Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 19

19 Jóab var sagt: "Sjá, konungur grætur og harmar Absalon."

Snerist þá sigurinn í hryggð fyrir öllu liðinu á þeim degi, því að liðið fékk þann dag þá fregn: "Konungur tregar son sinn."

Þann dag læddist liðið inn í borgina, eins og sá her læðist, er sú skömm hefir hent að flýja úr orustu.

En konungur huldi andlit sitt, og konungur kveinaði hástöfum: "Sonur minn Absalon, Absalon sonur minn, sonur minn!"

Þá gekk Jóab inn í höllina fyrir konung og mælti: "Þú hefir í dag gjört opinbera hneisu öllum þjónum þínum, sem í dag hafa frelsað líf þitt, líf sona þinna og dætra, líf kvenna þinna og líf hjákvenna þinna

með því að sýna þeim elsku, er hata þig, og hatur þeim, er elska þig. Í dag hefir þú sýnt, að þú átt enga hershöfðingja eða þjóna, því að nú veit ég, að væri Absalon á lífi, en vér nú allir dauðir, þá mundi þér það vel líka.

Rís því nú upp, gakk út og tala vinsamlega við þjóna þína, því að það sver ég við Drottin, að gangir þú ekki út, mun ekki einn maður eftir verða í nótt með þér, og er þér það verra en öll ógæfa, er yfir þig hefir komið frá barnæsku þinni fram á þennan dag."

Þá stóð konungur upp og settist í borgarhliðið. Og er öllu liðinu var sagt: "Sjá, konungur situr í borgarhliðinu," þá gekk allt liðið fyrir konung. Nú var Ísrael flúinn, hver heim til sín.

Þá þráttaði lýðurinn í öllum ættkvíslum Ísraels sín í millum og sagði: "Konungur hefir frelsað oss af hendi óvina vorra, og hann hefir bjargað oss undan valdi Filista, en nú er hann flúinn úr landi undan Absalon,

10 en Absalon, sem vér smurðum til konungs yfir oss, er fallinn í orustu. Hvað dvelur yður þá að færa konunginn heim aftur?"

11 Þessi ummæli alls Ísraels bárust konungi til eyrna. En Davíð konungur sendi til prestanna Sadóks og Abjatars og lét segja þeim: "Mælið svo til öldunga Júda: ,Hvers vegna viljið þér vera manna síðastir til þess að færa konung aftur til hallar sinnar?

12 Þér eruð ættbræður mínir, þér eruð bein mitt og hold. Hvers vegna viljið þér vera síðastir til að færa konung heim aftur?`

13 Og segið Amasa: ,Sannlega ert þú bein mitt og hold _ Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef þú verður ekki hershöfðingi hjá mér alla ævi í stað Jóabs."`

14 Hann sneri þannig hjörtum allra Júdamanna sem eins manns væri, svo að þeir gjörðu konungi þessi orð: "Snú þú aftur með alla menn þína."

15 Konungur sneri nú heimleiðis og kom að Jórdan, en Júdamenn komu til Gilgal til þess að fara í móti konungi og flytja konung yfir Jórdan.

16 Símeí Gerason Benjamíníti frá Bahúrím hafði hraðan á og fór ofan með Júdamönnum til móts við Davíð konung

17 og þúsund manns af Benjamín með honum. En Síba, ármaður Sáls, var ásamt fimmtán sonum sínum og tuttugu þjónum sínum kominn til Jórdanar á undan konungi.

18 Höfðu þeir farið yfir á vaðinu til þess að flytja konungsfólkið yfir og gjöra það, er honum þóknaðist. Og er konungur ætlaði að fara yfir Jórdan, féll Símeí Gerason honum til fóta

19 og mælti við hann: "Herra minn tilreikni mér ekki misgjörð mína og minnst ekki þess, er þjónn þinn gjörði illa á þeim degi, er minn herra konungurinn fór burt úr Jerúsalem, og erf það eigi við mig,

20 því að þjónn þinn veit að ég hefi syndgað, en sjá, nú er ég kominn fyrstur allra manna af Jósefs ætt til þess að ganga til móts við minn herra konunginn."

