M’Cheyne Bible Reading Plan
18 Davíð kannaði nú liðið, sem með honum var, og setti yfir þá þúsundhöfðingja og hundraðshöfðingja.
2 Og Davíð skipti liðinu í þrennt. Var þriðjungur undir forustu Jóabs, þriðjungur undir forustu Abísaí Serújusonar, bróður Jóabs, og þriðjungur undir forustu Íttaí frá Gat. Og konungur sagði við liðið: "Ég er fastráðinn í að fara með yður í stríðið."
3 Liðið svaraði: "Þú skalt hvergi fara. Því að þótt vér flýjum, munu þeir eigi hirða um oss, og þótt helmingurinn af oss félli, mundu þeir ekki hirða um oss, því að þú ert sem tíu þúsundir af oss. Er og betra, að þú sért viðbúinn að koma oss til liðs úr borginni."
4 Þá sagði konungur við þá: "Svo vil ég gjöra, sem yður líst." Þá nam konungur staðar öðrumegin við borgarhliðið, en allt liðið hélt af stað, hundruðum og þúsundum saman.
5 En konungur lagði svo fyrir þá Jóab, Abísaí og Íttaí: "Farið vægilega með sveininn Absalon." Og allt liðið heyrði konung bjóða hershöfðingjunum svo um Absalon.
6 Síðan hélt liðið út til bardaga við Ísrael, og hófst orusta í Efraímskógi.
7 Biðu Ísraelsmenn þar ósigur fyrir Davíðs mönnum. Varð þar mikið mannfall á þeim degi: tuttugu þúsund manns.
8 Dreifðist bardaginn þar um allt landið, og varð skógurinn fleiri mönnum að líftjóni heldur en sverðið hafði orðið þann dag.
9 Þá vildi svo til, að Absalon rakst á menn Davíðs. Absalon reið múl einum, og rann múllinn inn undir þétt lim mikillar eikar og festist höfuð hans í eikinni. Hékk hann þar milli himins og jarðar, en múllinn, sem hann reið, rann undan honum.
10 Þetta sá maður nokkur, sagði Jóab frá því og mælti: "Sjá, ég sá Absalon hanga í eik einni."
11 Þá sagði Jóab við manninn, sem færði honum tíðindin: "Nú, fyrst þú sást hann, hví vannst þú þá ekki þegar á honum? Þá skyldi ég hafa gefið þér tíu sikla silfurs og belti."
12 Þá sagði maðurinn við Jóab: "Þó að taldir væru í lófa mér þúsund siklar silfurs, mundi ég samt ekki leggja hönd á konungsson, því að í áheyrn vorri lagði konungur svo fyrir þig, Abísaí og Íttaí: ,Gætið sveinsins Absalons.`
13 En ef ég hefði breytt sviksamlega við hann _ og enginn hlutur er konungi hulinn _, þá mundir þú hafa staðið fjarri."
14 Þá sagði Jóab: "Ekki má ég þá lengur tefja hjá þér," _ greip þrjú skotspjót og rak þau í brjóst Absalons. En með því að hann var enn með lífi í limi eikarinnar,
15 þustu að tíu knapar, skjaldsveinar Jóabs, og lustu Absalon til bana.
16 Þá lét Jóab þeyta lúðurinn, og liðið hætti að elta Ísrael, því að Jóab stöðvaði herinn.
17 Síðan tóku þeir Absalon, köstuðu honum í gryfju eina mikla þar í skóginum og urpu yfir hann afar mikla steindys, en allir Ísraelsmenn flýðu, hver heim til sín.
18 Absalon hafði þegar í lifanda lífi tekið merkissteininn í Kóngsdal og reist hann sér að minnisvarða, með því að hann hugsaði: "Ég á engan son til að halda uppi nafni mínu," og nefnt merkissteininn nafni sínu. Fyrir því er hann enn í dag nefndur Absalonsvarði.
19 Akímaas Sadóksson mælti: "Ég ætla að hlaupa og færa konungi fagnaðartíðindin, að Drottinn hafi rétt hluta hans á óvinum hans."
20 En Jóab sagði við hann: "Þú ert ekki maður til að flytja tíðindin í dag. Öðru sinni getur þú flutt tíðindin, en í dag getur þú ekki flutt tíðindin, því að konungsson er dauður."
21 Því næst sagði Jóab við Blálendinginn: "Far þú og seg konunginum það, sem þú hefir séð." Þá laut Blálendingurinn Jóab og hljóp af stað.
22 Akímaas Sadóksson kom enn að máli við Jóab og mælti: "Komi hvað sem koma vill: Leyf og mér að fara og hlaupa á eftir Blálendingnum." Jóab svaraði: "Til hvers viltu vera að hlaupa þetta, sonur minn, þar sem þér þó eigi munu greidd verða nein sögulaunin."
