Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 4-5

Er Ísbóset sonur Sáls frétti, að Abner væri dauður í Hebron, féllust honum hendur, og allur Ísrael varð óttasleginn.

Ísbóset sonur Sáls hafði tvo menn hjá sér, foringja fyrir ránsflokkum. Hét annar þeirra Baana, en hinn Rekab. Þeir voru synir Rimmóns frá Beerót, af kynþætti Benjamíns, því að Beerót telst með Benjamín.

En Beerótbúar voru flúnir til Gittaím, og hafa þeir verið þar sem hjábýlingar fram á þennan dag.

Jónatan, sonur Sáls, átti son lama á báðum fótum. Hann var fimm vetra gamall, þegar fregnin kom um Sál og Jónatan frá Jesreel. Þá tók fóstra hans hann og flýði, en í ofboðinu, er hún flýði, féll hann og varð lami. Hann hét Mefíbóset.

Synir Rimmóns frá Beerót, þeir Rekab og Baana, lögðu af stað og komu, þá er heitast var dags, í hús Ísbósets. Hafði hann þá lagt sig um miðdegið.

En stúlkan, sem dyranna gætti, hafði verið að hreinsa hveiti, og hafði hana syfjað og var hún sofandi. Þeir Rekab og Baana bróðir hans læddust því inn.

Og er þeir komu inn í húsið, þá lá Ísbóset í hvílu sinni í svefnhúsi sínu. En þeir báru vopn á hann og unnu á honum og hjuggu af honum höfuðið. Því næst tóku þeir höfuð hans og héldu áfram alla nóttina veginn yfir Jórdandalinn.

Og þeir færðu Davíð í Hebron höfuðið af Ísbóset og mæltu við konunginn: "Hér er höfuð Ísbósets, sonar Sáls, óvinar þíns, sem sat um líf þitt. Drottinn hefir nú látið herra mínum, konunginum, verða hefndar auðið á Sál og niðjum hans."

Davíð svaraði Rekab og Baana bróður hans, þeim sonum Rimmóns frá Beerót, og mælti til þeirra: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum:

10 Þann mann, sem færði mér tíðindin: ,Sjá, Sál er dauður!` og hugðist færa mér gleðitíðindi, hann lét ég handtaka og drepa í Siklag og galt honum þann veg sögulaunin.

11 Og þegar illir menn nú hafa myrt saklausan mann í hvílu sinni í hans eigin húsi, skyldi ég þá ekki miklu fremur krefjast blóðs hans af ykkar hendi og afmá ykkur af jörðinni?"

12 Síðan bauð Davíð sveinum sínum að drepa þá. Þeir gjörðu svo og hjuggu af þeim hendur og fætur og hengdu þá upp hjá tjörninni í Hebron. En höfuð Ísbósets tóku þeir og jörðuðu það í gröf Abners í Hebron.

Allar ættkvíslir Ísraels komu til Davíðs í Hebron og sögðu: "Sjá, vér erum hold þitt og bein!

Þegar um langa hríð, á meðan Sál var konungur yfir oss, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir Ísrael!"`

Allir öldungar Ísraels komu til konungsins í Hebron, og Davíð konungur gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael.

Þrjátíu ára gamall var Davíð, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann.

Í Hebron ríkti hann sjö ár og sex mánuði yfir Júda, og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár yfir öllum Ísrael og Júda.

Konungur og menn hans fóru til Jerúsalem í móti Jebúsítum, sem bjuggu í því héraði. Jebúsítar sögðu við Davíð: "Þú munt eigi komast hér inn, heldur munu blindir menn og haltir reka þig burt." Með því áttu þeir við: "Davíð mun ekki komast hér inn."

En Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg.

Davíð sagði á þeim degi: "Hver sem vill vinna sigur á Jebúsítum, skal fara um göngin til þess að komast að ,þeim höltu og blindu`, sem Davíð hatar í sálu sinni." Þaðan er komið máltækið: "Blindir og haltir komast ekki inn í musterið."

Því næst settist Davíð að í víginu, og nefndi hann það Davíðsborg. Hann reisti og víggirðingar umhverfis, frá Milló og þaðan inn á við.

10 Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn, Guð allsherjar, var með honum.

