Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 23

23 Þetta eru síðustu orð Davíðs: Svo mælti Davíð Ísaíson, svo mælti maðurinn, er hátt var settur, hinn smurði Jakobs Guðs, ljúflingur Ísraels ljóða.

Andi Drottins talaði í mér og hans orð er á minni tungu.

Ísraels Guð talaði, bjarg Ísraels mælti við mig: "Sá sem ríkir yfir mönnum með réttvísi, sá sem ríkir í ótta Guðs,

hann er eins og dagsbirtan, þegar sólin rennur upp á heiðríkju-morgni, þegar grasið sprettur í glaðasólskini eftir regn."

Já, er ekki hús mitt svo fyrir Guði? Því að hann hefir gjört við mig eilífan sáttmála, ákveðinn í öllum greinum og áreiðanlegan. Já, allt sem verður mér til heilla og gleði, skyldi hann ekki veita því vöxt?

En varmennin, þau eru öll eins og þyrnar, sem út er kastað, því að enginn tekur á þeim með hendinni.

Hver, sem rekst á þau, vopnast járni og spjótskafti, og í eldi munu þau brennd verða til kaldra kola.

Þetta eru nöfnin á köppum Davíðs: Ísbaal Hakmóníti, höfðingi hinna þriggja. Hann veifaði spjóti sínu yfir átta hundruð vegnum í einu.

Honum næstur er, meðal kappanna þriggja, Eleasar Dódóson, Ahóhíti. Hann var með Davíð í Pas Dammím, en Filistar höfðu safnast þar saman til orustu. En er Ísraelsmenn hörfuðu undan,

10 stóð hann fastur fyrir og barði á Filistum, uns hann varð þreyttur í hendinni, og hönd hans var kreppt um sverðið, og Drottinn veitti mikinn sigur á þeim degi. Og liðið sneri aftur með honum aðeins til rána.

11 Næstur honum er Samma Ageson, Hararíti. Filistar söfnuðust saman og fóru til Lekí, en þar var akurspilda, alsprottin flatbaunum. En er fólkið flýði fyrir Filistum,

12 nam hann staðar í spildunni miðri, náði henni og vann sigur á Filistum. Veitti Drottinn þannig mikinn sigur.

13 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu og komu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en flokkur af Filistum lá í herbúðum í Refaímdal.

14 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem.

15 Þá þyrsti Davíð og hann sagði: "Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?"

16 Þá brutust kapparnir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatni úr brunninum í Betlehem, sem þar er við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En hann vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa

17 og mælti: "Drottinn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt! Get ég drukkið blóð þeirra manna, sem stofnuðu lífi sínu í hættu með því að fara?" _ og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír.

18 Abísaí, bróðir Jóabs, sonur Serúju, var fyrir hinum þrjátíu. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum og var frægur meðal hinna þrjátíu.

19 Af hinum þrjátíu var hann í heiðri hafður og var foringi þeirra, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki.

20 Benaja Jójadason, hraustmenni, frægur fyrir afreksverk sín, var frá Kabseel. Hann drap báða sonu Aríels frá Móab. Hann sté ofan í brunn og drap þar ljón einn dag, er snjóað hafði.

21 Hann drap og egypskan mann tröllaukinn. Egyptinn hafði spjót í hendi, en hann fór á móti honum með staf, reif spjótið úr hendi Egyptans og drap hann með hans eigin spjóti.

22 Þetta gjörði Benaja Jójadason. Hann var frægur meðal þrjátíu kappanna.

23 Af hinum þrjátíu var hann í heiðri hafður, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. Davíð setti hann yfir lífvörð sinn.

24 Meðal hinna þrjátíu voru: Asahel, bróðir Jóabs, Elkanan Dódóson frá Betlehem,

25 Samma frá Haród, Elíka frá Haród,

26 Heles frá Pelet, Íra Íkkesson frá Tekóa,

27 Abíeser frá Anatót, Síbbekaí frá Húsa,

28 Salmón frá Ahó, Maharaí frá Netófa,

29 Heled Baanason frá Netófa, Íttaí Ríbaíson frá Gíbeu í Benjamíns ættkvísl,

30 Benaja frá Píraton, Híddaí frá Nahale Gaas,

31 Abi Albon frá Bet Araba, Asmavet frá Bahúrím,

32 Eljahba frá Saalbón, Jasen Gúníti,

33 Jónatan Sammason frá Harar, Ahíam Sararsson frá Arar,

34 Elífelet Ahasbaíson frá Maaka, Elíam Akítófelsson frá Gíló,

35 Hesró frá Karmel, Paaraí Arkíti,

36 Jígal Natansson frá Sóba, Baní frá Gað,

37 Selek Ammóníti, Naharaí frá Beerót, skjaldsveinn Jóabs Serújusonar,

38 Íra frá Jattír, Gareb frá Jattír,

39 Úría Hetíti. Til samans þrjátíu og sjö.

