Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 8-9

Eftir þetta vann Davíð sigur á Filistum og braut þá undir sig og tók tauma höfuðstaðarins úr höndum Filista.

Hann vann og sigur á Móabítum og mældi þá með vað, það er að segja, hann lét þá leggjast niður á jörðina og mældi tvo vaði til lífláts og eina vaðlengd til að halda lífi. Þannig urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs.

Davíð vann og sigur á Hadadeser Rehóbssyni, konungi í Sóba, þá er hann fór leiðangur til að ná aftur ríki við Efrat.

Vann Davíð af honum eitt þúsund og sjö hundruð riddara og tuttugu þúsundir fótgönguliðs. Lét Davíð skera sundur hásinarnar á öllum stríðshestunum og hélt aðeins hestum fyrir hundrað stríðsvagna eftir.

Og er Sýrlendingar frá Damaskus komu til liðs við Hadadeser, konung í Sóba, þá felldi Davíð tuttugu og tvö þúsund manns af Sýrlendingum.

Og Davíð setti landstjóra á Sýrlandi, því er kennt er við Damaskus, og urðu Sýrlendingar skattskyldir þegnar Davíðs. Þannig veitti Drottinn Davíð sigur, hvert sem hann fór.

Davíð tók og hina gullnu skjöldu, er þjónar Hadadesers höfðu borið, og flutti þá til Jerúsalem.

Auk þess tók Davíð konungur afar mikið af eir í Beta og Berótaj, borgum Hadadesers.

Þegar Tóú, konungur í Hamat, frétti að Davíð hefði lagt að velli allan her Hadadesers,

10 þá sendi Tóú Hadóram son sinn á fund Davíðs konungs til þess að heilsa á hann og árna honum heilla, er hann hafði barist við Hadadeser og unnið sigur á honum _ því að Tóú átti í ófriði við Hadadeser _, og hafði hann með sér gripi af silfri, gulli og eiri.

11 Gripina helgaði Davíð konungur einnig Drottni, ásamt silfri því og gulli, er hann hafði helgað frá öllum þeim þjóðum, er hann hafði undirokað:

12 frá Edóm, Móab, Ammónítum, Filistum, Amalek og af herfangi Hadadesers Rehóbssonar, konungs í Sóba.

13 Davíð jók orðstír sinn, þá er hann sneri aftur og hafði unnið sigur á Sýrlendingum, með því að vinna sigur á Edómítum í Saltdalnum, átján þúsund manns.

14 Og hann setti landstjóra í Edóm. Um allt Edóm setti hann landstjóra, og þannig urðu allir Edómítar þegnar Davíðs. En Drottinn veitti Davíð sigur, hvert sem hann fór.

15 Davíð ríkti yfir öllum Ísrael og lét alla þjóð sína njóta laga og réttar.

16 Jóab Serújuson var fyrir hernum, og Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari.

17 Sadók Ahítúbsson og Ahímelek Abjatarsson voru prestar og Seraja kanslari.

18 Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum, og synir Davíðs voru prestar.

Davíð sagði: "Er nú nokkur maður eftir orðinn af húsi Sáls? Honum vil ég miskunn auðsýna fyrir sakir Jónatans."

Af húsi Sáls var til maður, er Síba hét. Hann var kallaður á fund Davíðs. Og konungur sagði við hann: "Ert þú Síba?" Hann svaraði: "Þinn þjónn!"

Þá mælti konungur: "Er nokkur eftir af húsi Sáls, að ég megi auðsýna honum miskunn Guðs?" Síba sagði við konung: "Enn er á lífi sonur Jónatans og er lami á báðum fótum."

Þá sagði konungur við hann: "Hvar er hann?" Síba sagði við konung: "Hann er í húsi Makírs Ammíelssonar í Lódebar."

Þá sendi Davíð konungur og lét sækja hann í hús Makírs Ammíelssonar í Lódebar.

Og Mefíbóset Jónatansson, Sálssonar, gekk fyrir Davíð, féll fram á ásjónu sína og laut honum. Og Davíð sagði: "Mefíbóset!" Hann svaraði: "Hér er þjónn þinn."

Þá mælti Davíð til hans: "Ver þú óhræddur, því að ég vil auðsýna þér miskunn fyrir sakir Jónatans, föður þíns, og fá þér aftur allar jarðeignir Sáls forföður þíns, og þú skalt jafnan eta við mitt borð."

Þá laut hann og mælti: "Hvað er þjónn þinn þess, að þú skiptir þér af dauðum hundi, eins og mér?"

Síðan kallaði konungur á Síba, þjón Sáls, og mælti til hans: "Allt sem Sál átti, og allt sem hús hans átti gef ég syni herra þíns.