11 Híram, konungur í Týrus, gjörði menn á fund Davíðs og sendi honum sedrustré, trésmiði og steinhöggvara, og reistu þeir höll handa Davíð.

12 Og Davíð kannaðist við, að Drottinn hefði staðfest konungdóm hans yfir Ísrael og eflt konungsríki hans fyrir sakir þjóðar sinnar Ísraels.

13 Davíð tók sér enn hjákonur og konur í Jerúsalem, eftir að hann var farinn burt frá Hebron, og Davíð fæddust enn synir og dætur.

14 Þetta eru nöfn þeirra sona, sem honum fæddust í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan, Salómon,

15 Jíbhar, Elísúa, Nefeg, Jafía,

16 Elísama, Eljada og Elífelet.

17 Þegar Filistar heyrðu að Davíð væri smurður til konungs yfir Ísrael, lögðu þeir af stað að leita Davíðs. Og er Davíð frétti það, fór hann ofan í fjallvígið.

18 Og Filistar komu og dreifðu sér um Refaímdal.

19 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: "Á ég að fara móti Filistum? Munt þú gefa þá í hendur mér?" Drottinn svaraði Davíð: "Far þú, því að ég mun vissulega gefa Filista í hendur þér."

20 Þá fór Davíð til Baal Perasím. Og Davíð vann þar sigur á þeim og sagði: "Drottinn hefir skolað burt óvinum mínum fyrir mér, eins og þegar vatn ryður sér rás." Fyrir því var sá staður nefndur Baal Perasím.

21 En þeir létu þar eftir skurðgoð sín, og Davíð og menn hans tóku þau.

22 Filistar komu aftur og dreifðu sér um Refaímdal.

23 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin, og hann svaraði: "Far þú eigi í móti þeim. Far þú í bug og kom að baki þeim og ráð á þá fram undan bakatrjánum.

24 Og þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú hraða þér, því að þá fer Drottinn fyrir þér til þess að ljósta her Filista."

25 Og Davíð gjörði eins og Drottinn bauð honum og vann sigur á Filistum frá Geba alla leið til Geser.

Fyrra bréf Páls til Korin 15

15 Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.

Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.

Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,

að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum

og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.

Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.

Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.

En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.

Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli, með því að ég ofsótti söfnuð Guðs.

10 En af Guðs náð er ég það sem ég er, og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis, heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég, heldur náð Guðs, sem með mér er.

11 Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum vér þannig, og þannig hafið þér trúna tekið.

12 En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?

13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn.

14 En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.

15 Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp.

16 Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn.

17 En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar,

18 og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir.

19 Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.

20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.

21 Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.

22 Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.

23 En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.

24 Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft.

25 Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans.

26 Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.

27 "Allt hefur hann lagt undir fætur honum." Þegar stendur, að allt hafi verið lagt undir hann, er augljóst, að sá er undan skilinn, sem lagði allt undir hann.

28 En þegar allt hefur verið lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.

29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?

30 Hvers vegna erum vér líka að stofna oss í hættu hverja stund?

31 Svo sannarlega, bræður, sem ég get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, Drottni vorum: Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér.

32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!

33 Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.

34 Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.

35 En nú kynni einhver að segja: "Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?"

36 Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi.

37 Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ.

38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama.

39 Ekki eru allir líkamir eins, heldur hafa mennirnir einn, kvikféð annan, fuglarnir einn og fiskarnir annan.

40 Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.

41 Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.

42 Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt.

43 Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika.

44 Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.

45 Þannig er og ritað: "Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál," hinn síðari Adam að lífgandi anda.

46 En hið andlega kemur ekki fyrst, heldur hið jarðneska, því næst hið andlega.

47 Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni.

48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku.

49 Og eins og vér höfum borið mynd hins jarðneska, munum vér einnig bera mynd hins himneska.

50 En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann.

51 Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast

52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.

53 Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.

54 En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.

55 Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?

56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar.

57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!

58 Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.

Esekíel 13

13 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, spá þú gegn spámönnum Ísraels, þeim er spá, og seg við spámennina, sem spá frá eigin brjósti: Heyrið orð Drottins!

Svo segir Drottinn Guð: Vei hinum heimsku spámönnum, sem fara eftir hugarburði sjálfra sín og því, er þeir hafa ekki séð.

