M’Cheyne Bible Reading Plan
6 Davíð safnaði enn saman öllu einvalaliði í Ísrael, þrjátíu þúsund manns.
2 Síðan tók Davíð sig upp og lagði af stað með allt það lið, sem hjá honum var, til Baala í Júda til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum.
3 Og þeir óku örk Guðs á nýjum vagni og tóku hana úr húsi Abínadabs, því er stóð á hæðinni, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó, synir Abínadabs, vagninum.
4 Ússa gekk með örk Guðs, en Ahjó gekk fyrir örkinni.
5 Og Davíð og allt Ísraels hús dansaði fyrir Drottni af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, bjöllum og skálabumbum.
6 En er þeir komu að þreskivelli Nakóns, greip Ússa hendinni í örk Guðs og hélt fast í hana, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin.
7 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og Guð laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar hjá örk Guðs.
8 En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag.
9 Davíð varð hræddur við Drottin á þeim degi og sagði: "Hvernig má þá örk Drottins komast til mín?"
10 Og Davíð vildi ekki flytja örk Drottins til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat.
11 Og örk Drottins var síðan í húsi Óbeð Edóms í Gat þrjá mánuði, og Drottinn blessaði Óbeð Edóm og allt hans hús.
12 En er Davíð konungi komu þau tíðindi: "Drottinn hefir blessað hús Óbeð Edóms og allt, sem hann á, sakir Guðs arkar," þá lagði Davíð af stað og sótti örk Guðs í hús Óbeð Edóms og flutti hana til Davíðsborgar með fögnuði.
13 Og er þeir, sem báru örk Drottins, höfðu gengið sex skref, fórnaði hann nauti og alikálfi.
14 Og Davíð dansaði af öllum mætti fyrir Drottni, og var Davíð þá gyrtur línhökli.
15 Og Davíð og allt Ísraels hús flutti örk Drottins upp með fagnaðarópi og lúðurhljómi.
16 En er örk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann, og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa fyrir Drottni, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.
17 Þeir fluttu örk Drottins inn og settu hana á sinn stað í tjaldi því, sem Davíð hafði reisa látið yfir hana, og Davíð færði brennifórnir frammi fyrir Drottni og heillafórnir.
18 Og er Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnirnar, blessaði hann lýðinn í nafni Drottins allsherjar.
19 Hann úthlutaði og öllu fólkinu, öllum múg Ísraels, bæði körlum og konum, hverjum fyrir sig einni brauðköku, einu kjötstykki og einni rúsínuköku. Síðan fór allur lýðurinn burt, hver heim til sín.
20 En er Davíð kom heim til þess að heilsa fólki sínu, gekk Míkal, dóttir Sáls, á móti honum og mælti: "Tígulegur var Ísraelskonungurinn í dag, þar sem hann beraði sig í dag í augsýn ambátta þjóna sinna, eins og þegar einhver af argasta skrílnum berar sig!"
21 Þá sagði Davíð við Míkal: "Fyrir Drottni vil ég dansa. Hann hefir tekið mig fram yfir föður þinn og fram yfir allt hans hús og skipað mig höfðingja yfir lýð Drottins, yfir Ísrael, og fyrir Drottni vil ég leika
22 og lítillækka mig enn meir en þetta og líta smáum augum á sjálfan mig. En með ambáttunum, sem þú talaðir um, hjá þeim mun ég verða vegsamlegur."
23 Míkal, dóttir Sáls, var barnlaus til dauðadags.
16 En hvað snertir samskotin til hinna heilögu, þá skuluð einnig þér fara með þau eins og ég hef fyrirskipað söfnuðunum í Galatíu.
2 Hvern fyrsta dag vikunnar skal hver yðar leggja í sjóð heima hjá sér það, sem efni leyfa, til þess að ekki verði fyrst farið að efna til samskota, þegar ég kem.
3 En þegar ég svo kem, mun ég senda þá, sem þér teljið hæfa, með líknargjöf yðar til Jerúsalem, og skrifa með þeim.
4 En ef betra þykir að ég fari líka, þá geta þeir orðið mér samferða.
5 Ég mun koma til yðar, er ég hef farið um Makedóníu, því að um Makedóníu legg ég leið mína.
6 Ég mun ef til vill staldra við hjá yður, eða jafnvel dveljast vetrarlangt, til þess að þér getið búið ferð mína, hvert sem ég þá kann að fara.
7 Því að nú vil ég ekki sjá yður rétt í svip. Ég vona sem sé, ef Drottinn lofar, að standa við hjá yður nokkra stund.
8 Ég stend við í Efesus allt til hvítasunnu,
9 því að mér hafa opnast þar víðar dyr og verkmiklar og andstæðingarnir eru margir.
10 Ef Tímóteus kemur, þá sjáið til þess, að hann geti óttalaust hjá yður verið, því að hann starfar að verki Drottins eins og ég.
11 Þess vegna lítilsvirði enginn hann, greiðið heldur ferð hans í friði, til þess að hann geti komist til mín. Því að ég vænti hans með bræðrunum.
12 En hvað snertir bróður Apollós, þá hef ég mikillega hvatt hann til að verða bræðrunum samferða til yðar. En hann var alls ófáanlegur til að fara nú, en koma mun hann, er hentugleikar hans leyfa.
13 Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir.
