Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 15

15 Eftir þetta bar það til, að Absalon fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.

Og hann lagði það í vana sinn að nema staðar snemma morguns við veginn, sem lá inn að borgarhliðinu. Og hann kallaði á hvern þann mann, er í máli átti og fyrir því leitaði á konungs fund til þess að fá úrskurð hans, og mælti: "Frá hvaða borg ert þú?" Og segði hann: "Þjónn þinn er af einni ættkvísl Ísraels,"

þá sagði Absalon við hann: "Sjá, málefni þitt er gott og rétt, en konungur hefir engan sett, er veiti þér áheyrn."

Og Absalon sagði: "Ég vildi óska að ég væri skipaður dómari í landinu, svo að hver maður, sem ætti í þrætu eða hefði mál að sækja, gæti komið til mín. Þá skyldi ég láta hann ná rétti sínum."

Og þegar einhver kom til hans til þess að lúta honum, rétti hann fram höndina, dró hann að sér og kyssti hann.

Svo gjörði Absalon við alla Ísraelsmenn, þá er leituðu á konungs fund til þess að fá úrskurð hans. Og þann veg stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.

Og það bar til fjórum árum síðar, að Absalon sagði við konung: "Leyf mér að fara og efna heit mitt í Hebron, það er ég hefi gjört Drottni.

Því að þjónn þinn gjörði svolátandi heit, þá er hann dvaldist í Gesúr á Sýrlandi: ,Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem, þá skal ég þjóna Drottni."`

Konungur svaraði honum: "Far þú í friði!" Lagði hann þá af stað og fór til Hebron.

10 En Absalon gjörði menn á laun til allra ættkvísla Ísraels með svolátandi orðsending: "Þegar þér heyrið lúðurhljóm, þá segið: ,Absalon er konungur orðinn í Hebron!"`

11 Með Absalon fóru tvö hundruð manns úr Jerúsalem, er hann kvaddi til farar með sér. Fóru þeir í grandleysi og vissu ekki, hvað undir bjó.

12 Og er Absalon var að fórnum, sendi hann eftir Akítófel Gílóníta, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, ættborgar hans. Og samsærið magnaðist og æ fleiri og fleiri menn gengu í lið með Absalon.

13 Nú komu menn til Davíðs og sögðu honum: "Hugur Ísraelsmanna hefir snúist til Absalons."

14 Þá sagði Davíð við alla þjóna sína, þá er með honum voru í Jerúsalem: "Af stað! Vér skulum flýja, því að öðrum kosti munum vér ekki komast undan Absalon. Hraðið yður, svo að hann komi ekki skyndilega og nái oss, færi oss ógæfu að höndum og taki borgina herskildi."

15 Þjónar konungs svöruðu honum: "Alveg eins og minn herra konungurinn vill, sjá, vér erum þjónar þínir."

16 Þá lagði konungur af stað og allt hans hús með honum. En konungur lét tíu hjákonur eftir verða til þess að gæta hússins.

17 Konungur lagði af stað og allir þjónar hans með honum. Og þeir námu staðar við ysta húsið,

18 en allt fólkið og allir Kretar og Pletar gengu fram hjá honum. Enn fremur gengu allir menn Íttaís frá Gat, sex hundruð manns, er komnir voru með honum frá Gat, fram hjá í augsýn konungs.

19 Þá sagði konungur við Íttaí frá Gat: "Hvers vegna fer þú og með oss? Snú aftur og ver með hinum konunginum, því að þú ert útlendingur og meira að segja útlægur gjör úr átthögum þínum.

20 Þú komst í gær, og í dag ætti ég að fá þig til að reika um með oss, þar sem ég verð að fara þangað sem verkast vill. Snú þú aftur og haf með þér sveitunga þína. Drottinn mun auðsýna þér miskunn og trúfesti."

21 En Íttaí svaraði konungi: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem minn herra konungurinn lifir: Á þeim stað, sem minn herra konungurinn verður _ hvort sem það verður til dauða eða lífs, _ þar mun og þjónn þinn verða."