Spámenn þínir, Ísrael, eru sem refir í rústabrotum.

Þér hafið ekki gengið fram í vígskörðin og þér hafið engan virkisgarð hlaðið í kringum Ísraels hús, til þess að standast í stríðinu á degi Drottins.

Þeir sáu hégómasýnir og fóru með lygispádóma, þeir er sögðu: ,Drottinn segir,` þótt Drottinn hefði ekki sent þá, og væntu síðan að orðin mundu rætast.

Eru það ekki hégómasýnir, sem þér hafið séð, og lygispádómar, sem þér hafið farið með og segið þó: ,Drottinn segir,` þótt ég hafi eigi talað?

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Með því að þér talið hégóma og sjáið lygar, þá skal ég láta yður kenna á því _ segir Drottinn Guð.

Og hönd mín skal vera upp í móti þeim spámönnum, sem sjá hégómasýnir og fara með lygispádóma. Þeir skulu eigi vera í félagi þjóðar minnar og eigi vera ritaðir á skrá Ísraels húss, og inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, og þannig skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn.

10 Fyrir þá sök og vegna þess að þeir hafa leitt lýð minn í villu með því að segja: ,Heill!` þar sem engin heill var, og þegar þeir hlóðu vegg, riðu þeir kalki á hann,

11 þá seg þú kölkurunum, _ því hann skal hrynja: Sjá, ég mun láta koma steypiregn, sem skolar honum burt, haglsteinar skulu niður falla og stormbylur á skella.

12 Þá hrynur veggurinn. Mun þá ekki verða við yður sagt: ,Hvar er nú kalkið, er þér riðuð á vegginn?`

13 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Í heift minni skal ég láta stormbyl á skella, og dynjandi steypiregn skal á koma vegna reiði minnar, og haglsteinar vegna heiftar minnar til algjörðrar tortímingar.

14 Ég skal brjóta niður vegginn, sem þér hafið kalkað, og bylta honum til jarðar, svo að undirstaða hans komi í ljós. Og hann mun hrynja, og þér munuð verða á milli og viðurkenna, að ég er Drottinn.

15 Og ég vil úthella allri reiði minni yfir vegginn og yfir þá, sem riðu kalki á hann, og ég mun segja við yður: Horfinn er veggurinn og horfnir eru þeir, sem riðu hann kalki,

16 spámenn Ísraels, sem spá fyrir Jerúsalem og þykjast sjá heillasýnir henni til handa, þar sem þó engin heill er _ segir Drottinn Guð.

17 En þú, mannsson, snú nú augliti þínu gegn dætrum þjóðar þinnar, þeim er spá eftir eigin hugboði, og spá þú móti þeim

18 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Vei þeim, sem sauma bindi fyrir alla úlnliði og búa til skýlur fyrir höfuð manna, hvers vaxtar sem er, til þess að veiða sálir. Hvort ætlið þér að veiða sálir hjá þjóð minni og halda lífinu í sálum yður til handa?

19 Þér vanhelgið mig hjá þjóð minni fyrir nokkra hnefa af byggi og nokkra brauðbita til þess að deyða sálir, sem ekki eiga að deyja, og halda lífinu í sálum, sem ekki eiga að lifa, með því að ljúga að þjóð minni, sem hlustar á lygar.

20 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal hafa hendur á bindum yðar, þeim er þér veiðið með sálir, og ég skal slíta þau af armleggjum yðar og láta lausar sálir þær, er þér veiðið, sem væru þær fuglar.

21 Og ég skal slíta sundur skýlur yðar og frelsa lýð minn úr yðar höndum, svo að þeir séu ekki lengur veiðifang í yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn.

22 Vegna þess að þér hrellið hjarta hins ráðvanda með lygum, þar sem ég vildi þó eigi hafa hrellt hann, og af því að þér styrkið hendur hins óguðlega, til þess að hann snúi sér ekki frá sinni vondu breytni og forði lífi sínu,

23 þess vegna skuluð þér ekki framar sjá hégómasýnir og ekki framar fara með lygispádóma. Ég vil frelsa lýð minn af yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn."

Sálmarnir 52-54

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,

þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?

Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.

Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.

Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]

Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.

Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.

Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,

því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society