Ég er hræddur um yður, að ég kunni að hafa haft erfiði fyrir yður til ónýtis.

12 Ég bið yður, bræður: Verðið eins og ég, því að ég er orðinn eins og þér. Í engu hafið þér gjört á hluta minn.

13 Þér vitið, að sjúkleiki minn varð tilefni til þess, að ég fyrst boðaði yður fagnaðarerindið.

14 En þér létuð ekki líkamsásigkomulag mitt verða yður til ásteytingar og óvirtuð mig ekki né sýnduð mér óbeit, heldur tókuð þér á móti mér eins og engli Guðs, eins og Kristi Jesú sjálfum.

15 Hvað er nú orðið úr blessunarbænum yðar? Það vitni ber ég yður, að augun hefðuð þér stungið úr yður og gefið mér, ef auðið hefði verið.

16 Er ég þá orðinn óvinur yðar, vegna þess að ég segi yður sannleikann?

17 Þeir láta sér annt um yður, en það er eigi af góðu, heldur vilja þeir einangra yður, til þess að þér látið yður annt um þá.

18 Það er ávallt gott að láta sér annt um það, sem gott er, og ekki aðeins meðan ég er hjá yður,

19 börn mín, sem ég að nýju el með harmkvælum, þangað til Kristur er myndaður í yður!

20 Ég vildi ég væri nú hjá yður og gæti talað nýjum rómi, því að ég er ráðalaus með yður.

21 Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki hvað lögmálið segir?

22 Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni.

23 Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti.

24 Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar;

25 en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum.

26 En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor,

27 því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á.

28 En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak.

29 En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú.

30 En hvað segir ritningin? "Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar."

31 Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.

Esekíel 31

31 Og á ellefta árinu, hinn fyrsta dag hins þriðja mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, seg við Faraó, Egyptalandskonung, og við glæsilið hans: Hverjum ertu líkur að mikilleik?

Sjá, sedrusviður óx á Líbanon. Greinar hans voru fagrar og laufið veitti mikla forsælu, hann var hávaxinn og náði topplimið upp í skýin.

Vatnsgnóttin hafði gjört hann stóran og flóðið hávaxinn, það leiddi strauma sína umhverfis gróðurreit hans og veitti vatnsrásum sínum til allra skógartrjánna.

Fyrir því var hann hávaxnari en öll skógartrén, greinum hans fjölgaði og limar hans lengdust af hinni miklu vatnsgnótt.

Alls konar fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum hans og alls konar dýr merkurinnar lögðu ungum sínum undir limar hans, og allar hinar mörgu þjóðir bjuggu í forsælu hans.

Og hann var fagur sökum mikilleiks síns og vegna þess, hve greinar hans voru langar, því að rætur hans lágu við mikla vatnsgnótt.

Sedrustrén jöfnuðust ekki á við hann í aldingarði Guðs, kýprestrén höfðu ekki jafnmiklar greinar og hann, og hlynirnir höfðu ekki eins fallegar limar og hann. Ekkert tré í aldingarði Guðs var honum jafnt að fegurð.

Ég hafði prýtt hann með fjölda af greinum, og öll Edentré, sem voru í aldingarði Guðs, öfunduðu hann.

10 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að hann varð hávaxinn og teygði topplimið upp í skýin og ofmetnaðist í hjarta af hæð sinni,

11 þá seldi ég hann í hendur afarmenni meðal þjóðanna, er fara skyldi með hann samkvæmt illsku sinni, uns ég hefði rekið hann burt.

12 Og útlendir menn, hinar grimmustu þjóðir, felldu hann og fleygðu honum. Greinar hans féllu niður á fjöllin og ofan í alla dali, og limar hans lágu sundur brotnar í öllum giljum landsins, og allar þjóðir jarðarinnar viku burt úr forsælu hans og létu hann eiga sig.

13 Allir fuglar himinsins sátu nú á hans fallna stofni og öll dýr merkurinnar lágu á limum hans,

14 til þess að engin tré við vatn skyldu verða hávaxin og eigi teygja topplim sitt upp í skýin, og til þess að stórhöfðingjar þeirra stæðu eigi hreyknir af hæð sinni, allir þeir er á vatni vökvast. Því að allir eru þeir dauðanum ofurseldir, svo að þeir verða að fara niður til undirheima, mitt á meðal mannanna, til þeirra, sem niður stignir eru í gröfina.

15 Svo segir Drottinn Guð: Daginn, sem hann steig niður til Heljar, lét ég flóðið sýta missi hans og hélt aftur straumum hans og hin miklu vötn hættu að renna. Ég klæddi Líbanon sorgarbúningi hans vegna og öll tré merkurinnar liðu í ómegin yfir láti hans.

16 Ég skelfdi þjóðirnar með þeim gný, sem varð af falli hans, er ég steypti honum niður til Heljar, til þeirra, sem eru niður stignir í gröfina. Og þá hugguðust í undirheimum öll Edentré, ágætustu og bestu tré Líbanons, öll þau er á vatni höfðu vökvast.

17 Þau fóru líka með honum niður til Heljar til hinna vopnbitnu, er búið höfðu í forsælu hans, mitt á meðal þjóðanna.

18 Við hvert á meðal Edentrjánna er unnt að jafna þér að skrauti og stærð? En þér mun verða steypt niður í undirheima með Edentrjánum, meðal óumskorinna munt þú liggja hjá hinum vopnbitnu. Þetta er Faraó og glæsilið hans, _ segir Drottinn Guð."

Sálmarnir 79

79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.

Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.

Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.

Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?

Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.

Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.

Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.

Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.

10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.

11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,

12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.

13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society