Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 21

21 Á dögum Davíðs varð hallæri í þrjú ár samfleytt. Gekk þá Davíð til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði: "Á Sál og ætt hans hvílir blóðsök fyrir það, að hann drap Gíbeoníta."

Þá lét konungur kalla Gíbeoníta og sagði við þá _ (Gíbeonítar heyrðu ekki til Ísraelsmönnum, heldur leifum Amoríta, og þótt Ísraelsmenn hefðu unnið þeim eiða, leitaðist Sál við að drepa þá, af vandlætingasemi vegna Ísraelsmanna og Júda.) _

Og Davíð sagði við Gíbeoníta: "Hvað á ég að gjöra fyrir yður, og með hverju á ég að friðþægja, til þess að þér blessið arfleifð Drottins?"

Þá sögðu Gíbeonítar við hann: "Það er ekki silfur og gull, sem vér sækjumst eftir af Sál og ætt hans, og engan mann viljum vér feigan í Ísrael." Hann svaraði: "Hvað segið þér, að ég eigi að gjöra fyrir yður?"

Þá sögðu þeir við konung: "Maðurinn sem eyddi oss og hugði að afmá oss, svo að vér værum ekki lengur til í öllu Ísraels landi, _

af niðjum hans skulu oss fengnir sjö menn, svo að vér megum bera þá út fyrir Drottin í Gíbeon á fjalli Drottins." Konungur sagði: "Ég skal fá yður þá."

Konungur þyrmdi þó Mefíbóset, Jónatanssyni, Sálssonar, vegna eiðs þess við Drottin, er þeir höfðu unnið hvor öðrum, Davíð og Jónatan, sonur Sáls.

En konungur tók báða sonu Rispu Ajasdóttur, er hún hafði fætt Sál, Armóní og Mefíbóset, og fimm sonu Merab, dóttur Sáls, er hún hafði fætt Adríel Barsillaísyni frá Mehóla,

og fékk þá í hendur Gíbeonítum. Og þeir báru þá út fyrir Drottin á fjallinu, svo að þeir dóu sjö saman. Voru þeir teknir af lífi fyrstu daga uppskerunnar.

10 En Rispa Ajasdóttir tók hærusekk og breiddi hann út á klettinum handa sér að hvílurúmi, frá byrjun uppskerunnar þar til er regn streymdi af himni yfir þá, og eigi leyfði hún fuglum himinsins að setjast að þeim um daga, né dýrum merkurinnar um nætur.

11 En er Davíð var sagt frá, hvað Rispa Ajasdóttir, hjákona Sáls, hafði gjört,

12 fór Davíð og sótti bein Sáls og bein Jónatans sonar hans til Jabesmanna í Gíleað, en þeir höfðu stolið þeim á torginu í Bet San, þar sem Filistar höfðu hengt þá upp, daginn sem Filistar drápu Sál á Gilbóa.

13 Hann kom þaðan með bein Sáls og bein Jónatans sonar hans. Var síðan safnað saman beinum hinna útbornu

14 og þau grafin með beinum Sáls og beinum Jónatans sonar hans í landi Benjamíns í Sela, í gröf Kíss föður hans. Var allt gjört sem konungur bauð, og eftir það líknaði Guð landinu.

15 Enn áttu Filistar ófrið við Ísrael. Fór Davíð með menn sína til þess að berjast við Filista, og varð Davíð móður.

16 Þá hugði Jisbi Benob, einn af niðjum Refaíta (spjót hans vó þrjú hundruð sikla eirs, og hann var gyrtur nýju sverði), að drepa Davíð.

17 Þá kom Abísaí Serújuson honum til hjálpar og hjó Filistann banahögg. Þá sárbændu menn Davíðs hann og sögðu: "Þú mátt eigi framar með oss fara í hernað, svo að þú slökkvir eigi lampa Ísraels."

18 Seinna tókst enn orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Sibbekaí Húsatíti Saf, sem og var einn af niðjum Refaíta.

19 Og enn tókst orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Elkanan, sonur Jaare Orgím frá Betlehem, Golíat frá Gat, en spjótskaft hans var sem vefjarrifur.

20 Og er enn tókst orusta hjá Gat, var þar tröllaukinn maður, er hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, tuttugu og fjögur að tölu. Var hann og kominn af Refaítum.

21 Hann smánaði Ísrael, en Jónatan sonur Símea, bróður Davíðs, drap hann.

22 Þessir fjórir voru komnir af Refaítum í Gat, og féllu þeir fyrir Davíð og mönnum hans.

Bréf Páls til Galatamanna 1

Páll postuli _ ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum _

og allir bræðurnir, sem með mér eru, heilsa söfnuðunum í Galatalandi.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi,

sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður.

Honum sé dýrð um aldir alda, amen.

Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis,

sem þó er ekki til; heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist.

En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.

Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður.

10 Er ég nú að reyna að sannfæra menn eða Guð? Er ég að leitast við að þóknast mönnum? Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists.

11 Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk.

12 Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists.

13 Þér hafið heyrt um háttsemi mína áður fyrri í Gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum.

14 Ég fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingasamari um erfikenningu forfeðra minna.