14 Allt sé hjá yður í kærleika gjört.
15 Um eitt bið ég yður, bræður. Þér vitið að Stefanas og heimili hans er frumgróði Akkeu og að þeir hafa helgað sig þjónustu heilagra.
16 Sýnið slíkum mönnum undirgefni og hverjum þeim er starfar með og leggur á sig erfiði.
17 Ég gleðst yfir návist þeirra Stefanasar, Fortúnatusar og Akkaíkusar, af því að þeir hafa bætt mér upp fjarvist yðar.
18 Þeir hafa bæði glatt mig og yður. Hafið mætur á slíkum mönnum.
19 Söfnuðirnir í Asíu biðja að heilsa yður. Akvílas og Priska ásamt söfnuðinum í húsi þeirra biðja kærlega að heilsa yður í Drottins nafni.
20 Allir bræðurnir biðja að heilsa yður. Heilsið hver öðrum með heilögum kossi.
21 Kveðjan er með eigin hendi minni, Páls.
22 Ef einhver elskar ekki Drottin, hann sé bölvaður. Marana ta!
23 Náðin Drottins Jesú sé með yður.
14 En til mín komu nokkrir af öldungum Ísraels og settust niður frammi fyrir mér.
2 Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:
3 "Mannsson, þessir menn hafa skipað skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og sett ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig. Ætti ég þá að láta þá ganga til frétta við mig?
4 Fyrir því tala þú til þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Hver sá af Ísraelsmönnum, sem skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa, þrátt fyrir hans mörgu skurðgoð,
5 til þess að taka um hjartað í Ísraelsmönnum, er gjörst hafa mér ókunnugir fyrir öll skurðgoð sín.
6 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Snúið við og snúið yður frá skurðgoðum yðar og snúið augliti yðar burt frá öllum svívirðingum yðar.
7 Því að sérhver sá af Ísraelsmönnum og af útlendingum þeim, er dveljast meðal Ísraelsmanna, er gjörist mér fráhverfur og skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns til þess að láta hann spyrja mig fyrir sig, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa.
8 Ég vil snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gjöra hann að tákni og orðtaki og uppræta hann úr þjóð minni, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.
9 En láti spámaðurinn tæla sig og flytji hann spámæli, þá hefi ég, Drottinn, tælt þann spámann, og ég mun rétta út hönd mína móti honum og afmá hann úr þjóð minni Ísrael.
10 Og þeir skulu báðir bera sekt sína: Þeir skulu vera jafnsekir hvor um sig, sá er til frétta gengur og spámaðurinn,
11 til þess að Ísraelsmenn villist ekki framar frá mér og saurgi sig ekki framar á alls konar glæpum, heldur skulu þeir vera mín þjóð, og ég skal vera þeirra Guð _ segir Drottinn Guð."
12 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
13 "Mannsson, ef land syndgar móti mér, með því að bregða trúnaði, og ég rétti út hönd mína gegn því og brýt sundur staf brauðsins fyrir því og sendi hungur í það og eyði þar mönnum og fénaði,
14 og þótt í því væru þessir þrír menn: Nói, Daníel og Job, þá mundu þeir þó aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína _ segir Drottinn Guð.
15 Ef ég léti óargadýr fara yfir landið og þau eyddu það að mönnum, svo að það yrði auðn, sem enginn færi um vegna dýranna,
16 og þessir þrír menn væru í því, _ svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skyldu þeir hvorki fá bjargað sonum né dætrum. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér, en landið skyldi verða auðn.
17 Eða ef ég léti sverð geisa yfir þetta land og segði: Sverðið skal fara yfir landið! og eyddi í því mönnum og skepnum,
18 og þessir þrír menn væru í því, _ svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, hvorki mundu þeir fá bjargað sonum né dætrum, heldur mundu þeir aðeins fá bjargað sjálfum sér.
19 Eða ef ég sendi drepsótt inn í þetta land og jysi yfir það blóðugri heift minni, til þess að eyða í því mönnum og skepnum,
20 og Nói, Daníel og Job væru í því, _ svo sannarlega sem Drottinn Guð lifir, skyldu þeir hvorki fá bjargað syni né dóttur. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína.
21 Þó segir Drottinn Guð svo: Jafnvel þótt ég sendi fjóra mína vondu refsidóma, sverð, hungur, óargadýr og drepsótt, yfir Jerúsalem til þess að eyða í henni mönnum og skepnum,
22 þá skal þó hópur eftir verða, sem af kemst, þeir er fara út með sonu og dætur. Þeir munu koma út til yðar, og þér munuð sjá breytni þeirra og gjörðir þeirra og huggast yfir ógæfu þeirri, er ég hefi látið koma yfir Jerúsalem, yfir öllu því, er ég hefi látið koma yfir hana.
23 Og þeir munu hugga yður, er þér sjáið breytni þeirra og gjörðir þeirra, og þér munuð sjá, að ég hefi ekkert gjört án orsaka af öllu því, er ég hefi í henni gjört _ segir Drottinn Guð."
55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.
2 Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.
3 Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn
4 sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.
5 Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,
6 ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,
7 svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
8 já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]
9 Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."
10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.
13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,
14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,
15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.
16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.
17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.
18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.
19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.
20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.
21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.
22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.
23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.
24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.
by Icelandic Bible Society