23 Hann svaraði: "Komi hvað sem koma vill: Ég hleyp." Þá sagði Jóab við hann: "Hlauptu þá!" Þá hljóp Akímaas af stað veginn yfir Jórdansléttlendið og komst á undan Blálendingnum.
24 Davíð sat milli borgarhliðanna tveggja. En sjónarvörðurinn steig upp á þak hliðsins upp á múrinn, hóf upp augu sín og sá, hvar maður kom hlaupandi einn saman.
25 Sjónarvörðurinn kallaði og sagði konungi frá því. En konungur mælti: "Ef hann fer einn saman, þá flytur hann góð tíðindi." En hinn hljóp í sífellu og bar hann óðum nær.
26 Þá sá sjónarvörðurinn annan mann koma hlaupandi. Kallaði sjónarvörðurinn þá niður í hliðið og mælti: "Þarna kemur annar maður hlaupandi einn saman." Þá mælti konungur: "Sá mun og flytja góð tíðindi."
27 Þá sagði sjónarvörðurinn: "Mér sýnist hlaup hins fyrra vera líkt hlaupi Akímaas Sadókssonar." Konungur mælti: "Hann er drengur góður og mun koma með góð tíðindi."
28 Akímaas bar þá að og mælti hann við konung: "Sit heill!" og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi og mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem framselt hefir þá menn, er upplyftu hendi sinni gegn mínum herra, konunginum."
29 Konungur mælti: "Líður sveininum Absalon vel?" Akímaas svaraði: "Ég sá mannþröng mikla, er Jóab sendi þjón þinn af stað, en ekki vissi ég hvað um var að vera."
30 Þá sagði konungur: "Gakk til hliðar og stattu þarna." Og hann gekk til hliðar og nam þar staðar.
31 Í því kom Blálendingurinn. Og Blálendingurinn sagði: "Minn herra konungurinn meðtaki þau fagnaðartíðindi, að Drottinn hefir rétt hluta þinn í dag á öllum þeim, er risið hafa í gegn þér."
32 Þá sagði konungur við Blálendinginn: "Líður sveininum Absalon vel?" Blálendingurinn mælti: "Fari svo fyrir óvinum míns herra konungsins og öllum þeim, er gegn þér rísa til að vinna þér tjón, sem sveini þessum!"
33 Þá varð konungi bilt. Gekk hann upp í þaksalinn uppi yfir hliðinu og grét. Og er hann gekk, mælti hann svo: "Sonur minn Absalon, sonur minn, sonur minn Absalon! Ó, að ég hefði dáið í þinn stað, Absalon, sonur minn, sonur minn!"
11 Ó að þér vilduð umbera dálitla fávisku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig.
2 Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.
3 En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.
4 Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en vér höfum prédikað, eða þér fáið annan anda en þér hafið fengið, eða annað fagnaðarerindi en þér hafið tekið á móti, þá umberið þér það mætavel.
5 Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki.
6 Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu og vér höfum á allan hátt birt yður hana í öllum greinum.
7 Eða drýgði ég synd, er ég lítillækkaði sjálfan mig til þess að þér mættuð upphafnir verða og boðaði yður ókeypis fagnaðarerindi Guðs?
8 Aðra söfnuði rúði ég og tók mála af þeim til þess að geta þjónað yður, og er ég var hjá yður og leið þröng, varð ég þó ekki neinum til byrði,
9 því að úr skorti mínum bættu bræðurnir, er komu frá Makedóníu. Og í öllu varaðist ég að verða yður til þyngsla og mun varast.
10 Svo sannarlega sem sannleiki Krists er í mér, skal þessi hrósun um mig ekki verða þögguð niður í héruðum Akkeu.
11 Hvers vegna? Er það af því að ég elska yður ekki? Nei, Guð veit að ég gjöri það.
12 En það, sem ég gjöri, mun ég og gjöra til þess að svipta þá tækifærinu, sem færis leita til þess að vera jafnokar vorir í því, sem þeir stæra sig af.
13 Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists.
14 Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.
15 Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.
16 Enn segi ég: Ekki álíti neinn mig fávísan. En þó svo væri, þá takið samt við mér sem fávísum, til þess að ég geti líka hrósað mér dálítið.
17 Það sem ég tala nú, þegar ég tek upp á að hrósa mér, tala ég ekki að hætti Drottins, heldur eins og í heimsku.
18 Með því að margir hrósa sér af sínum mannlegu afrekum, vil ég einnig hrósa mér svo,
19 því að fúslega umberið þér hina fávísu, svo vitrir sem þér eruð.
20 Þér umberið það, þótt einhver hneppi yður í ánauð, þótt einhver eti yður upp, þótt einhver hremmi yður, þótt einhver lítilsvirði yður, þótt einhver slái yður í andlitið.
21 Ég segi það mér til minnkunar, að í þessu höfum vér sýnt oss veika. En þar sem aðrir láta drýgindalega, _ ég tala fávíslega _, þar gjöri ég það líka.
