M’Cheyne Bible Reading Plan
20 Þar var staddur óþokki nokkur, sem Seba hét Bíkríson, Benjamíníti. Hann þeytti lúðurinn og sagði: "Vér eigum enga hlutdeild í Davíð og engan erfðahlut í Ísaísyni. Hver fari heim til sín, Ísrael!"
2 Þá gengu allir Ísraelsmenn undan Davíð og á hönd Seba Bíkrísyni, en Júdamenn fóru með konungi sínum frá Jórdan til Jerúsalem.
3 Þegar Davíð kom til hallar sinnar í Jerúsalem, lét konungur taka hjákonurnar tíu, er hann hafði skilið eftir til þess að gæta hallarinnar, og setti þær í varðhald og ól þar önn fyrir þeim, en eigi hafði hann samfarir við þær. Lifðu þær þannig innibyrgðar til dauðadags sem ekkjur lifandi manna.
4 Því næst sagði konungur við Amasa: "Kalla þú saman Júdamenn áður þrjár sólir eru af lofti. Ver þá og sjálfur hér."
5 Lagði nú Amasa af stað til þess að kalla saman Júda. En er honum seinkaði fram yfir þann tíma, er til var tekinn við hann,
6 sagði Davíð við Abísaí: "Nú mun Seba Bíkríson vinna oss enn meira tjón en Absalon. Tak þú menn herra þíns og veit honum eftirför, svo að hann nái ekki víggirtum borgum og veiti oss þungar búsifjar."
7 Lögðu þá af stað með honum menn Jóabs og Kretar og Pletar og kapparnir allir. Lögðu þeir af stað frá Jerúsalem til þess að veita Seba Bíkrísyni eftirför.
8 En er þeir voru hjá stóra steininum, sem er hjá Gíbeon, mætti Amasa þeim. Jóab var klæddur brynjukufli sínum og gyrtur sverði utan yfir hann, og voru sverðsslíðrin fest við lend honum. Hljóp sverðið úr slíðrunum og féll til jarðar.
9 Þá sagði Jóab við Amasa: "Líður þér vel, bróðir minn?" Greip Jóab þá hægri hendinni í skegg Amasa, sem hann vildi kyssa hann.
10 En Amasa hafði ekki tekið eftir sverðinu, er Jóab hafði í vinstri hendi sér. Lagði Jóab því í kvið honum, svo að út féllu iðrin. Eigi lagði hann til hans aftur, því að hann var þegar dauður. Jóab og Abísaí, bróðir hans, fóru eftir Seba Bíkrísyni.
11 En einn af mönnum Jóabs stóð kyrr hjá Amasa og kallaði: "Hver sá sem hefir mætur á Jóab og aðhyllist Davíð, hann fylgi Jóab!"
12 En Amasa lá og veltist í blóði sínu á miðjum veginum, og er maðurinn sá, að allt liðið stóð kyrrt, dró hann Amasa til hliðar út af veginum og varp yfir hann klæði, er hann sá, að hver maður nam staðar, sem að honum kom.
13 En er hann hafði komið honum burt af veginum, fylgdi hver maður Jóab til þess að veita Seba Bíkrísyni eftirför.
14 Seba fór um allar ættkvíslir Ísraels, allt til Abel Bet Maaka, og allir Bíkrítar söfnuðust saman og fóru með honum.
15 En Jóab og menn hans komu og umkringdu hann í Abel Bet Maaka og hlóðu virkisvegg gegn borginni upp að varnargarðinum. Gekk nú allt liðið, er með Jóab var, sem ákafast fram í því að brjóta múrinn.
16 Þá kallaði kona nokkur vitur af borginni: "Heyrið, heyrið! Segið við Jóab: ,Kom þú hingað, ég vil tala við þig."`
17 Þá gekk hann til hennar, og konan mælti: "Ert þú Jóab?" Hann kvað svo vera. Og hún sagði við hann: "Hlýð þú á orð ambáttar þinnar!" Hann svaraði: "Ég heyri."
