Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 1

Eftir dauða Sáls, þá er Davíð var heim kominn og hafði unnið sigur á Amalekítum og hann hafði verið tvo daga um kyrrt í Siklag,

þá kom skyndilega þriðja daginn maður úr herbúðum Sáls. Var hann í rifnum klæðum og hafði ausið mold yfir höfuð sér. Og er hann kom til Davíðs, féll hann til jarðar og laut honum.

Og Davíð sagði við hann: "Hvaðan kemur þú?" Hann svaraði honum: "Ég komst undan úr herbúðum Ísraels."

Davíð sagði við hann: "Hvernig hefir gengið? Seg mér það." Hann svaraði: "Liðið er flúið úr orustunni, og margir úr liðinu eru líka fallnir og dauðir. Líka eru þeir Sál og Jónatan sonur hans dauðir."

Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: "Hvernig veistu það, að þeir Sál og Jónatan sonur hans eru dauðir?"

Þá svaraði maðurinn, sem flutti honum tíðindin: "Alveg af tilviljun kom ég upp á Gilbóafjall. Þar hitti ég Sál. Studdist hann við spjót sitt, en vagnar og riddarar voru á hælum honum.

Hann sneri sér þá við, og er hann sá mig, kallaði hann á mig, og ég svaraði: ,Hér er ég.`

Og hann sagði við mig: ,Hver ert þú?` Ég svaraði: ,Ég er Amalekíti.`

Þá sagði hann við mig: ,Kom þú hingað til mín og deyð þú mig, því að mig sundlar, og þó er ég enn með fullu fjöri.`

10 Þá gekk ég til hans og vann á honum, því að ég vissi að hann gat ekki lifað eftir ófarir sínar. Tók ég kórónuna af höfði honum og hringinn af armlegg hans og færi ég þér nú, herra minn!"

11 Þá þreif Davíð í klæði sín og reif þau sundur. Svo gjörðu og allir menn, þeir er með honum voru.

12 Og þeir syrgðu og grétu og föstuðu til kvelds sakir Sáls og Jónatans sonar hans og sakir lýðs Drottins og húss Ísraels, af því að þeir voru fallnir fyrir sverði.

13 Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: "Hvaðan ert þú?" Hann svaraði: "Ég er sonur hjábýlings nokkurs, sem er Amalekíti."

14 Þá sagði Davíð við hann: "Hvernig dirfðist þú að hefja hönd til þess að drepa Drottins smurða?"

15 Og Davíð kallaði á einn af sveinunum og mælti: "Kom þú hingað og drep hann." Og hann hjó hann banahögg.

16 En Davíð mælti til hans: "Blóð þitt komi yfir höfuð þér! því að þú hefir sjálfur kveðið upp dóm yfir þér, er þú sagðir: ,Ég hefi deytt Drottins smurða."`

17 Davíð orti þetta sorgarkvæði eftir þá Sál og Jónatan son hans,

18 og hann bauð að kenna Júda sonum Kvæðið um bogann. Sjá, það er ritað í Bók hinna réttlátu:

19 Prýðin þín, Ísrael, liggur vegin á fjöllum þínum. En að hetjurnar skuli vera fallnar!

20 Segið ekki frá því í Gat, kunngjörið það eigi á Askalon-strætum, svo að dætur Filista fagni eigi og dætur óumskorinna hlakki eigi.

21 Þér Gilbóafjöll, eigi drjúpi dögg né regn á yður, þér svikalönd, því að þar var snarað burt skildi kappanna, skildi Sáls, sem eigi verður framar olíu smurður.

22 Frá blóði hinna vegnu, frá feiti kappanna hörfaði bogi Jónatans ekki aftur, og eigi hvarf sverð Sáls heim við svo búið.

23 Sál og Jónatan, ástúðugir og ljúfir í lífinu, skildu eigi heldur í dauðanum. Þeir voru örnum léttfærari, ljónum sterkari.

24 Ísraels dætur, grátið Sál! Hann skrýddi yður skarlati yndislega, hann festi gullskart á klæðnað yðar.

25 En að hetjurnar skyldu falla í bardaganum og Jónatan liggja veginn á hæðum þínum!

26 Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.

27 En að hetjurnar skuli vera fallnar og hervopnin glötuð!

Fyrra bréf Páls til Korin 12

12 En svo ég minnist á gáfur andans, bræður, þá vil ég ekki að þér séuð fáfróðir um þær.

Þér vitið, að þegar þér voruð heiðingjar, þá létuð þér leiða yður til mállausra skurðgoðanna, rétt eins og verkast vildi.