10 Skalt þú nú yrkja landið fyrir hann ásamt sonum þínum og þrælum og hirða af því, svo að sonur herra þíns hafi fæðu og megi eta. En Mefíbóset, sonur herra þíns, skal jafnan eta við mitt borð." Og Síba átti fimmtán sonu og tuttugu þræla.

11 Síba sagði við konung: "Þjónn þinn mun gjöra að öllu svo sem minn herra konungurinn hefir boðið þjóni sínum." Og Mefíbóset át við borð Davíðs, svo sem væri hann einn konungssona.

12 Mefíbóset átti ungan son, sem Míka hét. Allir sem bjuggu í húsi Síba, voru þjónar Mefíbósets.

13 En Mefíbóset bjó í Jerúsalem, því að hann át jafnan við borð konungs. Hann var haltur á báðum fótum.

Síðara bréf Páls til Kori 2

En það ásetti ég mér, að koma ekki aftur til yðar með hryggð.

Ef ég hryggi yður, hver er þá sá sem gleður mig? Sá sem ég er að hryggja?

Ég skrifaði einmitt þetta til þess að þeir, sem áttu að gleðja mig, skyldu ekki hryggja mig, er ég kæmi. Ég hef það traust til yðar allra, að gleði mín sé gleði yðar allra.

Af mikilli þrengingu og hjartans trega skrifaði ég yður með mörgum tárum, ekki til þess að þér skylduð hryggjast, heldur til þess að þér skylduð komast að raun um þann kærleika, sem ég ber til yðar í svo ríkum mæli.

En ef nokkur hefur orðið til þess að valda hryggð, þá hefur hann ekki hryggt mig, heldur að vissu leyti _ að ég gjöri ekki enn meira úr því _ hryggt yður alla.

Nægileg er þeim manni refsing sú, sem hann hefur hlotið af yður allflestum.

Því ættuð þér nú öllu heldur að fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð.

Þess vegna bið ég yður að sýna honum kærleika í reynd.

Því að í þeim tilgangi skrifaði ég yður, til þess að komast að raun um staðfestu yðar, hvort þér væruð hlýðnir í öllu.

10 En hverjum sem þér fyrirgefið, honum fyrirgef ég líka. Og það sem ég hef fyrirgefið, hafi ég þurft að fyrirgefa nokkuð, þá hefur það verið vegna yðar fyrir augliti Krists,

11 til þess að vér yrðum ekki vélaðir af Satan, því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.

12 En er ég kom til Tróas til að boða fagnaðarerindið um Krist og mér stóðu þar opnar dyr í þjónustu Drottins,

13 þá hafði ég enga eirð í mér, af því að ég hitti ekki Títus, bróður minn, svo að ég kvaddi þá og fór til Makedóníu.

14 En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.

15 Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast;

16 þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þessa hæfur?

17 Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.

Esekíel 16

16 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, leið Jerúsalem fyrir sjónir svívirðingar hennar

og seg: Svo segir Drottinn Guð við Jerúsalem: Að uppruna og ætterni ert þú frá Kanaanlandi. Faðir þinn var Amoríti og móðir þín Hetíti.

Og það er að segja af fæðing þinni, að þann dag, sem þú fæddist, var hvorki skorið á naflastreng þinn né þú lauguð í vatni, ekki núin salti og ekki reifum vafin.

Enginn renndi til þín meðaumkunarauga til þess að veita þér nokkurt eitt af þessu og aumkast yfir þig, heldur var þér kastað út á víðavang _ svo lítils var líf þitt metið daginn sem þú fæddist.

Þá gekk ég fram á þig og sá þig vera að brölta í blóði þínu og sagði við þig: ,Þú, sem liggur þarna í blóði þínu, halt þú lífi!`

Og þú óxt eins og grös vallarins, og þú stækkaðir og varðst mikil vexti og hin fríðasta sýnum. Brjóstin voru orðin stinn og hár þitt óx mjög, en þó varstu ber og nakin.

Þá varð mér gengið fram á þig og ég sá þig, og var þá þinn tími ástarinnar tími. Ég breiddi yfir þig ábreiðu mína og huldi nekt þína, ég trúlofaðist þér og gjörði við þig sáttmála _ segir Drottinn Guð _ og þú varðst mín.

Og ég laugaði þig í vatni, þvoði af þér blóðið og smurði þig með olífuolíu.

10 Og ég færði þig í glitklæði og fékk þér skó af höfrungaskinni, faldaði þér með hvítu líni og huldi þig silkiblæju.

11 Ég skreytti þig skarti, spennti armbaugum um handleggi þína og festi um háls þinn.

12 Ég lét á þig nefhring og eyrnagull og veglega kórónu á höfuð þér.

13 Þú varst prýdd gulli og silfri, og klæðnaður þinn var úr hvítu líni, silki og glitvefnaði. Þú neyttir hveitimjöls, hunangs og olífuolíu, og þú varðst frábærlega fríð og komst jafnvel í konunglega tign.

