M’Cheyne Bible Reading Plan
2 Eftir þetta spurði Davíð Drottin á þessa leið: "Á ég að fara til einhverrar af borgunum í Júda?" Drottinn svaraði honum: "Já." Þá sagði Davíð: "Hvert á ég að fara?" Hann svaraði: "Til Hebron."
2 Þá fór Davíð þangað, og með honum báðar konur hans, þær Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel.
3 Davíð lét og mennina, sem hjá honum voru, fara, hvern með sína fjölskyldu, og þeir settust að í borgunum kringum Hebron.
4 Þá komu Júdamenn til Hebron og smurðu Davíð til konungs yfir Júda hús. Nú var Davíð sagt svo frá: "Íbúarnir í Jabes Gíleað hafa jarðað Sál."
5 Þá gjörði Davíð menn á fund íbúanna í Jabes í Gíleað og lét segja við þá: "Verið blessaðir af Drottni fyrir það, að þér hafið sýnt þetta kærleiksverk á herra yðar Sál, að jarða hann.
6 Drottinn sýni yður nú kærleika og trúfesti. En ég vil og yður góðu launa, sakir þess að þér gjörðuð þetta.
7 Og verið nú hughraustir og látið á sjá, að þér séuð vaskir menn. Því að Sál, herra yðar, er dauður, enda hefir Júda hús smurt mig til konungs yfir sig."
8 Abner Nersson, hershöfðingi Sáls, tók Ísbóset, son Sáls, og fór með hann yfir til Mahanaím
9 og gjörði hann að konungi yfir Gíleað, Asserítum, Jesreel, Efraím, Benjamín og yfir öllum Ísrael.
10 Ísbóset, sonur Sáls, var fertugur, þá er hann varð konungur yfir Ísrael, og hann ríkti í tvö ár. Júda hús eitt fylgdi Davíð.
11 Og tíminn, sem Davíð var konungur í Hebron, yfir Júda húsi, var sjö ár og sex mánuðir.
12 Abner Nersson fór með þjóna Ísbósets, sonar Sáls, frá Mahanaím til Gíbeon.
13 Jóab Serújuson fór og með þjóna Davíðs frá Hebron, og varð fundur þeirra við Gíbeontjörn, og settust þeir sínum megin hvorir við tjörnina.
14 Þá sagði Abner við Jóab: "Standi upp sveinar hvorra tveggja og leiki nokkuð til skemmtunar oss." Jóab kvað að svo skyldi vera.
15 Þá stóðu þeir upp og gengu fram eftir tölu: tólf fyrir Benjamíns ættkvísl, fyrir Ísbóset, son Sáls, og tólf af þjónum Davíðs.
16 Þeir þrifu hver í annars koll og lögðu sverði hver í annars síðu, svo að þeir féllu hver með öðrum. Var sá staður kallaður Branda-akur, og er hann hjá Gíbeon.
17 Tókst þá mjög hörð orusta á þeim degi, og fór Abner og Ísraelsmenn halloka fyrir mönnum Davíðs.
18 Þar voru þrír synir Serúju, þeir Jóab, Abísaí og Asahel, en Asahel var frár á fæti sem skógargeitin í haganum.
19 Og Asahel rann eftir Abner og veik hvorki til hægri né vinstri, heldur elti hann einan.
20 Þá sneri Abner sér við og mælti: "Ert það þú, Asahel?" Hann kvað svo vera.
21 Þá sagði Abner við hann: "Vík þú annaðhvort til hægri eða vinstri, og ráðst þú á einhvern af sveinunum og tak hertygi hans." En Asahel vildi ekki láta af að elta hann.
22 Þá mælti Abner aftur við Asahel: "Lát af að elta mig! Hví skyldi ég leggja þig að velli? Hvernig gæti ég þá litið upp á Jóab bróður þinn?"
23 En hann vildi ekki af láta. Þá lagði Abner spjótinu aftur fyrir sig í kvið honum, svo að út gekk um bakið, og féll hann dauður niður þar sem hann stóð. En allir þeir, er komu þangað sem Asahel hafði fallið niður dauður, námu staðar.
24 Jóab og Abísaí eltu Abner, og er sól gekk undir, voru þeir komnir til Gíbeat Amma, sem liggur fyrir austan Gía, á leiðinni til Gíbeonóbyggða.
25 Þá söfnuðust Benjamínítar saman til liðs við Abner og urðu einn flokkur, og námu þeir staðar efst uppi á hæð einni.
26 Þá kallaði Abner til Jóabs og mælti: "Á þá sverðið sífellt að eyða? Veistu eigi, að beisk munu verða endalokin? Hversu lengi ætlar þú að draga að segja liðinu að láta af að elta bræður sína?"
27 Jóab svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, hefðir þú ekki talað, þá hefði liðið ekki látið af að elta bræður sína fyrr en á morgun."
