Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 12

12 Drottinn sendi Natan til Davíðs, og Natan kom til hans og sagði við hann: "Tveir menn voru í sömu borg. Annar var ríkur, hinn fátækur.

Hinn ríki átti fjölda sauða og nauta,

en hinn fátæki átti ekki nema eitt gimbrarlamb, sem hann hafði keypt og alið. Það óx upp hjá honum og með börnum hans, það át af mat hans og drakk af bikar hans og svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans.

Þá kom gestur til ríka mannsins, og hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til þess að matreiða fyrir ferðamanninn, sem til hans var kominn, heldur tók gimbrarlamb fátæka mannsins og matbjó það fyrir manninn, sem kominn var til hans."

Þá reiddist Davíð manninum ákaflega og sagði við Natan: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Sá maður, sem slíkt hefir aðhafst, er dauðasekur,

og lambið skal hann borga sjöfaldlega, fyrst hann gjörði slíkt og hafði enga meðaumkun."

En Natan sagði við Davíð: "Þú ert maðurinn! Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi smurt þig til konungs yfir Ísrael, og ég hefi frelsað þig af hendi Sáls,

og ég gaf þér hús herra þíns og lagði konur herra þíns upp að brjósti þér, og ég hefi fengið þér Ísraels hús og Júda _ og hefði það verið of lítið, mundi ég hafa bætt einhverju við þig.

Hví hefir þú fyrirlitið orð Drottins með því að aðhafast það, sem honum mislíkar? Úría Hetíta hefir þú fellt með sverði. Konu hans hefir þú tekið þér fyrir konu, en sjálfan hann hefir þú myrt með sverði Ammóníta.

10 Fyrir því skal sverðið aldrei víkja burt frá húsi þínu, sakir þess að þú fyrirleist mig og tókst konu Úría Hetíta þér fyrir konu.

11 Svo segir Drottinn: Sjá, ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu og tek konur þínar fyrir augunum á þér og gef þær öðrum manni, svo að hann hvíli hjá konum þínum að sólinni ásjáandi.

12 Þú hefir gjört þetta með launung, en ég mun framkvæma þetta í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar."

13 Þá sagði Davíð við Natan: "Ég hefi syndgað móti Drottni." Natan sagði við Davíð: "Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja.

14 En sakir þess, að þú hefir smánað Drottin með athæfi þínu, þá skal sá sonur, sem þér er fæddur, vissulega deyja."

15 Síðan fór Natan heim til sín. Drottinn sló barnið, sem kona Úría hafði fætt Davíð, svo að það varð sjúkt.

16 Og Davíð leitaði Guðs vegna sveinsins og fastaði, og er hann kom heim, lagðist hann til svefns á gólfinu um nóttina.

17 Þá gengu elstu mennirnir í húsi hans til hans til þess að fá hann til að rísa upp af gólfinu, en hann vildi það ekki og neytti ekki matar með þeim.

18 En á sjöunda degi dó barnið. Og þjónar Davíðs þorðu ekki að segja honum, að barnið væri dáið, því að þeir hugsuðu með sér: "Sjá, meðan barnið lifði, töluðum vér við hann, en hann ansaði oss ekki. Hvernig ættum vér þá nú að segja við hann: ,Barnið er dáið!` Hann kynni að fremja voðaverk."

19 En Davíð sá, að þjónar hans voru að hvísla hver að öðrum, og skildi hann þá, að barnið væri dáið. Og Davíð sagði við þjóna sína: "Er barnið dáið?" og þeir sögðu: "Já, það er dáið."

20 Þá stóð Davíð upp af gólfinu, laugaðist og smurði sig og hafði klæðaskipti. Síðan gekk hann í hús Drottins og baðst fyrir og fór því næst heim til sín og bað um mat. Var honum þá borinn matur, og hann neytti.

21 Þá sögðu þjónar hans við hann: "Hvað er þetta, sem þú hefir gjört? Meðan barnið lifði, fastaðir þú og grést vegna þess, en þegar barnið var dáið, stóðst þú upp og mataðist?"

22 Hann svaraði: "Meðan barnið var á lífi, fastaði ég og grét, því að ég hugsaði: ,Hver veit nema Drottinn miskunni mér, og barnið fái að lifa?`

23 En fyrst það er nú dáið, hvers vegna ætti ég þá að fasta? Mun ég geta látið það hverfa aftur? Ég fer til þess, en það kemur eigi aftur til mín."

24 Davíð huggaði Batsebu, konu sína, og hann gekk inn til hennar og lagðist með henni, og hún ól son. Og hann nefndi hann Salómon. Drottinn elskaði hann

25 og lét Natan spámann flytja þau boð, að hann skyldi heita Jedídjah vegna Drottins.