Fyrir því læt ég yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: "Bölvaður sé Jesús!" og enginn getur sagt: "Jesús er Drottinn!" nema af heilögum anda.

Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami,

og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami,

og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum.

Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er.

Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda.

Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu

10 og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.

11 En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.

12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.

13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.

14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir.

15 Ef fóturinn segði: "Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til," þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður.

16 Og ef eyrað segði: "Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til," þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð.

17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin?

18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.

19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?

20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn.

21 Augað getur ekki sagt við höndina: "Ég þarfnast þín ekki!" né heldur höfuðið við fæturna: "Ég þarfnast ykkar ekki!"

22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi.

23 Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi.

24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd,

25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.

26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.

27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.

28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum.

29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn?

30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?

31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.

Esekíel 10

10 Ég sá, og sjá: Á festingunni, er var yfir höfði kerúbanna, var því líkast sem safírsteinn væri. Eitthvað, sem tilsýndar var sem hásæti í laginu, sást uppi yfir þeim.

Þá sagði hann við línklædda manninn: "Gakk inn á millum hjólanna undir kerúbunum, tak handfylli þína af glóðum milli kerúbanna og dreif þeim út yfir borgina." Og hann gekk þar inn að mér ásjáandi.

En kerúbarnir stóðu hægra megin við musterið, þegar maðurinn gekk inn, og fyllti skýið innra forgarðinn.

En dýrð Drottins hóf sig frá kerúbunum yfir á þröskuld musterisins. Varð musterið þá fullt af skýmekki, en forgarðurinn fylltist ljóma af dýrð Drottins.

Og vængjaþytur kerúbanna heyrðist allt til hins ytra forgarðs, eins og rödd Guðs almáttugs, þá er hann talar.

Nú er hann hafði boðið línklædda manninum og sagt: "Tak eld á millum hjólanna, á millum kerúbanna!" _ þá gekk hann til og staðnæmdist hjá einu hjólinu.

Þá rétti einn kerúbinn hönd sína út milli kerúbanna að eldinum, sem var á milli kerúbanna, tók þar af og fékk í hendur línklædda manninum. Hann tók við og gekk burt.

En á kerúbunum sást eitthvað, sem líktist mannshendi, undir vængjum þeirra.

Ég leit til, og voru þá fjögur hjól hjá kerúbunum, sitt hjól hjá hverjum kerúb, og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolítstein.

10 Og að því er gerð þeirra snertir, þá voru þau öll fjögur samlík, eins og eitt hjólið væri innan í öðru hjóli.

11 Þegar þau gengu, gengu þau til allra fjögurra hliða. Þau snerust eigi við í göngunni, heldur gengu þau í þá átt, sem höfuðið sneri, þau snerust eigi við í göngunni.

12 Og allur líkami þeirra og bak þeirra, hendur og vængir voru alsett augum allt umhverfis á þeim fjórum.

13 En hjólin voru í mín eyru nefnd "hvirfilbylur".

14 Og hver hafði fjögur andlit. Andlit eins var nautsandlit, andlit hins annars mannsandlit, hinn þriðji hafði ljónsandlit og hinn fjórði arnarandlit.

15 Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð við Kebarfljótið.

16 Og þegar kerúbarnir gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar kerúbarnir hófu upp vængi sína til þess að lyfta sér frá jörðinni, þá snerust hjólin ekki burt frá þeim.

17 Þegar þeir stóðu kyrrir, stóðu þau og kyrr, og þegar þeir hófust upp, hófust þau og upp með þeim, því að andi verunnar var í þeim.

18 Dýrð Drottins fór nú burt af þröskuldi musterisins og nam staðar uppi á kerúbunum.

19 Þá hófu kerúbarnir upp vængi sína og lyftu sér frá jörðinni að mér ásjáandi, er þeir fóru burt, og hjólin samtímis þeim. Og þeir námu staðar úti fyrir austurhliði musteris Drottins, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim.

20 Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð undir Ísraels Guði við Kebarfljótið, og ég þekkti, að það voru kerúbar.

21 Þeir höfðu fjögur andlit og fjóra vængi hver, og undir vængjum sér eitthvað, sem líktist mannshöndum.

22 Og hvað andlitsskapnaðinn snerti, þá voru það sömu andlitin, sem ég hafði séð við Kebarfljótið; þeir gengu hver fyrir sig beint af augum fram.

Sálmarnir 49

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society