Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 14

14 Og er Jóab Serújuson sá, að Absalon var konungi enn hjartfólginn,

þá sendi Jóab til Tekóa og lét sækja þangað vitra konu og sagði við hana: "Þú skalt láta sem þú sért harmþrungin og klæðast sorgarbúningi. Smyr þig ekki með olíu, heldur vertu eins og kona, er um langan tíma hefir syrgt látinn mann.

Gakk síðan fyrir konung og mæl til hans á þessa leið: _" og Jóab lagði henni orð í munn.

Síðan gekk konan frá Tekóa fyrir konung, féll fram á ásjónu sína til jarðar og sýndi honum lotningu og mælti: "Hjálpa mér, konungur!"

Konungur sagði við hana: "Hvað gengur að þér?" Hún svaraði: "Æ, ég er ekkja og maður minn er dáinn.

Ambátt þín átti tvo sonu. Þeir urðu missáttir úti á akri og enginn var til að skilja þá. Laust þá annar þeirra bróður sinn og drap hann.

Sjá, þá reis öll ættin upp á móti ambátt þinni og sagði: ,Sel fram bróðurmorðingjann, og munum vér drepa hann fyrir líf bróður hans, er hann myrti, og tortíma erfingjanum um leið.` Og þann veg vilja þeir slökkva þann neista, sem mér er eftir skilinn, svo að maðurinn minn láti hvorki eftir sig nafn né niðja á jörðinni."

Og konungur sagði við konuna: "Far þú heim til þín. Skipa mun ég fyrir um mál þitt."

En konan frá Tekóa sagði við konunginn: "Á mér hvíli sektin, minn herra konungur, og á ættfólki mínu, en konungurinn sé sýkn saka og hásæti hans."

10 Þá sagði konungur: "Ef einhver segir eitthvað við þig, þá kom þú með hann til mín, og skal hann eigi framar áreita þig."

11 Þá mælti hún: "Minnstu, konungur, Drottins, Guðs þíns, svo að hefnandinn gjöri ekki enn meira tjón, og þeir tortími ekki syni mínum." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt hár sonar þíns falla til jarðar."

12 Þá mælti konan: "Leyf þú ambátt þinni að tala eitt orð við þig, minn herra konungur!" Hann svaraði: "Tala þú."

13 Þá mælti konan: "Hvers vegna hefir þú slíkt í hyggju gegn Guðs lýð? Og fyrst konungurinn hefir kveðið upp þennan dóm, þá er hann sem sekur maður, þar sem hann lætur ekki útlaga sinn hverfa heim aftur.

14 Því að deyja hljótum vér, og vér erum eins og vatn, sem hellt er á jörðina og eigi verður náð upp aftur, og Guð hrífur eigi burt líf þess manns, sem á það hyggur að láta ekki útlagann vera lengur útskúfaðan frá sér.

15 En fyrir því er ég komin til þess að tala þessi orð við minn herra konunginn, að fólkið gjörði mig hrædda. Þá hugsaði ambátt þín með sér: ,Ég skal tala við konunginn. Má vera að konungurinn gjöri bón ambáttar sinnar.

16 Því að konungurinn mun gjöra þá bón ambáttar sinnar að frelsa hana af hendi mannsins, sem leitast við að afmá bæði mig og son minn úr arfleifð Guðs.`

17 Þá hugsaði þerna þín með sjálfri sér: ,Orð míns herra konungsins skulu verða mér til fróunar, því að minn herra konungurinn líkist í því engli Guðs, að hann hlýðir á gott og illt.` Og Drottinn Guð þinn sé með þér."

18 Þá svaraði konungur og sagði við konuna: "Leyn þú mig engu, er ég vil spyrja þig." Konan svaraði: "Tala þú, minn herra konungur!"

