Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 13

13 Nú segir frá því, að Absalon sonur Davíðs átti fríða systur, sem hét Tamar, og Amnon sonur Davíðs felldi hug til hennar.

Og Amnon píndist svo, að hann varð sjúkur út af Tamar, systur sinni, því að hún var mey, og Amnon virtist eigi unnt að gjöra henni neitt.

En Amnon átti vin, sem Jónadab hét, sonur Símea, bróður Davíðs. Jónadab þessi var mjög kænn maður.

Og hann sagði við Amnon: "Hví megrast þú svo, konungsson, dag frá degi? Viltu ekki segja mér það?" Amnon sagði við hann: "Ég felli hug til Tamar, systur Absalons bróður míns."

Þá sagði Jónadab við hann: "Leggst þú í rekkju og lát sem þú sért sjúkur, og þegar faðir þinn kemur til þess að vitja um þig, þá skaltu segja við hann: ,Lát Tamar systur mína koma og gefa mér að eta. Ef hún byggi til matinn fyrir augum mér, svo að ég gæti horft á, þá mundi ég eta úr hendi hennar."`

Síðan lagðist Amnon og lést vera sjúkur. En er konungur kom að vitja um hann, sagði Amnon við konung: "Lát Tamar systur mína koma og gjöra tvær kökur að mér áhorfandi, svo að ég megi eta þær úr hendi hennar."

Þá sendi Davíð boð heim til Tamar og lét segja henni: "Far þú í hús Amnons bróður þíns og matreið handa honum."

Þá gekk Tamar í hús Amnons bróður síns, en hann lá í rúminu. Og hún tók deig og hnoðaði og gjörði úr því kökur að honum áhorfandi og bakaði kökurnar.

Og hún tók pönnuna og steypti úr henni frammi fyrir honum, en hann vildi ekki eta. Og Amnon mælti: "Látið alla ganga út frá mér." Og allir gengu út frá honum.

10 Þá sagði Amnon við Tamar: "Kom þú með matinn inn í svefnhúsið, svo að ég megi eta úr hendi þinni." Og Tamar tók kökurnar, sem hún hafði gjört, og færði Amnon bróður sínum inn í svefnhúsið.

11 En er hún rétti honum þær að eta, þreif hann til hennar og sagði við hana: "Kom þú og leggst með mér, systir mín!"

12 En hún sagði við hann: "Nei, bróðir minn, svívirð mig eigi, því að slíkt viðgengst ekki í Ísrael. Frem þú eigi slíka óhæfu.

13 Og hvað ætti ég af mér að gjöra með vansæmd mína? Og þú mundir talinn eitt hið versta varmenni í Ísrael. Tala þú heldur við konung, því að hann mun ekki synja þér um mig."

14 En hann vildi ekki hlýða orðum hennar, heldur lét hana kenna aflsmunar og nauðgaði henni og lagðist með henni.

15 En síðan fékk Amnon mjög mikla óbeit á henni, svo að hin mikla óbeit, er hann hafði á henni, var meiri en ástin, sem hann hafði haft á henni. Og Amnon sagði við hana: "Statt upp og haf þig á burt."

16 Þá sagði hún við hann: "Nei, bróðir minn, því að þetta væri enn meira vonskuverk en það, er þú hefir á mér framið, að senda mig nú burt." En hann vildi ekki hlýða orðum hennar.

17 Og hann kallaði á svein sinn, er þjónaði honum, og mælti: "Kom þessari konu burt frá mér út á götuna, og lokaðu dyrunum á eftir henni."

18 En hún var í dragkyrtli, því að svo voru fyrrum konungsdætur klæddar, meðan þær voru meyjar. Og þjónn hans fór með hana út á götuna og lokaði dyrunum á eftir henni.

19 Þá jós Tamar mold yfir höfuð sér og reif sundur dragkyrtilinn sem hún var í, lagði síðan hönd á höfuð sér og gekk hljóðandi burt.

20 Og Absalon bróðir hennar sagði við hana: "Hefir Amnon bróðir þinn verið með þér? Þegi þú nú, systir mín, hann er bróðir þinn. Láttu þetta ekki á þig fá." Og Tamar dvaldi ein og yfirgefin í húsi Absalons bróður síns.

21 Þegar Davíð konungur frétti allt þetta, varð hann reiður mjög, en hann vildi eigi hryggja Amnon son sinn, því að hann elskaði hann, af því að hann var frumgetningur hans.