22 Þá sagði Davíð við Íttaí: "Jæja, far þú þá fram hjá." Þá fór Íttaí frá Gat fram hjá og allir hans menn og öll börnin, sem með honum voru.

23 En allt landið grét hástöfum, meðan allt fólkið gekk fram hjá. En konungur stóð í Kídrondal, meðan allt fólkið gekk fram hjá honum í áttina til olíutrésins, sem er í eyðimörkinni.

24 Þar var og Sadók, og Abjatar og allir levítarnir með honum. Báru þeir sáttmálsörk Guðs. Og þeir settu niður örk Guðs, uns allur lýðurinn úr borginni var kominn fram hjá.

25 Og konungur sagði við Sadók: "Flyt þú örk Guðs aftur inn í borgina. Finni ég náð í augum Drottins, mun hann leiða mig heim aftur og láta mig sjá sjálfan sig og bústað sinn.

26 En ef hann hugsar svo: ,Ég hefi ekki þóknun á þér,` _ þá er ég hér, gjöri hann við mig sem honum gott þykir."

27 Þá mælti konungur við Sadók höfuðprest: "Far þú aftur til borgarinnar í friði og Akímaas sonur þinn og Jónatan sonur Abjatars _ báðir synir ykkar með ykkur.

28 Hyggið að! Ég ætla að hafast við hjá vöðunum í eyðimörkinni, þar til er mér kemur frá yður tíðindasögn."

29 Síðan fluttu þeir Sadók og Abjatar örk Guðs aftur til Jerúsalem og dvöldust þar.

30 Davíð gekk upp Olíufjallið. Fór hann grátandi og huldu höfði. Hann gekk berfættur, og allt fólkið, sem með honum var, huldi höfuð sín og gekk grátandi.

31 Og er Davíð bárust þau tíðindi, að Akítófel væri meðal þeirra, er samsærið höfðu gjört við Absalon, þá sagði Davíð: "Gjör þú, Drottinn, ráð Akítófels að heimsku."

32 En er Davíð var kominn efst upp á fjallið, þar sem menn voru vanir að tilbiðja Guð, þá mætti honum Húsaí Arkíti í rifnum kyrtli og með mold á höfði sér.

33 Davíð sagði við hann: "Farir þú með mér, verður þú mér til þyngsla.

34 En ef þú fer aftur til borgarinnar og segir við Absalon: ,Þér vil ég þjóna, konungur. Föður þínum hefi ég áður þjónað, en nú vil ég þjóna þér,` _ þá getur þú ónýtt ráð Akítófels fyrir mig.

35 Þar hefir þú hjá þér prestana Sadók og Abjatar. Allt sem þú fréttir úr konungshöllinni, skalt þú segja prestunum Sadók og Abjatar.

36 Þeir hafa þar hjá sér báða sonu sína, Sadók Akímaas og Abjatar Jónatan. Látið þá færa mér öll þau tíðindi, sem þér fáið."

37 Síðan fór Húsaí, stallari Davíðs, til borgarinnar. Absalon fór og til Jerúsalem.

Síðara bréf Páls til Kori 8

En svo viljum vér, bræður, skýra yður frá þeirri náð, sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu.

Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim.

Ég get vottað það, hversu þeir hafa gefið eftir megni, já, um megn fram. Af eigin hvötum

lögðu þeir fast að oss og báðu um að mega vera í félagi við oss um samskotin til hinna heilögu.

Og þeir gjörðu betur en vér höfðum vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni, og síðan oss, að vilja Guðs.

Það varð til þess, að vér báðum Títus, að hann skyldi og leiða til lykta hjá yður þessa líknarþjónustu, eins og hann hefur byrjað.

Þér eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu.

Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur.

Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.

10 Og ráð vil ég gefa í þessu máli, því að þetta er yður til gagns, yður sem í fyrra voruð á undan öðrum, ekki aðeins í verkinu, heldur og í viljanum.

11 En fullgjörið nú og verkið. Þér voruð fúsir að hefjast handa, fullgjörið það nú eftir því sem efnin leyfa.

12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.

