M’Cheyne Bible Reading Plan
17 Síðan sagði Akítófel við Absalon: "Ég ætla að velja úr tólf þúsund manns, leggja af stað og veita Davíð eftirför þegar í nótt
2 og ráðast á hann, meðan hann er þreyttur og ráðþrota, og skjóta honum skelk í bringu. Mun þá allt liðið, sem með honum er, leggja á flótta, en ég mun drepa konunginn einan.
3 Síðan mun ég leiða aftur allt fólkið til þín, eins og þegar brúður hverfur aftur til manns síns. Það er þó ekki nema einn maður, sem þú vilt feigan, en allur lýðurinn mun hafa frið."
4 Þetta ráð geðjaðist Absalon vel og öllum öldungum Ísraels.
5 Og Absalon sagði: "Kallið og á Húsaí Arkíta, svo að vér megum einnig heyra, hvað hann leggur til."
6 Þá kom Húsaí til Absalons, og Absalon sagði við hann: "Þannig hefir Akítófel talað. Eigum vér að gjöra það, sem hann segir? Ef eigi, þá tala þú!"
7 Þá sagði Húsaí við Absalon: "Ráð það, er Akítófel að þessu sinni hefir ráðið, er ekki gott."
8 Og Húsaí sagði: "Þú þekkir föður þinn og menn hans, að þeir eru hinir mestu kappar og grimmir í skapi, eins og birna á mörkinni, sem rænd er húnum sínum. Auk þess er faðir þinn maður vanur bardögum og lætur eigi fyrir berast um nætur hjá liðinu.
9 Sjá, hann mun nú hafa falið sig í einhverri gryfjunni eða einhvers staðar annars staðar. Ef nokkrir af þeim falla í fyrstu og það spyrst, munu menn segja: ,Lið það, sem fylgir Absalon, hefir beðið ósigur.`
10 Þá mun svo fara, að jafnvel hreystimennið með ljónshjartað mun láta hugfallast, því að allur Ísrael veit, að faðir þinn er hetja og þeir hraustmenni, sem með honum eru.
11 En þetta er mitt ráð: Allur Ísrael frá Dan til Beerseba skal saman safnast til þín, svo fjölmennur sem sandur á sjávarströndu, og sjálfur fer þú meðal þeirra.
12 Og ef vér þá hittum hann einhvers staðar, hvar sem hann nú kann að finnast, þá skulum vér steypa oss yfir hann, eins og dögg fellur á jörðu, og af honum og öllum þeim mönnum, sem með honum eru, skal ekki einn eftir verða.
13 Og ef hann leitar inn í einhverja borg, skal allur Ísrael bera vaði að þeirri borg, og síðan skulum vér draga hana ofan í ána, uns þar finnst ekki einu sinni steinvala."
14 Þá sagði Absalon og allir Ísraelsmenn: "Betra er ráð Húsaí Arkíta en ráð Akítófels!" Því að Drottinn hafði ákveðið að ónýta hið góða ráð Akítófels, til þess að hann gæti látið ógæfuna koma yfir Absalon.
15 Þá sagði Húsaí við prestana Sadók og Abjatar: "Það og það hefir Akítófel ráðið Absalon og öldungum Ísraels, og það og það hefi ég ráðið.
16 Sendið því sem skjótast og segið Davíð: ,Lát þú eigi fyrirberast í nótt við vöðin í eyðimörkinni, heldur far þú yfir um, svo að konungur og allt liðið, sem með honum er, tortímist ekki skyndilega."`
17 En Jónatan og Akímaas stóðu við Rógel-lind, og stúlka nokkur var vön að fara og færa þeim tíðindin, en þeir fóru þá jafnan og sögðu Davíð konungi frá, því að þeir máttu ekki láta sjá, að þeir kæmu inn í borgina.
18 En sveinn nokkur sá þá og sagði Absalon frá. Fóru þeir þá báðir brott í skyndi og komu til húss manns nokkurs í Bahúrím, sem átti brunn í húsagarði sínum, og stigu þeir ofan í brunninn,
19 en húsfreyja tók dúk og breiddi yfir brunninn og stráði yfir grjónum, að eigi skyldi á bera.
20 Menn Absalons komu til konunnar í húsið og sögðu: "Hvar eru þeir Akímaas og Jónatan?" Konan svaraði þeim: "Þeir eru farnir yfir ána." Þeir leituðu, en fundu þá ekki, og sneru aftur til Jerúsalem.