21 Þá tók Abísaí Serújuson til máls og sagði: "Ætti ekki Símeí að láta lífið fyrir það, að hann formælti Drottins smurða?"

22 Þá mælti Davíð: "Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir, þar sem þér í dag gjörist mótstöðumenn mínir? Ætti að lífláta nokkurn mann í Ísrael í dag? Eða veit ég eigi, að ég í dag er konungur yfir Ísrael?"

23 Síðan sagði konungur við Símeí: "Þú skalt eigi deyja." Og konungur vann honum eið að því.

24 Mefíbóset, sonarsonur Sáls, fór og ofan til móts við konung. Hafði hann eigi hirt fætur sína, greitt kamp sinn né þvegið klæði sín frá þeim degi, er konungur fór burt, til þess dags, er hann kom aftur heill á húfi.

25 Og er hann nú kom frá Jerúsalem til móts við konung, sagði konungur við hann: "Hví fórst þú ekki með mér, Mefíbóset?"

26 Hann svaraði: "Minn herra konungur, þjónn minn sveik mig. Því að ég sagði við hann: ,Söðla þú ösnu fyrir mig, svo að ég megi ríða henni og fara með konungi` _ því að þjónn þinn er fótlami.

27 Og hann hefir rægt þjón þinn við minn herra konunginn. En minn herra konungurinn er sem engill Guðs, og gjör nú sem þér líkar.

28 Því að allt ættfólk föður míns átti einskis að vænta af mínum herra konunginum, nema dauðans, en þá tókst þú þjón þinn meðal mötunauta þinna. Hvaða rétt hefi ég þá framar og hvers framar að beiðast af konungi?"

29 Þá sagði konungur við hann: "Hví fjölyrðir þú enn um þetta? Ég segi: Þú og Síba skuluð skipta landinu."

30 Þá sagði Mefíbóset við konung: "Hann má jafnvel taka það allt, fyrst minn herra konungurinn er kominn heim heill á húfi."

31 Barsillaí Gíleaðíti kom og frá Rógelím og fór með konungi til Jórdan til þess að fylgja honum yfir Jórdan.

32 En Barsillaí var gamall mjög, áttræður að aldri. Hafði hann birgt konung að vistum, meðan hann dvaldist í Mahanaím, því að hann var maður vellauðugur.

33 Þá mælti konungur við Barsillaí: "Þú skalt með mér fara, og mun ég ala önn fyrir þér í ellinni hjá mér í Jerúsalem."

34 Barsillaí svaraði konungi: "Hversu mörg æviár á ég enn ólifuð, að ég skyldi fara með konungi til Jerúsalem?

35 Ég stend nú á áttræðu. Má ég lengur greina milli góðs og ills, eða mun þjónn þinn finna bragð af því, sem ég et og drekk, eða fæ ég lengur heyrt rödd söngvaranna og söngmeyjanna? Hví skyldi þjónn þinn lengur vera mínum herra konunginum til byrði?

36 Þjónn þinn vildi fylgja konunginum spölkorn, en hví vill konungur endurgjalda mér verk þetta?

37 Leyf þjóni þínum að snúa aftur, svo að ég megi deyja í borg minni, hjá gröf föður míns og móður. En hér er þjónn þinn Kímham, fari hann með mínum herra konunginum, gjör við hann slíkt er þér líkar!"

38 Þá mælti konungur: "Kímham skal með mér fara, og mun ég við hann gjöra slíkt er þér líkar, og hvað það er þú beiðist af mér, mun ég veita þér."

39 Nú fór allt liðið yfir Jórdan. Þá fór og konungur yfir. Og konungur minntist við Barsillaí og bað hann vel fara, en hann sneri aftur heim til sín.

40 Því næst fór konungur til Gilgal, og fór Kímham með honum. Allt lið Júdamanna fór með konungi, svo og helmingur af Ísraelsliðinu.

41 Og sjá, allir Ísraelsmenn komu til konungs, og þeir sögðu við konung: "Hví hafa bræður vorir, Júdamenn, stolið þér og farið með konunginn og fólk hans yfir Jórdan, og alla menn Davíðs með honum?"