Bréf Páls til Galatamanna 3

Þér óskynsömu Galatar! Hver hefur töfrað yður? Þér hafið þó fengið skýra mynd af Jesú Kristi á krossinum, málaða fyrir augum yðar.

Um þetta eitt vil ég fræðast af yður: Öðluðust þér andann fyrir lögmálsverk eða við að hlýða á fagnaðarerindið og trúa?

Eruð þér svo óskynsamir? Þér sem byrjuðuð í anda, ætlið þér nú að enda í holdi?

Hafið þér til einskis reynt svo mikið? _ ef það þá er til einskis!

Hvað um það, _ sá sem veitir yður andann og framkvæmir máttarverk meðal yðar, gjörir hann það vegna lögmálsverka yðar eða vegna þess að þér heyrið og trúið?

Svo var og um Abraham, "hann trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað."

Þér sjáið þá, að þeir sem byggja á trúnni, þeir eru einmitt synir Abrahams.

Ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú, og því boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: "Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta."

Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.

10 En bölvun hvílir á öllum þeim, sem byggja á lögmálsverkum, því að ritað er: "Bölvaður er sá, sem ekki heldur fast við allt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, og breytir eftir því."

11 En það er augljóst að fyrir Guði réttlætist enginn með lögmáli, því að "hinn réttláti mun lifa fyrir trú."

12 En lögmálið spyr ekki um trú. Það segir: "Sá, sem breytir eftir boðum þess, mun lifa fyrir þau."

13 Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss, því að ritað er: "Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir."

14 Þannig skyldi heiðingjunum hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, og vér öðlast fyrir trúna andann, sem fyrirheitið var.

15 Bræður, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ónýtir eða eykur við staðfesta arfleiðsluskrá, enda þótt hún sé aðeins af manni gjörð.

16 Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, _ þar stendur ekki "og afkvæmum", eins og margir ættu í hlut, heldur "og afkvæmi þínu", eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.

17 Með þessu vildi ég sagt hafa: Sáttmála, sem áður var staðfestur af Guði, getur lögmálið, sem kom fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, ekki ónýtt, svo að það felli fyrirheitið úr gildi.

18 Sé því þá svo farið, að arfurinn fáist með lögmáli, þá fæst hann ekki framar með fyrirheiti, en Guð veitti Abraham náð sína með fyrirheiti.

19 Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrir tilstilli meðalgangara.

20 En meðalgangara gjörist ekki þörf þar sem einn á í hlut, en Guð er einn.

21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Ef vér hefðum fengið lögmál, sem veitt gæti líf, þá fengist réttlætið vissulega með lögmáli.

22 En ritningin segir, að allt sé hneppt undir vald syndarinnar, til þess að fyrirheitið veitist þeim, sem trúa, fyrir trú á Jesú Krist.

23 Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist.

24 Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.

25 En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara.

26 Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.

27 Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi.

28 Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.

29 En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.

Esekíel 30

30 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, spá og seg: Svo segir Drottinn Guð: Æpið vei yfir deginum!

Því að dagur er nálægur, já, dagur Drottins er nálægur, dagur skýþykknis, endadægur þjóðanna mun það verða.

Og sverð mun koma til Egyptalands, og Bláland mun skelfast, þá er menn hníga helsærðir á Egyptalandi, og auðæfi þess verða burt flutt og undirstöðum þess rótað upp.

Blálendingar, Pútítar, Lúdítar og allur þjóðblendingurinn og Líbýumenn og Kretar munu fyrir sverði falla ásamt þeim.

Svo segir Drottinn: Þá munu stoðir Egyptalands falla og hið dýrlega skraut þess hníga. Frá Migdól og allt til Sýene skulu menn fyrir sverði falla í því, _ segir Drottinn Guð.