22 En Absalon mælti eigi orð við Amnon, hvorki illt né gott, því að Absalon hataði Amnon fyrir það, að hann hafði svívirt Tamar systur hans.

23 Tveimur árum síðar bar svo við, að Absalon lét klippa sauði sína í Baal Hasór, sem er hjá Efraím, og bauð hann til öllum sonum konungs.

24 Absalon gekk og fyrir konung og mælti: "Sjá, þjónn þinn lætur nú klippa sauði sína, og bið ég að konungurinn og þjónar hans komi með þjóni þínum."

25 En konungur sagði við Absalon: "Nei, sonur minn, eigi skulum vér allir fara, svo að vér gjörum þér eigi átroðning." Og þótt Absalon legði að honum, vildi hann ekki fara, en bað hann vel fara.

26 Þá sagði Absalon: "Fyrst þú vilt ekki fara, þá leyf þú að Amnon bróðir minn fari með oss." Konungur svaraði honum: "Hví skal hann með þér fara?"

27 En Absalon lagði fast að honum. Lét hann þá Amnon fara með honum og alla konungssonu. Absalon gjörði veislu, svo sem konungsveisla væri.

28 Og hann lagði svo fyrir sveina sína: "Gefið gætur, þegar Amnon gjörist hreifur af víninu og ég segi við yður: ,Drepið Amnon!` _ þá skuluð þér vega hann. Óttist ekki, það er ég, sem lagt hefi þetta fyrir yður. Verið hugrakkir og sýnið karlmennsku."

29 Og sveinar Absalons gjörðu svo við Amnon sem Absalon hafði fyrir þá lagt. Þá spruttu allir synir konungs upp, stigu á bak múlum sínum og flýðu.

30 Meðan þeir voru á leiðinni, kom sú fregn til konungs, að Absalon hefði drepið alla sonu konungs og að enginn þeirra væri eftir skilinn.

31 Þá stóð konungur upp og reif sundur klæði sín og lagðist á jörðu, og allir þjónar hans, þeir er stóðu umhverfis hann, rifu sundur klæði sín.

32 Þá tók Jónadab, sonur Símea, bróður Davíðs, til máls og sagði: "Herra minn, hugsa þú ekki, að þeir hafi drepið alla hina ungu menn, sonu konungsins, því að Amnon einn er dauður, enda vissi á illt svipurinn, sem legið hefir um munn Absalons, síðan er Amnon nauðgaði Tamar systur hans.

33 Minn herra konungurinn láti þetta því eigi á sig fá og hugsi ekki, að allir synir konungsins séu dauðir. Nei, Amnon einn er dauður."

34 Absalon flýði. En er varðsveininum varð litið upp, sá hann margt manna koma ofan fjallið á veginum til Hórónaím. Varðmaðurinn kom og sagði konungi frá og mælti: "Ég sá menn koma af veginum til Hórónaím niður undan fjallinu."

35 Þá sagði Jónadab við konung: "Sjá, þar koma synir konungsins. Svo hefir allt til gengið, sem þjónn þinn sagði."

36 Og er hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá komu synir konungs og grétu hástöfum. Konungur og þjónar hans tóku þá að gráta ákaflega.

37 Absalon flýði og fór til Talmaí Ammíhúðssonar konungs í Gesúr. Og konungur harmaði son sinn alla daga.

38 Absalon flýði og fór til Gesúr og var þar í þrjú ár.

39 En konungur þráði að fara til Absalons, því að hann hafði huggast látið yfir því, að Amnon var dáinn.

Síðara bréf Páls til Kori 6

Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis.

Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.

Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti.

Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist,

undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum,

með grandvarleik, með þekkingu, með langlyndi, með góðvild, með heilögum anda, með falslausum kærleika,

með sannleiksorði, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar,

í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi. Vér erum álitnir afvegaleiðendur, en erum sannorðir,

óþekktir, en þó alþekktir, komnir í dauðann og samt lifum vér, tyftaðir og þó ekki deyddir,

10 hryggir, en þó ávallt glaðir, fátækir, en auðgum þó marga, öreigar, en eigum þó allt.

11 Frjálslega tölum vér við yður, Korintumenn. Rúmt er um yður í hjarta voru.

12 Ekki er þröngt um yður hjá oss, en í hjörtum yðar er þröngt.

13 En svo að sama komi á móti, _ ég tala eins og við börn mín _, þá látið þér líka verða rúmgott hjá yður.

14 Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur?