18 Þá mælti hún á þessa leið: "Forðum var það haft að orðtæki: ,Spyrjið að því í Abel, og þá var málið á enda kljáð.`
19 Vér erum meðal hinna friðsömu og trúu í Ísrael, en þú leitast við að gjöreyða borg og móður í Ísrael. Hví spillir þú arfleifð Drottins?"
20 Jóab svaraði og sagði: "Það er fjarri mér! Ég vil engu spilla og engu eyða.
21 Eigi er þessu svo farið, heldur hefir maður nokkur frá Efraímfjöllum, sem Seba heitir, Bíkríson, lyft hendi sinni gegn Davíð konungi. Framseljið hann einan, og mun ég þegar hverfa frá borginni." Þá sagði konan við Jóab: "Sjá, höfði hans skal kastað verða til þín yfir múrinn."
22 Síðan talaði konan af viturleik sínum við alla borgarbúa, svo að þeir hjuggu höfuð af Seba Bíkrísyni og fleygðu því út til Jóabs. Þá lét hann blása liðinu frá borginni, og fór hver heim til sín, en Jóab sneri aftur til Jerúsalem til konungs.
23 Jóab var fyrir öllum hernum, Benaja Jójadason fyrir Kretum og Pletum.
24 Adóníram var yfir kvaðarmönnum, Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,
25 Seja var kanslari, Sadók og Abjatar prestar.
26 Enn fremur var Íra Jaíríti prestur hjá Davíð.
13 Þetta er nú í þriðja sinn, sem ég kem til yðar. Því "aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír beri."
2 Það sem ég sagði yður við aðra komu mína, það segi ég yður nú aftur fjarstaddur, bæði þeim, sem hafa brotlegir orðið, og öðrum: Næsta sinn, sem ég kem, mun ég ekki hlífa neinum,
3 enda krefjist þér sönnunar þess, að Kristur tali í mér. Hann er ekki veikur gagnvart yður, heldur máttugur á meðal yðar.
4 Hann var krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, sem hann sýnir yður.
5 Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið.
6 En ég vona, að þér komist að raun um, að vér höfum staðist prófið.
7 Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti vort, heldur til þess að þér gjörið hið góða. Vér gætum eins sýnst óhæfir.
8 Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.
9 Vér gleðjumst, þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það, sem vér biðjum um, er að þér verðið fullkomnir.
10 Þess vegna rita ég þetta fjarverandi, til þess að ég þurfi ekki, þegar ég er kominn, að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem Drottinn hefur gefið mér. Það er til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.
11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.
12 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa yður.
27 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Þú mannsson, hef upp harmljóð um Týrus
3 og seg við Týrus, sem liggur við víkurnar og rekur verslun við þjóðirnar til margra eylanda: Svo segir Drottinn Guð: Týrus, þú hugsaðir: ,Ég er algjör að fegurð!`
4 Landsvæði þitt er úti í hafinu, þeir, er reistu þig, hafa gjört þig aðdáanlega fagra.
5 Af kýprestrjám frá Senír gjörðu þeir alla innviði þína, þeir tóku sedrusvið frá Líbanon til þess að gjöra af siglutré þitt.
6 Árar þínar gjörðu þeir úr eikitrjám frá Basan, þiljurnar gjörðu þeir úr buksviði frá eyjum Kitta og greyptu inn í þær fílsbein.
7 Glitofið lín frá Egyptalandi var það, sem þú breiddir út, til þess að hafa það að veifu. Tjöld þín voru úr bláum og rauðum purpura frá Elísaströndum.
8 Sídoningar og Arvadbúar voru hásetar hjá þér, hinir kænstu menn, sem til voru hjá þér, Týrus, voru stýrimenn þínir.
9 Fyrirmenn frá Gebal og listkænir menn þaðan voru þeir, sem gjörðu við lekann á þér, öll hafskip og áhöfn þeirra kom til þín til þess að kaupa varning þinn.
10 Menn frá Paras, Lúd og Pút voru í her þínum sem hermenn þínir, skjöld og hjálm festu þeir upp hjá þér, þeir gjörðu þig veglega.
11 Arvadmenn og her þeirra voru umhverfis á múrum þínum og Gammadar í turnum þínum. Þeir festu skjöldu sína upp á múra þína hringinn í kring, þeir gjörðu þig aðdáanlega fagra.