Og það mun verða að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess munu liggja innan um borgir, sem eru í rústum.

Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég legg eld í Egyptaland og allir liðveislumenn þess verða muldir sundur.

Á þeim degi munu sendiboðar fara frá mér á skipum, til þess að færa hinum ugglausu Blálendingum hin hræðilegu tíðindi, og þeir munu skelfast vegna ógæfudags Egyptalands, því að sjá, hann kemur.

10 Svo segir Drottinn Guð: Þannig mun ég láta Nebúkadresar konung í Babýlon enda gjöra á mikillæti Egyptalands.

11 Hann mun verða sóttur og lið hans með honum, hinar grimmustu þjóðir, til þess að herja landið, og þeir munu bregða sverðum sínum gegn Egyptalandi og fylla landið vegnum mönnum.

12 Og ég mun þurrka upp árkvíslarnar og selja Egyptaland í hendur illmenna og láta útlenda menn eyða landið og öllu, sem í því er. Ég, Drottinn, hefi talað það.

13 Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri skurðgoðin að engu og uppræti falsguðina úr Nóf og höfðingjana af Egyptalandi, svo að engir skulu þar framar til vera, og ég mun skelfa Egyptaland.

14 Og ég eyði Patrós og legg eld í Sóan og framkvæmi refsidóma á Nó.

15 Og ég úthelli heift minni yfir Sín, varnarvirki Egyptalands, og tortími hinum ysmikla múg í Nó.

16 Ég legg eld í Egyptaland, Sín mun nötra og skarð mun brotið verða inn í Nó og múrar hennar niður rifnir.

17 Æskumennirnir í Ón og Píbeset munu fyrir sverði falla og íbúar annarra borga fara í útlegð.

18 Í Takpanes mun dagurinn myrkvast, er ég sundurbrýt þar veldissprota Egyptalands og hið dýrlega skraut þess verður að engu gjört. Skýþykkni mun hylja hana, og dætur hennar munu fara í útlegð.

19 Þannig mun ég láta refsidóma koma yfir Egyptaland, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

20 En á ellefta árinu, sjöunda dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

21 "Mannsson, ég hefi brotið armlegg Faraós, Egyptalandskonungs, og sjá, það skal eigi verða um hann bundið, til þess að gjöra hann heilan, með því að setja á hann sáraumbúðir, til þess að hann styrktist aftur og fengi gripið sverðið.

22 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal finna Faraó, Egyptalandskonung, ég skal brjóta armleggi hans, hinn heila og hinn brotna, og slá sverðið úr hendi hans.

23 Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin.

24 Og ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon og fá honum sverð mitt í hönd, en armleggi Faraós skal ég brjóta, svo að hann skal liggja stynjandi fyrir fótum hans, eins og helstunginn maður.

25 Ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon, en armleggir Faraós skulu niður síga, og menn skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég fæ Babelkonungi sverð mitt í hönd, og hann reiðir það að Egyptalandi.

26 Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

Sálmarnir 78:38-72

38 En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni.

39 Hann minntist þess, að þeir voru hold, andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur.

40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum.

41 Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.

42 Þeir minntust eigi handar hans, eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra,

43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi og undur sín í Sóanhéraði.

44 Hann breytti ám þeirra í blóð og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið.

45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá, og froska, er eyddu þeim.

46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra og jarðvörgunum uppskeru þeirra.

47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð og mórberjatré þeirra með frosti.

48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra og eldingunni hjarðir þeirra.

49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim, æði, bræði og nauðir, sveitir af sendiboðum ógæfunnar.

50 Hann ruddi braut reiði sinni, þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra.

51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi, frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams.

52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni.

53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi, en óvini þeirra huldi hafið.

54 Hann fór með þá til síns helga héraðs, til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað.

55 Hann stökkti þjóðum undan þeim, skipti þeim niður eins og erfðahlut og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.

56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans.

57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi.

58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.

59 Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael.

60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,

61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína.

62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni.

63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.

64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.

65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.

66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung.

67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms,

68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl, Síonfjall, sem hann elskar.

69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir, grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.

70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð og tók hann frá fjárbyrgjunum.

71 Hann sótti hann frá lambánum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína.

72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society