15 Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?

16 Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.

17 Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér

18 og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir Drottinn alvaldur.

Esekíel 20

20 Á sjöunda árinu, tíunda dag hins fimmta mánaðar, komu nokkrir af öldungum Ísraels til þess að ganga til frétta við Drottin, og settust niður frammi fyrir mér.

Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: "Mannsson, tala þú til öldunga Ísraels og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Þér eruð komnir til þess að ganga til frétta við mig? Svo sannarlega sem ég lifi vil ég eigi láta yður ganga til frétta við mig, _ segir Drottinn Guð.

En viljir þú dæma þá, viljir þú dæma, mannsson, þá leið þeim fyrir sjónir svívirðingar feðra þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Þegar ég útvaldi Ísrael, vann ég niðjum Jakobs húss eið og gjörði mig þeim kunnan á Egyptalandi. Þá vann ég þeim eið og sagði: Ég er Drottinn, Guð yðar!

Þann dag vann ég þeim eið að því að leiða þá burt af Egyptalandi til þess lands, er ég hafði kannað fyrir þá, er flyti í mjólk og hunangi, _ það er prýði meðal landanna.

Og ég sagði við þá: Sérhver yðar varpi burt þeim viðurstyggðum, er þér hafið fyrir augum, og saurgið yður ekki á skurðgoðum Egyptalands. Ég er Drottinn, Guð yðar.

En þeir voru mér mótsnúnir og vildu eigi hlýða mér. Þeir vörpuðu eigi burt viðurstyggðum þeim, er þeir höfðu fyrir augum, og þeir yfirgáfu eigi skurðgoð Egyptalands. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í Egyptalandi.

En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er þeir bjuggu meðal, því að í augsýn þeirra hafði ég gjört mig þeim kunnan, til þess að flytja þá burt af Egyptalandi.

10 Og ég flutti þá burt af Egyptalandi og leiddi þá inn í eyðimörkina.

11 Og ég gaf þeim setningar mínar og kunngjörði þeim lög mín, þau er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa.

12 Ég gaf þeim og hvíldardaga mína, að þeir væru sambandstákn milli mín og þeirra, til þess að menn skyldu viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá, sem helgar þá.

13 En Ísraelsmenn voru mér mótsnúnir í eyðimörkinni. Þeir breyttu eigi eftir setningum mínum og höfnuðu lögum mínum, þeim er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa, og hvíldardaga mína vanhelguðu þeir stórum. Þá hugði ég að úthella reiði yfir þá í eyðimörkinni til þess að gjöreyða þeim.

14 En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á að ég flutti þá burt.

15 Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi ekki leiða þá inn í landið, sem ég hafði gefið þeim og flýtur í mjólk og hunangi, _ það er prýði meðal landanna _,

16 af því að þeir höfnuðu lögum mínum og breyttu ekki eftir boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína, því að hjarta þeirra elti skurðgoð þeirra.

17 En ég kenndi í brjósti um þá meir en svo að ég vildi tortíma þeim, og gjörði því ekki út af við þá í eyðimörkinni.

18 Og ég sagði við sonu þeirra í eyðimörkinni: ,Breytið ekki eftir siðvenjum feðra yðar og haldið eigi lög þeirra og saurgið yður ekki á skurðgoðum þeirra.

19 Ég er Drottinn, Guð yðar, lifið eftir boðorðum mínum og haldið lög mín og breytið eftir þeim.

20 Og haldið helga hvíldardaga mína, og séu þeir sambandstákn milli mín og yðar, til þess að menn viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð yðar.`

21 En synirnir voru mér mótsnúnir: Þeir lifðu ekki eftir boðorðum mínum og héldu ekki lög mín, svo að þeir breyttu eftir þeim, sem maðurinn þó á að halda, til þess að hann megi lifa; hvíldardaga mína vanhelguðu þeir. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í eyðimörkinni.

22 En ég dró höndina aftur að mér og gjörði það ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á, að ég flutti þá burt.

23 Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi tvístra þeim meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin,

24 af því að þeir héldu ekki lög mín og höfnuðu boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína og höfðu ekki augun af skurðgoðum feðra sinna.

25 Ég gaf þeim þá og boðorð, sem ekki voru holl, og lög, er þeim eigi voru til lífs lagin.

26 Ég lét þá saurga sig á fórnargjöfum sínum, á því að brenna í eldi alla frumburði, til þess að þeim skyldi ofbjóða, svo að þeir yrðu að kannast við, að ég er Drottinn.