13 Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna,

14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður,

15 eins og skrifað er: Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.

16 En þökk sé Guði, sem vakti í hjarta Títusar þessa sömu umhyggju fyrir yður.

17 Reyndar fékk hann áskorun frá mér, en áhugi hans var svo mikill, að hann fór til yðar af eigin hvötum.

18 En með honum sendum vér þann bróður, sem orð fer af í öllum söfnuðunum fyrir starf hans í þjónustu fagnaðarerindisins.

19 Og ekki það eitt, heldur er hann og af söfnuðunum kjörinn samferðamaður vor með líknargjöf þessa, sem vér höfum unnið að, Drottni til dýrðar og til að sýna fúsleika vorn.

20 Vér höfum gjört þessa ráðstöfun til þess að enginn geti lastað meðferð vora á hinni miklu gjöf, sem vér höfum gengist fyrir.

21 Því að vér ástundum það sem gott er, ekki aðeins fyrir Drottni, heldur og fyrir mönnum.

22 Með þeim sendum vér annan bróður vorn, sem vér oftsinnis og í mörgu höfum reynt kostgæfinn, en nú miklu fremur en ella vegna hans mikla trausts til yðar.

23 Títus er félagi minn og starfsbróðir hjá yður, og bræður vorir eru sendiboðar safnaðanna og Kristi til vegsemdar.

24 Sýnið því söfnuðunum merki elsku yðar, svo að það verði þeim ljóst, að það var ekki að ástæðulausu, að vér hrósuðum yður við þá.

Esekíel 22

22 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Þú mannsson, vilt þú dæma, vilt þú dæma hina blóðseku borg? Leið henni þá fyrir sjónir allar svívirðingar hennar

og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ó borg, sem úthellti blóði innan borgarveggja sinna, til þess að tími hennar kæmi, og gjörði sér skurðgoð til þess að saurga sig.

Fyrir blóðið, sem þú hefir úthellt, ert þú sek orðin, og fyrir skurðgoðin, sem þú gjörðir, ert þú óhrein orðin. Þú hefir flýtt fyrir degi þínum, og ævilok þín eru komin. Þess vegna gjöri ég þig að háðung meðal þjóðanna og að athlægi allra landa.

Þeir sem eru nálægt þér og þeir sem eru langt frá þér munu hæða þig, þú borg með flekkað mannorð, full af róstum.

Sjá, höfðingjar Ísraels, sem í þér búa, úthella blóði, hver sem betur getur.

Hjá þér eru faðir og móðir fyrirlitin, við útlendinga beita menn kúgun í þér, munaðarleysingja og ekkjur undiroka menn hjá þér.

Þú fyrirlítur helgidóma mína og vanhelgar hvíldardaga mína.

Hjá þér eru bakmælgismenn, sem koma manndrápum til leiðar, hjá þér eta menn fórnarkjöt á fjöllunum, menn fremja saurlifnað í þér miðri.

10 Hjá þér bera menn blygðan föður síns, hjá þér nauðga menn konum, sem óhreinar eru vegna tíða.

11 Einn fremur svívirðu með konu náunga síns, annar flekkar tengdadóttur sína með saurlifnaði og enn annar nauðgar hjá þér systur sinni, dóttur föður síns.

12 Menn þiggja mútur hjá þér til þess að úthella blóði. Þú hefir tekið fjárleigu og vexti og haft af náunga þínum með ofríki, en mér hefir þú gleymt, _ segir Drottinn Guð.

13 En sjá: Ég slæ höndum saman yfir því rangfengna fé, sem þú hefir dregið þér, og yfir blóðskuld þeirri, sem í þér er.

14 Mun kjarkur þinn standast og hendur þínar haldast styrkar, þegar þeir dagarnir koma, er ég tek þig fyrir? Ég, Drottinn, tala það og mun framkvæma það.

