Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 11

11 Svo bar til árið eftir, um það leyti sem konungar eru vanir að fara í hernað, að Davíð sendi Jóab af stað með menn sína og allan Ísrael. Þeir herjuðu á Ammóníta og settust um Rabba, en Davíð sat heima í Jerúsalem.

Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur.

Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta."

Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.

En konan var þunguð orðin, og hún sendi og lét Davíð vita það og mælti: "Ég er með barni."

Davíð gjörði þá Jóab boð: "Sendu Úría Hetíta til mín." Og Jóab sendi Úría til Davíðs.

En er Úría kom á hans fund, spurði Davíð, hvernig Jóab liði og hvernig honum liði og hvernig hernaðurinn gengi.

Því næst sagði Davíð við Úría: "Gakk þú nú heim til þín og lauga fætur þína." Gekk Úría þá burt úr konungshöllinni, og var gjöf frá konungi borin á eftir honum.

En Úría lagðist til hvíldar fyrir dyrum konungshallarinnar hjá öðrum þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.

10 Menn sögðu Davíð frá því og mæltu: "Úría er ekki farinn heim til sín." Þá sagði Davíð við Úría: "Þú ert kominn úr ferð, _ hvers vegna ferð þú ekki heim til þín?"

11 Þá sagði Úría við Davíð: "Örkin og Ísrael og Júda búa í laufskálum, og herra minn Jóab og menn herra míns hafast við úti á bersvæði, _ og þá ætti ég að fara heim til mín til þess að eta og drekka og hvíla hjá konu minni? Svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir, það gjöri ég ekki."

12 Þá sagði Davíð við Úría: "Vertu þá hér líka í dag, en á morgun gef ég þér fararleyfi." Var Úría þann dag í Jerúsalem.

13 Daginn eftir hafði Davíð hann í boði sínu, og hann át og drakk með honum, og hann gjörði hann drukkinn. En um kvöldið gekk hann burt og lagðist til hvíldar hjá þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.

14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría.

15 Í bréfinu skrifaði hann svo: "Setjið Úría fremstan í bardagann, þar sem hann er harðastur, og hörfið aftur undan frá honum, svo að hann verði ofurliði borinn og falli."

16 Jóab sat um borgina og skipaði nú Úría þar til orustu, sem hann vissi að hraustir menn voru fyrir.

17 Gjörðu borgarmenn síðan úthlaup og börðust við Jóab. Féllu þá nokkrir af liðinu, af þjónum Davíðs. Þá lét og Úría Hetíti líf sitt.

18 Þá sendi Jóab mann og lét segja Davíð, hvernig farið hefði í orustunni,

19 og hann lagði svo fyrir sendimanninn: "Þegar þú hefir sagt konungi sem greinilegast frá bardaganum,

20 og konungur þá verður reiður og segir við þig: ,Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að þeir mundu skjóta á yður ofan af borgarveggnum?

21 Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?` _ þá skalt þú segja: ,Þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið."`

22 Síðan fór sendimaðurinn og kom og flutti Davíð allt, sem Jóab hafði fyrir hann lagt, hvernig farið hefði í orustunni. Varð þá Davíð reiður Jóab og sagði við sendimanninn: "Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að það mundi verða kastað á yður ofan af borgarveggnum? Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?"

23 Þá sagði sendimaðurinn við Davíð: "Mennirnir voru oss yfirsterkari og voru komnir í móti oss út á bersvæði. Fyrir því urðum vér að sækja að þeim allt að borgarhliðinu.

24 En þá skutu skotmennirnir á þjóna þína niður af borgarveggnum, og féllu þá nokkrir af mönnum konungs, og þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið."

25 Þá sagði Davíð við sendimanninn: "Svo skalt þú segja Jóab: ,Láttu þetta ekki á þig fá, því að sverðið verður ýmist þessum eða hinum að bana. Sæk þú vasklega að borginni og brjót hana` _ og teldu þannig hug í hann."

26 En er kona Úría frétti, að maður hennar Úría var fallinn, harmaði hún bónda sinn.

27 En þegar sorgardagarnir voru liðnir, sendi Davíð og tók hana heim til sín, og hún varð kona hans og fæddi honum son. En Drottni mislíkaði það, sem Davíð hafði gjört.

Síðara bréf Páls til Kori 4

Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.

Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.

En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.

Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.

Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.

Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.

En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.

Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,

ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.

10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.

11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.

12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.

13 Vér höfum sama anda trúarinnar sem skrifað er um í ritningunni: "Ég trúði, þess vegna talaði ég." Vér trúum líka og þess vegna tölum vér.

14 Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður.

15 Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar.

16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.

17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.

18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.

Esekíel 18

18 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Hvað kemur til, að þér hafið þetta orðtak um Ísraelsland: ,Feðurnir átu súr vínber, og tennur barnanna urðu sljóar`?

Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skuluð þér ekki framar hafa þetta orðtak í Ísrael.

Sjá, mínar eru sálirnar allar, sál föðurins eins og sál sonarins, mínar eru þær. Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.

Hver sá maður, sem er ráðvandur og iðkar rétt og réttlæti,

sem etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns og kemur ekki nærri konu meðan hún hefir klæðaföll,

sem engan undirokar og skilar aftur skuldaveði sínu, tekur ekki neitt frá öðrum með ofbeldi, sem gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum,

sem lánar ekki fé gegn leigu og tekur ekki vexti af lánsfé, sem heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, og dæmir rétt í deilumálum manna,

sem breytir eftir boðorðum mínum og varðveitir skipanir mínar, með því að gjöra það sem rétt er, _ hann er ráðvandur og skal vissulega lifa, segir Drottinn Guð.

10 En eignist hann ofbeldisfullan son, sem úthellir blóði og fremur ranglæti,

11 sem ekki fetar í fótspor síns ráðvanda föður, heldur etur fórnarkjöt á fjöllunum og flekkar konu náunga síns,

12 undirokar volaða og snauða, tekur frá öðrum með ofbeldi, skilar ekki aftur veði og hefur augu sín til skurðgoða, fremur svívirðingar,

13 lánar fé gegn leigu og tekur vexti af lánsfé, _ ætti hann að halda lífi? Hann skal ekki lífi halda! Af því að hann hefir framið allar þessar svívirðingar, skal hann vissulega deyja. Blóð hans komi yfir hann!

14 En eignist hann son, sem sér allar þær syndir, sem faðir hans drýgði, og óttast og breytir ekki eftir þeim,

15 etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns

16 og undirokar engan, tekur ekkert veð og tekur ekkert frá öðrum með ofbeldi, gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum,

17 heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, tekur ekki vexti né fjárleigu, heldur skipanir mínar og breytir eftir boðorðum mínum, _ sá skal ekki deyja sakir misgjörða föður síns, heldur skal hann vissulega lífi halda.

18 En af því að faðir hans hefir beitt kúgun og tekið frá öðrum með ofbeldi og gjört það, sem ekki var gott, meðal þjóðar sinnar, þá hlýtur hann að deyja fyrir misgjörð sína.

19 Og þá segið þér: ,Hví geldur sonurinn ekki misgjörðar föður síns?` Þar sem þó sonurinn iðkaði rétt og réttlæti, varðveitti öll boðorð mín og breytti eftir þeim, skal hann vissulega lífi halda.

20 Sá maður, sem syndgar, hann skal deyja. Sonur skal eigi gjalda misgjörðar föður síns og faðir skal eigi gjalda misgjörðar sonar síns. Ráðvendni hins ráðvanda skal koma niður á honum og óguðleiki hins óguðlega skal koma niður á honum.

21 Ef hinn óguðlegi hverfur frá öllum syndum sínum, sem hann hefir drýgt, og heldur öll mín boðorð og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann vissulega lífi halda og ekki deyja.

22 Öll hans afbrot, sem hann hefir drýgt, skulu honum þá eigi tilreiknuð verða. Vegna ráðvendninnar, sem hann hefir iðkað, skal hann lífi halda.

23 Ætli ég hafi þóknun á dauða hins óguðlega _ segir Drottinn Guð _ og ekki miklu fremur á því, að hann hverfi frá sinni illu breytni og haldi lífi?

24 En hverfi hinn ráðvandi frá ráðvendni sinni og fremji það, sem rangt er, í líkingu við allar þær svívirðingar, er hinn óguðlegi hefir framið, þá skal öll sú ráðvendni, er hann hefir iðkað, ekki til álita koma. Fyrir það tryggðrof, sem hann hefir sýnt, og þá synd, sem hann hefir drýgt, fyrir þær skal hann deyja.

25 En er þér segið: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` _ þá heyrið, þér Ísraelsmenn: Ætli það sé mitt atferli, sem ekki er rétt? Ætli það sé ekki fremur yðar atferli, sem ekki er rétt?

26 Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og gjörir það, sem rangt er, þá hlýtur hann að deyja vegna þess. Vegna glæps þess, er hann hefir framið, hlýtur hann að deyja.

27 En þegar óguðlegur maður hverfur frá óguðleik sínum, sem hann hefir í frammi haft, og iðkar rétt og réttlæti, þá mun hann bjarga lífi sínu.

28 Því að hann sneri sér frá öllum syndum sínum, er hann hafði framið, fyrir því mun hann vissulega lífi halda og ekki deyja.

29 Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` _ ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt?

30 Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar.

31 Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn?

32 Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, _ segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa."

Sálmarnir 62-63

62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.

Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.

Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.

Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?

Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]

Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.

Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.

Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.

Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]

10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.

11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.

12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."

13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.

63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.

Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.

Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,

því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.

Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.

Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,

þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.

Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.

Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.

10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.

11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.

12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society