12 Tarsis átti kaupskap við þig, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris. Silfur, járn, tin og blý fluttu þeir á kauptorg þitt.
13 Javan, Túbal og Mesek keyptu við þig, mansmenn og eirílát fluttu þeir til kaupstefnu þinnar.
14 Tógarmamenn fluttu áburðarhesta, reiðhesta og múlasna á kauptorg þitt.
15 Ródusmenn keyptu við þig, margar eyjar voru þínir kaupunautar, fílsbein og íbenvið greiddu þeir þér í skatt.
16 Aram átti kaupskap við þig, sökum þess að þú áttir gnótt iðnaðarvarnings. Karbunkulrauðan purpura, glitvefnað, býssus, kóralla og jaspis fluttu þeir á kauptorg þitt.
17 Júda og Ísraelsland keyptu við þig. Hveiti frá Minnít, vax, hunang, olíu og balsam fluttu þeir til kaupstefnu þinnar.
18 Damaskus átti kaupskap við þig um þinn margháttaða iðnaðarvarning, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris, um vín frá Helbón og ull frá Sahar.
19 Og vín frá Úsal fluttu þeir á kauptorg þitt, smíðað járn, kanelviður og ilmreyr kom til kaupstefnu þinnar.
20 Dedan verslaði við þig með söðuláklæði til að ríða á.
21 Arabar og allir höfðingjar Kedars voru kaupunautar þínir, þeir seldu þér lömb, hrúta og hafra.
22 Kaupmenn frá Saba og Raema keyptu við þig. Hinar bestu kryddjurtir, alls konar dýrindis steina og gull fluttu þeir á kauptorg þitt.
23 Haran, Kanne og Eden voru kaupunautar þínir, og Assýría og öll Medía keyptu við þig.
24 Þeir versluðu við þig með skartklæði, með skikkjur úr bláum purpura og glitofnar, og með ofnar ábreiður marglitar, og með snúnar og fast undnar snúrur á sölutorgi þínu.
25 Tarsis-knerrir fluttu vörur þínar, og þannig fylltir þú þig og varðst mjög hlaðin úti á hafinu.
26 Þeir, er reru þér, fluttu þig út á rúmsjó. Austanvindurinn braut þig í spón úti á miðju hafi.
27 Auðæfi þín, kaupeyrir þinn og vörur þínar, hásetar þínir og stýrimenn, þeir sem gjörðu við lekann á þér og þeir sem seldu vörur þínar og allir hermenn þínir, sem í þér eru, og allur mannfjöldinn, sem í þér er, munu sökkva í hafið þann dag, er þú ferst.
28 Af hljóðum stýrimanna þinna munu öldudjúpin skjálfa.
29 Þá munu allir þeir, er á árum halda, stíga af skipum sínum, hásetarnir, allir stýrimenn á sjónum munu ganga á land.
30 Og þeir munu æpa hástöfum yfir þér og hljóða sáran og ausa moldu yfir höfuð sér, velta sér í ösku.
31 Þeir munu raka á sig skalla þín vegna og gyrðast hærusekk og gráta yfir þér kvíðafullir í sárri hryggð.
32 Og þeir munu hefja upp harmljóð um þig og harma þig: ,Hver var sem Týrus, er nú er í eyði lögð úti í hafinu!`
33 Þegar varningur þinn kom af sjónum, mettaðir þú margar þjóðir, með gnótt auðlegðar þinnar og kaupeyris þíns auðgaðir þú konunga jarðarinnar.
34 Nú liggur þú brotin á hafinu, í djúpum hafsins, varningur þinn sökk og allur mannfjöldinn, sem í þér var.
35 Allir þeir, sem strandlendin byggja, eru agndofa yfir þér, og konungum þeirra blöskrar svo, að ásjónur þeirra blikna.
36 Verslunarmenn þjóðanna blístra að þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfin."
75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.
3 "Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.
4 Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]
5 Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!
6 Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"
7 Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,
8 heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.
9 Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.
10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.
11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.
76 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.
3 Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.
4 Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]
5 Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.
6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.
7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.
8 Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?
9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,
10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]
11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.
12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,
13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.
by Icelandic Bible Society