28 Síðan þeytti Jóab lúðurinn, og nam þá allt liðið staðar og lét af að elta Ísrael og hætti að berjast.
29 En Abner og menn hans fóru yfir Jórdandalinn alla þá nótt, fóru því næst yfir Jórdan og gengu öll þrengslin og komust til Mahanaím.
30 Er Jóab hafði látið af að elta Abner, þá safnaði hann saman öllu liðinu, og vantaði þá aðeins nítján manns af mönnum Davíðs og Asahel,
31 en menn Davíðs höfðu lagt að velli þrjú hundruð og sextíu manns af Benjamínítum, af mönnum Abners.
32 En Asahel tóku þeir og jörðuðu hann hjá föður hans í Betlehem. Því næst hélt Jóab og menn hans áfram ferðinni alla nóttina og komu til Hebron í dögun.
13 Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2 Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.
3 Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.
4 Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
5 Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
6 Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.
7 Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
8 Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
9 Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
10 En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum.
11 Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.
12 Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
13 En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.
11 Og andinn hóf mig upp og flutti mig að austurhliði musteris Drottins, sem horfir mót austri. Þar stóðu fyrir dyrum hliðsins tuttugu og fimm menn, og á meðal þeirra sá ég Jaasanja Assúrsson og Pelatja Benajason, foringja lýðsins.
2 Þá sagði hann við mig: "Mannsson, það eru þessir menn, sem hafa illt í huga og ráða mönnum óheilt í þessari borg.
3 Þeir segja: ,Hafa ekki húsin nýlega verið endurreist? Borgin er potturinn, en vér erum kjötið.`
4 Spá þú þess vegna móti þeim, spá þú, mannsson!"
5 Þá kom andi Drottins yfir mig og sagði við mig: "Seg þú: Svo segir Drottinn: Svo segið þér, Ísraelsmenn, og ég þekki hugrenningar yðar.
6 Marga menn yðar hafið þér drepið í þessari borg og þér hafið fyllt stræti hennar vegnum mönnum.
7 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Þeir menn, sem þér hafið lagt að velli í borginni, þeir eru kjötið og borgin er potturinn. En þér munuð fluttir verða burt úr henni.
8 Við sverðið eruð þér hræddir, og sverðið skal ég láta yfir yður koma, segir Drottinn Guð.
9 Og ég skal færa yður burt úr borginni og selja yður útlendum mönnum í hendur og framkvæma dóma meðal yðar.
10 Fyrir sverði skuluð þér falla, í Ísraelslandi skal ég dæma yður, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn.
11 Borgin skal ekki verða yður að potti og þér skuluð ekki verða kjöt í henni, í Ísraelslandi skal ég dæma yður.
12 Þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn. En mínum boðorðum hafið þér ekki hlýtt og mína setninga hafið þér ekki haldið, heldur hafið þér breytt eftir setningum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru."
13 Meðan ég spáði þannig, féll Pelatja Benajason dauður niður. Þá féll ég fram á ásjónu mína, kallaði upp hárri röddu og sagði: "Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels?"
14 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
15 "Mannsson, um bræður þína, bræður þína, þá menn, er með þér voru herleiddir, og gjörvallan Ísraels lýð, segja Jerúsalembúar: ,Þeir eru langt í burtu frá Drottni, oss er landið gefið til eignar!`
16 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Já, ég hefi rekið þá langt burt til heiðinna þjóða og dreift þeim út um löndin, og ég varð þeim skamma hríð að helgidómi í löndum þeim, sem þeir eru komnir til.
17 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Ég vil safna yður saman frá þjóðunum og stefna yður saman frá löndunum, þangað sem yður var dreift, og gefa yður Ísraelsland.
18 Þangað munu þeir komast og útrýma þaðan öllum viðurstyggðum þess og öllum svívirðingum þess.
19 Og ég mun gefa þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta af holdi,
20 til þess að þeir hlýði boðorðum mínum og varðveiti setninga mína og breyti eftir þeim. Og þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.
21 En þessir _ hjarta þeirra eltir viðurstyggðir þeirra og andstyggðir. Ég skal láta athæfi þeirra koma þeim í koll, segir Drottinn Guð."
22 Nú hófu kerúbarnir vængi sína og hjólin færðust til samtímis þeim, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim.
23 Og dýrð Drottins hóf sig upp frá borginni og staðnæmdist á fjallinu, sem er fyrir austan borgina.
24 Og andinn hóf mig upp og flutti mig í sýninni, fyrir Guðs anda, til hinna herleiddu í Kaldealandi. Og sýnin, sem ég hafði séð, leið upp frá mér.
25 Því næst flutti ég hinum herleiddu öll orð Drottins, þau er hann hafði birt mér.
50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.
2 Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.
3 Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.
4 Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:
5 "Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."
6 Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]
7 "Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!
8 Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.
9 Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,
10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.
11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.
12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.
13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?
14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.
15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."
16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,
17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?
18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.
19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.
20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.
21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.
22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.
23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."
by Icelandic Bible Society