15 En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað,

16 þóknaðist að opinbera mér son sinn, til þess að ég boðaði fagnaðarerindið um hann meðal heiðingjanna, þá ráðgaðist ég eigi við neinn mann,

17 ekki fór ég heldur upp til Jerúsalem til þeirra, sem voru postular á undan mér, heldur fór ég jafnskjótt til Arabíu og sneri svo aftur til Damaskus.

18 Síðan fór ég eftir þrjú ár upp til Jerúsalem til að kynnast Kefasi og dvaldist hjá honum hálfan mánuð.

19 Engan af hinum postulunum sá ég, heldur aðeins Jakob, bróður Drottins.

20 Guð veit, að ég lýg því ekki, sem ég skrifa yður.

21 Síðan kom ég í héruð Sýrlands og Kilikíu.

22 Ég var persónulega ókunnur kristnu söfnuðunum í Júdeu.

23 Þeir höfðu einungis heyrt sagt: "Sá sem áður ofsótti oss, boðar nú trúna, sem hann áður vildi eyða."

24 Og þeir vegsömuðu Guð vegna mín.

Esekíel 28

28 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, seg tignarmönnunum í Týrus: Svo segir Drottinn Guð: Af því að hjarta þitt var hrokafullt, svo að þú sagðir: ,Ég er guð, ég sit í guðasæti mitt úti í hafi!` _ þar sem þú ert þó maður og enginn guð, en leist á þig eins og guð, _

já, þú varst vitrari en Daníel, ekkert hulið var þér of myrkt,

með speki þinni og hyggindum aflaðir þú þér auðæfa og safnaðir gulli og silfri í féhirslur þínar . . .

Með viskugnótt þinni, með verslun þinni jókst þú auðæfi þín, og hjarta þitt varð hrokafullt af auðæfunum _

fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þú leist á sjálfa þig eins og guð,

sjá, fyrir því læt ég útlenda menn yfir þig koma, hinar grimmustu þjóðir, þeir skulu bregða sverðum sínum gegn snilldarfegurð þinni og vanhelga prýði þína.

Þeir munu steypa sér niður í gröfina og þú munt deyja dauða hins vopnbitna úti í hafi.

Hvort munt þú þá segja: ,Ég er guð!` frammi fyrir banamanni þínum, þar sem þú ert þó maður og enginn guð á valdi veganda þíns?

10 Þú skalt deyja dauða óumskorinna manna fyrir hendi útlendinga, því að ég hefi talað það, _ segir Drottinn Guð."

11 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

12 "Mannsson, hef upp harmljóð yfir konunginum í Týrus og seg við hann: Svo segir Drottinn Guð: Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð!

13 Þú varst í Eden, aldingarði Guðs, þú varst þakinn alls konar dýrum steinum: karneól, tópas, jaspis, krýsolít, sjóam, onýx, safír, karbunkul, smaragð, og umgjörðir þínar og útflúr var gjört af gulli. Daginn, sem þú varst skapaður, var það búið til.

14 Ég hafði skipað þig verndar-kerúb, þú varst á hinu heilaga goðafjalli, þú gekkst innan um glóandi steina.

15 Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér.

16 Fyrir þína miklu verslun fylltir þú þig hið innra ofríki og syndgaðir. Þá óhelgaði ég þig og rak þig burt af goðafjallinu og tortímdi þér, þú verndar-kerúb, burt frá hinum glóandi steinum.

17 Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni, þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns. Ég varpaði þér til jarðar, ofurseldi þig konungum, svo að þeir mættu horfa nægju sína á þig.

18 Með hinum mörgu misgjörðum þínum, með hinni óráðvöndu kaupverslun þinni vanhelgaðir þú helgidóma þína. Þá lét ég eld brjótast út frá þér, hann eyddi þér, og ég gjörði þig að ösku á jörðinni í augsýn allra, er sáu þig.

19 Allir þeir meðal þjóðanna, er þekktu þig, voru agndofa yfir þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfinn."

20 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

21 "Mannsson, snú þér að Sídon og spá gegn henni

22 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Sídon, og gjöra mig vegsamlegan í þér miðri, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, er ég framkvæmi refsidóma í henni og auglýsi heilagleik minn á henni.

23 Og ég mun senda drepsótt í hana og blóðsúthelling á stræti hennar, og menn skulu í henni falla helsærðir fyrir sverði, er alla vega skal yfir hana ganga, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.

24 En fyrir Ísraelsmenn mun eigi framar vera til neinn kveljandi þyrnir né stingandi þistill af öllum þeim, sem umhverfis þá eru, þeim er óvirtu þá, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn Guð þeirra.

25 Svo segir Drottinn Guð: Þegar ég safna Ísraelsmönnum saman frá þjóðunum, þangað sem þeim var tvístrað, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn þjóðanna, og þeir skulu búa í landi sínu, því er ég gaf þjóni mínum Jakob.

26 Og þeir munu búa þar óhultir og reisa hús og planta víngarða og búa óhultir, með því að ég læt refsidóma ganga yfir alla nágranna þeirra, er þá hafa óvirt, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð þeirra."

Sálmarnir 77

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.

Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]

Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.

Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,

ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.

Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?

Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?

10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society