42 Þá sögðu allir Júdamenn við Ísraelsmenn: "Konungur er oss skyldur. Hví reiðist þér af þessu? Höfum vér etið nokkuð af eigum konungs eða höfum vér numið hann burt?"

43 Þá svöruðu Ísraelsmenn Júdamönnum og sögðu: "Vér eigum tíu hluti í konunginum. Auk þess erum vér frumgetningurinn, en þér ekki. Hví hafið þér lítilsvirt oss? Og komum vér ekki fyrstir fram með þá ósk að færa konung heim aftur?" Og ummæli Júdamanna voru harðari en ummæli Ísraelsmanna.

Síðara bréf Páls til Kori 12

12 Hrósa mér verð ég, þótt gagnlegt sé það ekki. En ég mun nú snúa mér að vitrunum og opinberunum Drottins.

Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem fyrir fjórtán árum, _ hvort það var í líkamanum eða utan líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _, var hrifinn burt allt til þriðja himins.

Og mér er kunnugt um þennan mann, _ hvort það var í líkamanum eða án líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _,

að hann var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla.

Af slíku vil ég hrósa mér, en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér, nema þá af veikleika mínum.

Þótt ég vildi hrósa mér, væri ég ekki frávita, því að ég mundi segja sannleika. En ég veigra mér við því, til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir.

Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.

Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér.

Og hann hefur svarað mér: "Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika." Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.

10 Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.

11 Ég hef gjörst frávita. Þér hafið neytt mig til þess. Ég átti heimtingu á að hljóta meðmæli af yður. Því að í engu stóð ég hinum stórmiklu postulum að baki, enda þótt ég sé ekki neitt.

12 Postulatákn voru gjörð á meðal yðar af mikilli þrautseigju, tákn, undur og kraftaverk.

13 Í hverju voruð þér settir lægra en hinir söfnuðirnir, nema ef vera skyldi í því, að ég sjálfur hef ekki verið yður til byrði? Fyrirgefið mér þennan órétt.

14 Þetta er nú í þriðja sinn, að ég er ferðbúinn að koma til yðar, og ætla ég ekki að verða yður til byrði. Ég sækist ekki eftir eigum yðar, heldur yður sjálfum. Því að ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum.

15 Ég er fús til að verja því, sem ég á, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir yður. Ef ég elska yður heitar, verð ég þá elskaður minna?

16 En látum svo vera, að ég hafi ekki verið yður til byrði, en hafi verið slægur og veitt yður með brögðum.

17 Hef ég notað nokkurn þeirra, sem ég hef sent til yðar, til þess að hafa eitthvað af yður?

18 Ég bað Títus að fara og sendi bróðurinn með honum. Hefur þá Títus haft eitthvað af yður? Komum við ekki fram í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin?

19 Fyrir löngu eruð þér farnir að halda, að vér séum að verja oss gagnvart yður. Nei, vér tölum fyrir augliti Guðs, eins og þeir, sem tilheyra Kristi. Allt er það yður til uppbyggingar, mínir elskuðu.

20 Ég er hræddur um, að mér muni þykja þér öðruvísi en ég óska, er ég kem, og að yður muni þykja ég öðruvísi en þér óskið og á meðal yðar kunni að vera deilur, öfund, reiði, eigingirni, bakmælgi, rógburður, hroki og óeirðir.

21 Ég er hræddur um, að Guð minn muni auðmýkja mig hjá yður, þegar ég kem aftur, og að ég muni hryggjast yfir mörgum þeirra, sem áður hafa syndgað og ekki hafa snúið sér frá saurlífi, frillulífi og ólifnaði, sem þeir hafa drýgt.

Esekíel 26

26 En á ellefta árinu, hinn fyrsta dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, af því að Týrus hlakkaði yfir Jerúsalem og sagði: ,Nú er þjóðahliðið brotið upp, hefir opnast að mér, nú vil ég fylla mig, er hún er komin í auðn!` _

fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal finna þig, Týrus, ég skal leiða í móti þér margar þjóðir, eins og þegar hafið lætur öldur sínar að streyma.