15 Og ég mun tvístra þér meðal þjóðanna og dreifa þér út um löndin og gjörsamlega uppræta óhreinleik þinn úr þér,

16 og þú skalt vanhelguð verða í augsýn heiðingjanna, og þá skalt þú viðurkenna, að ég er Drottinn."

17 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

18 "Mannsson, Ísraelsmenn eru orðnir fyrir mér eins og sori. Þeir eru allir eins og eir og tin og járn og blý í bræðsluofni, þeir eru orðnir sorasilfur.

19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér eruð allir orðnir að sora, þá vil ég safna yður saman í Jerúsalem.

20 Eins og silfur og eir og járn og blý og tin er látið saman inn í bræðsluofn til þess að blása eldi að því og bræða það, þannig mun ég safna yður saman í reiði minni og gremi, láta yður þar inn og bræða yður.

21 Og ég mun stefna yður saman og blása að yður eldi gremi minnar, svo að þér skuluð bráðna þar.

22 Eins og silfrið er brætt í bræðsluofninum, svo skuluð þér bráðna í borginni og þá munuð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi úthellt reiði minni yfir yður."

23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

24 "Þú mannsson, seg við hana: Þú ert eins og land, sem ekki rigndi á, sem eigi var vökvað á degi reiðinnar,

25 en þjóðhöfðingjar þess voru í því sem öskrandi ljón, er rífur sundur bráð sína. Mannslífum hafa þeir eytt, eignir og dýrgripi hafa þeir tekið og fjölgað ekkjum í landinu.

26 Prestar hennar hafa brjálað lögmáli mínu og vanhelgað helgidóma mína. Þeir hafa engan mun gjört á því, sem heilagt er og óheilagt, og eigi frætt menn um muninn á óhreinu og hreinu, og þeir hafa lokað augum sínum fyrir hvíldardögum mínum, svo að ég vanhelgaðist meðal þeirra.

27 Yfirmenn hennar voru í henni eins og sundurrífandi vargar og hugsuðu ekki um annað en að úthella blóði og eyða mannslífum til þess að afla sér rangfengins gróða.

28 En spámenn hennar riðu á kalki fyrir þá með því að boða þeim hégómasýnir og flytja þeim lygispádóma og segja: ,Svo segir Drottinn Guð!` þótt Drottinn hafi ekki talað.

29 Landslýðurinn hefir haft kúgun og rán í frammi, þeir hafa undirokað volaða og snauða og kúgað útlendinga án nokkurs réttar.

30 Og ég leitaði að einhverjum meðal þeirra, er hlaða vildi garð eða skipa sér í skarðið móti mér, landinu til varnar, til þess að ég legði það ekki í eyði, en ég fann engan.

31 Þá úthellti ég reiði minni yfir þá, gjöreyddi þeim með eldi gremi minnar, ég lét athæfi þeirra þeim í koll koma, _ segir Drottinn Guð."

Sálmarnir 69

69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.

Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.

Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.

Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.

Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur.

Þú, Guð, þekkir heimsku mína, og sakir mínar dyljast þér eigi.

Lát eigi þá, er vona á þig, verða til skammar mín vegna, ó Drottinn, Drottinn hersveitanna, lát eigi þá er leita þín, verða til svívirðingar mín vegna, þú Guð Ísraels.

Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt.

Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar.

10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér.

11 Ég hefi þjáð mig með föstu, en það varð mér til háðungar.

12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum, og ég varð þeim að orðskvið.

13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.

14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar.

15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.

16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.

17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.

18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum, því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig.

19 Nálgast sál mína, leys hana, frelsa mig sakir óvina minna.

20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing, allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.

21 Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.

22 Þeir fengu mér malurt til matar, og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka.

23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru, og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru.

24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi, og lát lendar þeirra ávallt riða.

25 Hell þú reiði þinni yfir þá og lát þína brennandi gremi ná þeim.

26 Búðir þeirra verði eyddar og enginn búi í tjöldum þeirra,

27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið.

28 Bæt sök við sök þeirra og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.

29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda og eigi skráðir með réttlátum.

30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.

31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.

32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.

33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.

34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.

35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.

36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.

37 Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society