22 Eru þeir Hebrear? Ég líka. Eru þeir Ísraelítar? Ég líka. Eru þeir Abrahams niðjar? Ég líka.
23 Eru þeir þjónar Krists? _ Nú tala ég eins og vitfirringur! _ Ég fremur. Meira hef ég unnið, oftar verið í fangelsi, fleiri högg þolað og oft dauðans hættu.
24 Af Gyðingum hef ég fimm sinnum fengið höggin þrjátíu og níu,
25 þrisvar verið húðstrýktur, einu sinni verið grýttur, þrisvar beðið skipbrot, verið sólarhring í sjó.
26 Ég hef verið á sífelldum ferðalögum, komist í hann krappan í ám, lent í háska af völdum ræningja, í háska af völdum samlanda og af völdum heiðingja, í háska í borgum og í óbyggðum, á sjó og meðal falsbræðra.
27 Ég hef stritað og erfiðað, átt margar svefnlausar nætur, verið hungraður og þyrstur og iðulega fastað, og ég hef verið kaldur og klæðlaus.
28 Og ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.
29 Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði?
30 Ef ég á að hrósa mér, vil ég hrósa mér af veikleika mínum.
31 Guð og faðir Drottins Jesú, hann sem blessaður er að eilífu, veit að ég lýg ekki.
32 Í Damaskus setti landshöfðingi Areta konungs vörð um borgina til þess að handtaka mig.
33 En gegnum glugga var ég látinn síga út fyrir múrinn í körfu og slapp þannig úr höndum hans.
25 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, snú þér að Ammónítum og spá gegn þeim
3 og seg við Ammóníta: Heyrið orð Drottins Guðs! Svo segir Drottinn Guð: Af því að þú hlakkaðir yfir því, að helgidómur minn var vanhelgaður og yfir því að Ísraelsland var í eyði lagt og yfir því að Júdamenn urðu að fara í útlegð,
4 sjá, fyrir því gef ég þig austurbyggjum til eignar, að þeir setji tjöld sín í þér og reisi búðir sínar í þér. Þeir munu eta ávöxtu þína og þeir munu drekka mjólk þína.
5 Og ég vil gjöra Rabba að beitilandi fyrir úlfalda og land Ammóníta að fjárbóli, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.
6 Því að svo segir Drottinn Guð: Af því að þú klappaðir lof í lófa og stappaðir með fætinum og fagnaðir með fullri fyrirlitning í hjarta yfir Ísraelslandi,
7 sjá, fyrir því rétti ég út hönd mína í móti þér og læt þig verða heiðingjum að herfangi og afmái þig úr tölu þjóðanna og týni þér úr tölu landanna. Ég vil tortíma þér, til þess að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.
8 Svo segir Drottinn Guð: Af því að Móab segir: Sjá, Júdalýður er eins og allar aðrar þjóðir!
9 Sjá, fyrir því opna ég hlíðar Móabs, til þess að landið verði borgalaust, missi borgir sínar allt til hinnar ystu: prýði landsins, Bet Jesímót, Baal Meon og Kirjataím.
10 Austurbyggjum gef ég það til eignar, í viðbót við land Ammóníta, til þess að Ammóníta verði eigi framar minnst meðal þjóðanna.
11 Og ég mun framkvæma refsidóma á Móab, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.
12 Svo segir Drottinn Guð: Af því að Edóm hefir breytt við Júdamenn af mikilli hefndargirni og misgjört stórlega með því að hefna sín á þeim,
13 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Ég vil rétta út hönd mína gegn Edóm og eyða þar mönnum og fénaði og gjöra landið að auðn. Frá Teman allt til Dedan skulu þeir fyrir sverði falla.
14 Og ég fel lýð mínum Ísrael að framkvæma hefnd mína á Edóm, svo að þeir fari með Edóm samkvæmt reiði minni og heift, og hann fái að kenna á hefnd minni, _ segir Drottinn Guð.
15 Svo segir Drottinn Guð: Af því að Filistar sýndu af sér hefnigirni og hefndu sín með fyrirlitning í hjarta, hyggjandi á tortíming með ævarandi fjandskap,
16 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég mun rétta út hönd mína gegn Filistum og útrýma Kretum og eyða þeim, sem eftir eru á sjávarströndinni.
17 Og ég mun koma miklum hefndum fram á þeim með grimmilegum hirtingum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, þá er ég læt hefnd mína koma fram á þeim."
73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.
2 Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,
3 því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.
4 Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.
5 Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.
6 Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.
7 Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.
8 Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.
9 Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.
10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.
11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"
12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.
13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,
14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.
15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.
16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,
17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:
18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.
19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.
20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.
21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn,
22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér.
23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína.
24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.
25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.
26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.
27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.
28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.
by Icelandic Bible Society