26 Jóab herjaði á Rabba, borg Ammóníta, og vann lágborgina.

27 Og hann gjörði menn til Davíðs og sagði: "Ég hefi herjað á Rabba og þegar unnið lágborgina.

28 Safna nú saman því sem eftir er af liðinu og sest um borgina og vinn hana, svo að ég vinni ekki borgina og hún verði ekki kennd við mig."

29 Þá safnaði Davíð saman öllu liðinu og fór til Rabba og herjaði á hana og vann hana.

30 Hann tók kórónu Milkóms af höfði honum. Hún vó talentu gulls, og í henni var dýrindis steinn. Davíð setti hana á höfuð sér og flutti mjög mikið herfang burt úr borginni.

31 Hann flutti og burt fólkið, sem þar var, og setti það við sagirnar, járnfleygana og járnaxirnar og lét það vinna að tígulsteinagjörð. Svo fór hann með allar borgir Ammóníta. Síðan fór Davíð ásamt öllu liðinu aftur heim til Jerúsalem.

Síðara bréf Páls til Kori 5

Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört.

Á meðan andvörpum vér og þráum að íklæðast húsi voru frá himnum.

Þegar vér íklæðumst því, munum vér ekki standa uppi naktir.

En á meðan vér erum í tjaldbúðinni, stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur íklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu.

En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant.

Vér erum því ávallt hughraustir, þótt vér vitum, að meðan vér eigum heima í líkamanum erum vér að heiman frá Drottni,

því að vér lifum í trú, en sjáum ekki.

Já, vér erum hughraustir og langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni.

Þess vegna kostum vér kapps um, hvort sem vér erum heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegir.

10 Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.

11 Með því að vér nú vitum, hvað það er að óttast Drottin, leitumst vér við að sannfæra menn. En Guði erum vér kunnir orðnir, já, ég vona, að vér séum einnig kunnir orðnir yður í hjörtum yðar.

12 Ekki erum vér enn að mæla með sjálfum oss við yður, heldur gefum vér yður tilefni til að miklast af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er miklast af hinu ytra, en ekki af hjartaþelinu.

13 Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar.

14 Kærleiki Krists knýr oss,

15 því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.

16 Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.

17 Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.

18 Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar.

19 Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.

20 Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.

21 Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.

Esekíel 19

19 Kyrja þú upp harmljóð yfir höfðingjum Ísraels

og seg: Hvílík ljónynja var móðir þín meðal ljóna. Hún lá meðal ungra ljóna, ól upp ljónshvolpa sína.

Og hún kom upp einum af hvolpum sínum, hann varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn.

Þá höfðu þjóðirnar útboð í móti honum, hann var veiddur í gröf þeirra, og þeir teymdu hann á nasahring til Egyptalands.

En er hún sá, að hún hafði breytt heimskulega, að von hennar var horfin, tók hún annan af hvolpum sínum og gjörði hann að ungljóni.

Og hann gekk meðal ljóna og varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn.

Og hann gjörði margar meðal þeirra að ekkjum og eyddi borgir þeirra, svo að landið fylltist skelfingu og allt, sem í því var, vegna öskurs hans.

Þá settu þjóðir sig móti honum, úr héruðunum umhverfis, og köstuðu neti sínu yfir hann, í gröf þeirra varð hann veiddur.

Og þeir drógu hann á nasahring í búr og fluttu hann til Babelkonungs og settu hann í dýflissu, til þess að rödd hans heyrðist ekki framar á Ísraels fjöllum.

10 Móðir þín var eins og vínviður, sem gróðursettur var hjá vatni. Hann varð ávaxtarsamur og fjölgreinóttur af vatnsgnóttinni.

11 Þá spratt fram sterk grein og varð veldissproti og óx hátt upp í milli þéttra greina og var frábær fyrir hæðar sakir, því að angar hennar voru svo margir.

12 Þá var vínviðinum rykkt upp í heift og varpað til jarðar, og austanvindurinn skrældi ávöxt hans. Hin sterka grein hans skrælnaði, eldur eyddi henni.

13 Og nú er hann gróðursettur í eyðimörk, í þurru og vatnslausu landi.

14 Og eldur braust út frá grein hans, sem eyddi öngum hans, og engin sterk grein var framar á honum, enginn veldissproti. Þetta eru harmljóð og voru sungin sem harmljóð.

Sálmarnir 64-65

64 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.

Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna,

er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng

til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.

Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"

Þeir upphugsa ranglæti: "Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!" því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.

Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir,

og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.

10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans.

11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.

65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.

Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.

Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.

Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.

Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,

þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,

þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,

svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.

10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.

13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.

14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society