27 Tala þú þess vegna til Ísraelsmanna, mannsson, og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Enn fremur hafa feður yðar smánað mig með þessu, að þeir rufu trúnað við mig.

28 Þegar ég hafði flutt þá inn í landið, sem ég hafði heitið þeim með eiði að gefa þeim, og þeir komu einhvers staðar auga á háa hæð og þéttlaufgað tré, þá slátruðu þeir þar fórnum sínum og báru þar fram hinar andstyggilegu gjafir sínar og létu þar þægilegan ilm sinn upp stíga og dreyptu þar dreypifórnum sínum.

29 Þá sagði ég við þá: ,Hvaða blóthæð er þetta, sem þér farið upp á?` Fyrir því er hún kölluð ,hæð` allt til þessa dags.

30 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Viljið þér saurga yður á sama hátt og feður yðar og drýgja hór með viðurstyggðum þeirra?

31 Já, með því að bera fram fórnargjafir yðar, með því að láta sonu yðar ganga gegnum eld, saurgið þér yður á öllum skurðgoðum yðar allt til þessa dags, og ég ætti að láta yður ganga til frétta við mig, þér Ísraelsmenn? Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, vil ég ekki láta yður ganga til frétta við mig.

32 Ekki skal það heldur verða, sem yður hefir til hugar komið. Þér hugsið: ,Vér viljum vera sem aðrar þjóðir, sem kynslóðir heiðnu landanna, og tilbiðja stokka og steina.`

33 Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ skal ég ríkja yfir yður með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift.

34 Og ég mun flytja yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift,

35 og leiða yður inn í eyðimörkina milli þjóðanna og ganga þar í dóm við yður augliti til auglitis.

36 Eins og ég gekk í dóm við feður yðar í Egyptalands eyðimörk, svo mun ég og ganga í dóm við yður, _ segir Drottinn Guð.

37 Ég mun láta yður renna fram hjá mér undir stafnum og láta yður gangast undir skyldukvöð sáttmálans.

38 Og ég skil þá frá yður, er gjörðust mér mótsnúnir og rufu trúnað við mig. Ég vil flytja þá burt úr því landi, þar sem þeir dvöldust sem útlendingar, en inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, svo að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

39 En þér, Ísraelsmenn, _ svo segir Drottinn Guð: Fari hver yðar og þjóni skurðgoðum sínum. En eftir þetta skuluð þér vissulega hlýða á mig og eigi framar vanhelga mitt heilaga nafn með fórnargjöfum yðar og skurðgoðum.

40 Því að á mínu heilaga fjalli, á fjallhnjúki Ísraels, segir Drottinn Guð, munu allir Ísraelsmenn, eins og þeir eru margir til, þjóna mér. Þar mun ég taka þeim náðarsamlega, og þar mun ég girnast fórnargjafir yðar og frumgróðafórnir ásamt öllu, sem þér helgið.

41 Ég mun taka yður náðarsamlega sem þægilegum ilm, þegar ég flyt yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, og þá skal ég sýna mig heilagan á yður í augsýn þjóðanna.

42 Og þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég leiði yður inn í Ísraelsland, inn í landið, sem ég sór að gefa feðrum yðar.

43 Þar munuð þér þá minnast breytni yðar og allra verka yðar, er þér saurguðuð yður á, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum allra þeirra illverka, er þér hafið framið.

44 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég fer svo með yður vegna nafns míns, en fer ekki með yður eftir yðar vondu breytni og yðar glæpsamlegu verkum, Ísraelsmenn, _ segir Drottinn Guð."

45 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

46 "Mannsson, horf þú í suðurátt og lát orð þín streyma mót hádegisstað og spá móti skóginum í Suðurlandinu,

47 og seg við skóginn í Suðurlandinu: Heyr orð Drottins! Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég kveiki eld í þér, sem eyða skal hverju grænu tré og hverjum þurrum viði, sem í þér er. Eldsloginn skal ekki slokkna, og öll andlit skulu sviðna af honum frá suðri til norðurs.

48 Og allir menn skulu sjá, að ég, Drottinn, hefi kveikt hann, hann skal ekki slokkna."

49 Þá sagði ég: "Æ, Drottinn Guð! Þeir segja um mig: ,Talar hann ekki ávallt í ráðgátum?"`

Sálmarnir 66-67

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society