19 Þá mælti konungur: "Er ekki Jóab í ráðum með þér um allt þetta?" Konan svaraði og sagði: "Svo sannarlega sem þú lifir, minn herra konungur, er eigi unnt að fara utan um nokkuð af því, sem minn herra konungurinn hefir sagt, hvorki til hægri né vinstri handar. Það var einmitt þjónn þinn Jóab, sem bauð mér þetta, og hann lagði þernu þinni öll þessi orð í munn.

20 Jóab þjónn þinn hefir gjört þetta til þess að láta málið líta öðruvísi út, en herra minn jafnast við engil Guðs að visku, svo að hann veit allt, sem við ber á jörðinni."

21 Þá sagði konungur við Jóab: "Gott og vel, ég skal gjöra það. Far þú og sæk þú sveininn Absalon."

22 Þá féll Jóab fram á andlit sitt til jarðar og laut konungi og kvaddi hann og mælti: "Nú veit þjónn þinn, að ég hefi fundið náð í augum míns herra konungsins, þar sem konungurinn hefir látið að orðum þjóns síns."

23 Síðan lagði Jóab af stað og fór til Gesúr og hafði Absalon aftur heim með sér til Jerúsalem.

24 En konungur sagði: "Fari hann heim til sín, en fyrir mín augu skal hann ekki koma." Þá fór Absalon heim til sín og kom ekki fyrir augu konungs.

25 Í öllum Ísrael var enginn maður eins fríður og Absalon, og fór mikið orð af því. Frá hvirfli til ilja voru engin lýti á honum.

26 Og þegar hann lét skera hár sitt, _ en hann lét jafnan skera það á árs fresti, af því að það varð honum svo þungt, að hann hlaut að láta skera það _, þá vó hárið af höfði hans tvö hundruð sikla á konungsvog.

27 Og Absalon fæddust þrír synir og ein dóttir, er Tamar hét. Hún var kona fríð sýnum.

28 Absalon var svo tvö ár í Jerúsalem, að hann kom ekki fyrir augu konungs.

29 Þá sendi hann boð til Jóabs þess erindis, að hann færi til konungs, en Jóab vildi ekki koma til hans. Sendi hann þá í annað sinn, en hann vildi ekki koma.

30 Þá sagði Absalon við þjóna sína: "Sjáið, Jóab á akur áfastan við minn og þar hefir hann bygg. Farið og kveikið í honum." Og þjónar Absalons kveiktu í akrinum.

31 Þá fór Jóab af stað og kom í hús Absalons og sagði við hann: "Hví hafa þjónar þínir kveikt í akri mínum?"

32 Absalon sagði við Jóab: "Sjá, ég sendi boð til þín og lét segja: ,Kom þú hingað og vil ég senda þig til konungs með þessa orðsending: Til hvers kom ég frá Gesúr? Betra væri mér að vera þar enn. En nú vil ég fá að koma fyrir augu konungs. Sé ég sekur, þá drepi hann mig."`

33 Þá gekk Jóab fyrir konung og sagði honum þetta. Lét hann þá kalla Absalon, og gekk hann fyrir konung og laut á andlit sitt til jarðar fyrir konungi. Og konungur kyssti Absalon.

Síðara bréf Páls til Kori 7

Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.

Gefið oss rúm í hjörtum yðar. Engum höfum vér gjört rangt til, engan skaðað, engan féflett.

Ég segi það ekki til að áfellast yður. Ég hef áður sagt, að þér eruð í hjörtum vorum, og vér deyjum saman og lifum saman.

Mikla djörfung hef ég gagnvart yður, mikillega get ég hrósað mér af yður. Ég er fullur af huggun, ég er stórríkur af gleði í allri þrenging vorri.

Því var og það, er vér komum til Makedóníu, að vér höfðum enga eirð, heldur vorum vér á alla vegu aðþrengdir, barátta hið ytra, ótti hið innra.

En Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss með komu Títusar,

já, ekki aðeins með komu hans, heldur og með þeirri huggun, sem hann hafði fengið hjá yður. Hann skýrði oss frá þrá yðar, gráti yðar, áhuga yðar mín vegna, svo að ég gladdist við það enn frekar.

Að vísu hef ég hryggt yður með bréfinu, en ég iðrast þess ekki nú, þótt ég iðraðist þess áður, þar sem ég sá að þetta bréf hafði hryggt yður, þótt ekki væri nema um stund.

Nú er ég glaður, ekki yfir því, að þér urðuð hryggir, heldur yfir því, að þér urðuð hryggir til iðrunar. Þér urðuð hryggir Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón af oss.

10 Sú hryggð, sem er Guði að skapi, vekur afturhvarf til hjálpræðis, sem engan iðrar, en hryggð heimsins veldur dauða.

11 Einmitt þetta, að þér hryggðust Guði að skapi, _ hvílíka alvöru vakti það hjá yður, já, hvílíkar afsakanir, hvílíka gremju, hvílíkan ótta, hvílíka þrá, hvílíkt kapp, hvílíka refsingu! Í öllu hafið þér nú sannað, að þér voruð vítalausir um þetta.

12 Þótt ég því hafi skrifað yður, þá var það ekki vegna hans, sem óréttinn gjörði, ekki heldur vegna hans, sem fyrir óréttinum varð, heldur til þess að yður yrði ljóst fyrir augliti Guðs hversu heilshugar þér standið með oss.

13 Þess vegna höfum vér huggun hlotið. En auk huggunar vorrar gladdi það oss allra mest, hve Títus varð glaður. Þér hafið allir róað huga hans.

14 Því að hafi ég í nokkru hrósað mér af yður við hann, þá hef ég ekki þurft að blygðast mín. Já, eins og allt var sannleika samkvæmt, sem vér höfum talað við yður, þannig hefur og hrós vort um yður við Títus reynst sannleikur.

15 Og hjartaþel hans til yðar er því hlýrra sem hann minnist hlýðni yðar allra, hversu þér tókuð á móti honum með ugg og ótta.

16 Það gleður mig, að ég get í öllu borið traust til yðar.

Esekíel 21

21 Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, snú þér í móti Jerúsalem og lát orð þín streyma mót helgidóminum og spá gegn Ísraelslandi

og seg við Ísraelsland: Svo segir Drottinn: Sjá, ég skal finna þig og mun draga sverð mitt úr slíðrum og afmá hjá þér ráðvanda og óguðlega.

Af því að ég ætla að afmá hjá þér ráðvanda og óguðlega, fyrir því mun sverð mitt hlaupa úr slíðrum á alla menn frá suðri til norðurs.

Og allir menn skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi dregið sverð mitt úr slíðrum, það skal ekki framar þangað aftur hverfa.

En þú, mannsson, styn þungan. Mjaðmir þínar engist saman, og styn af sárri kvöl í augsýn þeirra.

Og er þeir þá segja við þig: ,Af hverju stynur þú?` þá seg: ,Yfir fregn nokkurri, sem svo er, að þegar hún kemur mun hvert hjarta bráðna, allar hendur verða lémagna, allur dugur dofna og öll kné leysast sundur og verða að vatni. Sjá, hún kemur og hún reynist sönn, _ segir Drottinn Guð."`

Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, spá þú og seg: Svo segir Drottinn: Seg þú: Sverð, sverð er hvesst og fægt.

10 Það er hvesst til þess að drepa menn unnvörpum, það er fægt, til þess að það bliki sem elding . . .

11 Og það var látið burt til fægingar, til þess að það yrði hnefað. Það var hvesst, sverðið, og það var fægt, til þess að það yrði selt vegandanum í hendur.

12 Hljóða þú og æp, mannsson, því að það er ætlað til höfuðs þjóð minni, til höfuðs öllum höfðingjum Ísraels. Undir sverðið eru þeir seldir, ásamt þjóð minni, fyrir því skalt þú slá þér á brjóst.