14 Og nú fór orð af þér til heiðinna þjóða sökum fegurðar þinnar, því að hún var fullkomin fyrir skart það, er ég hafði á þig látið _ segir Drottinn Guð.

15 En þú reiddir þig á fegurð þína og hóraðist upp á frægð þína, og þú jóst hórdómi þínum út yfir hvern, sem fram hjá gekk.

16 Og þú tókst nokkuð af fötum þínum og gjörðir þér mislitar fórnarhæðir, og þú drýgðir hórdóm á þeim.

17 Og þú tókst skartgripina af gulli því og silfri, er ég hafði gefið þér, og gjörðir þér karlmannslíkneski af og drýgðir hórdóm með þeim.

18 Og þú tókst glitklæði þín og lagðir yfir þau, og olíu mína og reykelsi settir þú fyrir þau.

19 Og brauð mitt, það er ég hafði gefið þér, hveitimjölið, olíuna og hunangið, er ég hafði gefið þér að eta, það settir þú fyrir þau til þægilegs fórnarilms _ segir Drottinn Guð.

20 Og þú tókst sonu þína og dætur, sem þú hafðir alið mér, og blótaðir þeim til fæðslu fyrir skurðgoðin. Var ekki hórdómur þinn nógur,

21 þó að þú slátraðir ekki börnum mínum og gæfir þau skurðgoðum, með því að brenna þau þeim til heiðurs.

22 Og í öllum svívirðingum þínum og hórdómi minntist þú ekki bernskudaga þinna, þá er þú varst ber og nakin og bröltir í blóði þínu.

23 Og ofan á alla illsku þína, _ vei, vei þér! segir Drottinn Guð _,

24 þá reistir þú þér hörga og hlóðst þér upp blótstalla á öllum torgum.

25 Á öllum gatnamótum reistir þú þér blótstalla og ósæmdir fríðleik þinn og glenntir sundur fætur þína framan í hvern, sem fram hjá gekk. Og þú drýgðir enn meiri hórdóm:

26 Þú drýgðir hórdóm með Egyptum, hinum hreðurmiklu nábúum þínum, og þú drýgðir enn meiri hórdóm, til þess að reita mig til reiði.

27 Þá rétti ég út hönd mína á móti þér og minnkaði skammt þinn og ofurseldi þig græðgi fjandkvenna þinna, dætra Filista, sem fyrirurðu sig fyrir saurlífisathæfi þitt.

28 Og þú drýgðir hórdóm með Assýríumönnum, án þess að fá nægju þína, þú hóraðist með þeim og fékkst þó ekki nægju þína.

29 Og þú útbreiddir hóranir þínar til Kaldealands, og enn nægði þér ekki.

30 Hversu brann hjarta þitt af girnd _ segir Drottinn Guð _ er þú framdir allt þetta, sem erkihóra mundi fremja,

31 þá er þú reistir þér hörga á öllum gatnamótum og gjörðir þér blótstalla á öllum torgum. Og þó varst þú ekki eins og skækja, að þú hrúgaðir saman hvílutollum.

32 Hórkona tekur aðra menn undir bónda sinn.

33 Öllum skækjum er vant að greiða gjald, en þú þar á móti galtst öllum ástmönnum þínum kaup og ginntir þá með gjöfum til að koma til þín úr öllum áttum og fremja hórdóm með þér.

34 Saurlifnaður þinn var með öðrum hætti en annarra kvenna. Menn hlupu ekki eftir þér til fylgilags, heldur greiddir þú friðilslaun, en þér voru engin laun goldin. Svo gagnstætt var þitt háttalag annarra kvenna.

35 Heyr því orð Drottins, skækja!

36 Svo segir Drottinn Guð: Af því að fúllífi þitt varð svo óstjórnlegt og blygðan þín var ber gjörð við saurlifnað þinn frammi fyrir friðlum þínum og frammi fyrir öllum hinum andstyggilegu skurðgoðum þínum og vegna blóðs barna þinna, er þú blótaðir þeim, _

37 fyrir því skal ég saman safna öllum friðlum þínum, þeim er þú varst geðþekk, og það öllum þeim, er þú elskaðir, ásamt öllum þeim, er þér geðjast ekki að. Þeim skal ég safna saman að þér úr öllum áttum og bera gjöra blygðan þína frammi fyrir þeim, svo að þeir sjái blygðan þína eins og hún er.

38 Og ég mun láta sama dóm yfir þig ganga sem yfir hórkonur og þær, sem úthella blóði, og ég mun sýna þér heift og afbrýði.

39 Og ég mun selja þig þeim í hendur og þeir munu rífa niður hörga þína og brjóta niður blótstalla þína og færa þig af klæðum þínum og taka af þér skartgripi þína og skilja þig eftir nakta og bera.