21 En er þeir voru burt farnir, stigu Jónatan og Akímaas upp úr brunninum, héldu áfram og fluttu Davíð konungi tíðindin. Og þeir sögðu við Davíð: "Takið yður upp og farið sem skjótast yfir ána, því að þau ráð hefir Akítófel ráðið móti yður."
22 Þá tók Davíð sig upp og allt liðið, sem með honum var, og fóru yfir Jórdan. Og er lýsti af degi, var enginn sá, er ekki hefði farið yfir Jórdan.
23 En er Akítófel sá, að eigi var farið að ráðum hans, söðlaði hann asna sinn, lagði af stað og fór heim til sín í borg sína, ráðstafaði húsi sínu og hengdi sig, og lét þannig líf sitt. Var hann síðan jarðaður hjá föður sínum.
24 Davíð var kominn til Mahanaím, þegar Absalon fór yfir Jórdan, og allir Ísraelsmenn með honum.
25 Absalon hafði sett Amasa yfir herinn í stað Jóabs, en Amasa var sonur Ísmaelíta nokkurs, er Jítra hét og gengið hafði inn til Abígal, dóttur Nahas, systur Serúju, móður Jóabs.
26 Ísrael og Absalon settu herbúðir sínar í Gíleaðlandi.
27 En er Davíð kom til Mahanaím, fluttu þeir Sóbí Nahasson frá Rabba, borg Ammóníta, Makír Ammíelsson frá Lódebar og Barsillaí Gíleaðíti frá Rógelím þangað
28 hvílur, ábreiður, skálar og leirker og færðu Davíð og liðinu, sem með honum var, hveiti, bygg, mjöl, bakað korn, baunir, flatbaunir,
29 hunang, rjóma, sauði og osta úr kúamjólk til að eta, því að þeir hugsuðu: "Liðið er orðið hungrað, þreytt og þyrst á eyðimörkinni."
10 Nú áminni ég sjálfur, Páll, yður með hógværð og mildi Krists, ég, sem í návist yðar á að vera auðmjúkur, en fjarverandi djarfmáll við yður.
2 Ég bið yður þess, að láta mig ekki þurfa að vera djarfmálan, þegar ég kem, og beita þeim myndugleika, sem ég ætla mér að beita gagnvart nokkrum, er álíta, að vér látum stjórnast af mannlegum hvötum.
3 Þótt vér lifum jarðnesku lífi, þá berjumst vér ekki á jarðneskan hátt, _
4 því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi.
5 Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist.
6 Og vér erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin.
7 Þér horfið á hið ytra. Ef einhver treystir því, að hann sé Krists, þá hyggi hann betur að og sjái, að eins og hann er Krists, þannig erum vér það einnig.
8 Jafnvel þótt ég vildi hrósa mér í frekara lagi af valdi voru, sem Drottinn hefur gefið til að uppbyggja, en ekki til að niðurbrjóta yður, þá yrði ég mér ekki til skammar.
9 Ekki má líta svo út sem ég vilji hræða yður með bréfunum.
10 "Bréfin," segja menn, "eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans."
11 Sá, sem slíkt segir, festi það í huga sér, að eins og vér fjarstaddir tölum til yðar í bréfunum, þannig munum vér koma fram, þegar vér erum hjá yður.
12 Ekki dirfumst vér að telja oss til þeirra eða bera oss saman við suma af þeim, er mæla með sjálfum sér. Þeir mæla sig við sjálfa sig og bera sig saman við sjálfa sig og eru óskynsamir.
13 En vér viljum ekki hrósa oss án viðmiðunar, heldur samkvæmt þeirri mælistiku, sem Guð hefur úthlutað oss: Að ná alla leið til yðar.
14 Því að vér teygjum oss ekki of langt fram, ella hefðum vér ekki komist til yðar. En vér vorum fyrstir til yðar með fagnaðarerindið um Krist.
15 Vér höfum vora viðmiðun og stærum oss ekki af erfiði annarra. Vér höfum þá von, að eftir því sem trú yðar vex, verðum vér miklir á meðal yðar, já, stórmiklir samkvæmt mælistiku vorri.
16 Þá getum vér boðað fagnaðarerindið í löndum handan við yður án þess að nota annarra mælistikur eða stæra oss af því, sem þegar er gjört.
17 En "sá sem hrósar sér, hann hrósi sér í Drottni."
18 Því að fullgildur er ekki sá, er mælir með sjálfum sér, heldur sá, er Drottinn mælir með.