Þær skulu brjóta múra Týrusar og rífa niður turna hennar, og ég mun sjálfur sópa burt öllum jarðveg af henni og gjöra hana að berum kletti.

Hún skal verða að þerrireit fyrir fiskinet úti í hafinu, því að ég hefi talað það, _ segir Drottinn Guð, _ og hún skal verða þjóðunum að herfangi.

En dætur hennar, sem eru á landi, skulu drepnar verða með sverði, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.

Því að svo segir Drottinn Guð: Sjá ég leiði Nebúkadresar konung í Babýlon, konung konunganna, gegn Týrus úr norðri, með hestum, vögnum, riddurum og mannsöfnuði margra þjóða.

Hann mun drepa dætur þínar á landi með sverði, hlaða víggarða gegn þér, hleypa upp jarðhrygg gegn þér og reisa skjöldu í móti þér.

Og hann mun hleypa víghrút sínum á múra þína og rífa niður turna þína með járntólum sínum.

10 Af mergð hesta hans munt þú hulin verða jóreyk, og múrar þínir munu gnötra af gný riddaranna, hjólanna og vagnanna, þegar hann fer inn um borgarhlið þín, eins og þegar farið er inn í hertekna borg.

11 Með hófum hesta sinna mun hann troða sundur öll stræti þín. Lýð þinn mun hann brytja niður með sverði, og þínar voldugu súlur munu hrapa til jarðar.

12 Og þeir munu ræna auð þínum og hrifsa burt kaupeyri þinn, brjóta niður borgarveggi þína, rífa niður þín dýrlegu hús og varpa á sjó út húsagrjótinu, viðunum og rofinu.

13 Ég skal lægja klið ljóða þinna, og hljómur harpna þinna skal ekki framar heyrast.

14 Og ég skal gjöra þig að berum kletti: Þú skalt verða að þerrireit fyrir fiskinet, þú skalt aldrei framar endurreist verða, því að ég, Drottinn, hefi talað það, _ segir Drottinn Guð.

15 Svo segir Drottinn Guð um Týrus: Munu ekki eyjarnar gnötra við dynkinn af hruni þínu, þá er hinir vegnu stynja, þá er sverðið brytjar fólkið niður í þér?

16 Og allir þjóðhöfðingjar við hafið munu stíga niður af hásætum sínum og leggja af sér skikkjur sínar og fara úr litklæðum sínum. Þeir munu íklæðast skelfingu, þeir munu setjast á jörðina, þeir munu vera síhræddir og sem agndofa þín vegna.

17 Og þeir munu hefja upp harmljóð yfir þér og segja um þig: Hversu ert þú eydd, horfin frá hafinu, þú vegsamaða borg, sem voldug varst á hafinu, hún og íbúar hennar, sem skutu skelk í bringu öllum nábúum sínum.

18 Nú nötra sælöndin á degi falls þíns og eyjarnar í hafinu eru skelfdar yfir afdrifum þínum.

19 Því að svo segir Drottinn Guð: Þegar ég gjöri þig að eyddri borg, eins og þær borgir, sem óbyggðar eru, þegar ég læt hafsjóinn streyma yfir þig, svo að hin miklu vötn hylji þig,

20 þá steypi ég þér niður til þeirra, sem ofan eru farnir í gröfina, til manna frá fyrri tíðum, og bý þér stað í undirheimum, eins og ævagömlum rústum, hjá þeim sem ofan eru farnir í gröfina, til þess að þú verðir ekki byggð framar og standir ekki framar á landi lifandi manna.

21 Ég sel þig á vald voveiflegri glötun, og þú munt farast. Þín mun verða leitað, en þú munt aldrei finnast til eilífðar, _ segir Drottinn Guð."

Sálmarnir 74

74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?

Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.

Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!

Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.

Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,

höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.

Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.

Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.

Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.

10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?

11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?

12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.

13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,

14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.

15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.

16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.

17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.

18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.

19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.

20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.

21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.

22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.

23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society