40 Og þeir munu gjöra að þér mannsöfnuð, lemja þig grjóti og höggva þig sundur með sverðum sínum.

41 Og þeir munu brenna hús þín í eldi og framkvæma refsingardóm á þér í augsýn margra kvenna, og þannig mun ég gjöra enda á hórdómi þínum, og þú munt eigi framar greiða nein friðilslaun.

42 En ég mun stilla heift mína, og afbrýði mín við þig skal hverfa, og ég mun halda kyrru fyrir og ekki framar gremja geð mitt.

43 Af því að þú minntist ekki bernskudaga þinna og reittir mig til reiði með öllu þessu, lét ég athæfi þitt þér í koll koma _ segir Drottinn Guð. Hefir þú ekki og framið þennan glæp ofan á allar svívirðingar þínar?

44 Sjá, hver sá, er málsháttu tíðkar, mun um þig hafa málsháttinn: ,Mær er jafnan móður lík!`

45 Þú ert dóttir móður þinnar, sem rak burt bónda sinn og börn sín, og þú ert systir systra þinna, sem ráku burt bændur sína og börn sín. Móðir yðar var Hetíti og faðir yðar Amoríti.

46 Og eldri systir þín er Samaría og dætur hennar, hún býr þér til vinstri handar, og yngri systir þín, sú er býr þér til hægri handar, er Sódóma og dætur hennar.

47 Að vísu gekkst þú ekki í fyrstu á þeirra vegum og framdir ekki aðrar eins svívirðingar og þær, en brátt gjörðist þú enn spilltari en þær í allri breytni þinni.

48 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Sódóma systir þín og dætur hennar hafa ekki aðhafst slíkt sem þú og dætur þínar hafa aðhafst.

49 Sjá, synd Sódómu systur þinnar var ofdramb. Hún og dætur hennar höfðu gnótt matar og lifðu góðu lífi í makindum, en réttu þó ekki hinum voluðu og fátæku hjálparhönd.

50 Þær urðu drambsfullar og frömdu svívirðingar fyrir augum mér. Þá svipti ég þeim í burt, er ég sá það.

51 Samaría hefir ekki drýgt helminginn af þínum syndum. Þú hefir framið miklu meiri svívirðingar en þær, og þann veg sýnt með öllum þeim svívirðingum, er þú hefir framið, að systur þínar eru betri en þú.

52 Ber þú nú og sjálf smán þína. Þú sem hefir flutt málsvörn fyrir systur þínar með syndum þínum, er voru andstyggilegri en þeirra, svo að þær eru hátíð hjá þér. Skammastu þín því og berðu smán þína fyrir það, að þú hefir sýnt að systur þínar eru betri en þú.

53 Ég mun snúa við högum þeirra, högum Sódómu og dætra hennar og högum Samaríu og dætra hennar, og ég mun og snúa við högum þínum meðal þeirra,

54 til þess að þú berir smán þína og skammist þín fyrir allt það, sem þú hefir gjört og með því orðið þeim til hugfróunar.

55 Og systur þínar, Sódóma og dætur hennar, skulu aftur komast í sitt fyrra gengi, og Samaría og dætur hennar skulu og aftur komast í sitt fyrra gengi, og þú og dætur þínar skuluð aftur komast í yðar fyrra gengi.

56 Og þó tókst þú ekki nafn Sódómu systur þinnar þér í munn á þínum ofdrambsdögum,

57 þá er vonska þín var enn ekki ber orðin, eins og í þann tíð, er dætur Edóms smánuðu þig og allar dætur Filista, sem óvirtu þig úr öllum áttum.

58 Fyrir saurlifnað þinn og svívirðingar, fyrir þær hefir þú gjöld tekið _ segir Drottinn.

59 Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri við þig, eins og þú hefir gjört, þar sem þú hafðir eiðinn að engu og raufst sáttmálann.

60 En þó vil ég minnast sáttmála míns, þess er ég við þig gjörði á dögum æsku þinnar, og binda við þig eilífan sáttmála.

61 Þá munt þú minnast breytni þinnar og blygðast þín, er ég tek eldri systur þínar og yngri og gef þér þær svo sem dætur, en ekki vegna sáttmála þíns.

62 Og ég vil binda við þig sáttmála, og þú skalt viðurkenna, að ég er Drottinn,

63 til þess að þú minnist þess og skammist þín og ljúkir eigi framar upp munni þínum sakir blygðunar, er ég fyrirgef þér allt það, sem þú hefir gjört _ segir Drottinn Guð."

Sálmarnir 58-59

58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.

Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?

Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.

Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.

Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum

til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.

Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!

Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,

eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.

10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.

11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.

12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.

59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.

Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,

því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.

Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!

En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]

Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.

Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"

En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.

10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.

11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.

12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,

13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.

14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]

15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.

16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.

17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.

18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society