24 Og orð Drottins kom til mín níunda árið, tíunda dag hins tíunda mánaðar, svohljóðandi:
2 "Mannsson, skrifa þú upp hjá þér þennan dag, _ einmitt þennan dag. Einmitt í dag hefir Babelkonungur ráðist á Jerúsalem.
3 Flyt því hinni þverúðugu kynslóð líking og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Set þú upp pottinn, set hann upp, og hell vatni í hann.
4 Lát kjötstykkin í hann, öll bestu stykkin, lærin og bógana, fyll hann úrvalsbeinbitum.
5 Tak þau af úrvalskindum og legg einnig skíð undir pottinn. Lát sjóða á kjötstykkjunum, beinbitarnir soðna þegar í honum.
6 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Vei hinni blóðseku borg, pottinum með ryðflekkjunum, sem ryðflekkirnir gengu ekki af. Allt hefir verið fært upp úr honum, hvert stykkið eftir annað, án þess að varpa hlutum um þau.
7 Því að blóðið, sem hún hefir úthellt, er enn í henni. Hún hefir látið það renna á bera klettana, ekki hellt því á jörðina til þess að hylja það moldu.
8 Til þess að sýna heift og koma fram hefnd, hefi ég látið blóðið, sem hún hefir úthellt, renna á bera klettana, til þess að það skuli eigi hulið verða.
9 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Vei hinni blóðseku borg! Já, ég vil gjöra eldgrófina stóra.
10 Drag saman mikinn við, kveik upp eldinn, sjóð kjötið vandlega, lát súpuna sjóða, svo að beinin brenni.
11 Set síðan tóman pottinn á glæðurnar, til þess að hann hitni og eirinn í honum verði glóandi og óhreinindin, sem í honum eru, renni af og ryð hans eyðist.
12 Alla fyrirhöfn hefir hann að engu gjört, því að hið mikla ryð gekk ekki af honum í eldinum,
13 sökum lauslætissaurugleika þíns. Af því að ég hefi reynt að hreinsa þig, en þú varðst eigi hrein af saurugleik þínum, þá skalt þú ekki framar verða hrein, uns ég hefi svalað heift minni á þér.
14 Ég, Drottinn, hefi talað það. Það kemur, og ég framkvæmi það, ég læt ekki undan draga, ég vægi ekki og ég læt mig einskis iðra. Eftir breytni þinni og eftir gjörðum þínum dæma menn þig, _ segir Drottinn Guð."
15 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
16 "Mannsson, ég mun taka yndi augna þinna frá þér með skyndilegum dauða, en þú skalt ekki kveina né gráta, og eigi skulu þér tár á augu koma.
17 Andvarpa þú í hljóði, viðhaf ekkert dánarkvein. Set vefjarhött þinn á þig og lát skó þína á fætur þér. Þú skalt ekki hylja kamp þinn og ekki neyta sorgarbrauðs."
18 Og ég talaði til lýðsins um morguninn, en um kveldið dó kona mín, og ég gjörði morguninn eftir eins og mér hafði verið skipað.
19 Þá sagði fólkið við mig: "Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða, að þú hagar þér svo?"
20 Ég svaraði þeim: "Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
21 Seg við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun vanhelga helgidóm minn, yðar mikla ofdrambsefni, yndi augna yðar og þrá sálar yðar, og synir yðar og dætur, er þér hafið skilið þar eftir, munu falla fyrir sverði.
22 Þá munuð þér gjöra eins og ég hefi gjört: Þér munuð ekki hylja kamp yðar og ekki neyta sorgarbrauðs.
23 Þér munuð hafa vefjarhöttinn á höfðinu og skóna á fótunum. Þér munuð ekki kveina né gráta, heldur veslast upp vegna misgjörða yðar og andvarpa hver með öðrum.
24 Þannig mun Esekíel verða yður til tákns. Með öllu svo sem hann hefir gjört, munuð þér og gjöra, er það ber að höndum, og þá munuð þér viðurkenna, að ég er Drottinn Guð.
25 En þú, mannsson _ vissulega mun þann dag, er ég tek frá þeim varnarvirki þeirra, hinn dýrlega unað þeirra, yndi augna þeirra og þrá sálar þeirra, sonu þeirra og dætur, _
26 þann dag mun flóttamaður til þín koma, til þess að gjöra það heyrinkunnugt.
27 Á þeim degi mun munnur þinn upp ljúkast, um leið og munnur flóttamannsins, og þá munt þú tala og ekki framar þegja, og þú munt vera þeim til tákns, og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn."
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
by Icelandic Bible Society