13 Því það er prófraun. Og hvað, ef jafnvel sprotinn, sem virðir vettugi, verður eigi framar til? _ segir Drottinn Guð.

14 En þú, mannsson, spá og klappa lófum saman, tvisvar, já þrisvar skal sverðið sveiflast. Það er sverð hinna vegnu, sverð hins mikla manndráps, er svífur í kringum þá.

15 Til þess að hjörtu skjálfi og hinir föllnu verði margir, hefi ég sett sverð manndrápsins við öll hlið þeirra. Sverðið er gjört til þess að leiftra, hvesst til þess að brytja.

16 Sníð þú til hægri, bein þér til vinstri, hvert sem egg þinni er snúið.

17 Þá skal ég og klappa lófum saman og svala heift minni. Ég, Drottinn, hefi talað."

18 Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

19 "En þú, mannsson, tak til tvo vegu, er sverð Babelkonungs skal fara. Þeir skulu báðir liggja frá sama landi. Og set leiðarvísi þar sem vegurinn hefst heim að hvorri borg,

20 til þess að sverðið komi yfir Rabba, höfuðborg Ammóníta, og yfir Júdaland og Jerúsalem í því miðju.

21 Því að Babelkonungur stendur á vegamótum, þar sem báðir vegirnir hefjast, til þess að leita véfréttar. Hann hristir örvarnar, spyr húsgoðin, skoðar lifrina.

22 Í hægri hendi hans er hlutur Jerúsalem: ,Hann skal reisa víghrúta, opna munninn með ópum, láta heróp gjalla, reisa víghrúta gegn hliðunum, hleypa upp jarðhrygg, hlaða víggarða.`

23 Og þeim virðist það lygavéfrétt; þeir hafa unnið hina helgustu eiða, _ en hann minnir á misgjörð þeirra, til þess að þeir verði teknir höndum.

24 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Með því að hann minnti á misgjörð yðar, er trúrof yðar varð opinbert, svo að syndir yðar urðu berar í öllu athæfi yðar, _ með því að hann minnti á yður, skuluð þér verða teknir höndum þeirra vegna.

25 En þú, dauðadæmdi guðleysingi, höfðingi Ísraels, hvers dagur er kominn, þá er tími endasektarinnar rennur upp,

26 svo segir Drottinn Guð: Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna! Þetta skal ekki lengur vera svo. Upp með hið lága, niður með hið háa!

27 Að rústum, rústum, rústum vil ég gjöra allt. Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur, sem hefir réttinn, er ég hefi gefið honum.

28 En þú, mannsson, spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð um Ammóníta og smánan þeirra: Sverð, sverð er dregið úr slíðrum, fægt til að brytja niður, til þess að láta eldingar leiftra,

29 en þér boðuðu menn hégómasýnir og fluttu þér lygispádóma, til þess að setja það á háls hinna dauðadæmdu guðleysingja, hverra dagur er kominn, þá er tími endasektarinnar rennur upp.

30 Slíðra það aftur. Ég skal dæma þig á þeim stað, þar sem þú varst skapaður, í því landi, þar sem þú ert upp runninn,

31 og ég skal úthella yfir þig reiði minni og blása á þig mínum heiftarloga og selja þig í hendur dýrslegra manna, glötunarsmiða.

32 Eldsmatur skalt þú verða, blóði þínu skal úthellt inni í landinu. Þín skal eigi framar minnst verða. Ég, Drottinn, hefi talað þetta."

Sálmarnir 68

68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.

Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.

En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.

Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.

Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.

Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.

Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]

þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.

10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.

11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.

12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:

13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.

14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."

15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.

16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.

17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?

18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.

19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.

20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]

21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.

22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.

23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,

24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."

25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.

26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.

27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.

28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.

29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss

30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.

31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!

32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.

33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]

34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.

35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.

36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society